Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1918  —  647. mál.
3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið á ný að lokinni 2. umræðu. Meiri hlutinn er sammála um flest atriði og gerir grein fyrir þeim í áliti þessu. Þó standa eftir álitamál sem ekki er einhugur um og er gerð grein fyrir afstöðu nefndarmanna úr ríkisstjórnarflokkunum þar um í sérkafla í áliti þessu. Nefndin taldi nauðsynlegt að fjalla nánar um b-lið 24. gr. frumvarpsins þar sem draga þyrfti skýrari línu varðandi hvaða umsóknir féllu undir gildandi lög og um hvaða umsóknir færi samkvæmt b-lið 24. gr. Var því breytingartillaga meiri hlutans við greinina kölluð aftur við 2. umræðu.
    Sú staða kom upp haustið 2018 að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi vegna annmarka á leyfisveitingu. Meiri hlutinn telur rétt, komi slík staða upp á ný, að um nýja umsókn fari samkvæmt lögunum eins og þau voru fyrir breytingu, enda hafi þau gilt um viðkomandi rekstrarleyfi. Leggur meiri hlutinn því til að við lögin verði bætt bráðabirgðaákvæði þess efnis.
    Ísland er aðili að Árósasamningnum en þar er m.a. kveðið á um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sbr. 7. gr. samningsins um þátttöku almennings í skipulagi, áætlunum og stefnumiðum er varða umhverfi. Meiri hlutinn bendir á að í skipulagslögum eru ströng skilyrði sett um samráð við hagsmunaaðila og íbúa við gerð aðal- og deiliskipulags sem miða að því að uppfylla skilyrði samkvæmt Árósasamningi. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að áður en Hafrannsóknastofnun ákveður skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði skuli hún leita umsagnar Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar, auk umsagnar svæðisráðs viðkomandi svæðis þar sem það á við. Þar sem strandsvæðisskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, liggur fyrir skal Hafrannsóknastofnun taka tillit til þess við ákvörðun um skiptingu í eldissvæði. Þar sem strandsvæðisskipulag liggur ekki fyrir skal Skipulagsstofnun birta tillögu Hafrannsóknastofnunar opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar og veita þriggja vikna frest til að skila inn athugasemdum áður en stofnunin veitir umsögn til Hafrannsóknastofnunar.
    Meiri hlutinn leggur til að á eftir e-lið 24. gr., bætist við nýr stafliður um að ráðherra skuli skipa nefnd til að rýna aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar við mat á burðarþoli og gerð áhættumats sem skuli vera skipuð óvilhöllum vísindamönnum. Með því sé betur tryggð fagleg rýni og trúverðugleiki á aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar aukinn enn frekar.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að til staðar sé skýr framtíðarsýn í fiskeldi. Leggur meiri hlutinn því til að mótuð verði framtíðarstefna í fiskeldi sem miði að því að tryggja að fiskeldi á Íslandi verði í fremstu röð hvað varðar gæði framleiðslu, umhverfisþætti og sjálfbærni. Fiskeldi á Íslandi á að vera laust við sníkjudýr eins og auðið er og þar af leiðandi án þeirra
eiturefna sem fylgir baráttu gegn þeim. Stefnan liggi fyrir í síðasta lagi við endurskoðun laganna 1. janúar 2024.

Afstaða nefndarmanna úr ríkisstjórnarflokkunum varðandi b-lið 24. gr.
    Nefndarmenn úr ríkisstjórnarflokkunum telja að auk þeirra breytinga sem lagðar eru til af nefndinni sé rétt að gera þá kröfu að umsækjendur hafi lokið málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins eða lagt fram fullnægjandi frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar fyrir sama tíma. Skipulagsstofnun leggur mat á það hvort framlögð frummatsskýrsla uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 9. og 10. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum þegar frummatsskýrsla hefur borist stofnuninni. Telja nefndarmenn úr ríkisstjórnarflokkunum að með þessu sé gætt jafnræðis þeirra aðila sem sannanlega hafa lagt út í kostnað og vinnu vegna fyrirhugaðs fiskeldis. Með gagnályktun frá ákvæðinu er ljóst að um umsóknir sem berast eftir gildistöku laganna um rekstrarleyfi á hafsvæðum sem metin hafa verið til burðarþols, og framangreind skilyrði varðandi málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum eru ekki uppfyllt, fer samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og því á úthlutunarregla 4. gr. a frumvarpsins við um þau svæði og svæði sem ekki hafa verið metin til burðarþols. Leggja nefndarmenn úr ríkisstjórnarflokkunum þessu til samræmis til viðbótar breytingar á sérstöku þingskjali.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1.     efnismgr. 3. gr. orðist svo:
                 Hafrannsóknastofnun ákveður skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða. Áður skal stofnunin leita umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og, þar sem við á, svæðisráðs viðkomandi svæðis um tillögu sína, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018. Þar sem strandsvæðisskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða liggur fyrir skal Hafrannsóknastofnun taka tillit til þess við ákvörðun um skiptingu í eldissvæði. Þar sem strandsvæðisskipulag liggur ekki fyrir skal Skipulagsstofnun birta tillögu Hafrannsóknastofnunar opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar og veita þriggja vikna frest til að skila inn athugasemdum áður en stofnunin veitir umsögn til Hafrannsóknastofnunar.
     2.      Við 1. efnismgr. a-liðar 11. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um endurskoðunina, m.a. um skilyrði hennar og tíðni.
     3.      Við 24. gr.
                  a.      Á eftir b-lið komi nýr stafliður (III.), svohljóðandi:
                      Sé rekstrarleyfi sem veitt var samkvæmt eldri löggjöf fellt úr gildi vegna annmarka á leyfisveitingu, skulu ákvæði eldri laga gilda um afgreiðslu nýrra umsókna vegna áðurnefndra leyfa. Það sama á við um þau rekstrarleyfi sem gefin verða út samkvæmt eldri lögum eftir gildistöku laga þessara.
                  b.      Á eftir e-lið komi nýr stafliður (VII.), svohljóðandi:
                      Ráðherra skal skipa nefnd þriggja óvilhallra vísindamanna á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats. Skal nefndin skila áliti sínu og tillögum fyrir 1. maí 2020 til ráðherra. Ráðherra skal í kjölfarið skila Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar og viðbrögð við þeim.

    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 19. júní 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm., með fyrirvara.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Líneik Anna Sævarsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson.