Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 314  —  280. mál.




Beiðni um skýrslu


frá mennta- og menningarmálaráðherra um árangur og áhrif styttingar námstíma til stúdentsprófs.

Frá Helgu Völu Helgadóttur, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Örnu Láru Jónsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um árangur og áhrif þess að námstími til stúdentsprófs var styttur úr fjórum árum í þrjú ár.
    Í skýrslunni verði þessum spurningum svarað um styttingu námstíma til stúdentsprófs:
     1.      Hvaða áhrif hefur styttingin haft á nám nemenda og undirbúning fyrir háskólanám?
     2.      Hefur brottfall nemenda úr framhaldsskólum aukist vegna styttingarinnar? Sérstaklega er óskað eftir því að fram komi upplýsingar frá framhaldsskólum sem starfrækja bekkjardeildir.
     3.      Hvaða áhrif hefur styttingin haft á þátttöku framhaldsskólanema í tómstundastarfi?
     4.      Hvaða áhrif hefur styttingin haft á atvinnuþátttöku framhaldsskólanema samhliða námi?
     5.      Hvaða áhrif hefur styttingin haft á almenna líðan framhaldsskólanema?
     6.      Hvaða áhrif hefur styttingin haft á almenna líðan starfsfólks framhaldsskóla?
     7.      Hver hafa áhrif styttingarinnar verið á rekstur framhaldsskóla landsins? Óskað er eftir því að fjallað verði um breytingar á rekstrargrundvelli framhaldsskólanna og fjárframlögum til þeirra.

Greinargerð.

    Beiðni þessi um skýrslu var áður flutt á 149. löggjafarþingi (895. mál).
    Í vor útskrifaðist fyrsti árgangur nemenda úr Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum á Akureyri sem lokið hefur þriggja ára námi til stúdentsprófs. Þessir skólar voru síðustu framhaldsskólar landsins sem innleiddu nýja námskrá er kveður á um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Af því tilefni er óskað eftir því að mennta- og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um hvernig til hefur tekist við framkvæmd styttingar náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú ár. Þar sem hlotist hefur reynsla af styttingunni er ástæða til að taka saman upplýsingar um hvaða árangur hefur náðst með breytingunni og hvaða samfélagslegu og efnahagslegu áhrif hún hefur haft.
    Í fyrsta lagi er óskað upplýsinga um hvernig nám nemenda í framhaldsskólum hafi breyst eða verið skert við styttingu námstíma til stúdentsprófs og hvort nemendur komi á einhvern hátt verr eða betur undirbúnir til náms í háskólum hérlendis og erlendis. Er óskað upplýsinga um hvernig styttingin hefur haft áhrif á námsframboð, hvaða fög hafi tekið mestum breytingum og hvernig námsefni hafi breyst. Einnig verði því svarað hvort kennsluaðferðir í framhaldsskólum hafi tekið breytingum eftir styttinguna.
    Í öðru lagi er óskað eftir tölulegum upplýsingum um fjölda þeirra sem hætta námi í framhaldsskóla og hvort styttingin hafi haft áhrif á brottfall. Óskað er eftir því að sérstaklega verði fjallað um brottfall nemenda úr námi til stúdentsprófs í framhaldsskólum með bekkjardeildum, enda sveigjanleiki í námi misjafn milli framhaldsskóla.
    Í þriðja lagi er óskað upplýsinga um þátttöku framhaldsskólanema í hvers kyns íþrótta- og tómstundastarfi í kjölfar styttingarinnar. Viðbúið er að álag í námi aukist þegar námsárum hefur verið fækkað úr fjórum í þrjú og því kjósi færri að reyna á sig við annað þegar skóladegi lýkur. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um þátttöku nemenda í starfi unglingalandsliða og hvort stytting námstíma til stúdentsprófs hafi dregið úr henni. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvort styttingin hafi haft áhrif á fjölda nemenda í listnámi á framhaldsskólastigi. Jafnframt er eðlilegt að fá upplýsingar um hvort styttingin hafi haft áhrif á skipulagt félagslíf nemenda í framhaldsskólum.
    Í fjórða lagi er óskað eftir upplýsingum um hvort stytting námstíma til stúdentsprófs hafi haft áhrif á atvinnuþátttöku framhaldsskólanema samhliða námi. Óskað er eftir því að m.a. verði fjallað um hvort nemendur hafi þurft að falla frá námi vegna fjárhagsstöðu sinnar eða fjölskyldu þeirra vegna minni atvinnuþátttöku eftir styttingu námstímans.
    Í fimmta og sjötta lagi er óskað eftir því að fjallað verði um almenna líðan nemenda og starfsfólks framhaldsskóla, og er þá átt við bæði skólastjórnendur og annað starfsfólk. Eðlilegt er að leita upplýsinga bæði hjá nemendum og starfsfólki en einnig hjá fagaðilum sem rannsakað hafa líðan nemenda á framhaldsskólastigi undanfarin ár.
    Loks er í sjöunda lagi óskað upplýsinga um fjármál framhaldsskóla og hvort breyting hafi orðið á rekstri þeirra og fjárframlögum ríkisins við styttingu námstíma til stúdentsprófs.