Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 498  —  183. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn telur að efni frumvarpsins gangi gegn stjórnarskrárbundinni þrískiptingu ríkisvaldsins þar sem löggjafarvaldið gengur með því inn á verksvið dómsvaldsins. Minni hlutinn getur ekki tekið undir að hér sé um nauðsynlega lagasetningu að ræða til þess að unnt sé að greiða bætur. Þrátt fyrir sérstöðu málsins er hér um að ræða mál sem Hæstiréttur hefur nú þegar haft til umfjöllunar og leiddi til sýknu aðila vegna tiltekinna atriða. Það fer því betur á því að dómstólar skeri úr um bótaskyldu og eftir atvikum fjárhæð bóta í málinu líkt og hefðbundið er.
    Verði frumvarpið samþykkt telur minni hlutinn að sett verði fordæmi sem geti haft varhugaverð áhrif á önnur mál þar sem einstaklingar eru sviptir frelsi sínu með óréttmætum hætti eða ranglega sakfelldir. Þá eru bæturnar sem kveðið er á um í frumvarpinu og ákvörðun fjárhæðar þeirra samkvæmt greinargerð í ósamræmi við það sem áður hefur þekkst.
    Með hliðsjón af framangreindu getur minni hlutinn ekki stutt að frumvarpið nái fram að ganga.

Alþingi, 14. nóvember 2019.

Anna Kolbrún Árnadóttir.