Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 543  —  2. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2020.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Hlyn Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra, Maríönnu Said og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Ísak S. Bragason frá Umhverfisstofnun, Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Guðjón Bragason og Eygerði Margrétardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Björn H. Halldórsson og Bjarna Gný Hjarðar frá SORPU bs., Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ - Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum ferðaþjónustunnar, Ástu Björk Sigurðardóttur og Heiðmar Guðmundsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Ingólf Bender frá Samtökum iðnaðarins, Þóreyju S. Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá BSRB og Halldór Sævar Guðbergsson, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Bergþór Emil Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir og önnur erindi um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusambandi Íslands, Aranja ehf. og Framúrskarandi ehf., BSRB, Dómkirkjunni í Reykjavík, Hagsmunasamtökum heimilanna, Hrunamannahreppi, Landssamtökum lífeyrissjóða, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands, sóknarnefndum Áskirkju, Laufás- og Grenivíkursóknar og Víðisstaðakirkju, Sorpu bs., tollstjóra, Umhverfisstofnun og Öryrkjabandalaginu auk sameiginlegrar umsagnar frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum atvinnulífsins.

Krónutöluhækkanir.
    Í frumvarpinu er lagt til að krónutöluskattar hækki í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands en ekki breytingar á vísitölu neysluverðs. Þetta þýðir raunlækkun skattanna á milli áranna 2019 og 2020. Hér er um að ræða olíugjald, almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki. Hið sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald til Ríkisútvarpsins.

Frítekjumark örorkulífeyrisþega.
    Í VIII.–X. kafla frumvarpsins eru lagðar til framlengingar gildistíma í ákvæðum til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Er það gert til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á næsta ári og til að tryggja að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar lækki ekki á milli ára. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári eða 109.600 kr. á mánuði. Yrði gildistími bráðabirgðaákvæðanna ekki framlengdur mundi frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári í 300.000 kr. og skerða greiðslu bóta þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Í þessu sambandi telur meiri hlutinn nauðsynlegt að undirstrika mikilvægi þess að lokið verði við heildarendurskoðun á tryggingakerfi öryrkja eigi síðar en á árinu 2020 en fjárhæð frítekjumarks hefur haldist óbreytt að krónutölu frá árinu 2009. Mikilvægt er að við endurskoðun tryggingakerfisins verði litið til þess að hækka frítekjumark atvinnutekna og tryggja að það taki breytingum á hverju ári í takt við þróun launa á almennum vinnumarkaði. Þannig verði öryrkjum gert betur kleift að bæta sinn hag.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Sóknargjald.
    Í 19. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis að sóknargjald sem renni til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga skuli vera 930 kr. á mánuði árið 2020 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Samkvæmt sambærilegu bráðabirgðaákvæði sem er í gildi í lögunum nam gjaldið 925 kr. á mánuði árið 2019.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis til nefndarinnar er lagt til að þessi krónutala hækki í samræmi við forsendur breytingartillagna meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 og verði 975 kr. Í minnisblaðinu segir: „Við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir í nefndaráliti meirihlutans að 315,5 millj. kr. fjárveiting kirkjumálasjóðs verði millifærð af fjárlagaliðnum 06-705 Kirkjumálasjóður yfir á fjárlagalið 06-701 Þjóðkirkjan og að lög um kirkjumálasjóð verði felld úr gildi og þar með sérframlög til hans. Það sama á við um 403,6 millj. kr. fjárveitingu til Jöfnunarsjóðs sókna. Fjárveitingin er millifærð af fjárlagaliðnum 06-736 Jöfnunarsjóður sókna yfir á fjárlagalið 06-701 Þjóðkirkjan og að lög um jöfnunarsjóð sókna verði felld úr gildi. Báðar þessar fjárveitingar hafa tekið breytingum í samræmi við þróun sóknargjalda. Með þessu viðbótarsamkomulagi er þessi tenging rofin og munu fjárveitingarnar hækka í samræmi við launa- og verðlagsforsendur fjárlaga hverju sinni.“ Meiri hlutinn leggur til viðeigandi breytingu á 19. gr. frumvarpsins.

Tryggingagjald.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis til nefndarinnar er lagt til að við XIV. kafla frumvarpsins um breytingu á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, bætist grein um breytingu á þeirri hlutfallstölu sem Fæðingarorlofssjóður fær í sinn hlut af tekjum af almennu tryggingagjaldi skv. 5. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna úr 0,65% í 1,1%. Í minnisblaðinu segir: „Gert er ráð fyrir að útgjöld Fæðingarorlofssjóðs verði 1.400 millj. kr. umfram forsendur fjárlaga ársins 2019. Tekjur sjóðsins af almenna tryggingagjaldinu munu ekki duga fyrir útgjöldum hans á árinu og þrátt fyrir að tekið sé tillit til ríflega 2,5 milljarða kr. jákvæðrar stöðu sjóðsins í árslok 2018 stefnir í að hann verði rekinn með halla í árslok 2019. Hækka þarf hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í gjaldinu um 0,45 prósentustig ef það á að standa undir fullri fjármögnun sjóðsins á árinu 2020 að teknu tilliti til halla ársins 2019. Lagt er til að hlutfall Fæðingarorlofssjóðs í almenna tryggingagjaldinu verði hækkað úr 0,65% í 1,1% og lækkar því hlutfall lífeyris- og slysatrygginga á móti, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990.“ Meiri hlutinn leggur til að viðeigandi breyting verði gerð á XIV. kafla frumvarpsins.

Urðunarskattur.
    Í XVIII. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, sem miða m.a. að upptöku nýs skatts á urðun úrgangs.
    Skattlagning á urðun úrgangs getur verið árangursrík leið til að stuðla að umhverfisvænni ráðstöfun úrgangs. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram almenn samstaða um að stjórnvöld grípi til aðgerða til að hækka kostnað við urðun og stuðli þannig að aukinni flokkun, endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs. Skattlagningin á urðun er hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
    Eitt af markmiðum með umhverfissköttum er að þeir sem valda kostnaði og hafa neikvæð áhrif á umhverfið standi undir þeim kostnaði með beinum hætti. Mikilvægt er að við útfærslu fyrirhugaðs urðunarskatts verði stuðlað að þessu markmiði. Í stað þess að um sé að ræða hreina tekjuöflun fyrir ríkissjóð er umræddur skattur umhverfisskattur sem ætlað er að hafa áhrif á hegðun einstaklinga og fyrirtækja.
    Meiri hlutinn vill í þessu sambandi benda sérstaklega á tvö atriði:
     1.      útfærslu skattlagningarinnar og innheimtu þarf að skýra betur í frumvarpinu,
     2.      innviðir eru ekki fyrir hendi til að heimili og fyrirtæki geti komist hjá því að skila úrgangi til urðunar.
    Í umsögn Sorpu bs. er bent á að ekki sé hægt að tengja saman það sem hver íbúi skilar til urðunar og urðunarskatt, þar sem ekki er til staðar búnaður til að vega þann úrgang sem til fellur á hverju heimili eða fyrirtæki. Vegna þessa geti skatturinn ekki orðið annað en nefskattur óháð magni til urðunar. Samkvæmt mati Sorpu yrði útgjaldaaukning íbúa á starfssvæði fyrirtækisins um 795 millj. kr. á ári og kostnaður fyrirtækja um 1.620 millj. kr.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir: „Forsenda þess að sambandið geti stutt lögfestingu urðunarskatts er að sú tekjuöflun renni beint til verkefna sem hafa það að markmiði að draga úr förgun úrgangs.“ Í umsögn Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga er einnig bent á nauðsyn þess að tekjur af skattinum verði nýttar „til innviðauppbyggingar á þessu sviði“.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að ákvæði frumvarpsins um urðunarskatt falli brott og að viðeigandi breytingar verði gerðar á XVIII. kafla frumvarpsins.
    Meiri hlutinn beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis að vinna að gerð nýs frumvarps til breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta þar sem lögfest verði innheimta urðunarskatts, að teknu tilliti til framangreindra atriða. Mikilvægt er að þessari vinnu verði hraðað og að haft verði samráð við sveitarfélögin um lagabreytingarnar.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að samhliða innleiðingu urðunarskatts verði hugað að uppbyggingu innviða til að tryggja að skatturinn skili þeim árangri sem að er stefnt, þ.e. að auka flokkun, endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs. Eðlilegt er að tekjur ríkissjóðs af urðunarskattinum verði nýttar, a.m.k. að hluta, til nauðsynlegrar innviðafjárfestingar að þessu leyti.

Breyting á lögum um opinber fjármál.
    Að tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytis leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist kafli um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015. Lagt er til að þær breytingar verði gerðar á 1. mgr. 52. gr. laganna að kveðið verði á um að reikningsskil skuli gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila sem miða við rekstrargrunn fyrir A-hluta ríkissjóðs og ríkisaðila í A-hluta og að Fjársýslu ríkisins verði falið að setja nánari reglur um reikningsskil einstakra aðila í A-hluta. Lagt er til að 2. mgr. ákvæðisins, þar sem fram kemur að reikningsskil fyrir einstaka ríkisaðila í A-hluta skuli uppfylla kröfur laga um ársreikninga, falli brott. Í tillögu ráðuneytisins kemur fram að sú aðgreining sem gerð er í gildandi lögum á reikningsskilum A-hluta ríkissjóðs annars vegar og einstakra ríkisaðila í A-hluta hins vegar hafi verið talin einfalda reikningshaldið fyrir ríkisstofnanir í A-hluta. Framkvæmd laganna hafi hins vegar valdið ýmsum vandkvæðum og óvissu sem fylgir því þegar mismunandi staðlar gilda. Af þeirri ástæðu sé lagt til að reikningsskil hjá þessum aðilum verði samræmd. Þá sé ekki gert ráð fyrir að einstaka ríkisaðilar og verkefni í A-hluta þurfi að uppfylla öll skilyrði staðla um framsetningu, skýringar og upplýsingagjöf heldur sé ætlunin einkum að tryggja að reikningshaldið verði með samræmdum hætti án þess að það sé óþarflega íþyngjandi fyrir minni aðila. Því sé miðað við að Fjársýsla ríkisins marki reglur um reikningsskil og uppgjör ríkisaðila og verkefna í A-hluta sem verði byggðar á almennt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum. Jafnframt er lögð til breyting á 1. mgr. 54. gr. laganna til samræmis við framangreint.

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis til nefndarinnar er komið á framfæri tillögu um breytingu á frumvarpinu frá dómsmálaráðuneytinu þess efnis að við frumvarpið bætist kafli um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
    Í fyrsta lagi er lagt til að gjöld fyrir vegabréfsáritanir hækki úr 4.200 kr. í 5.500 kr. fyrir 6–12 ára, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna, og úr 7.800 kr. í 11.000 kr. fyrir 13 ára og eldri, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 14. gr. Í minnisblaðinu segir: „Ástæðu breytingartillagnanna má rekja til breytingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2019/1155/ESB sem breytir reglugerð nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir (Visa Code) og kveður sú breyting á um hækkun á sambærilegum gjöldum frá og með 2. febrúar 2020. Verði ekki af þessum breytingartillögum má gera ráð fyrir að ríkið verði af tekjum að lágmarki 70 millj. kr. á árinu 2020.“
    Í öðru lagi er lagt til að orðalag ákvæða 33., 34. og 35. tölul. 14. gr. laganna breytist á þann veg að skýrt verði tekið fram að um sé að ræða gjald fyrir afgreiðslu umsókna um þau leyfi sem kveðið er á um í ákvæðunum en ekki fyrir útgefin leyfi.
    Í þriðja lagi er lagt til að gjald fyrir útgáfu dvalarskírteinis fyrir aðstandendur EES-borgara sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar falli niður en að fyrir endurútgáfu slíks skírteinis greiðist 4.500 kr. Um breytinguna segir í minnisblaðinu: „Breytingartillögu þessa má rekja til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB sem kveður á um að dvalarskírteinin skuli gefin út án endurgjalds eða gegn endurgjaldi sem er ekki hærra en það sem ríkisborgurunum er gert að greiða. Samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands er útgáfa umsækjanda um fyrsta nafnskírteini honum að kostnaðarlausu en gjald er tekið fyrir endurútgáfu og er það sama gjald og lagt er til að verði í 37. tölul. 14. gr. laganna.“
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs í samræmi við framangreint.
    Aðrar breytingartillögur meiri hlutans en þær sem að framan er getið eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 21. nóvember 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.