Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 720  —  393. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við nefndarálit með breytingartillögu á þskj. 705 [Fæðingar- og foreldraorlof].

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      1.–3. tölul. falli brott.
     2.      4. tölul. orðist svo: Við 4. gr. bætist ný efnismálsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal eigi síðar en í október 2020 leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þar sem m.a. verði lagt til hvernig skiptingu á tólf mánaða samanlögðum fæðingarorlofsrétti foreldra skuli háttað milli foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

Greinargerð.

    Með breytingartillögu þessari er lagt til að tillaga meiri hluta velferðarnefndar að nýju bráðabirgðaákvæði haldi sér hvað varðar það að fela ráðherra að útfæra skiptingu á tólf mánaða samanlögðum fæðingarorlofsrétti foreldra í frumvarpi til laga sem ráðherra leggi fram í október 2020. Í ljósi þeirrar vinnu sem því mun fylgja telur tillöguflytjandi ekki ástæðu á þessum tímapunkti til að útfæra skiptinguna umfram það sem fram kemur í frumvarpi ráðherra og leggur því til að felldar verði brott þær greinar tillögu meiri hlutans sem snúa að skiptingu réttar til fæðingar- og foreldraorlofs á milli foreldra.