Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 959  —  582. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um breytingu á lögum um neytendalán og lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 163/2019.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.
    

    Í stað orðanna „fullgildri rafrænni undirskrift“ í lokamálslið 3. gr. laganna kemur: rafrænni undirskrift eða samþykktur af neytanda sem hefur verið auðkenndur rafrænt gagnvart viðskiptakerfi lánveitanda.

2. gr.
    

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Orðin „3. gr. og“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
            Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 3. gr. gildi 1. júní 2020.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hinn 17. desember 2019 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, sbr. lög nr. 163/2019, með breytingum sem gerðar voru að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sbr. breytingartillögu á þingskjali 719 í 223. máli á 150. löggjafarþingi. Ein þessara breytinga laut að kröfu um að lánssamningar um neytendalán skyldu gerðir skriflega og undirritaðir af neytanda, með fullgildri rafrænni undirskrift í þeim tilvikum sem lánssamningur væri gerður í fjarsölu. Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar var þessi breytingartillaga skýrð svo: „Nefndinni hefur verið bent á að smálánafyrirtæki geri litlar sem engar kröfur um auðkenningu þegar sótt er um smálán á vefsíðum fyrirtækjanna. Þannig sé ekki girt fyrir að lán séu tekin í nafni annars en raunverulegs lántaka og dæmi þekkist um slíkt. Til að sporna við þessu leggur meiri hlutinn til að sett verði skilyrði um auðkenningu til að lánssamningur teljist skuldbindandi, annaðhvort með eiginhandarundirskrift eða fullgildri rafrænni undirskrift í skilningi laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, sé lánssamningur gerður í fjarsölu.“
    Nefndinni hafa borist ábendingar um að krafan um fullgilda rafræna undirskrift í skilningi laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti krefjist umtalsverðra og kostnaðarsamra breytinga á tölvukerfum lánveitenda neytendalána og sé óþarflega íþyngjandi til að ná því markmiði sem að er stefnt.
    Nefndin telur tilefni til að bregðast við ábendingunum og leggur með þessu frumvarpi til að sú breyting verði gerð á lokamálslið 3. gr. laga nr. 163/2019 að í stað þess að krefjast fullgildrar rafrænnar undirskriftar þegar lánasamningur er gerður í fjarsölu verði krafist rafrænnar undirskriftar eða samþykkis notanda sem hefur verið auðkenndur rafrænt gagnvart viðskiptakerfi lánveitanda. Telur nefndin að með þessu móti megi ná fram markmiði breytingarinnar án þess að íþyngja lánveitendum meira en nauðsynlegt er.
    Lagt er til að í tilviki lánssamninga í fjarsölu geri lög áskilnað um rafræna undirskrift eða rafræna auðkenningu notenda án þess þó að skilgreina formkröfur slíkrar undirskriftar eða auðkenningar frekar. Er ætlunin með því að koma í veg fyrir að lögin hefti eðlilega þróun sem kann að verða á tækni og aðferðum við auðkenningu notenda í viðskiptakerfum lánveitenda neytendalána en girða um leið fyrir möguleikann á því að lán sé tekið án auðkenningar lántaka. Með þessu móti verður aðferð auðkenningar á ábyrgð lánveitanda neytendalána sem ber sönnunarbyrði þess að tilhlýðileg auðkenning hafi farið fram komi upp vafatilvik. Neytendastofa getur synjað lánveitanda um skráningu eða fellt skráningu úr gildi telji stofnunin auðkenningarskilyrðinu ekki fullnægt, sbr. b-lið 6. gr. laga nr. 163/2019.
    Auk framangreinds er í frumvarpinu lagt til að aðlögunartími vegna þessarar breytingar verði framlengdur. Er lagt til að 3. gr. laga nr. 163/2019 öðlist gildi 1. júní 2020.

Réttarvernd neytenda.
    Við vinnu nefndarinnar að þessu frumvarpi komu fram ýmis sjónarmið og ábendingar um afmarkaða þætti vafasamrar smálánastarfsemi og tillögur að lagabreytingum til að sporna við þeim. Af þessu tilefni bendir nefndin á að vinnu stjórnvalda við þennan málaflokk er ekki lokið og hefur nefndin lagt áherslu á að áfram verði fylgst grannt með þróun á þessu sviði. Þá hefur nefndin til sérstakrar skoðunar hvernig vinnu stjórnvalda við reglur um starfsemi og eftirlit með löginnheimtu vindur fram.
    Nefndin bendir einnig á að rík réttarvernd fyrir lántakendur neytendalána felst nú þegar í lögum um neytendalán, nr. 33/2013. Ber þar einkum að nefna IV. kafla laganna, 12.–20. gr., um upplýsingaskyldu lánveitanda og réttindi lántaka varðandi lánssamninga. Í 1. mgr. 12. gr. er kveðið á um að lánssamningar skulu skráðir á pappír eða vera á öðrum varanlegum miðli og að allir samningsaðilar skuli fá afrit af lánssamningi. Þá er í 2. mgr. ítarlegt yfirlit yfir atriði sem skulu koma fram á skýran og hnitmiðaðan hátt í lánssamningi.