Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1026  —  317. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (leyfisveitingar, málsmeðferð, endurupptaka o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Örn Guðleifsson frá forsætisráðuneyti, Þorstein Magnússon, Ásu Ólafsdóttur og Ernu Erlingsdóttur frá óbyggðanefnd, Óskar Magnússon og Sigurð Jónsson frá Landssamtökum landeigenda og Bjarna M. Jónsson frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bjarna M. Jónssyni, Birni Samúelssyni, Erlu Friðriksdóttur, Fljótsdalshéraði, Ísafjarðarbæ, Landssamtökum landeigenda á Íslandi, óbyggðanefnd, Samtökum eigenda sjávarjarða, Víði Smára Petersen og Æðarvé, félagi æðabænda.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Aðallega eru lagðar til breytingar á ákvæðum sem varða verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, málsmeðferðarreglum óbyggðanefndar og ákvæði um áætluð starfslok nefndarinnar. Tilefni breytinganna er sú reynsla sem fyrir liggur og fyrirsjáanleg úrlausnarefni við verklok. Efni frumvarpsins má skipta í tvennt, þ.e. breytingar á ákvæðum er varða skiptingu leyfisveitingarhlutverks ríkis og sveitarfélaga vegna nýtingar lands og landsréttinda innan þjóðlendna og breytingar á málsmeðferðarreglum óbyggðanefndar.

Leyfisveitingarvald.
    Samkvæmt gildandi lögum þarf leyfi ráðherra til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, vindorku, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu. Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu á annan hátt þarf svo leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Með frumvarpinu er lagt til að fella nýtingu náma og annarra jarðefna undir leyfisveitingarhlutverk sveitarfélaga sem hafa þjóðlendur innan stjórnsýslumarka sinna en áfram þarf þó samþykki forsætisráðherra ef nýtingu er ætlað að vara lengur en í 12 mánuði. Þessar breytingar voru að mestu óumdeildar en þó komu fram sjónarmið þess efnis að heppilegra væri að ráðherra hefði áfram leyfisveitingarvaldið til að tryggja gagnsæi og jafnræði við útgáfu leyfa. Meiri hlutinn bendir í því skyni á að samþykki ráðherra þarf áfram, auk þess sem lagt er til í frumvarpinu að skýrar verði kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um meðferð og nýtingu þjóðlendna, þ.m.t. um jafnræði og gagnsæi við úthlutun afnota af landi. Meiri hlutinn telur því ekki tilefni til að leggja til breytingar á 1. og 2. gr. frumvarpsins.

Málsmeðferð óbyggðanefndar.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að ákvæði 4. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að ríkið hafi heimild til að auka við kröfur sínar, væru óheppileg og drægju úr jafnræði málsaðila. Jafnframt væri landeigendum sem hefðu nú þegar verið með land til meðferðar hjá óbyggðanefnd raun að þurfa ganga í gegnum slíkt mál á nýjan leik. Með greininni er lagt til að auka möguleika ríkisins til að auka við kröfur sínar undir rekstri mála fyrir óbyggðanefnd og að lögfest verði heimild fyrir nefndina til að taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð nefndarinnar. Í greinargerð frumvarpsins er fjallað með ítarlegum hætti um ástæður þess að æskilegt sé að rýmka framangreindar heimildir og tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið. Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á að fyrirhugaðri heimild ríkisins til að auka kröfur sínar er ætlað að jafna stöðu málsaðila. Þá bendir meiri hlutinn á að sú heimild sem lagt er til að óbyggðanefnd verði fengin er háð því skilyrði að óbyggðanefnd hafi gert athugasemd við kröfugerð ríkisins þar um. Enn fremur bendir meiri hlutinn á að með frumvarpinu eru einnig lagðar til tvær breytingar sem ætlað er að auka möguleika hugsanlegra rétthafa að landi til að fá niðurstöður óbyggðanefndar endurskoðaðar.
    Við meðferð málsins ræddi nefndin töluvert um 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um fyrirhugaða framkvæmd óbyggðanefndar þegar landsvæði utan strandlengju meginlandsins verða tekin til meðferðar. Margir umsagnaraðilar gerðu athugasemd við efni greinarinnar og þá sérstaklega umfjöllun um hana í greinargerð. Með 5. gr. frumvarpsins er lagt til að nefndinni verði heimilt að hefja málsmeðferð vegna landsvæða utan strandlengju meginlandsins með áskorun um að lýsa réttindum en síðan taki við hefðbundin málsmeðferð. Þessari breytingu er ætlað að vera til hagræðingar fyrir óbyggðanefnd og rétthafa þar sem fjöldi eyja, skerja, dranga, hólma o.fl., sem nefnd eru landsvæði utan strandlengju meginlands, er töluverður auk þess sem þeir aðilar sem í upphafi vekja athygli á réttindum sínum þurfa eftir atvikum ekki að sæta viðameiri málsmeðferð.
    Umsagnaraðilar gerðu sérstaklega athugasemdir við áhrif 5. gr. frumvarpsins á hagsmuni eigenda sjávarjarða. Í umsögnum kom fram gagnrýni á umfjöllun um netlög í greinargerð frumvarpsins og bent var á að miða ætti við ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar, þar sem netlög eru miðuð við dýptarreglu, þ.e. dýpt sem miðast við 20 möskva selnet. Af því tilefni bendir meiri hlutinn á að réttur til fiskveiða og reka byggist á þessari dýptarreglu en hún kveður ekki á um beinan eignarrétt á hafsbotninum innan þeirra netlaga sem þannig eru skilgreind. Umrædd ákvæði Jónsbókar hafa ekki verið felld úr gildi og því kann að vera að eigendur sjávarjarða eigi enn einkarétt til fiskveiða innan þeirra netlaga sem þannig eru afmörkuð samkvæmt Jónsbók. Frumvarpið mun hins vegar engu breyta um þann rétt, sé hann til staðar, enda felur það ekki í sér breytingar eða afnám á veiðirétti eða annars konar eignarréttindum sem fyrir eru. Með 5. gr. frumvarpsins er ekki verið að fella undir lögin svæði sem ekki fellur þegar undir gildissvið laganna heldur er einungis verið að leggja til heimild til að haga málsmeðferð þeirra á annan hátt en á meginlandinu. Meiri hlutinn ítrekar að sú breyting ætti ekki síst að gagnast hugsanlegum rétthöfum. Það er því mat meiri hlutans að efnislegra breytinga sé ekki þörf á 5. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til minni háttar breytingar til lagfæringar og leiðréttingar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „lokamálsgrein“ í 2. efnismgr. 5. gr. komi: 7. mgr.
     2.      Við 6. gr. bætist nýr liður, a-liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „1. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: 2. mgr.
     3.      Síðari málsliður 8. gr. falli brott.

Alþingi, 27. febrúar 2020.

Páll Magnússon,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, frsm. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Birgir Ármannsson. Jón Steindór Valdimarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.