Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1043  —  317. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (leyfisveitingar, málsmeðferð, endurupptaka o.fl.).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Við meðferð frumvarpsins kom fram mikil gagnrýni á 5. gr. þess sem fjallar um fyrirhugaða meðferð óbyggðanefndar á landsvæðum utan strandlengju meginlandsins. Umsagnaraðilar gerðu sérstaklega athugasemdir við áhrif 5. gr. á hagsmuni eigenda sjávarjarða vegna skilgreiningar í greinargerð frumvarpsins á hugtakinu netlög. Minni hlutinn tekur undir framangreinda gagnrýni og telur að miða ætti við ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar þar sem netlög eru miðuð við dýptarreglu. Minni hlutinn leggur áherslu á að leitast sé í hvívetna við að virða eignarrétt landeigenda.
    Í frumvarpinu er lagt til að fella brott 3. málsl. 4. mgr. 3. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta þar sem fram kemur að tekjum af leyfum vegna nýtingar þjóðlendna skuli varið til hliðstæðra verkefna innan þjóðlendna. Minni hlutinn telur að skoða þurfi betur sjónarmið sem fram komu í umsögn um málið þess efnis að með breytingunni sé ekki eingöngu verið að leggja til breytingu á gjaldtöku heldur á eignarformi þjóðlendna. Breytingin leiði til þess að sérstaða þjóðlendna meðal eigna ríkisins verði minni en áður. Minni hlutinn telur að skoða verði gaumgæfilega hvort tilefni sé til að breyta eignarformi þjóðlendna með þessum hætti.
    Þá tekur minni hlutinn undir með Landssamtökum landeigenda sem benda í umsögn sinni á að þær breytingar sem frumvarpið leggur til séu að meginstefnu til óþarfar og fyrst og fremst til þess fallnar að auka umsvif ríkisins á kostnað eignarréttar landeigenda. Þetta felst m.a. í því að með frumvarpinu er lagt til að ríkið fái heimildir til að auka við kröfur sínar jafnframt sem óbyggðanefnd verði heimilt að taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð hennar að vissum skilyrðum uppfylltum. Í umsögn samtakanna kemur fram að þessar breytingar séu til þess fallnar að viðhalda óöryggi landeigenda gagnvart ríkinu og skerða það traust sem þó hafi myndast milli ríkisins og landeigenda á þeim svæðum sem tekin hafa verið til meðferðar óbyggðanefndar. Minni hlutinn tekur undir með Landssamtökum landeigenda og telur að miklir hagsmunir séu fólgnir í því að viðhalda friði og sátt milli ríkis og landeigenda.
    Að lokum áréttar minni hlutinn að eignarrétturinn er friðhelgur skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar og að virða verði eignarrétt landeigenda eftir fremsta megni.
    Með hliðsjón af framangreindu getur minni hlutinn ekki stutt að frumvarpið nái fram að ganga.

Alþingi, 28. febrúar 2020.

Anna Kolbrún Árnadóttir.