Ferill 699. máls. Ferill 695. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1195  —  695. og 699. mál.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Þau verkefni sem njóta stuðnings í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar eru þörf. Lengi hefur verið kallað eftir flughlaði á Akureyri, akbraut á Egilsstaðaflugvelli, breikkun brúa, framkvæmdum við tengivegi, göngustígum á friðlöndum sem hafa verið undir síauknu álagi undanfarinn áratug, ofanflóðavörnum og stafrænu Íslandi. Hingað til hafa þessi mikilvægu verkefni síendurtekið endað neðarlega á forgangsröðunarlista. Það þurfti neyðarástand til þess að þau hlytu loks meðbyr. Hver veit hversu mörg ár í viðbót hefðu liðið þangað til mörg þessara verkefna hefðu komist á koppinn ef allt hefði gengið sinn vanagang?
    Vanagangurinn er nefnilega bilaður. Hann er orðinn jafn úreltur og eldsneytisdrifinn sprengihreyfill sem vissulega skilar okkur frá A til B en með tilheyrandi mengun og auðlindasóun. Það þarf nýjan drifkraft í samfélagið, nýjan umhverfisvænan og sjálfbæran kraft. Sá kraftur stendur til boða, til dæmis með nýrri stjórnarskrá og velsældarhagkerfi.

Nýsköpun.
    Í stað orkuskipta yfir í sjálfbærni eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar að senda ónýtan sprengihreyfilinn á verkstæði og vonast til þess að hann skrölti áfram í nokkur ár í viðbót.
    Fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar er ætlað að „steypa“ okkur út úr aðsteðjandi vanda og þó það sé gott að fá breiðari brýr og göngustíga inn á þjóðlendur þá er steypa mjög tímabundin lausn til þess að mæta því atvinnuleysi sem nú er spáð. Meiri steypa og malbik reddar byggingariðnaðinum til skamms tíma en það áfall sem íslenskt efnahagslíf gengur nú í gegnum á eftir að valda atvinnuleysi víðar en bara í byggingariðnaðinum. Það þarf að huga betur að orkuskiptum, bæði eiginlegum og hagfræðilegum. Viðbrögð við yfirvofandi vanda verða að byggjast á góðum grunni til framtíðar í stað þess að senda vélina bara í viðgerð. Það þarf bæði að gera við og að uppfæra.
    Þess vegna leggja Píratar áherslu á nýsköpun á sama tíma og það þarf að verja heimilin og tryggja fjármögnun og aðgang að heilbrigðiskerfinu. Lengi hefur verið talað um fjórðu stoðina, sem átti að vera nýsköpun. Í stjórnartíð núverandi valdhafa hefur þessi stoð lítið verið styrkt en nú er kjörið tækifæri til þess. Bjóða má upp á nýsköpunarmöguleika í stað atvinnuleysis, uppbyggingu á fjölbreyttum tækifærum í stað þess að reyna að komast á sama stað og áður, það virkaði klárlega ekki.

Breytingartillaga 2. minni hluta.
Nýsköpun og sprotafyrirtæki: 9,1 milljarður kr.
    Stjórnarandstaðan setur m.a. nýsköpun, rannsóknir og skapandi greinar í algjöran forgang. Hækka verður þak á endurgreiðslum rannsóknar- og þróunarkostnaðar (1,5 milljarðar kr.) en það mun flytja fjölmörg verkefni til landsins. Settur verði 1 milljarður kr. í Tækniþróunarsjóð en það myndi næstum tvöfalda þennan lykilsjóð. Annar milljarður fari í Rannsóknarsjóð og Innviðasjóð. Þá renni hálfur milljarður króna til menningar, íþrótta og lista þar sem verulegt tekjutap hefur orðið vegna faraldursins. Keilir og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fái 100 millj. kr. og Loftslagssjóður, þar með talið skógrækt, fá hálfan milljarð króna. Þá fái framlög til rannsókna og nýsköpunar í landbúnað (svo sem grænmetisrækt) hálfan milljarð króna. Jafnframt leggur stjórnarandstaðan til tímabundna niðurfellingu eða lækkun tryggingagjalds upp á 4 milljarða kr. fyrir fyrirtæki með sjö eða færri starfsmenn.

Sjálfbærni.
    Hingað til hafa ýmsir í stjórnmálum haft stöðugleikann að aðalmarkmiði. Þó er greinilegt, eftir margvísleg skakkaföll undanfarinna ára, að draumurinn um fullkominn stöðugleika er annaðhvort gallaður eða hentar allt of fáum. Sá faraldur sem geisar nú sýnir vel að stöðugleiki er í sjálfu sér vonlaust markmið. Stöðugleiki helst aldrei til lengdar á landi þar sem má eiga von á eldgosi, faraldri, óveðri eða verðbréfabólu sem springur. Kerfi sem byggð eru til þess að þjóna ímynduðum stöðugleika gera ekki ráð fyrir stórum skakkaföllum, þau búa ekki í haginn fyrir tíma ójafnvægis og óstöðugleika. Betra markmið er að stefna að sjálfbærni samfélagsins, að stofnanir samfélagsins og innviðirnir vinni sameiginlega að öryggi og velferð íbúa.
    Sjálfbærir innviðir standa betur af sér hamfarir eins og dæmin sanna. Til dæmis má rekja endurtekinn rafmagnsskort á stórum svæðum í Bandaríkjunum til þess að rafmagnsdreifikerfið var ekki byggt með sjálfbærni að markmiði. Bilun á einum stað olli hruni úti um allt. Kerfið var of tengt, svo samofið að það féll eins og spilaborg þegar það varð fyrir álagi. Sjálfbær kerfi standast betur slíkt álag, því þó að einn hluti þeirra verði fyrir álagi þá aðlagast aðrir hlutar þess í stað þess að falla. Þannig þarf að hugsa til framtíðar, með sjálfbærni að leiðarljósi.
    Í lögum um opinber fjármál er sjálfbærni skilgreind sem svo að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. Í þeim aðstæðum sem nú myndast vegna heimsfaraldurs er óhjákvæmilegt að leiða hugann að því hvernig hægt væri að gera betur. Það dugar ekki að það séu bara opinberar skuldbindingar sem þurfa að vera sjálfbærar, nauðsynlegt er að hugsa sjálfbærni í mun stærra samhengi. Hvernig gæti til dæmis heilbrigðiskerfið verið sveigjanlegra og brugðist betur við tímabundnu álagi? Hvernig getur hagkerfið þolað algjört hrun í fjölda ferðamanna? Hefði sjálfbært samfélag staðist svona álag? Svarið er já, vegna þess að þó að einstakir hlutar sjálfbærs kerfis hefðu brostið þá hefðu aðrir hlutar þess aðlagast og hlaupið undir bagga. Gott dæmi um það er til dæmis nýja stjórnarskráin sem býður upp á málskotsrétt, frumkvæðisrétt, sjálfbærni náttúru og auðlinda og margt fleira.
    Augljóst er að flest ríki heims voru óundirbúin og illa búin til þess að takast á við faraldur af því tagi sem nú gengur yfir. Sjálfbært kerfi var ekki til staðar. Það vantaði pinna fyrir próf, hlífðarbúnað, starfsfólk og húsnæði og skýrar viðbragðsáætlanir sem hægt hefði verið að grípa til strax á einfaldan og aðgengilegan hátt. Á meðan heilbrigðisstarfsfólk stendur sig vitanlega eins og hetjur í baráttu sinni við þessa heilsufarsvá sváfu stjórnvöld augljóslega á verðinum gagnvart hættu af þessu tagi.
    Sjálfbærni til framtíðar er stórt viðfangsefni. Það eru umfjöllunarefni Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna 1 sem skiptast í 17 flokka.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þessu til viðbótar hefur OECD skilgreint velsældarmarkmið 2 og eins og segir á vefsíðu velsældarhagkerfis OECD hafa áhyggjur aukist af því að hagfræðistærðir eins og verg landsframleiðsla útskýri ekki nægilega nákvæmlega lífsskilyrði hins almenna borgara, að þrátt fyrir öflugan hagvöxt skili hann sér ekki í sambærilegri aukningu á lífsgæðum.

Horft til framtíðar.
    Það er erfitt að breyta út af vananum. Það er auðvelt að halda áfram að gera allt eins og var gert áður. Það er sérstaklega erfitt að breyta til þegar allt lítur út fyrir að ganga vel því það er enginn sérstakur hvati til að ráðast í breytingar. Breytingar gætu meira að segja gert hlutina verri. Efnahagskerfið sem við búum við og höfum gert undanfarna áratugi er sveiflukennt og hefur leitt til endurtekinna krepputímabila. Ástæðurnar eru mismunandi og sumar líta út fyrir að vera eitthvað sem hefði verið hægt að hafa stjórn á eða jafnvel koma í veg fyrir, eins og hrunið 2008. Það var mannanna verk. Heimsfaraldur eins og sá sem nú geisar, eða eldgos eins og þegar Eyjafjallajökull gaus 2010, er eitthvað sem ekki er hægt að hafa stjórn á. Þegar það verður skaði af atburðum sem við höfum enga stjórn á er kerfinu síður kennt um, það er ekki kallað til ábyrgðar.
    Þá á hins vegar að krefjast ábyrgðar. Kerfin eiga að geta brugðist við ófyrirséðum atburðum, sér í lagi óvæntum atburðum sem þó gerast reglulega eins og óveður og smitsjúkdómar. Það á að hanna þau á þann hátt að þau þoli álagið og geti brugðist við. Þess vegna er sérstakt tækifæri til þess að breyta og bæta þegar áföll gerast. Það er aukið svigrúm fyrir nýjar lausnir. Þar sem áður var vani og hefðir er nú tómarúm, ekki bara tómarúm þar sem störf hafa glatast heldur einnig öryggi. Lífið er ekki eins og það var og það er ekki endilega fyrirsjáanlegt að það verði þannig aftur, fyrir mjög marga. Það hlýtur að vera skylda okkar að fylla það tómarúm, ekki með því sama og var þar áður því þá lendum við í sömu vandamálum næst þegar verður sambærilega áfall. Það verður að fylla upp í þetta tómarúm með einhverju nýju og betra, með kerfi sem er tilbúið til að takast á við tímabundin áföll, með kerfi sem setur lífsskilyrði og velsæld fólks framar hagvexti og með kerfi þar sem sífellt er spurt hvort núverandi fyrirkomulag sé það sem best þjónar hagsmunum þjóðarinnar.
    Þegar áfall verður er fyrst hugsað um að verja þá sem verða fyrir skaða, verja réttindi og þjónustu sem verða fyrir áfalli og að lokum byggja upp til framtíðar. Í því áfalli sem við glímum nú við, leggja Píratar áherslu á að verja heimilin, að tryggja heilbrigðisþjónustu og styrkja nýsköpun í öllum geirum samfélagsins á öllu landinu. Áherslur Pírata sjást í nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga og í breytingartillögum 2. minni hluta þar sem fólk og réttindi þess koma fyrst, þar sem áherslan er sett á nútímalegan iðnað og að allir njóti góðs af, ekki bara þeir sem eru að steypa. Þar er áherslan á að fólkið sé sett framar fyrirtækjunum og þar sem heilbrigðiskerfið nýtur stuðnings.

Alþingi, 29. mars. 2020.

Björn Leví Gunnarsson.


1     www.un.is/heimsmarkmidin/
2     www.oecd.org/statistics/measuring-well-being-and-progress.htm