Ferill 728. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1270  —  728. mál.
Texti felldur brott.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Matvælasjóð.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og rætt við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Atla Gunnarsson, Jóhann Guðmundsson, Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Ernu Jónsdóttur og Svövu Pétursdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Gunnar Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Kristján Þórarinsson og Hrefnu Karlsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Gunnar Sigurðarson frá Samtökum iðnaðarins, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Gunnlaug Karlsson frá Sölufélagi garðyrkjumanna, Aðalstein Þorsteinsson frá Byggðastofnun, Elínu Aradóttur og Sigríði Bjarnadóttur frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Pétur Bjarnason frá AVS – rannsóknasjóði í sjávarútvegi.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Efni og markmið frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði nýr sjóður, Matvælasjóður, sem hafi það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Þá er gert ráð fyrir að AVS – rannsóknasjóður í sjávarútvegi og Framleiðnisjóður landbúnaðarins verði lagðir niður í núverandi mynd og renni inn í hinn nýja sjóð. Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 (724. mál, þskj. 1253) er ráðgert að veita 500 millj. kr. til stofnunar sjóðsins sem verði úthlutað á þessu ári.
    Frumvarpið er liður í ráðstöfunum hins opinbera til örvunar hagkerfisins í framhaldi af samdrætti sem orðið hefur vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum.

Stofnun Matvælasjóðs og úthlutun fjármuna.
    Verði frumvarpið samþykkt tekur Matvælasjóður við verkefnum Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS – rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Almennur stuðningur var meðal gesta við það að verið væri að auka fjármagn til þessara verkefna og væri það mikilvæg viðspyrna fyrir atvinnulífið í því efnahagsástandi sem nú er vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þá væri það báðum greinum til framdráttar, sjávarútvegi og landbúnaði, að tengja þær saman með einum sameiginlegum sjóði þar sem mikil tækifæri lægju í samvinnu atvinnugreinanna. Auk þess yrði dregið verulega úr rekstrarkostnaði með sameiningu sjóðanna.
    Í umsögn Bændasamtaka Íslands kom fram að samtökin teldu jákvætt að stofnaður yrði nýr sjóður, Matvælasjóður, og lögðu m.a. áherslu á að stjórn sjóðsins tæki til starfa sem allra fyrst og henni gert kleift að vinna hratt við að móta reglur um úthlutun á þessu ári. Í umsögn Sambands fyrirtækja í sjávarútvegi kom fram að reyna mundi á aðlögunarhæfni íslensks sjávarútvegs vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Staðan kalli á nýjar hugmyndir, verkefni og umsóknir hjá nýjum sjóði. Frumvarpið væri því vel tímasett með hliðsjón af þeim vanda sem faraldurinn skapi.
    Bent var á að stofnun nýs sjóðs tæki tíma, m.a. þyrfti að skipa fólk í stjórn, setja stefnu fyrir sjóðinn o.fl. og óvíst hvort unnt væri að klára undirbúningsvinnu og úthluta 500 millj. kr. á þessu ári líkt og gert er ráð fyrir. Í því samhengi bæri að líta til þess að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS – rannsóknasjóður í sjávarútvegi væru starfandi og gætu úthlutað tilgreindum fjármunum, 500 millj. kr., á þessu ári til viðbótar við þá fjármuni sem þeir hafa nú þegar til ráðstöfunar. Meiri hlutinn bendir á að stofnun sjóðsins er í samræmi við ályktun Alþingis um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, nr. 40/149, en í 10. tölul. hennar er mælt fyrir um að settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu. Með sameiningu sjóðanna sparast einnig umtalsverður rekstrarkostnaður en rekstrarkostnaður hvors sjóðs er nú um 20 millj. kr. á ári. Sá sparnaður skapar svigrúm til stuðnings við verkefni en að mati meiri hlutans er til mikils að vinna að sem mest af því fjármagni sem veitt er til sjóða á vegum ríkisins nýtist með beinum hætti í verkefni sem viðkomandi sjóði er ætlað að styrkja. Meiri hlutinn leggur áherslu á að til framtíðar sé sjóðnum tryggt nægt fjármagn til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki og sjóðurinn efldur enn frekar eftir því sem fram í sækir.
    Líkt og fram kemur í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins skal skipa stjórn fyrir Matvælasjóð, svo fljótt sem verða má eftir gildistöku laganna, sem þegar skal hefja vinnu við stefnumótun fyrir sjóðinn og undirbúning að starfsemi hans. Nefndin óskaði eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvað gert væri ráð fyrir að tæki langan tíma að koma sjóðnum á fót og hvenær unnt væri að úthluta viðbótarfjármagninu. Kom fram að unnið hefði verið að undirbúningi stofnunar sjóðsins undanfarna mánuði í ráðuneytinu og gæti tilvonandi stjórn sjóðsins byggt á þeirri vinnu og þeim sjónarmiðum og áherslum þegar hún hafi verið skipuð. Með hliðsjón af því telji ráðuneytið raunhæft að sjóðurinn geti tekið til starfa í sumar og að úthlutað verði úr honum í haust. Ljóst er að væntanlegir umsækjendur þurfa tíma til að undirbúa sínar umsóknir og því mikilvægt að nýta tímann sem best þar til sjóðurinn tekur til starfa, því að tryggja þarf samfellu við starfsemi forvera sjóðsins. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að allt kapp verði lagt á að koma sjóðnum á laggirnar sem allra fyrst svo að það viðbótarfjármagn sem til stendur að leggja til hins nýja sjóðs nýtist með sem skjótustum og bestum hætti í þeirri mikilvægu viðspyrnu sem efnahagslífið þarf nú á að halda. Meiri hlutinn vísar einnig til yfirstandandi vinnu við mótun matvælastefnu fyrir Ísland sem m.a. er ætlað að stuðla að frekari nýsköpun við matvælaframleiðslu en mikilvægt er að sú stefna verði höfð til hliðsjónar í starfsemi sjóðsins. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við úthlutun úr sjóðnum verði gætt að jafnræði milli ólíkra matvælaframleiðslugreina sem og að einnig verði tryggður framgangur þeirra fjölbreyttu verkefna sem AVS og Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafa styrkt um allt land.

Stjórn sjóðsins og fagráð til ráðgjafar.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins lýtur Matvælasjóður stjórn fjögurra manna sem ráðherra skipar til þriggja ára í senn. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Meiri hlutinn telur rétt að kveðið verði á um hvernig með skuli fara ef atkvæði falla jafnt, þ.e. að í þeim tilvikum ráði atkvæði formanns og leggur til breytingu þess efnis. Bendir meiri hlutinn á að slík regla gildir m.a. um atkvæðagreiðslu stjórnar Tækniþróunarsjóðs, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007.
    Fram komu ábendingar frá gestum um að æskilegt gæti verið að fá fulltrúa fleiri aðila í stjórn sjóðsins. Skv. 4. málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er stjórn sjóðsins heimilt að skipa fagráð sér til ráðgjafar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með aðkomu sem flestra væri unnt að tryggja að sú fjölbreytta þekking sem til staðar er og nýst hefur í þverfaglegu samstarfi matvælafyrirtækja nýtist í vinnu sjóðsins. Þá er mikil gerjun í nýsköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi og annars staðar í Evrópu. Meiri hlutinn fellst á mikilvægi þess að tryggja breiðari aðkomu að sjóðnum svo tryggt verði að markmið sjóðsins nái fram að ganga. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að stjórn sjóðsins verði skylt að skipa allt að sjö manna fagráð til fjögurra ára í senn. Fagráð verði stjórninni til ráðgjafar um fagleg málefni og veiti umsagnir um úthlutanir úr sjóðnum auk almennrar ráðgjafar við stjórnina eftir því sem hún óskar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að m.a. verði litið til háskólasamfélagsins við skipan fagráðs ásamt því að líta til reynslu og þekkingar úr atvinnulífinu og til frumkvöðla og nýsköpunargeirans. Meiri hlutinn telur jafnframt mikilvægt að stjórn sjóðsins verði heimilt að skipa fleiri fagráð en eitt. Bendir meiri hlutinn á að sambærilegt ákvæði er að finna í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/2007.

Staðsetning sjóðsins utan höfuðborgarsvæðisins.
    Bent var á að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS – rannsóknasjóður í sjávarútvegi eru báðir vistaðir utan höfuðborgarsvæðisins auk þess sem landbúnaður og sjávarútvegur séu undirstöðuatvinnugreinar á landsbyggðinni. Miður væri ef sameining sjóðanna mundi leiða til fækkunar starfa á landsbyggðinni. Meiri hlutinn tekur undir það og áréttar að ein af áherslum í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 er að metnir verði kostir þess að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að mikilvægt er að hafa framangreint í huga við ákvörðun um staðsetningu sjóðsins.

    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að tryggja að Framleiðnisjóður landbúnaðarins haldi sömu skattalegu stöðu og verið hefur út starfstíma sinn til 31. desember 2020 og leggur til að við bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „landbúnaði og sjávarútvegi“ í 1. mgr. komi: landbúnaðar- og sjávarafurðum.
                  b.      4. málsl. 2. mgr. orðist svo: Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
                  c.      Á eftir 2. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Stjórn sjóðsins gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum að fenginni umsögn fagráðs sem stjórnin skipar til fjögurra ára í senn. Fagráð skal skipað allt að sjö einstaklingum. Fagráð er til ráðgjafar um fagleg málefni við úthlutanir úr sjóðnum. Jafnframt er fagráð ráðgefandi fyrir stjórn sjóðsins eftir því sem óskað er.
                  d.      2. málsl. 3. mgr. falli brott.
     2.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 2.–4. tölul. 3. gr. skal Framleiðnisjóður landbúnaðarins halda sömu skattalegu stöðu og hingað til út starfstíma sinn.

Alþingi, 24. apríl 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.