Ferill 729. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1422  —  729. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um búningsaðstöðu og salerni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvenær má vænta þess að ráðherra endurskoði lög, reglugerðir og reglur á málefnasviði sínu með hliðsjón af því að ákvæði þeirra um búningsaðstöðu og salerni gera ekki ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, sbr. lög nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði?

    Hvað varðar lög, reglugerðir og reglur í tengslum við búningsaðstöðu og salerni falla reglur nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða, undir málefnasvið félags- og barnamálaráðherra. Samkvæmt fyrrnefndum reglum skal tryggja lágmarksfjölda salerna og snyrtinga fyrir konur annars vegar og karla hins vegar í þeim tilvikum þegar starfsmannafjöldi er að staðaldri fleiri en fimm karlar og fimm konur, sbr. 22. gr. reglnanna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins virðast vera nokkuð skiptar skoðanir á vinnustöðum hér á landi um það hvort aðgreina beri salerni og snyrtingar með framangreindum hætti. Þannig hafa stofnuninni borist erindi frá starfsmönnum tiltekinna vinnustaða, sem hafa ákveðið að aðgreina ekki sérstaklega salerni og snyrtingar, þar sem viðkomandi starfsmenn hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að hafa salerni aðgreind með merkingum fyrir konur annars vegar og karla hins vegar.
    Að mati Vinnueftirlits ríkisins fela umrædd ákvæði reglna um húsnæði vinnustaða í sér að tryggja skuli lágmarksfjölda salerna og snyrtinga fyrir konur annars vegar og karla hins vegar. Að mati stofnunarinnar sé því ekkert í reglunum sem komi í veg fyrir eða hamli því að unnt sé að aðgreina sérstaklega önnur salerni eða aðrar snyrtingar fyrir starfsmenn sem skilgreina kyn sitt með öðrum hætti eða hafa ómerkt tiltekin salerni eða tilteknar snyrtingar að svo miklu leyti sem þeim lágmarksfjölda salerna og snyrtinga sé náð sem skulu vera aðgreind milli kvenna og karla samkvæmt meginreglu 2. mgr. 22. gr. fyrrnefndra reglna um húsnæði vinnustaða.
    Telja verður að margt í íslensku samfélagi hafi breyst á þeim 25 árum sem liðin eru frá því að umræddar reglur voru settar en í því sambandi má meðal annars nefna lög nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði. Að mati félags- og barnamálaráðherra er því vert að skoða hvort og þá með hvaða hætti rétt sé að breyta umræddum reglum, meðal annars með tilliti til fyrrnefndra laga. Í því sambandi leggur ráðherra áherslu á mikilvægi þess að fá fram þau ólíku sjónarmið sem ætla má að séu fyrir hendi á innlendum vinnumarkaði hvað varðar aðgreiningu salerna og snyrtinga fyrir konur annars vegar og karla hins vegar. Slík vinna er þó enn ekki hafin í félagsmálaráðuneytinu og fer það eftir verkefnastöðu innan ráðuneytisins hvenær unnt verður að ráðast í slíka vinnu.