Ferill 812. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1426  —  812. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (skilvirkari framkvæmd).

Frá félags- og barnamálaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Orðin „vottorð fyrrverandi vinnuveitanda“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir orðinu „Fangelsismálastofnun“ í 4. mgr. kemur: lögregla.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „er búsettur“ í c-lið kemur: með skráð lögheimili.
     b.      Á eftir orðunum „fyrrverandi vinnuveitanda“ í f-lið kemur: þegar það á við.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Þegar launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sækir um atvinnuleysisbætur skal hann tilgreina starfstíma sinn hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili skv. 15. gr. sem og starfshlutfall. Enn fremur skal hann tilgreina ástæður þess að hann hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda til að staðreyna þær upplýsingar sem fram koma í umsókn um atvinnuleysisbætur.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr.:
                  1.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl.:
                      a.      Orðin „vinnuveitanda og“ falla brott.
                      b.      Á eftir orðunum „er fram koma í“ kemur: umsókn eða.
                  2.      Orðin „sem tilgreint er í vottorði vinnuveitanda skv. 1. mgr.“ í 2. málsl. falla brott.
                  3.      Orðin „sbr. b-lið 3. gr.“ í lokamálslið falla brott.
     c.      3. mgr. fellur brott.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingar í tengslum við umsókn um atvinnuleysisbætur.

4. gr.

    Á eftir orðunum „er búsettur“ í c-lið 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: með skráð lögheimili.

5. gr.

    Í stað orðanna „á uppsagnarfresti“ í fyrri málsl. 1. mgr. 40. gr. laganna kemur: frá uppkvaðningu úrskurðar um að bú félagsins skuli tekið til gjaldþrotaskipta.

6. gr.

    Orðið „vísvitandi“ fellur brott í lokamálsl. 4. mgr. 57 .gr. laganna.

7. gr.

    Á eftir orðunum „sbr. þó 4. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 59. gr. laganna kemur: og 59. gr. a.

8. gr.

    Á eftir 59. gr. laganna kemur ný grein, 59. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Látið hjá líða að tilkynna um vinnu samliða atvinnuleysisbótum.

    Sá sem hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur og verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a eða að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

9. gr.

    Síðari málsl. 60. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

11. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum:
     a.      Á eftir orðinu „atvinnutekjur“ kemur: frá uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og.
     b.      Á undan tilvísuninni „b-lið“ kemur: a- og.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í félagsmálaráðuneytinu og felur það í sér breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem þykja nauðsynlegar og brýnar. Jafnframt felur frumvarpið í sér breytingar á lögum um Ábyrgðasjóð launa sem þykja nauðsynlegar vegna þeirra breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem kveðið er á um í 5. gr. frumvarpsins.
    Frumvarpið var samið í samráði við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frá setningu laga um atvinnuleysistryggingar árið 2006 hafa orðið nokkrar breytingar á innlendum vinnumarkaði en meðal annars í ljósi þess stendur til að lögin verði endurskoðuð í heild sinni í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu eru hins vegar þess efnis að ekki þykir rétt að bíða með þær þar til slíkri heildarendurskoðun lýkur. Um er að ræða breytingar sem þykja brýnar og nauðsynlegar með það að markmiði að lögin verði skýrari og framkvæmd þeirra skilvirkari en nú er.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu þykja jafnframt nauðsynlegar til að bregðast við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016, í máli nr. E 2547/2015, en í þeim dómi reyndi á túlkun 60. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög í þeim tilvikum þegar atvinnuleysisbóta er aflað með sviksamlegum hætti. Auk þess er í frumvarpinu brugðist við úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 22. júní 2017, í máli nr. 173/2017. Þar komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að Vinnumálastofnun væri ekki heimilt, samkvæmt gildandi lögum, að taka mið af því hvar umsækjandi um atvinnuleysisbætur væri með skráð lögheimili við mat á því hvort almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum væru uppfyllt, en skv. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna er einungis gert að skilyrði að umsækjandi sé búsettur og staddur hér á landi. Þessi túlkun á skilyrðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. laganna varðandi launamenn, sbr. einnig c-lið 1. mgr. 18. gr. varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga, hefur leitt til þess að Vinnumálastofnun hefur borið að greiða atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að viðkomandi hafi skráð lögheimili sitt erlendis. Þá er í frumvarpinu brugðist við ábendingu umboðsmanns Alþingis varðandi misræmi á milli orðalags 57. gr. og 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi sé með skráð lögheimili á Íslandi, bæði þegar umsækjandi er launamaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna. Með þessari breytingu er brugðist við úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 22. júní 2017 í máli nr. 173/2017, sem fyrr segir, þar sem úrskurðarnefndin felldi úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja einstaklingi sem var með skráð lögheimili í erlendu ríki um greiðslu atvinnuleysisbóta. Að mati nefndarinnar bar Vinnumálastofnun að meta búsetu umsækjanda óháð opinberri skráningu á lögheimili hans enda hefði stofnunin ekki heimildir til annars samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Þá hefur framkvæmd laganna sýnt að oft reynist Vinnumálastofnun erfitt að afla gagna og staðreyna hvar aðili er í raun búsettur og staddur þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur hér á landi. Til að bregðast við þessu er lagt til að það verði gert að almennu skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi, hvort sem hann er launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sé með skráð lögheimili á Íslandi í samræmi við lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018.
    Með frumvarpinu er lagt til að dregið verði úr vægi vottorða vinnuveitenda í tilviki umsókna launamanna um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt gildandi lögum ber launamanni að skila inn vottorði vinnuveitanda til Vinnumálastofnunar þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur. Í vottorðinu ber að tilgreina starfstíma aðila á ávinnslutímabili ásamt starfshlutfalli sem og ástæður þess að aðili hætti störfum, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað. Lagt er til að afnumin verði sú skylda launamanns að skila inn vottorði vinnuveitanda um þessi atriði. Þess í stað er lagt til að launamanni beri að geta þessara atriða sjálfur þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti óskað eftir vottorði vinnuveitanda telji hún þörf á því að staðreyna þær upplýsingar sem fram koma í umsókn launamanns um atvinnuleysistryggingar. Er þetta lagt til meðal annars í því skyni að flýta fyrir afgreiðslu umsókna.
    Jafnframt er gert ráð fyrir skýrt verði kveðið á um í lögum um atvinnuleysistryggingar að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða launamanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur skv. 32. og 33. gr. laganna þann tíma sem hann er án atvinnu frá uppkvaðningu úrskurðar um að bú félagsins skuli tekið til gjaldþrotaskipta á meðan hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, enda uppfylli hann skilyrði laganna. Í tengslum við þá breytingu eru lagðar til breytingar á lögum um Ábyrgðasjóð launa þannig að skýrt verði kveðið á um í lögunum að atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur frá uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og í uppsagnarfresti komi til frádráttar kröfum skv. a- og b-lið 5. gr. laganna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á viðurlagakafla laga um atvinnuleysistryggingar í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016 í máli nr. E-2547/2015. Í málinu reyndi á túlkun 60. gr. laganna þar sem kveðið er á um viðurlög við því þegar atvinnuleysisbóta er aflað með sviksamlegum hætti. Í málinu var deilt um hvort Vinnumálastofnun bæri að sanna að tryggður aðili hefði vísvitandi starfað á innlendum vinnumarkaði á meðan hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli síðari málsliðar ákvæðisins áður en stofnunin tæki ákvörðun um viðurlög á grundvelli þess. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er Vinnumálastofnun ekki heimilt að beita viðurlögum á grundvelli 60. gr. laganna nema hún geti sannað að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann vísvitandi starfaði á innlendum vinnumarkaði og hafi þannig haft ásetning til að afla sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti.
    Til að bregðast við fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er lagt til að bætt verði við lög um atvinnuleysistryggingar nýju ákvæði, 59. gr. a, þar sem kveðið verði sérstaklega á um viðurlög við þeim brotum sem síðari málsl. 60. gr. gildandi laga hefur hingað til mælt fyrir um. Lagt er til að í þessu nýja ákvæði verði skýrt kveðið á um hvaða viðurlög eigi við þegar tryggður aðili, sem hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur, verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna eða að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna. Í ákvæðinu er tekið fram að hinn tryggði skuli, vegna slíkra brota, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.
    Þá er lagt til að brugðist verði við ábendingum umboðsmanns Alþingis varðandi misræmi á milli orðalags 57. gr. og 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með því að fella brott orðið „vísvitandi“ úr 4. mgr. 57. gr. laganna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ráðuneytið telur þær breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem lagðar eru til í frumvarpinu ekki gefa tilefni til sérstaks mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta var samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.
    Hinn 3. mars 2020 voru drög að frumvarpinu kynnt í opnu umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-61/2020) þar sem almenningi gafst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drögin. Ein umsögn barst í gáttina þar sem lögð var til breyting á 36. gr. laganna. Munu þær athugasemdir sem þar koma fram koma til skoðunar við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna.
    Enn fremur voru áform um gerð frumvarpsins kynnt öðrum ráðuneytum.

6. Mat á áhrifum.
    Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sækja um atvinnuleysistryggingar á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Auk þess snertir frumvarpið Vinnumálastofnun sem fer með framkvæmd laganna.
    Ekki verður séð að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér muni hafa mismunandi áhrif á stöðu kynjanna á vinnumarkaði þar sem þeim er ætlað að gilda um alla sem sækja um atvinnuleysisbætur, bæði launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklinga, óháð kyni. Þó má ætla að fyrirhugaðar breytingar muni hafa almennt meiri áhrif á karla en samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru fleiri karlar en konur skráðir án atvinnu hjá stofnuninni. Í því sambandi má nefna að í janúar árið 2020 voru að jafnaði 8.808 einstaklingar skráðir án atvinnu hjá stofnuninni, þar af 5.103 karlar og 3.705 konur. Skráð atvinnuleysi meðal karla var á sama tímabili að jafnaði 5,0% en 4,6% á meðal kvenna. Þá hefur það áhrif að atvinnuþátttaka karla á íslenskum vinnumarkaði er hærri en kvenna og því eru karlar hlutfallslega fleiri en konur á vinnumarkaði. Þar sem þeim breytingum sem frumvarpið mælir fyrir um er ætlað að gera stjórnsýslu og framkvæmd laganna skilvirkari en nú er má ætla að áhrifin verði jákvæð fyrir bæði kynin.
    Ekki þykir fyrirséð að efni frumvarpsins muni hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs, svo sem rekstraráhrif eða áhrif á efnahagsreikning ríkisins, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Jafnframt kemur fram að umsóknin skuli vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skuli meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Þá er kveðið á um að í umsókn skuli koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og skulu upplýsingarnar rökstuddar fullnægjandi gögnum.
    Hér er lagt til að gerð verði breyting á 1. mgr. 9. gr. laganna til samræmis við þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á 16. gr. laganna, sbr. 3. gr. frumvarpsins, þess efnis að áskilnaður um að launamanni beri að láta vottorð fyrrverandi vinnuveitenda fylgja með umsókn um atvinnuleysisbætur verði felldur brott. Þó er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir slíku vottorði til að staðreyna upplýsingar sem fram koma í umsókn launamanns um atvinnuleysisbætur, telji stofnunin þörf á því, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 3. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að skattyfirvöld, Tryggingastofnun ríkisins, sjúkratryggingastofnunin, Innheimtustofnun sveitarfélaga, hlutaðeigandi atvinnurekendur, hlutaðeigandi lífeyrissjóðir, hlutaðeigandi stéttarfélög, félög og heildarsamtök stéttarfélaga sem reka sjúkra- eða styrktarsjóði fyrir launafólk á innlendum vinnumarkaði, Fangelsismálastofnun, tollyfirvöld, eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010, Vegagerðin, Lánasjóður íslenskra námsmanna, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Hér er lagt til að lögreglu verði jafnframt skylt að láta Vinnumálastofnun í té þær upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar við framkvæmd laganna. Er þetta lagt til þar sem ætla má að upplýsingar sem lögregla getur búið yfir geti verið nauðsynlegar svo að Vinnumálastofnun sé unnt að hafa virkt eftirlit með greiðslum atvinnuleysisbóta. Þykir því mikilvægt að skýrt sé kveðið á um í lögunum að lögregla skuli láta Vinnumálastofnun í té nauðsynlegar upplýsingar svo að stofnunin geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 13. gr. laganna er kveðið á um að launamaður í skilningi laganna þurfi meðal annars að vera búsettur og staddur á Íslandi til að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga. Hér er lagt til að skráð lögheimili á Íslandi verði einnig gert að almennu skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna.
    Með þessari breytingu er brugðist við úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 22. júní 2017 í máli nr. 173/2017 þar sem úrskurðarnefndin felldi úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á greiðslum atvinnuleysisbóta til einstaklings sem var með skráð lögheimili í erlendu ríki. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun að meta búsetu umsækjanda óháð opinberri skráningu á lögheimili hans enda hefði stofnunin ekki heimildir til annars samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Hefur þessi túlkun leitt til þess að Vinnumálastofnun hefur borið að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem hefur skráð lögheimili sitt erlendis.
    Skráning lögheimils samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, felur í sér tiltekna tilhögun opinberrar skráningar á búsetu sem getur veitt einstaklingi ýmis réttindi. Sá sem er með skráð lögheimili í erlendu ríki kann að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga í því landi þar sem lögheimili er skráð eða annars konar greiðslna vegna atvinnumissis í gegnum önnur tryggingarkerfi þar í landi. Heimildir Vinnumálastofnunar til að afla upplýsinga um stöðu eða tekjur atvinnuleitenda ná aftur á móti ekki til tryggingakerfa eða skattyfirvalda í erlendum ríkjum. Framkvæmd laganna hefur jafnframt sýnt að oft reynist erfitt fyrir Vinnumálastofnun að afla gagna um hvar einstaklingur er í raun búsettur þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur á Íslandi. Með því að gera það að almennu skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að umsækjandi sé með skráð lögheimili á Íslandi er meðal annars komið í veg fyrir að atvinnuleitandi fái samtímis greiddar atvinnuleysisbætur úr tveimur mismunandi og ósamrýmanlegum tryggingakerfum í fleiri en einu ríki.
    Þá er lögð til breyting á f-lið 1. mgr. 13. gr. laganna til samræmis við þær breytingar sem 1. og 3. gr. frumvarpsins gera ráð fyrir hvað varðar vottorð vinnuveitenda. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 1. og 3. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 16. gr. laganna um vottorð vinnuveitanda er lúta að umsókn launamanns um atvinnuleysisbætur og upplýsingum í tengslum við umsóknina.
    Samkvæmt gildandi lögum er launamanni skylt að leggja fram vottorð frá fyrrverandi vinnuveitanda er hann sækir um atvinnuleysisbætur. Í vottorðinu, sem skal vera skriflegt og á þar til gerðu eyðublaði, á að koma fram starfstími hjá vinnuveitanda ásamt starfshlutfalli viðkomandi launamanns. Þar skal einnig tilgreina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að dregið verði úr vægi vottorða vinnuveitenda þegar kemur að því að ákvarða rétt einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í stað þess verði launamanni sjálfum gert skylt að veita þær upplýsingar sem hingað til hafa komið fram í vottorði vinnuveitanda þegar launamaður sækir um atvinnuleysisbætur. Þykir þessi breyting nauðsynleg til að flýta fyrir afgreiðslu umsókna um atvinnuleysisbætur en algengt er að afgreiðsla á umsóknum tefjist sökum þess að það dregst að fá útgefið vottorð frá fyrrverandi vinnuveitanda. Þykir því hentugra fyrirkomulag að launamanni sé gert að koma þessum atriðum á framfæri við Vinnumálastofnun í umsókn sinni en þau má að nokkru leyti staðreyna í rafrænum upplýsingakerfum. Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti óskað eftir vottorði vinnuveitanda telji hún þörf á því að staðreyna þær upplýsingar sem fram koma í umsókn launamanns um atvinnuleysistryggingar. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 1. gr. frumvarpsins.
    Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði áfram heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá skattyfirvöldum til að staðreyna upplýsingar sem fram koma í umsókn eða samkvæmt vottorði.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. 18. gr. laganna er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna þurfi meðal annars að vera búsettur og staddur á Íslandi til að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga. Hér er lagt til að skráð lögheimili á Íslandi verði einnig gert að almennu skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Í ljósi framangreinds er lagt til að bætt verði við í c-lið 1. mgr. 18. gr. laganna skilyrði um að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með skráð lögheimili á Íslandi þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur og er þar átt við skráð lögheimili í samræmi við lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 2. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Í fyrri málsl. 1. mgr. 40. gr. laganna er kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða launamanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur skv. 32. og 33. gr. laganna þann tíma sem hann er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, enda uppfylli hann skilyrði laganna. Hér er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að greiða launamanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur skv. 32. og 33. gr. laganna þann tíma sem hann er án atvinnu frá uppkvaðningu úrskurðar um að bú félagsins skuli tekið til gjaldþrotaskipta í stað þess að miðað sé við það tímabil sem telst til uppsagnarfrests. Er þannig lagt til að skýrt verði kveðið á um í lögunum að launamaður sem missir starf sitt vegna gjaldþrots félags geti átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði frá þeim degi sem kveðinn er upp úrskurður um að bú félagsins verði tekið til gjaldþrotaskipta meðan hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa, enda uppfylli hann skilyrði laganna.
    Áfram er gert ráð fyrir því skilyrði að launamaður framselji Atvinnuleysistryggingasjóði þann hluta launakröfu sinnar á hendur Ábyrgðasjóði launa er nemur fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem hann fær greiddar á þeim tíma sem hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um Ábyrgðasjóð launa.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að gerð verði breyting á 4. mgr. 57. gr. laganna í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögunum með lögum nr. 134/2009 og nr. 153/2010 á 59. gr. laganna þar sem kveðið er á um viðurlög við að láta hjá líða að veita upplýsingar eða að tilkynna um breytingar á högum.
    Við setningu laganna árið 2006 voru viðurlög samkvæmt 59. gr. bundin við þá háttsemi að veita Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar eða láta vísvitandi hjá líða að veita stofnuninni upplýsingar. Með áðurnefndum breytingarlögum var orðalagi ákvæðisins breytt og orðið „vísvitandi“ fellt út. Hins vegar fórst fyrir að gera sambærilegar breytingar á orðalagi lokamálsl. 4. mgr. 57. gr. og því varð ákveðið misræmi á milli 57. gr. og 59. gr. laganna.
    Umboðsmaður Alþingis vakti upphaflega athygli á framangreindu ósamræmi í lögunum og er hér verið að bregðast við ábendingum umboðsmanns hvað þetta varðar.

Um 7. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til er til samræmis við þær breytingar á lögunum sem mælt er fyrir um í 8. gr. og 9. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þær greinar.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði, 59. gr. a, þar sem kveðið verði á um viðurlög þegar hinn tryggði verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna og hefur ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna eða um að atvinnuleit hans sé hætt skv. 10. gr. laganna.
    Er þetta meðal annars lagt til í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016 í máli nr. E 2547/2015 en í málinu var deilt um heimildir Vinnumálastofnunar til að beita viðurlögum á grundvelli 60. gr. laganna. Í málinu taldi Vinnumálastofnun sannað að tryggður aðili hefði, án þess að tilkynna það til stofnunarinnar, starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Að mati Vinnumálastofnunar braut hann þar með gegn síðari málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfarið tók stofnunin þá ákvörðun á grundvelli 60. gr. laganna að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til viðkomandi og að hann skyldi ekki eiga rétt til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Þá var aðilanum gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna. Var ákvörðun Vinnumálastofnunar síðar staðfest af þáverandi úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með úrskurði 7. maí 2013 í máli nr. 81/2012.
    Samkvæmt fyrri málsl. 60. gr. laganna er skýrt kveðið á um að þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem orðið hafa á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða hann sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða í þeim tilvikum þegar hann hefur veitt vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum skuli hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Í síðari málsl. 60. gr. er kveðið á um að hið sama gildi um þann sem starfað hefur á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna.
    Í fyrrnefndu máli Héraðsdóms Reykjavíkur var deilt um hvort túlka bæri síðari málsl. 60. gr. laganna sem svo að með orðunum „Hið sama gildir“ væri einungis vísað til þeirra viðurlaga sem upp væru talin í fyrri málslið ákvæðisins eða hvort einnig væri vísað til þess að sanna þyrfti að hinn tryggði hefði vísvitandi starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur eða sætti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefði vísvitandi ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar að atvinnuleit væri hætt skv. 10. gr. laganna eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna.
    Í dómi héraðsdóms er tekið fram að horfa verði til samhengis ákvæðisins við 59. gr. laganna, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem kveðið er á um viðurlög vegna tilvika þegar atvinnuleitandi hefur látið hjá líða að veita upplýsingar eða að tilkynna um breytingar á högum sínum sem geta haft áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Að mati dómsins er ljóst að sú háttsemi sem lýst er í þeirri grein geti einnig fallið undir verknaðarlýsingu síðari málsl. 60. gr. laganna. Þá taldi dómurinn að miðað við forsögu síðari málsl. 60. gr., skýringar í lögskýringargögnum og samhengi ákvæðisins við 59. gr. laganna, svo og önnur ákvæði laganna, væri ekki ótvírætt hægt að skýra orðalag ákvæðisins á þá leið að það fæli í sér hreina hlutlæga ábyrgð atvinnuleitanda þegar um væri að ræða brot sem féllu undir síðari málsl. 60. gr. Því yrði að miða við að í verknaðarlýsingu síðari málsl. 60. gr. fælist krafa um að atvinnuleitandi hefði ætlað að afla sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti. Því var ákvörðun Vinnumálastofnunar, sem studd var af þáverandi úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, felld úr gildi í dómi héraðsdóms.
    Samkvæmt framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er Vinnumálastofnun ekki heimilt að beita 60. gr. laganna nema stofnunin geti sannað að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann hafi vísvitandi starfað á innlendum vinnumarkaði og hafi þannig haft ásetning til að afla sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti. Til að mæla skýrar fyrir um viðurlög við brotum, sem Vinnumálastofnun hafði fram að dómi héraðsdóms fellt undir síðari málsl. 60. gr., er lagt til að við lögin bætist ný grein, 59. gr. a, þar sem kveðið verði skýrt á um að hver sá sem hafi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur og verði uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna eða um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur. Hafi hinn tryggði brotið gegn ákvæðinu er gengið út frá því að honum verði gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 39. gr. laganna. Rétt þykir að ákvæðið gildi einungis um viðurlög vegna brota sem framin eru þegar tryggður aðili hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur enda verður að vera tryggt að þeir sem skráðir eru án atvinnu hjá stofnuninni hafi verið upplýstir með fullnægjandi hætti um þau viðurlög sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Hafi hinn tryggði hins vegar verið skráður án atvinnu skemur en fjórar vikur er gert ráð fyrir að 59. gr. gildi.

Um 9. gr.

    Í síðari málsl. 60. gr. laganna er kveðið á um að sá sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna.
    Hér er lagt til að fyrrnefndur síðari málsl. 60. gr. laganna verði felldur brott úr lögunum enda er í 8. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að við lögin bætist ný grein, 59. gr. a, þar sem kveðið verði á um að sá sem verði uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna eða að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 8. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Í 2. mgr. 6. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að greiðslur vinnuveitanda upp í kröfur skv. 5. gr. laganna sem hann innir af hendi fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti skuli koma til frádráttar hámarksábyrgð sjóðsins eða þeirri fjárhæð sem nýtur ábyrgðar sé hún lægri. Með sama hætti skuli atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur í uppsagnarfresti koma til frádráttar kröfum skv. b-lið 5. gr. laganna Skal greiðsla sjóðsins til launamanns nema þeirri fjárhæð sem eftir stendur.
    Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um að atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur frá uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og í uppsagnarfresti komi til frádráttar kröfum skv. a- og b-lið 5. gr. laganna. Er breyting þessi lögð til til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um atvinnuleysistryggingar með 5. gr. frumvarpsins. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 5. gr. frumvarpsins.