Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1432  —  313. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Árna Bjarnason frá Félagi skipstjórnarmanna, Valmund Valmundsson frá Sjómannasambandi Íslands, Guðmund Helga Þórarinsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Heiðmar Guðmundsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi skipstjórnarmanna, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins og Sjómannasambandi Íslands og Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Þá barst nefndinni minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Efni og áhrif frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald af skjölum sem varða eignayfirfærslu skipa verði afnumið. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að skip yfir fimm brúttótonnum séu einu atvinnutækin sem enn bera stimpilgjald þegar eignayfirfærsla á sér stað og að sjónarmið um jafnræði atvinnugreina mæli með því að gjaldið verði lagt af. Bent er á að breytingin sé jafnframt í „samræmi við það regluverk sem fyrirfinnst á Norðurlöndunum varðandi stimpilgjöld, en þar takmarkast stimpilgjöld almennt við fasteignaviðskipti“. Þá muni samþykkt frumvarpsins bæta rekstrarumhverfi skipa á Íslandi sem verði sambærilegra því sem er hjá erlendum samkeppnisaðilum og styrkja þar með stöðu íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegri samkeppni.
    Í sameiginlegri umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu segir „að stimpilgjaldslaus viðskipti með skip muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið enda dregur afnámið úr viðskiptakostnaði vegna kaupa og sölu skipa“. Bent er á að sjávarútvegurinn sé ekki eina atvinnugreinin sem nýtir skip á Íslandi heldur einnig aðrar greinar, m.a. vöruflutninga- og ferðaþjónustufyrirtæki. Frumvarpið liðki fyrir viðskiptum með skip og auki möguleika fyrirtækja á að ráðast í nauðsynlega endurnýjun og hagræðingu. Í umsögn samtakanna segir enn fremur: „Um þessar mundir eru eldsneytiskaup einn helsti rekstrarkostnaðarþáttur skipa og því hafa rekstraraðilar þeirra mikla hagsmuni af því að geta snurðulaust endurnýjað skip með minni eldsneytisnotkun fyrir augum. Endurnýjun á þeim grunni styður við loftslagsmarkmið.“
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið um að jafnræðisrök séu fyrir afnámi stimpilgjalds samkvæmt frumvarpinu sem og um að breytingin muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið og geti flýtt fyrir endurnýjun skipaflota með minni eldsneytisnotkun og jákvæð umhverfisáhrif fyrir augum.

Atvinnuöryggi sjómanna.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum hagsmunasamtaka sjómanna kom fram andstaða við framgang frumvarpsins sem byggðist á áhyggjum í þá veru að með því kynni atvinnuöryggi íslenskra sjómanna að vera ógnað. Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur jafnframt fram að staða íslenskra sjómanna breytist ekki verði frumvarpið að lögum. Vísa samtökin til 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þar sem fram kemur að við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni komi aðeins til greina þau fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Samgöngustofu eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 35/2010, þurfi allir sem starfa um borð í íslensku skipi að vera lögskráðir. Samtökin benda jafnframt á að um alla sjómenn á íslenskum skipum gildi sjómannalög, nr. 35/1985, og þar segi m.a. að um vinnu skipverja fari eftir þeim lögum og eftir atvikum kjarasamningum.
    Nefndin óskaði eftir afstöðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til álitaefnisins. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 10. mars sl., benti ráðuneytið m.a. á að frumvarpið mundi „í engu breyta kjörum sjómanna við veiðar íslenskra skipa á íslenskum aflaheimildum, sbr. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða og ákvæði kjarasamninga“. Í minnisblaðinu kemur jafnframt fram að samþykkt frumvarpsins muni leiða til þess að hægara verði að flytja skip tímabundið til annars ríkis, t.d. Grænlands, og að þannig geti orðið til nýjar eða auknar tekjur hjá íslenskum útgerðarfélögum og mögulega jafnframt tækifæri fyrir íslenska sjómenn.
    Meiri hlutinn telur að þessu virtu ekki ástæðu til að óttast að afnám stimpilgjalds af skjölum sem varða eignayfirfærslu skipa ógni atvinnuöryggi íslenskra sjómanna. Telur meiri hlutinn enn fremur að atvinnuöryggi starfsstétta beri að tryggja öðruvísi en með stimpilgjöldum á atvinnutæki, t.d. í lögum um viðkomandi atvinnugrein og í kjarasamningum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 15. maí 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Willum Þór Þórsson.