Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1433  —  313. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Frumvarpið kveður á um sértæka lækkun skatta sem er að mestu til hagræðis fyrir útgerðir sem kaupa og selja fiskiskip. 1. minni hluti telur þessa sértæku lækkun ótímabæra. Engar brýnar aðstæður kalla á að sköttum sé sérstaklega létt af útgerðinni eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ekki síst í ljósi þeirra erfiðu og óljósu tíma sem nú eru í efnahagsmálum.
    Fyrsti minni hluti telur hins vegar að brottfall allra stimpilgjalda sé til lengri tíma litið skynsamleg ráðstöfun enda lagði Viðreisn, ásamt þingmönnum Pírata og Flokks fólksins, fram frumvarp þess efnis í upphafi þessa þings, sbr. 93. þingmál, þegar efnahagshorfur voru mun bjartari. Það frumvarp gerir ráð fyrir að öll stimpilgjöld verði lögð af í áföngum. Nær væri að stíga slík skref á komandi árum.
    Fyrsti minni hluti leggst gegn samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 18. maí 2020.

Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Álfheiður Eymarsdóttir.