Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1460  —  328. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974,
með síðari breytingum (neyslurými).


(Eftir 2. umræðu, 19. maí.)


1. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 2. gr. getur embætti landlæknis veitt sveitarfélagi leyfi til að stofna og reka neyslurými þar sem varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. 6. gr., er heimil. Notanda neyslurýmis er heimilt að hafa í vörslu sinni það magn ávana- og fíkniefna sem hann ætlar að neyta í neyslurýminu.
    Sveitarfélagi sem fengið hefur leyfi skv. 1. mgr. og lögreglu er heimilt að gera samkomulag um að lögregla grípi ekki til aðgerða gegn notendum neyslurýmis á tilteknu svæði í kringum húsnæði neyslurýmis.
    Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem neytendur sem eru 18 ára og eldri geta sprautað ávana- og fíkniefnum í æð undir eftirliti starfsfólks og gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.
    Eingöngu er unnt að veita sveitarfélagi leyfi skv. 1. mgr. ef skilyrði reglugerðar sem ráðherra setur um neyslurými eru uppfyllt. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um:
     a.      Þjónustu sem veitt skal í neyslurými.
     b.      Hollustuhætti, svo sem um förgun sprautuúrgangs.
     c.      Verkefni, öryggi og hæfni starfsfólks.
     d.      Upplýsingaskyldu rekstraraðila gagnvart embætti landlæknis.
     e.      Setningu húsreglna.
     f.      Eftirlit með starfsemi neyslurýmis.
    Í neyslurými er vinnsla persónuupplýsinga heimil, þar á meðal um tegund og magn efna sem notandi ætlar að neyta í neyslurými, í þeim tilgangi að uppfylla skilyrði laga þessara og reglugerðar sem sett verður með stoð í þeim.
    Sveitarfélagi er heimilt að fengnu samþykki landlæknis að semja við félagasamtök um rekstur neyslurýmis að uppfylltum skilyrðum 4. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.