Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1493  —  523. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

Frá minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (AIJ, GuðmT, ÞSÆ).


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

             Eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra.

                 Ráðherra skipar þrjá menn í eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra. Skal einn skipaður samkvæmt tilnefningu Ríkisendurskoðunar, einn samkvæmt tilnefningu Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, og skal sá jafnframt vera formaður. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Formaður skal skipaður til fimm ára en aðrir til þriggja ára í senn.
                 Ráðherra greiðir kostnað af störfum nefndarinnar og sér henni fyrir nauðsynlegri starfsaðstöðu.
     2.      3. mgr. 2. gr. falli brott.
     3.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr., 1. málsl. 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. komi: eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra.
     4.      Á eftir orðinu „stjórnarfrumvarpa“ í 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. komi: og stjórnartillagna.
     5.      Á eftir orðunum „Æðstu handhöfum framkvæmdarvalds“ í 2. mgr. 5. gr. komi: og aðstoðarmönnum ráðherra.
     6.      6. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

             Ráðgjöf og eftirlit.

                 Eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra sinnir almennri ráðgjöf og eftirliti um hagsmunaskráningu og gjafir, hagsmunaverði, aukastörf og starfsval að loknum opinberum störfum skv. 3.–6. gr. Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum.
                 Nefndin setur sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um viðmið tengd skráningu og birtingu upplýsinga um hagsmuni, gjafir, fríðindi og hlunnindi skv. 3. gr., heimil aukastörf skv. 4. gr., viðmið um það hvenær hagsmunavörðum er skylt að tilkynna um sig og hlutverk sitt skv. 5. gr. og viðmið um veitingu undanþágu frá biðtíma skv. 6. gr.
                 Eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra getur að eigin frumkvæði tekið til skoðunar tilvik þar sem grunur er um brot æðstu handhafa framkvæmdarvalds, annarra en ráðherra, sem og aðstoðarmanna ráðherra á ákvæðum 3.–6. gr. Ef niðurstaða athugunarinnar er að brot hafi átt sér stað eða líklega átt sér stað skal nefndin tilkynna ráðherra og hlutaðeigandi ráðuneyti um niðurstöðu sína.
                 Eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra er heimil vinnsla persónuupplýsinga sem fram kunna að koma í þeim gögnum sem henni berast skv. 3.–6. gr. í þeim tilgangi að leggja mat á mögulega hagsmunaárekstra sem og til að sinna öðrum lögbundnum skyldum sínum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     7.      Við 7. gr.
                  a.      3. mgr. orðist svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er óheimilt að birta opinberlega þann hluta skránna sem tekur til skrifstofustjóra og er hann jafnframt undanþeginn upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum. Sama gildir um þann hluta skránna sem tekur til maka og ólögráða barna á framfæri æðstu handhafa framkvæmdarvalds og aðstoðarmanna ráðherra. Eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra getur þó ákveðið að birta upplýsingar úr skránni þegar almannahagsmunir krefjast þess.
                  b.      Við bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Eftirtaldar upplýsingar í skránum eru undanþegnar birtingu nema þegar eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra telur almannahagsmuni krefjast þess að þær skuli eigi leynt fara:
                      a.    skuldir og ábyrgðir vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota,
                      b.    skuldir og ábyrgðir vegna bifreiða til eigin nota,
                      c.    skuldir og ábyrgðir vegna námslána,
                      d.    skuldir og ábyrgðir við viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir ef fjárhæð er undir viðmiðunarmörkum nefndarinnar,
                      e.    gjafir, hlunnindi eða fríðindi í tengslum við starf ef verðmæti þeirra er undir viðmiðunarmörkum nefndarinnar.
                      Um þær forsendur sem liggja að baki mati nefndarinnar og viðmið fjárhæða d- og e-liðar 4. mgr. skal fjalla í starfsreglum nefndarinnar, sbr. 7. gr.
     8.      Við 8. gr.
                  a.      1. mgr. falli brott.
                  b.      Í stað orðanna „Þá er ráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: Ráðherra er.
     9.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Viðurlög.

             Ef brot skv. 3. mgr. 7. gr. telst varða verulega almannahagsmuni skal birta niðurstöðu nefndarinnar opinberlega.
     10.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Lög þessi skulu endurskoðuð eigi síðar en tveimur árum eftir gildistöku þeirra. Við þá endurskoðun verði m.a. horft til þess hvort ástæða sé til að fela eftirlitsnefnd um hagsmunaárekstra víðtækara hlutverk, til að mynda eftirlit með hagsmunaskráningu alþingismanna. Þá verði sérstaklega litið til þess hvernig útfæra megi samspil viðurlaga samkvæmt þessum lögum og öðrum lögum, til að mynda lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og lögum um ráðherraábyrgð.