Ferill 773. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1496  —  773. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001 (innlögn atvinnuleyfis).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Kristínu Helgu Markúsdóttur frá Samgöngustofu, Ásdísi Ásmundsdóttur frá Bifreiðastöð Oddeyrar, Harald Axel Gunnarsson frá Bifreiðastöðinni Hreyfli, Karl Karlsson frá Borgarbílastöðinni, Sigtrygg Magnússon frá City Taxi, Daníel Orra Einarsson, Árna Özur Árnason og Snæbjörn Jörgensen frá Bifreiðastjórafélaginu Frama og Kjartan Valdimarsson og Ingólf M. Jónsson frá A-stöðinni.
    Nefndinni barst umsögn frá Bifreiðastjórafélaginu Frama. Þá bárust nefndinni minnisblöð frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Almennt.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lög um leigubifreiðar, nr. 134/2001, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem geri leigubifreiðastjórum sem hafa haft atvinnuleyfi skemur en tvö ár kleift að leggja inn atvinnuleyfið á gildistíma ákvæðisins, það er til 31. desember 2020. Frumvarpinu er ætlað að gefa þeim hópi sömu möguleika á að bregðast við þeim samdrætti sem orðið hefur á leigubifreiðamarkaði vegna COVID-19 og leigubifreiðastjórum sem hafa nýtt atvinnuleyfið í tvö ár samfellt og geta á grundvelli 5. mgr. 9. gr. gildandi laga lagt inn atvinnuleyfið eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð um leigubifreiðar nr. 397/2003 með síðari breytingum. Þeir geti því lagt inn leyfið og sótt um atvinnuleysisbætur með sama hætti og leigubifreiðastjórar sem hafa nýtt atvinnuleyfi sitt í tvö ár samfellt. Nefndin áréttar að tímabilið frá gildistöku laganna til 31. desember 2020 markar þann tímaramma sem leigubifreiðastjórar sem undir ákvæðið falla hafa til innlagnar atvinnuleyfis. Um innlögnina að öðru leyti gildi sömu reglur og almennt eiga við um innlögn atvinnuleyfis leigubifreiðastjóra, sbr. fyrrnefnda reglugerð nr. 397/2003.

Endurgreiðsla vörugjalda við innlögn atvinnuleyfis.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að lagabreytingin myndi almennt nýtast leigubifreiðastjórum illa þar sem flestir þeirra hafi notið lækkunar vörugjalda við kaup á bifreið til reksturs. Við innlögn atvinnuleyfis innan tveggja ára frá nýskráningu bifreiðar séu skilyrði til lækkunar vörugjalds ekki lengur uppfyllt og því komi til greiðslu fulls vörugjalds í þeim tilvikum. Nefndin bendir á að umrædd ákvæði um lækkun vörugjalda er að finna í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum. Reglugerðin er á verksviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins og gildir um alla leigubifreiðastjóra sem hafa notið lækkunar vörugjalds við kaup á bifreið til reksturs óháð því hvað þeir hafa haft atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs lengi.
    Í minnisblaði sem nefndin óskaði eftir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kom fram að framkvæmdin hafi verið með þeim hætti að við veitingu eftirgjafar vörugjalds á leigubifreiðar væri skoðað hvort viðkomandi leigubifreiðastjóri hefði atvinnuleyfi, sbr. 1. tölul. 2. mgr. fyrrnefndar reglugerðar nr. 331/2000, og hefði aksturinn að aðalatvinnu, sbr. a-lið 3. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl, nr. 29/1993. Þau tilteknu skilyrði væru almennt ekki skoðuð frekar á síðari stigum ferlisins, þ.e. að tveimur árum liðnum, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 15. reglugerðarinnar. Af þeim sökum er það sameiginlegt mat ráðuneytisins og Skattsins að ekki sé þörf á að bregðast við þeim athugasemdum að leigubifreiðastjóri sem nú þegar nýtur eftirgjafar vörugjalds og skilar inn atvinnuleyfi sínu tímabundið lendi í þeim aðstæðum að þurfa að endurgreiða eftirgjöf vörugjaldsins, að því gefnu að hann uppfylli önnur skilyrði fyrir eftirgjöf vörugjalds.
    Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að leigubifreiðastjórar sem nú þegar njóta eftirgjafar vörugjalds geti nýtt sér tímabundna heimild 1. gr. frumvarpsins til innlagnar atvinnuleyfis án þess að það hafi áhrif á eftirgjöf vörugjalda sem þegar hefur verið veitt.

Hlutabótaleið og skilyrði um aðalatvinnu.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um hvort leigubifreiðastjórar ættu frekar að geta nýtt sér svokallaða hlutabótaleið með greiðslum á móti minnkuðu starfshlutfalli, sbr. lög nr. 23/2020, í stað innlagnar atvinnuleyfis og greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá kom til umræðu hvort skilyrðið um að leigubifreiðastjóri skuli hafa akstur leigubifreiðar að aðalatvinnu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar, kæmi í veg fyrir að hlutabótaleiðin stæði leyfishöfum til boða.
    Nefndin kallaði eftir upplýsingum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um réttaráhrif þess ef skilyrðið væri fellt á brott. Í minnisblaði sem nefndinni barst frá ráðuneytinu kemur fram að tilgangur löggjafans með skilyrðinu væri að tryggja ákveðið framboð á leigubifreiðaþjónustu til almennings. Rýmkun á ákvæði um aðalatvinnu myndi ekki breyta því að leigubifreiðastjórar yrðu að leggja inn atvinnuleyfið ef þeir ætluðu sér ekki að nýta það. Það væri hlutverk Vinnumálastofnunar að túlka áhrif slíks á rétt til atvinnuleysisbóta eða hlutabóta. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur þar af leiðandi að nefnt skilyrði um aðalatvinnu standi ekki í beinum tengslum við tilgang frumvarpsins að jafna rétt leyfishafa til innlagnar atvinnuleyfis.
    Að því er hlutabótaúrræðið varðar og möguleika leigubifreiðastjóra til nýtingar þess telur nefndin málefnið falla utan málefnasviðs umhverfis- og samgöngunefndar eins og það er afmarkað með þingsköpum. Þar að auki samræmist breytingartillögur í þá veru ekki markmiði og efni fyrirliggjandi frumvarps. Löggjöf er lýtur að skilyrðum til greiðslu atvinnuleysisbóta eða hlutabóta, og í því sambandi hvernig komið er til móts við sjálfstætt starfandi einstaklinga, er á málefnasviði velferðarnefndar. Við umfjöllun um frumvarp það er varð að fyrrnefndum lögum nr. 23/2020 fjallaði velferðarnefnd um málefni sjálfstætt starfandi einstaklinga sem vænta má að verði enn til skoðunar við umfjöllun um framlengingu hlutabótaleiðarinnar sem nú er til meðferðar í nefndinni (813. mál á þskj. 1427).

Breytingartillaga nefndar.
    Samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar ber þeim sem fær útgefið atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs að hefja nýtingu þess innan sex mánaða frá útgáfudegi, að öðrum kosti falli leyfið úr gildi. Þá skal leyfishafi hafa nýtt atvinnuleyfið samfellt í tvö ár áður en til fyrstu innlagnar kemur samkvæmt ákvæðinu. Að mati nefndarinnar er fyrirliggjandi frumvarp ekki skýrt um hvort leyfishafi þarf að hafa hafið nýtingu atvinnuleyfis þegar til innlagnar kemur á grundvelli tímabundinnar heimildar 1. gr. þess og hvort ónýtt leyfi sem lægi inni félli úr gildi sex mánuðum eftir útgáfudag. Nefndin telur það falla að tilgangi lagasetningarinnar, sem ætlað er að bregðast við samdrætti á leigubifreiðamarkaði vegna COVID-19, að leigubifreiðastjóri verði að hafa hafið nýtingu atvinnuleyfis síns til að eiga möguleika á að leggja það inn. Í því skyni að taka af öll tvímæli um framangreint leggur nefndin til þá breytingu á 1. gr. frumvarpsins að þar komi fram berum orðum að leigubifreiðastjóri þurfi að hafa hafið nýtingu atvinnuleyfis fyrir innlögn þess. Ekki skiptir máli hvort leigubifreiðastjóri hafi byrjað að nýta atvinnuleyfið fyrir eða eftir gildistöku laganna.
    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Í stað orðanna „lagt leyfið inn frá gildistöku þessara laga til 31. desember 2020“ komi: sem hafið hefur nýtingu atvinnuleyfis lagt leyfið inn.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2020.

    Karl Gauti Hjaltason skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 27. maí 2020.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason,
með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Vilhjálmur Árnason.