Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1562  —  569. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, með síðari breytingum (gjaldstofn og helmingsafsláttur).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Samtökum skattgreiðenda og Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, er varða gjaldstofn stimpilgjalds og skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að tilefni þess megi m.a. rekja til ábendinga sem umboðsmaður Alþingis kom á framfæri við fjármála- og efnahagsráðuneyti og vörðuðu þær kröfur sem stjórnarskráin gerði til skattlagningarheimilda. Þarft væri að kveða skýrar á um það í 2. mgr. 4. gr. laganna að miða skyldi gjaldskylda fjárhæð við matsverð í samræmi við byggingarstig á afhendingardegi þegar misræmi væri á byggingarstigi á kaupsamningsdegi og afhendingardegi. Þá teldi umboðsmaður jafnframt að lögin þyrftu að mæla skýrar fyrir um þau viðmið eða aðferðir sem sýslumaður skuli leggja til grundvallar þegar hann ákvarðar gjaldstofn og ekki er hægt að byggja á skráðu matsverði eignar á kaupsamningsdegi.
    Þá er með frumvarpinu brugðist við því að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi, sbr. 3. og 4. mgr. laganna, og framkvæmd þess hafi orðið óljós í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 103/2019 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að skýra ætti skilyrðið með þeim hætti að við framkvæmd þess bæri að líta fram hjá íbúðareign sem til hefði komið vegna arftöku hlutaðeigandi, enda hefði hann ekki haft hana til eigin nota. Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmd skilyrðisins verði einfölduð með því að kveða með skýrari hætti á um að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi verði bundið við að einstaklingur hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði, hvort sem fyrra eignarhald hafi komið til með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti.
    Loks er lagt til að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi vegna kaupa á fyrstu íbúð, um að viðkomandi þurfi að vera þinglýstur eigandi a.m.k. að helmingi þeirrar eignar sem keypt er, verði fellt niður. Með hliðsjón af stöðu á fasteignamarkaði og að teknu sérstöku tilliti til einstaklinga sem kaupa sitt fyrsta íbúðarhúsnæði er lagt til að umrætt skilyrði falli brott úr lögum svo að fyrstu kaupendur eigi fjölbreyttari möguleika um hvernig eignarhlutfalli þeirra á hinu keypta íbúðarhúsnæði er háttað.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu sem er tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      Í stað a- og b-liðar komi einn stafliður, svohljóðandi: 4. mgr. orðast svo:
                      Skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi skv. 3. mgr. eru þau að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti.
     b.      Í stað „skv. a-lið 4. mgr.“ í c- og d-lið komi: sbr. 4. mgr.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Smári McCarthy voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. maí 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson.
Brynjar Níelsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Willum Þór Þórsson.