Ferill 457. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1684  —  457. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, með síðari breytingum (móttaka flóttafólks og innflytjendaráð).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Blöndal, Lindu Rós Alfreðsdóttur og Þór Hauksson Reykdal frá félagsmálaráðuneyti, Heru Ósk Einarsdóttur og Hilmu Sigurðardóttur frá Reykjanesbæ, Joanna Marcinkowska frá Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Nínu Helgadóttur frá Rauða krossinum á Íslandi, Rúnar Helga Haraldsson frá Fjölmenningarsetri, Veru Dögg Guðmundsdóttur og Sigurbjörgu Rut Hoffritz frá Útlendingastofnun, Vigdísi Evu Líndal og Gunnar Inga Ágústsson frá Persónuvernd, Guðjón Bragason, Tryggva Þórhallsson og Önnu Guðrúnu Björnsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Persónuvernd, Rauða krossinum á Íslandi, Reykjanesbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Útlendingastofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, sem miða m.a. að því að fela Fjölmenningarsetri víðtækara hlutverk vegna samræmdrar móttöku flóttafólks með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks, með ýmsum hætti.

Samræmd móttaka flóttafólks og samráð.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að í lögum og reglum um móttöku flóttamanna og þjónustu við þá sem og varðandi innflytjendur sé brýnt að huga sérstaklega að aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks almennt og sérstaklega barna og ungmenna. Einnig kom fram að hætta sé á því að fatlað fólk af erlendum uppruna fari á mis við þjónustu sem það á rétt á lögum samkvæmt vegna skorts á viðeigandi stuðningi. Einnig kom fram það sjónarmið að æskilegt væri að hafa samsetningu Innflytjendaráðs breiðari með tilliti til fulltrúa innan ráðsins, enda er um mjög góðan ráðgjafarvettvang að ræða sem styður við vinnu ráðuneyta. Við umfjöllun nefndarinnar hafa einnig komið fram sjónarmið um mikilvægi þess að virkt og formlegt samráð sé viðhaft við helstu aðila sem komi að málefnum flóttafólks og til að tryggja það sé þörf á að það komi fram hvaða aðila átt sé við í 3. mgr. a-liðar 2. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn telur að mikilvægt sé við samráð að kannað sé hvaða aðilar komi að móttöku flóttafólks á Íslandi hverju sinni og hvort til staðar séu virk hagsmunasamtök fyrir þann hóp. Meiri hlutinn leggur enn fremur áherslu á að hugað verði sérstaklega að viðkvæmum hópum og að hagsmunaaðilar verði kallaðir til ef þörf er á. Einnig leggur meiri hlutinn áherslu á að samráð verði haft við heilbrigðisstofnanir.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram ábending frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að þörf kynni að vera á að félagsmálaráðuneyti vistaði sérstakan sjóð, viðbragðssjóð, sem aðstoðaði sveitarfélög við að mæta óvæntum kostnaði vegna móttöku flóttafólks.
    Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að metin verði þörf á slíku úrræði og eftir atvikum umfangi í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að óljóst sé í 2. gr. frumvarpsins hvort Fjölmenningarsetur eigi aðeins að sinna ráðgjöf til sveitarfélaga vegna einstaklinga sem fá stöðu flóttamanns og mannúðarleyfi hér á landi, en ekki til ríkisfangslausra einstaklinga sem fá alþjóðlega vernd á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sem ekki séu skilgreindir sem flóttamenn. Skilgreiningu á hugtakinu alþjóðleg vernd megi finna í 1. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og nær það yfir flóttafólk, þá sem fá mannúðarleyfi, viðbótarvernd og ríkisfangslausa og því eigi það betur við heldur en hugtakið flóttamenn ef ætlunin sé að ákvæðið nái til allra þeirra sem fái alþjóðlega vernd.
    Meiri hlutinn getur tekið undir að óljóst sé nákvæmlega til hvaða hópa hugtakið flóttafólk taki, sé höfð hliðsjón af ákvæðum laga um útlendinga. Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð frumvarpsins komi fram að með hugtakinu flóttafólk sé vísað til einstaklinga sem hafi fengið stöðu flóttamanns á grundvelli 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, einstaklinga sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann sem hefur fengið stöðu skv. 37. gr. sömu laga, einstaklinga sem fengið hafa synjun um hæli en fengið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. sömu laga og einstaklinga sem íslenska ríkið hefur boðið að setjast að á Íslandi í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skv. 43. gr. sömu laga. Í 1. tölul. 3. gr. laga um útlendinga er hugtakið alþjóðleg vernd skilgreint þannig að undir það falli vernd einstaklinga sem hingað leita og fullnægja skilyrðum A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, verndar sem veitt er á grundvelli reglna um viðbótarvernd og verndar sem veitt er ríkisfangslausum einstaklingum samkvæmt samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954. Skilgreiningin nái því t.d. ekki til einstaklinga sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.
    Til skýringar á því til hvaða hópa samræmd móttaka Fjölmenningarseturs, í samráði við sveitarfélög, taki leggur meiri hlutinn til breytingartillögur þess efnis að í stað þess að mælt sé fyrir um að móttakan taki til flóttafólks komi fram í ákvæðinu til hvaða einstaklinga móttakan eigi að taka, með vísan til viðeigandi lagaákvæða. Móttakan muni því ná til einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á grundvelli 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, einstaklinga sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann sem fengið hefur stöðu skv. 37. gr., ríkisfangslausra einstaklinga sem hlotið hafa vernd á grundvelli sömu greinar og skv. 39. gr. sömu laga, hópa flóttafólks, sbr. 43. gr. sömu laga og einstaklinga sem fengið hafa dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. sömu laga. Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á fyrirsögn frumvarpsins til samræmis við framangreinda breytingartillögu um þá einstaklinga sem móttakan mun taka til.

Persónuvernd.
    Fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið er varða persónuvernd, m.a. um að skýra þurfi nánar tilgang að baki vinnslu persónuupplýsinga með vísan til hlutverks og verkefna Fjölmenningarseturs. Fyrir nefndinni komu fram þær skýringar að hlutverk Fjölmenningarseturs felist m.a. í því að halda utan um boð móttökusveitarfélaga um búsetu og þjónustu til flóttamanna sem hafi fengið stöðu hér á landi á grundvelli laga um útlendinga. Í því felist nánar til tekið að para saman einstaklinga við sveitarfélög og byggist sú pörun á því að ákveðnar grunnupplýsingar liggi fyrir svo að hægt sé að velja sveitarfélög sem geti sinnt þörfum einstaklingsins sem best. Við framkvæmd þess hlutverks þurfi Fjölmenningarsetur að safna upplýsingum frá sveitarfélögum með hliðsjón af ákveðnum þáttum sem skipta máli fyrir búsetu fólksins sem um ræðir, svo sem möguleika á námi, aðgangi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifærum og samgöngum. Einnig þurfi að safna upplýsingum um aðstæður fólksins sjálfs.
    Að mati meiri hlutans og í ljósi skýringa sem fram komu fyrir nefndinni er hlutverk Fjölmenningarseturs skýrt í frumvarpinu þar sem setrið muni m.a. veita aðstoð við að tengja saman einstaklinga við sveitarfélög sem geti uppfyllt þarfir viðkomandi á sem bestan hátt. Til þess að geta sinnt því hlutverki þurfi setrið að vinna með persónuupplýsingar um einstaklinga til að þeir fái þjónustu frá sveitarfélagi sem henti best þörfum einstaklinganna.
    Þá komu fram sjónarmið um að óskýrt sé hvort brýn nauðsyn kalli á að Fjölmenningarsetri sé nauðsynlegt að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar, t.d. upplýsingar um stéttarfélagsaðild, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar. Þörf sé á skýrri afstöðu til þess hvaða tegundir persónuupplýsinga Fjölmenningarsetur hafi heimild til að vinna með vegna hlutverks síns og einnig þurfi að tilgreina tilgang slíkrar vinnslu persónuupplýsinga með skýrari hætti. Fyrir nefndinni komu fram þær skýringar að Fjölmenningarsetur muni ekki safna lífkennaupplýsingum. Þær upplýsingar sem það muni vinna með eru m.a. upplýsingar um hvaðan fólk komi, reynsla þeirra og sálræn áföll, upplýsingar um menntun, fyrri atvinnuþátttöku og fjölskylduhagi, þjóðernisuppruni og heilsufarsupplýsingar, í þeim tilgangi að meta þörf viðkomandi á þjónustu.
    Nefndin leitaði skýringa hjá félagsmálaráðuneyti sem benti á að í greinargerð er tekið fram að Fjölmenningarsetri verði ekki heimilt að afla viðkvæmra gagna nema brýna nauðsyn beri til eða hjá upplýsingaöflun verði ekki komist vegna eðlis máls. Sú heimild sem lögð er til í b-lið 2. gr. frumvarpsins er því nauðsynleg svo að Fjölmenningarsetur geti sinnt því hlutverki sem því er ætlað, þ.e. að para saman sveitarfélög og einstaklinga byggt á þörfum einstaklingsins og getu sveitarfélagsins. Má þar nefna aðgengi að heilbrigðisþjónustu, val á búsetu, húsnæði og fjölskylduhagi svo dæmi séu tekin.
    Meiri hlutinn telur brýnt að bæta móttöku einstaklinga með vernd sem hafi ríka þörf fyrir aukinn stuðning fyrst við komu til landsins. Því er mikilvægt að þau sveitarfélög sem taka á móti einstaklingum með vernd geti sinnt þeim vel, fái aukið svigrúm til þess og ákvarðanataka fari fram á grundvelli fullnægjandi upplýsinga. Fjölmenningarsetri getur því verið nauðsynlegt að vinna með persónuupplýsingar, þar á meðal viðkvæmar persónuupplýsingar til að uppfylla hlutverk sitt við samræmda móttöku einstaklinga með vernd við pörun sveitarfélaga og einstaklinga. Mikilvægt er að einstaklingar sem hafi sérþarfir eða þörf á umönnun á sviði heilbrigðis- eða félagsþjónustu séu paraðir við móttökusveitarfélag sem geti komið sem best til móts við þarfir viðkomandi einstaklinga, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Einnig er mikilvægt að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga fari fram á grundvelli skýrra lagaákvæða og leggur meiri hlutinn því til breytingu sem tryggir Fjölmenningarsetri heimild til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar og þjóðernislegan uppruna einstaklinga í framangreindum tilgangi.

Fræðsluskylda.
    Við umfjöllun nefndarinnar hafa komið fram sjónarmið um að ekki sé skýrt til hvaða stofnunar sé vísað í 3. mgr. b-liðar 2. gr. frumvarpsins um það hvort skyldan til að veita hinum skráða fræðslu um vinnslu persónuupplýsinga hvíli á Fjölmenningarsetri eða hvort hún nái til þeirrar stofnunar sem miðlar persónuupplýsingum til Fjölmenningarseturs. Eðlilegt sé að skyldan hvíli á Fjölmenningarsetri þar sem fræðslan fari fram í tengslum við samskipti hinna skráðu við Fjölmenningarsetur.
    Meiri hlutinn telur það vera til bóta að gera orðalagsbreytingu á 3. mgr. b-liðar 2. gr. þess efnis að vísað sé til Fjölmenningarseturs berum orðum og því sé skýrt á hvaða stofnun framangreind skylda hvílir og því leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 2. gr.
                  a.      A-liður (3. gr. a) orðist svo:

Samræmd móttaka einstaklinga með vernd.


                       Fjölmenningarsetur skal veita móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku einstaklinga sem fengið hafa stöðu flóttamanna skv. 1. eða 2. mgr. 37. gr., einstaklinga sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann sem fengið hefur stöðu skv. 37. gr., einstaklinga sem fengið hafa synjun um hæli en fengið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr., einstaklinga sem íslenska ríkið hefur boðið að setjast að á Íslandi í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skv. 43. gr. og ríkisfangslausra einstaklinga skv. 2. mgr. 37. gr. og 39. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Fjölmenningarsetur, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag, býður einstaklingum skv. 1. málsl. að setjast að í tilteknu móttökusveitarfélagi á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.
                       Fjölmenningarsetur veitir einstaklingum með vernd skv. 1. mgr. sem ákveða að þiggja ekki boð um búsetu í móttökusveitarfélagi upplýsingar um almenna þjónustu sveitarfélaga.
                       Fjölmenningarsetur skal halda utan um og standa fyrir samráði milli þeirra aðila sem koma að móttöku einstaklinga með vernd skv. 1. mgr. á Íslandi.
                  b.      Í stað orðanna „flóttafólks samkvæmt lögum þessum“ í 2. mgr. b-liðar (3. gr. b) komi: einstaklinga með vernd skv. 3. gr. a.
                  c.      Á eftir 2. mgr. b-liðar (3. gr. b) komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                       Fjölmenningarsetri er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar og þjóðernislegan uppruna einstaklinga, í þeim tilgangi að uppfylla hlutverk sitt skv. 3. gr. a við samræmda móttöku einstaklinga með vernd skv. 1. mgr. 3. gr. a.
                  d.      Í stað orðsins „Stofnuninni“ í 3. mgr. b-liðar (3. gr. b) komi: Fjölmenningarsetri.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð).

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 11. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Birgir Ármannsson. Guðmundur Ingi Kristinsson. Halldóra Mogensen.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.