Ferill 713. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1801  —  713. mál.
Viðbót.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis og lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Svövu Pétursdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Guðna Magnús Eiríksson og Þorstein Hilmarsson frá Fiskistofu, Elías Blöndal frá Landssambandi veiðifélaga, Ernu Karen Óskarsdóttur og Viktor S. Pálsson frá Matvælastofnun, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi veiðifélaga, Matvælastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Markmið frumvarpsins er einföldun regluverks og stjórnsýslu á sviði sjávarútvegs og fiskeldis. Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að felld verði brott 22 lög sem eru talin úrelt eða óþörf. Einnig er lagt til að leyfisskylda til dragnótaveiða verði felld niður og þess í stað verði fjallað um veiðarnar í reglugerð. Þá er lagt til að úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla verði lögð niður og ráðuneytinu falið verkefni þeirrar nefndar.

Umfjöllun nefndarinnar.
Lágmarkseignarhlutdeild lögskráðra sjómanna.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að felldur verði brott 3. málsl. 11. mgr. 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, en þar er kveðið á um að ef eigandi fiskiskips er lögaðili sé heimilt með reglugerð að mæla fyrir um að lögskráðir sjómenn á fiskiskipinu eigi tiltekna lágmarkseignarhlutdeild í lögaðilanum. Sú athugasemd var gerð að í stað þess að fella málsliðinn brott ætti fremur að virkja ákvæðið og setja skilyrði um lágmarkseignarhlutdeild í lögaðila, hvort sem það væri gert með lögum eða í reglugerð. Ekki ætti að fella ákvæðið brott vegna sniðgöngu í framkvæmd. Umhugsunarvert væri hvort með breytingunni væri farið gegn markmiði strandveiða um að greiða fyrir nýliðun í sjávarútvegi og auðvelda fólki að afla sér reynslu og þekkingar.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram í athugasemdum við 4. gr. að ákvæðið hafi reynst erfitt í framkvæmd þar sem auðvelt hafi verið að sniðganga það með því að leggja síðar fram gögn sem sýndu fram á eignarhald sjómanna. Ástæðan hafi verið sú að Fiskistofa krafðist ekki fylgigagna með umsókn um strandveiðileyfi sem sýndu fram á að umsækjandi eða sá sem ætlaði að vera lögskráður á skipið ætti hlut í bátnum eða félaginu sem ætti bátinn, enda væri um að ræða mikinn fjölda umsókna sem þyrfti að fara yfir á skömmum tíma. Af þeim sökum hafi reglan reynst óskilvirk og ætti því að fella hana úr gildi. Eftir sem áður verði í ákvæðinu mælt fyrir um að enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi geti átt aðild að nema einu strandveiðileyfi.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið í greinargerð frumvarpsins.
Sótthreinsun veiðibúnaðar og veiðitækja (15. gr.).
    Í a-lið 15. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 8. gr. laga um varnir gegn fisksjúkdómum að skylt verði að sótthreinsa veiðibúnað áður en hann er notaður til veiða í íslensku veiðivatni, enda liggi ekki fyrir fullnægjandi vottorð að mati Matvælastofnunar en auk þess geti stofnunin falið tollyfirvöldum framkvæmd aðgerða eftir því sem við á.
    Samkvæmt gildandi ákvæði er skylt að sótthreinsa veiðitæki sem notuð hafa verið erlendis áður en þau eru flutt inn í landið. Sótthreinsun fer fram í flughöfnum og innflutningshöfnum og er eftir atvikum í höndum tollyfirvalda eða einkaaðila en Matvælastofnun hefur sinnt eftirliti og gefið leiðbeiningar. Í Leifsstöð er sótthreinsun t.d. í höndum einkaaðila en í Seyðisfjarðarhöfn sinna tollyfirvöld eftirliti og sótthreinsun.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að starfsmenn Matvælastofnunar hafa á hverju ári sótthreinsað nokkra tugi veiðitækja sem komist hafa inn í landið eða borist með öðrum hætti, svo sem með skipum, einkaflugvélum eða í pósti. Með framangreindri breytingu, geti Matvælastofnun falið umráðamönnum veiðistaða framkvæmd sótthreinsunar í samræmi við reglur sem stofnunin setur með það að markmiði að einfalda framkvæmdina, ná fram auknu hagræði fyrir alla aðila og vernda veiðivötn og ár m.a. með aðkomu umráðamanna veiðistaða sem hafa beina hagsmuni af slíkum sóttvörnum. Um er að ræða sambærilegt fyrirkomulag því sem verið hefur í nágrannalöndunum Noregi og Færeyjum, en við meðferð málsins kom fram að sú sótthreinsun sem hér um ræðir er þess eðlis að til hennar þarf aðeins aðstöðu til þrifa. Þá kom fram að Matvælastofnun sér ekkert því til fyrirstöðu að fyrirkomulagið verði að mestu óbreytt að öðru leyti, þ.e. að tollyfirvöld hafi með höndum eftirlit og áfram verði boðið upp á sótthreinsun á notuðum veiðibúnaði í Leifsstöð og Seyðisfjarðarhöfn.
    Með hliðsjón af framangreindu leggst meiri hlutinn ekki gegn þessari breytingu en ítrekar mikilvægi þess að innfluttur notaður veiðibúnaður sé sótthreinsaður fyrir notkun í veiði og að fyrir liggi vottorð því til sönnunar en að öðru leyti sé ekki gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi á sótthreinsun veiðitækja í flughöfnum og innflutningshöfnum landsins.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Leyfi til veiða með dragnót.
    Með frumvarpinu er lagt til að veiðar með dragnót verði heimilar í allri fiskveiðilandhelgi Íslands en nú gildir að veiðar innan 12 sjómílna frá viðmiðunarlínu eru háðar leyfi Fiskistofu, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 79/1997. Meiri hlutinn telur að á grundvelli gildandi laga sé hægt að einfalda framkvæmdina. Þannig megi með breytingu á reglugerð mæla fyrir um að sérveiðileyfi til dragnótaveiða geti gilt til lengri tíma en eins árs í senn, t.d. með því að láta sérveiðileyfi gilda jafnlengi og skip hefur leyfi til veiða í atvinnuskyni. Því telur meiri hlutinn ekki þörf á að breyta lögum til að einfalda stjórn dragnótaveiða og leggur til að a- og c-liður 1. gr. falli brott.

Kæruheimild vegna ákvarðana Fiskistofu.
    Með breytingum sem lagðar eru til í 25. og. 26. gr. frumvarpsins á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, verður úrskurðarnefnd um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla lögð niður og í staðinn verður heimilt samkvæmt lögunum að kæra ákvarðanir Fiskistofu til ráðuneytisins. Lagt er til að kveðið verði á um kæruheimild og kærufrest aðila vegna ákvarðana Fiskistofu um álagningu gjalds tvívegis, bæði í 3. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna, sbr. 25. og 26. gr. frumvarpsins. Í ljósi þess leggur meiri hlutinn til að aðeins verði mælt fyrir um almenna kæruheimild og kærufrest vegna ákvarðana Fiskistofu um álagningu gjalds í 8. gr. laganna, sbr. 26. gr. frumvarpsins. Jafnframt verði orðalagi ákvæðisins breytt og í stað orðsins kærandi komi orðið aðili, til samræmis við þá breytingu að leggja fyrrgreinda úrskurðarnefnd niður.
Lög um að miða við gullkrónur sektir fyrir landhelgisbrot.
    Við meðferð málsins kom fram að með því að fella á brott lög um að miða við gullkrónur sektir fyrir landhelgisbrot, nr. 4/1924, muni sektarheimild í 1. mgr. 10. gr. laga um hvalveiðar, nr. 26/1949, sem vísar til framangreindra laga, falla niður. Meiri hlutinn leggur því til að fallið verði frá því að fella á brott lög nr. 4/1924 að svo stöddu.

    Að lokum leggur meiri hlutinn til minni háttar breytingar til leiðréttingar og lagfæringar. Þeim breytingum er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      A- og c-liður 1. gr. falli brott.
     2.      2. gr. falli brott.
     3.      D-liður 9. gr. orðist svo: Á eftir 8. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Útgerð viðkomandi skips skal skrá netfang móttakanda hjá Fiskistofu til að eiga rétt á tilkynningum samkvæmt þessari málsgrein.
     4.      25. gr. orðist svo:
                 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna falla brott.
     5.      Í stað orðsins „kærandi“ í 26. gr. komi: aðili.
     6.      Í stað orðanna „skv. 3. mgr. 7. gr.“ í b-lið 28. gr. komi: skv. 8. gr.
     7.      29. gr. orðist svo:
                 2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.
     8.      2. tölul. 2. mgr. 31. gr. falli brott.
     9.      32. gr. verði 2. mgr. 31. gr.

    Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.


Alþingi, 20. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigurður Páll Jónsson.