Ferill 714. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1893  —  714. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur og Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni frá Matvælastofnun, Guðrúnu Gauksdóttur og Erlu Friðriksdóttur frá Æðarræktarfélagi Íslands, dr. Ólaf R. Dýrmundsson markavörð í Landnámi Ingólfs Arnarsonar og fyrrverandi landsmarkavörð, Sigurð Sigurðarson dýralækni og fyrrverandi formann Landsmarkanefndar, Unnstein Snorra Snorrason frá Landssamtökum sauðfjárbænda og Hallgerði Hauksdóttur frá Dýraverndarsambandi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir og erindi um málið frá Dýralæknafélagi Íslands, Matvælastofnun, dr. Ólafi R. Dýrmundssyni markaverði í Landnámi Ingólfs Arnarsonar og fyrrverandi landsmarkaverði, Sigurði Sigurðarsyni dýralækni og fyrrverandi formanni Landsmarkanefndar og Æðarræktarfélagi Íslands.

Umfjöllun.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum á sviði matvæla og landbúnaðar með það að markmiði að einfalda regluverk og stjórnsýslu. Auk þess er lagt til að alls verði felldir á brott tólf lagabálkar í heild í sinni. Verði frumvarp þetta að lögum verða verkefni ýmist flutt til innan stjórnsýslunnar, þau einfölduð eða felld niður þannig að stjórnsýsla verði skilvirkari og markvissari. Álögum verður létt af atvinnulífinu með einföldun á regluverki í starfsumhverfinu og með niðurfellingu skráningar- og tilkynningarskyldu í ákveðnum til fell um. Í greinargerð með frumvarpinu segir að við undirbúning þess hafi víðtækt samráð verið haft við helstu hagsmunaaðila og stofnanir ráðuneytisins, svo sem Matvælastofnun, Bændasamtök Íslands og undirsamtök þeirra, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Sam tök verslunar og þjónustu o.fl. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (1. gr.).
    Með 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 6. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr þess efnis að heimild til útgáfu leyfisbréfs til starfa sem dýralæknir verði færð frá ráðherra til Matvælastofnunar þar sem yfirdýralæknir starfar. Ráðherra setji nánari fyrirmæli um veitingu leyfisins í reglugerð.
    Dýralæknafélag Íslands og Matvælastofnun leggja í umsögnum sínum til að við einföldun leyfisveitingar til dýralækna, þ.e. að leyfisveitingar verði færðar alfarið til Matvælastofnunar án aðkomu ráðuneytisins, verði skýrt að faglegt mat verði í höndum yfirdýralæknis. Meiri hlutinn bendir í því samhengi á að í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr er almennt vísað til hlutverks Matvælastofnunar, óháð því hvort það er yfirdýralæknir eða annar aðili innan stofnunarinnar sem fer með tiltekið hlutverk en hvergi í lögunum er vísað sérstaklega til yfirdýralæknis. Í því ákvæði sem lagt er til að breyta, þ.e. 6. gr. laganna, segir að ráðherra veiti leyfi til dýralækninga að fenginni umsögn Matvælastofnunar en ekki er sérstaklega tekið fram að yfirdýralæknir veiti slíka umsögn. Með vísan til framangreinds telur meiri hlutinn því nægilegt að vísa til þess að Matvælastofnun veiti leyfi til dýralækninga enda sé gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari fyrirmæli um veitingu leyfis í reglugerð.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (1. gr.).
    Með 1. gr. er einnig lögð til sú breyting á 6. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr að fella á brott ákvæði sem skyldar dýralækna til að undirrita eiðstaf við leyfisveitingu til dýralækninga. Matvælastofnun gerir í umsögn sinni athugasemd við þá tillögu og vísar til þess að reynslan sýni að undirritaðir eiðstafir hafi mikið siðferðislegt gildi og séu teknir alvarlega af þeim sem gangist undir þá. Meiri hlutinn fellst á þau sjónarmið og leggur því til að dýralæknum verði áfram skylt að undirrita eiðstaf við veitingu leyfis til dýralækninga hér á landi.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni lagði ráðuneytið til að til einföldunar yrðu sambærilegar breytingar gerðar á 10. gr. laganna og lagt er til að gera á 6. gr. þeirra, með því að Matvælastofnun í stað ráðherra veiti dýralæknum leyfi til að kalla sig sérfræðinga og starfa hér á landi. Meiri hlutinn fellst á það sjónarmið og leggur til breytingu þar að lútandi.

Lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (5. gr.).
    Í 5. gr. er lagt til að felld verði niður tilkynningarskylda innflytjenda og framleiðenda fóðurs innan Evrópska efnahagssvæðisins, að undanskildum áburði, sáðvöru, lyfjablönduðu fóðri, fóðuraukefnum og forblöndum þeirra. Þó gildi tilkynningarskyldan áfram við innflutning og framleiðslu á þeim vörum sem og öllu fóðri sem flutt er inn frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Matvælastofnun bendir í umsögn sinni á að rétt sé að gera orðalag ákvæðisins skýrara þannig að ljóst sé að áfram er skylt að skrá alla framangreinda liði vegna innflutnings frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meiri hlutinn fellst á það sjónarmið og leggur til viðeigandi breytingu á orðalagi ákvæðisins.

Lög um velferð dýra (9. gr.).
    Með 9. gr. er lagt til að fellt verði brott ákvæði úr lögum um velferð dýra um að skylt sé að tilkynna Umhverfisstofnun um gildruveiði á minkum. Slík veiði er heimil skv. 21. gr. laga um dýravernd sem hluti af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum, sem heimilt er samkvæmt ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villt um spendýrum. Í máli gesta sem komu fyrir nefndina var bent á að líta þyrfti á niðurfellingu tilkynningarskyldu um gildruveiði á minkum í samhengi við lagaákvæði sem heimila slíka veiði. Áhersla var lögð á að heimildin yrði felld niður og öðrum aðferðum beitt við að halda minkastofninum í skefjum. Minnt var á að í lögum um velferð dýra er að finna ákvæði þar sem lögð er áhersla á að hvorki sé við veiðar villtra dýra né eyðingu meindýra beitt aðferðum sem valda þeim óþarfa limlestingum eða kvölum. Þá segir í umsögn Matvælastofnunar að sé það mat Alþingis að nauðsynlegt sé að hafa lagalega heimild til slíkra úrræða verði að tryggja einhverja opinbera aðkomu ríkis eða sveitarfélaga. Meiri hlutinn leggur því til að áfram verði skylt að tilkynna Umhverfisstofnun um gildruveiði á minkum.

Lög um afréttarmálefni, fjallskil, o.fl.
    Með V. kafla frumvarpsins er m.a. lagt til að aflögð verði sú skylda að eyrnamarka lömb en velji búfjáreigendur að marka lömb sín skuli áfram miðað við að þau séu eyrnamörkuð fyrir lok 12. viku sumars, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga, um afréttarmálefni, fjallskil, o.fl. Jafnframt verði markanefnd lögð niður og markaverði í staðinn falið að úrskurða í ágreiningi um mörk.
    Mikil umræða skapaðist innan nefndarinnar um þær tillögur sem lagðar eru fram í V. kafla, þá sérstaklega um afnám skyldu til eyrnamörkunar lamba. Skiptar skoðanir voru um málið í umsögnum og meðal gesta sem komu fyrir nefndina. Um mikilvægi þess að viðhalda skyldu til eyrnamörkunar var sérstaklega bent á tengsl mörkunar sauðfjár við sauðfjárveikivarnir og varnir gegn útbreiðslu smitsjúkdóma. Við meðferð málsins kom fram að Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands hefðu staðið að sameiginlegri umsögn um það inn á samráðsgátt stjórnvalda. Þar sagði að samtökin gerðu ekki athugasemdir við að skylda til eyrnamörkunar lamba yrði felld niður, en teldu þá eðlilegt að í reglugerð um merkingar búfjár yrði kveðið á um að merkja skuli lömb í bæði eyru, séu þau ekki eyrnamörkuð. Merkingin yrði gerð með forprentuðu merki og innan 30 daga frá burði. Þá kom fram í máli fulltrúa Landssamtaka sauðfjárbænda að eftir að frumvarpið var lagt fram hafi orðið nokkur umræða um málið. Fram komu hugmyndir um aðra útfærslu þannig að heimilt væri að veita undanþágu frá skyldu til eyrnamörkunar í ákveðnum tilfellum.
    Meiri hlutinn telur að vel athuguðu máli ekki tímabært að afnema skyldu til eyrnamörkunar lamba og leggur því til að ákvæði laganna standi óbreytt.

Lög um matvæli (frestun birtingar).
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að æskilegt væri að fresta til eins árs, gildistöku ákvæðis sem kveður á um að birta skuli opinberlega upplýsingar um flokkun fyrirtækja eftir frammistöðu þeirra samkvæmt matvælaeftirliti opinberra eftirlitsaðila, þ.e. bæði Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlitssvæða sveitarfélaga en samkvæmt gildistökuákvæði laga nr. 33/2018, um breytingu á lögum um matvæli, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu var gert ráð fyrir að slík birting hæfist 1. janúar 2021. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var óskað eftir afstöðu heilbrigðiseftirlitssvæða til þess hvort raunhæft sé að hefja slíka birtingu. Ráðuneytinu hefði borist sameiginlegt svar heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi sem er eftirfarandi:
     Stjórn SHÍ telur óraunhæft að hefja opinbera birtingu 1. janúar 2021, nema að slíkt kerfi verði tilbúið í góðum tíma, hafi farið í umsagnar- og kynningarferli hjá öllum hagaðilum þ.á.m. Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, þannig að hægt sé að innleiða slíkt.
    Með vísan til þess að undirbúningur er skammt á veg kominn auk þess sem samræmt eftirlitskerfi er forsenda þess að birtingar geti hafist leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að opinber birting hefjist 1. janúar 2022, í stað 1. janúar 2021.

    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar en þær sem að framan er getið eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Sigurður Páll Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 19. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigurður Páll Jónsson.