Ferill 975. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2145  —  975. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um móttöku flóttafólks.


     1.      Hvar stóð vinna við móttöku flóttafólks í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þegar stofnunin stöðvaði flutning flóttafólks tímabundið vegna COVID-19?
    Stjórnvöld höfðu móttekið RRF-skýrslur, Refugee Referral Files frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, áður en heimsfaraldurinn hófst. Um er að ræða skýrslur sem byggjast bæði á frásögnum einstaklinga sem og upplýsingum um stöðuna í því landi sem einstaklingur hefur neyðst til að flýja frá. Á grundvelli þessara skýrslna óskar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eftir því að íslensk stjórnvöld taki á móti ákveðnum einstaklingum og fjölskyldum þeirra. Útlendingastofnun og embætti ríkislögreglustjóra fara yfir skýrslurnar áður en samþykkt er að taka á móti fjölskyldunum. Þá taka íslensk stjórnvöld einnig viðtöl við hverja fjölskyldu og byggjast viðtölin á þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslunum. Vinna við yfirferð á skýrslunum hélt áfram óháð COVID-19 og er þeirri vinnu lokið af hálfu Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjóra. Ekki hefur verið mögulegt að taka viðtöl við einstaklinga enn sem komið er en þær tafir má rekja til þeirra aðstæðna og óvissu sem skapast hefur vegna COVID-19 um allan heim.

     2.      Hvað hefur unnist í átt að móttöku flóttafólks frá því að Flóttamannastofnunin hóf aftur að flytja flóttafólk á milli landa?
    Nauðsynlegt hefur verið að endurskoða allt verklag vegna móttöku flóttafólks vegna COVID-19 en sendinefnd á vegum íslenskra stjórnvalda hefur til þessa farið út og tekið viðtöl við einstaklingana og verið með samfélagsfræðslu fyrir hópana á staðnum. Fyrirkomulagið á samfélagsfræðslunni hefur verið mismunandi eftir aðstæðum en ýmist hafa íslensk stjórnvöld annast fræðsluna alfarið eða unnið hana í samstarfi við IOM, Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina. Félagsmálaráðuneytið vinnur nú að samningagerð við IOM. Sá samningur mun taka mið af breyttum aðstæðum, m.a. vegna COVID-19, og felur í sér að IOM annist samfélagsfræðslu á staðnum fyrir þá einstaklinga sem fá boð um að flytjast til Íslands, barnagæslu, bæði á meðan á viðtölum stendur sem og þegar boðið er upp á samfélagsfræðslu fyrir ungmenni og fullorðna, auk þess að útvega aðstöðu fyrir fjarviðtöl. Þá tekur samningurinn til flutnings á hópnum milli staða innan lands og til Íslands en inni í því er aðstoð vegna heilsufarsskimana sem gerðar eru til þess að meta hvort einstaklingar hafi heilsu til þess að ferðast og hvort þörf sé fyrir sérstaka aðstoð. Þá er mögulegt að óska eftir COVID-skimun sé talin þörf á því.

     3.      Hvenær er áætlað að lokið verði móttöku þess flóttafólks sem ríkisstjórnin samþykkti að taka á móti á yfirstandandi ári?
    Margir óvissuþættir eru vegna móttöku næsta hóps vegna COVID-19 en í ljósi fyrri reynslu má ganga út frá því að þrír mánuðir að lágmarki muni líða frá því að viðtölum lýkur og þar til hópurinn kemur til landsins. Ástæðan er sú að í flestum tilvikum þarf að útvega ferðagögn, taka myndir fyrir ferðaskilríki og útvega útgönguleyfi frá þarlendum stjórnvöldum sé þess krafist en sá ferill getur tekið langan tíma. Þá hafa flugsamgöngur raskast verulega um allan heim vegna heimsfaraldursins. Samkvæmt áætlun er fyrirhugað að halda samfélagsfræðslu eftir að viðtölum er lokið. Samfélagsfræðslan tekur um tvo til þrjá daga og felur í sér upplýsingar um Ísland og íslenskt samfélag en einnig mikilvægar upplýsingar um ferðatilhögun, menningaráföll og fleira sem undirbýr einstaklinga undir það að flytjast á ókunnar slóðir. Vegna þeirra tafa og þeirra óvissuþátta sem þegar hafa komið upp í þessu ferli er ólíklegt að sá hópur sem til stóð að taka á móti á yfirstandandi ári nái að koma hingað fyrir áramót en mikið kapp er lagt á að það gerist sem fyrst.

     4.      Telur ráðherra ástæðu til að taka við auknum fjölda flóttafólks á árinu en til stóð í ljósi aukinnar neyðar og aðstæðna víða um lönd, m.a. vegna sprengingarinnar í Líbanon og ákalls Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðarinnar um aukna aðstoð?
    Íslensk stjórnvöld hafa á síðustu árum unnið markvisst að því að auka móttöku flóttafólks í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Frá því að tekið var á móti hópnum á tveggja ára fresti var hafin árleg móttaka og síðan hefur verið unnið að því að fjölga árlega móttöku kvótaflóttafólks á síðustu árum.

    Móttaka kvótaflóttafólks frá 2018 og áætlanir um móttöku á næsta ári:
Ár Fjöldi
2018 52
2019 74
2020 85
2021 100