Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 160  —  159. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félagsdómur).

Frá félags- og barnamálaráðherra.



1. gr.

    Í stað orðsins „vinnusamningar“ í 3. málsl. 1. mgr. 9 gr. laganna kemur: kjarasamningar.

2. gr.

    39. gr. laganna orðast svo:
    Í Félagsdómi eiga sæti fimm dómarar sem skipaðir eru af ráðherra.
    Hæstiréttur skal tilnefna þrjá dómara, þar af forseta og varaforseta dómsins, og skulu þeir allir skipaðir ótímabundið. Hæstiréttur tilnefnir jafnframt tvo dómara til vara sem báðir skulu skipaðir ótímabundið. Þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skulu vera skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Skal Hæstiréttur gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast meðal tilnefndra dómara nema hlutlægar ástæður leiði til annars.
    Tveir dómarar og jafnmargir til vara skulu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar og skulu þeir skipaðir til þriggja ára í senn. Þeir skulu uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.
    Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í Samtökum atvinnulífsins skal sá dómari sem tilnefndur er af samtökunum víkja sæti. Í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það í síðasta lagi við þingfestingu málsins, ella tilnefnir forseti dómsins dómarann. Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara sem tilnefndur er af Alþýðusambandi Íslands. Skal tilnefndur dómari uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.
    Þegar mál skv. 2. mgr. 44. gr. koma til meðferðar í Félagsdómi skulu þeir dómendur sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands víkja sæti. Í þeirra stað tilnefna stefnandi og stefndi hvor sinn mann úr hópi 18 manna sem tilnefndir eru af Iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands og Samtökum iðnaðarins til þriggja ára í senn. Iðnsveinaráðið tilnefnir sex menn og Samtök iðnaðarins tólf menn. Samtökin tilnefna með sama hætti jafnmarga varamenn. Nú tilnefnir aðili ekki dómara eða ekki næst samkomulag um tilnefninguna milli aðila máls og nefnir forseti Félagsdóms þá dómara í hans stað úr hópi sömu manna.
    Ráðherra óskar eftir tilnefningum um dómara við Félagsdóm þegar það á við. Ráðherra skal vekja athygli starfandi dómara við Landsrétt og héraðsdómstóla á fyrirhugaðri skipun dómara í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, sbr. 2. mgr.

3. gr.

    40. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra veitir þeim dómurum sem hann skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar lausn frá embætti eftir sömu reglum og almennt gilda um veitingu lausnar frá embætti dómara samkvæmt lögum um dómstóla. Enn fremur veitir ráðherra dómurum við Félagsdóm lausn frá embætti sé þeim veitt lausn frá embætti dómara við Landsrétt eða héraðsdómstól, eftir því sem við á, án þess að þeir séu skipaðir dómarar að nýju við annan dómstól.

4. gr.

    42. gr. laganna orðast svo:
    Dómarar við Félagsdóm eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „vinnusamningi“ tvívegis í 2. tölul. 1. mgr. kemur: kjarasamningi.
     b.      Í stað orðsins „aðiljar“ í 3. tölul. 1. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli og tölu: aðilar.
     c.      Í stað orðanna „I. og II. kafla laga um iðju og iðnað“ í 2. mgr. kemur: lög um handiðnað.

6. gr.

    Í stað orðsins „formann“ í 2. málsl. 2. mgr. 45 gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: forseta.

7. gr.

    46. gr. laganna orðast svo:
    Málsaðilar geta gefið þeim sem uppfylla skilyrði 1.–4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, umboð til að reka mál sín fyrir Félagsdómi.

8. gr.

    48. gr. laganna orðast svo:
    Dómurinn er ekki starfhæfur nema hann sé fullskipaður. Þó getur forseti dómsins ákveðið að einn dómari eða fleiri haldi dómþing til að þingfesta mál, taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm.
    Dómarar við Félagsdóm sem hafa byrjað meðferð mála skulu ljúka þeim þrátt fyrir að skipunartími þeirra sé á enda.
    Dómarar við Félagsdóm sem tilnefndir eru af Hæstarétti víkja sæti eftir sömu reglum og gilda þegar dómurum við Hæstarétt ber að víkja sæti. Félagsdómur úrskurðar hvort dómari skuli víkja sæti.
    Dómara við Félagsdóm er heimilt að biðjast undan máli vegna tengsla við efni þess, aðila, fyrirsvarsmann eða lögmann þótt hann verði ekki talinn vanhæfur til að fara með það, enda sé beiðni hans studd haldbærum rökum. Forseti Félagsdóms tekur afstöðu til slíkrar beiðni.

9. gr.

    Við 50. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Forseti ákveður stefnufrest, m.a. með hliðsjón af því hvort flýta þurfi rekstri máls.
    Stefnandi sér um birtingu og skal stefna birt af stefnuvotti á venjulegan hátt.

10. gr.

    51. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „stefndur“ í 1. tölul. kemur: stefndi.
     b.      Í stað orðsins „málsaðiljar“ í 2. tölul. kemur: málsaðilar.

12. gr.

    Á undan 1. mgr. 54. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómurinn sér um að mál upplýsist sem best. Dómurinn getur krafið aðila um skýrslu ef hann álítur það nauðsynlegt til að upplýsa mál.

13. gr.

    55. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að stefna vitnum fyrir Félagsdóm. Eftir kröfu aðila skal dómari láta vitni staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti að skýrslugjöf lokinni, eftir sömu reglum og gilda um meðferð einkamála í héraði.
    Dómurinn getur ákveðið að gefa skuli aðilaskýrslu eða að taka skuli vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi á varnarþingi hlutaðeigandi vitnis eða aðila.
    Um vitnaskyldu, sönnunargildi vitnaskýrslu, vitnaleiðslur, svo og um hegningu fyrir rangan framburð, gilda sömu reglur og um meðferð einkamála í héraði.

14. gr.

    56., 57. og 58. gr. laganna falla brott.

15. gr.

    Við 59. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Dómurinn getur hvenær sem er leitað álits sérfróðra aðila um ákveðið atriði.

16. gr.

    62. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    2. mgr. 64. gr. laganna orðast svo:
    Félagsdómur skal kveða upp dóm svo fljótt sem þörf krefur, að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem undir eru hverju sinni. Hafi mál verið höfðað til að fá skorið úr um lögmæti boðaðrar vinnustöðvunar skal dómur kveðinn upp áður en fyrirhuguð vinnustöðvun hefst.

18. gr.

    69 gr. laganna orðast svo:
    Að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum um meðferð mála fyrir Félagsdómi gilda ákvæði laga um meðferð einkamála, eftir því sem við á.

19. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 39. gr. heldur skipun dómara við Félagsdóm til þriggja ára frá 1. nóvember 2019 gildi sínu út skipunartímann.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu af nefnd sem þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði í því skyni að bregðast við athugasemdum ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu (GRECO) frá 28. mars 2013 er lutu að því fyrirkomulagi sem viðhaft er hér á landi við skipun dómara í Félagsdóm. Nefndina skipuðu fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, félagsmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Þrátt fyrir að nefndinni væri einungis ætlað að gera tilteknar breytingar á ákvæðum IV. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, að því er varðar skipun dómara í Félagsdóm, taldi nefndin nauðsynlegt að leggja jafnframt til aðrar breytingar á ákvæðum kaflans þar sem litlar breytingar hafa orðið á kaflanum frá setningu laganna árið 1938.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Athugasemdir GRECO komu fyrst fram með skýrslu ríkjahópsins um Íslands, dags. 28. mars 2013, í tengslum við fjórðu úttekt (e. Fourth Evaluation Round) hópsins þar sem lögð var áhersla á forvarnir gegn spillingu hvað varðar þingmenn, dómara og saksóknara. Í skýrslunni var meðal annars fjallað um hæfisskilyrði dómara við Félagsdóm og fyrirkomulag við skipun þeirra lýst. Var lagt til að tekið yrði til endurskoðunar fyrirkomulag við tilnefningar og skipun dómara í Félagsdóm, sér í lagi varðandi þá dómara sem tilnefndir væru af Hæstarétti, með það að markmiði að tryggja sjálfstæði, óhlutdrægni og gagnsæi.
    Eins og kemur fram í inngangi hafa litlar breytingar verið gerðar á IV. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, frá setningu laganna en ljóst er að frá þeim tíma hafa orðið breytingar á málsmeðferð fyrir Félagsdómi sem tekur að miklu leyti mið af ákvæðum laga um meðferð einkamála. Þykir því nauðsynlegt að gera tilteknar breytingar og lagfæringar á ýmsum ákvæðum kaflans umfram þau ákvæði sem snúa að skipun dómara í Félagsdóm.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til breytt fyrirkomulag við tilhögun skipunar dómara í Félagsdóm en fyrirkomulagið hefur verið nánast óbreytt frá setningu laga um stéttarfélög og vinnudeilur árið 1938. Eru breytingarnar meðal annars lagðar til í því skyni að bregðast við athugasemdum ríkjahóps Evrópuráðsins (GRECO) gegn spillingu eins og rakið er í inngangi.
    Lagt er til að ráðherra skipi fimm dómara í Félagsdóm. Lagt er til að Hæstiréttur tilnefni þrjá dómara, þar af forseta og varaforseta dómsins, og þeir skuli allir skipaðir ótímabundið. Þá tilnefni Hæstiréttur jafnframt tvo dómara til vara sem báðir skuli skipaðir ótímabundið. Þá er lagt til að tveir dómarar og jafnmargir til vara skuli tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar og skuli þeir skipaðir til þriggja ára í senn.
    Þá er lagt til að gerð verði frekari hæfisskilyrði til dómara við Félagsdóm en samkvæmt gildandi lögum eru gerðar talsvert minni kröfur til dómara við Félagsdóm en gerðar eru til dómara við almenna dómstóla. Lagt er til að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skuli vera skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Enn fremur er gert ráð fyrir að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar skuli uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.
    Sú tilhögun sem hér er lögð til hvað varðar skipun dómara í Félagsdóm tekur mið af framangreindum athugasemdum GRECO en jafnframt var höfð hliðsjón af því hvernig þessum málum er háttað hjá dómstólum sem dæma í ágreiningsmálum aðila vinnumarkaðarins í Danmörku og í Noregi. Tólf dómarar skipa Arbejdsretten í Danmörku en ráðherra vinnumála skipar þá eftir meðmælum ráðuneyta og aðila vinnumarkaðarins. Helmingur dómaranna þarf að uppfylla sömu hæfisskilyrði og dómarar við almenna dómstóla. Sjö dómarar sitja í Arbeitsretten í Noregi. Þar af eru þrír fastir embættisdómarar en Noregskonungur skipar hina fjóra til þriggja ára í senn að fenginni tilnefningu aðila vinnumarkaðarins og ráðuneytis.
    Eins og rakið er í inngangi var við samningu frumvarpsins ákveðið að leggja til breytingar á öðrum ákvæðum IV. kafla laganna en aðeins þeim sem varða skipun og hæfisskilyrði dómara. Er meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að dómarar við Félagsdóm séu sjálfstæðir í dómstörfum og að þeir leysi þau af hendi á eigin ábyrgð. Jafnframt er gert ráð fyrir að við úrlausn máls fari dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. Lagt er til að gerðar verði auknar kröfur til þeirra sem geta flutt mál fyrir Félagsdómi en þó þannig að áfram verði gerðar minni kröfur en gerðar eru fyrir almennum dómstólum. Lagt er til að forseta Félagsdóms verði veitt heimild til að ákveða að einn dómari eða fleiri haldi dómþing til að þingfesta mál, taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm. Þá eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum sem kveða á um stefnufresti sem og þann tíma sem getur talist eðlilegur milli dómtöku máls til uppkvaðningar dóms.
    Enn fremur er lagt til að gerðar verði ýmsar orðalagsbreytingar og að ákvæði sem kveða á um efnislega skyld atriði verði sameinuð en slíkar breytingar þykja til þess fallnar að auka skýrleika laganna sem staðið hafa að mestu óbreytt frá 1938.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ísland er aðili að GRECO, ríkjahópi gegn spillingu innan Evrópuráðsins. Stjórnvöld upplýsa GRECO reglulega um íslenska löggjöf, stjórnsýslu og annað sem máli skiptir svo að hægt sé að leggja mat á frammistöðu Íslands og vinna að frekari úrbótum.
    Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem og mannréttindasáttmála Evrópu er gerð sú krafa að dómstólar séu óháðir og óhlutdrægir, en þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir miða að því að tryggja enn frekar en nú er sjálfstæði og óhlutdrægni Félagsdóms.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir einna helst aðila vinnumarkaðarins en eins og rakið er í inngangi var frumvarpið samið í félagsmálaráðuneytinu af nefnd sem skipuð var fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins og félagsmálaráðuneytis.
    Hinn 17. mars 2020 voru drög að frumvarpinu kynnt í opnu umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-76/2020) þar sem almenningi gafst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drögin. Enn fremur voru áform um gerð frumvarpsins kynnt öðrum ráðuneytum.
    Tvær umsagnir bárust í samráðsgáttina þar sem komið var á framfæri athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins (nú 2. gr.) hvað varðar skipan dómara við Félagsdóm og þau hæfisskilyrði sem gert er ráð fyrir að þeir sem skipaðir eru dómarar við dóminn þurfi að uppfylla. Í kjölfarið fór nefndin sem vann frumvarpið yfir þær athugasemdir sem fram komu í umsögnunum og var tekið tillit til þeirra eins og tilefni þótti til að mati nefndarinnar. Tók frumvarpið því breytingum eftir samráð í gegnum samráðsgátt stjórnvalda hvað varðar hæfisskilyrði sem gert er ráð fyrir að þeir sem skipaðir eru dómarar við dóminn þurfi að uppfylla.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að komið verði til móts við framangreindar athugasemdir GRECO í tengslum við skipun dómara í Félagsdóm. Þá þykir efni frumvarpsins stuðla að auknum skýrleika hvað varðar þau ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur sem lúta að Félagsdómi.
    Með frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar hvað varðar hlutverk Félagsdóms. Hins vegar er gert ráð fyrir strangari hæfisskilyrðum dómara sem skipaðir eru í dóminn sem og auknum hæfisskilyrðum málflytjenda fyrir dómnum. Þannig er lagt til að meiri hluti Félagsdóms verði skipaður sitjandi dómurum við Landsrétt eða héraðsdómstóla.
    Efni frumvarpsins er ekki ætlað að hafa mismunandi áhrif á stöðu kynjanna. Þar sem gert er ráð fyrir að Hæstiréttur gæti þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast meðal tilnefndra dómara nema hlutlægar ástæður leiði til annars verður þó að ætla að áhrif frumvarpsins á stöðu kynjanna verði helst þau að betur verði tryggt að kynjahlutfall dómara við Félagsdóm verði jafnt en nú er. Í því sambandi má nefna að samkvæmt upplýsingum frá Jafnréttisstofu voru konur um 38% héraðsdómara og tæp 47% dómara við Landsrétt í árslok 2018.
    Ekki þykir fyrir séð að efni frumvarpsins muni hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs, svo sem rekstraráhrif eða áhrif á efnahagsreikning ríkisins, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. 9. gr. er nú kveðið á um rétt stjórnar stéttarfélags til að tilnefna menn til trúnaðarmannsstarfa í tilteknum tilvikum. Hér er lagt til að orðið vinnusamningar verði breytt í kjarasamningar. Ekki er um að ræða efnisbreytingu heldur orðalagsbreytingu til samræmis við almenna málvenju en ákvæðið hefur staðið óbreytt frá setningu laganna.

Um 2. gr.

    Í 39. gr. er nú kveðið á um skipun dómara í Félagsdóm. Í 1. málsl. 1. mgr. 39. gr. er kveðið á um að í Félagsdómi eigi sæti fimm menn sem skipaðir séu til þriggja ára þannig: Einn af Samtökum atvinnulífsins, annar af Alþýðusambandi Íslands, þriðji af ráðherra úr hópi þriggja manna sem Hæstiréttur tilnefnir og tveir af Hæstarétti og sé annar þeirra sérstaklega tilnefndur til þess að vera forseti dómsins.
    Hér er lagt til að í 39. gr. verði kveðið á um að í Félagsdómi skuli eiga sæti fimm dómarar sem skipaðir eru af ráðherra. Lagt er til að Hæstiréttur skuli tilnefna þrjá dómara, þar af forseta og varaforseta dómsins, og að þeir skuli allir skipaðir ótímabundið. Þá skuli Hæstiréttur tilnefna tvo dómara til vara sem báðir skuli skipaðir ótímabundið. Þannig er gert ráð fyrir að varaforseti dómsins eigi fast sæti í dómnum og að hann taki sæti forseta í forföllum hans. Er jafnframt gert ráð fyrir að þeir tveir dómarar sem skipaðir hafa verið til vara taki sæti í dómnum í forföllum annars vegar varaforseta og hins vegar þess dómara sem tilnefndur hefur verið af Hæstarétti en hefur þó hvorki verið tilnefndur forseti né varaforseti dómsins.
    Lagt er til að þeir dómarar sem tilnefndir eru af Hæstarétti verði skipaðir ótímabundið líkt og dómarar við almenna dómstóla. Í athugasemdum við IV. kafla með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um dómstóla kemur meðal annars eftirfarandi fram: „Ástæða þess að dómarar eru skipaðir ótímabundið í embætti er ekki síst sú að gera þeim kleift að komast að sjálfstæðri niðurstöðu í sérhverju máli án þess að þurfa að óttast um starfsöryggi sitt eða stöðu sína að öðru leyti. Við blasir að ef dómari er settur í embætti í skamman tíma getur þetta sjónarmið ekki átt við og sú hætta getur skapast almennt séð að settur dómari láti hugsanlegan framtíðarstarfsferil hafa áhrif á störf sín. Þótt ekkert bendi til að slíkt hafi gerst í raun er mikilvægt fyrir ásýnd dómskerfisins og traust til dómstóla að sjálfstæði dómara sé tryggt með lögum og verði ekki dregið í efa.“ Gert er ráð fyrir að þessi sömu sjónarmið geti átt við um dómara við Félagsdóm og því mikilvægt að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar verði skipaðir ótímabundið. Þykir sú breyting jafnframt nauðsynleg í ljósi framangreindra athugasemda GRECO.
    Í 42. gr. laganna er nú kveðið á um hæfisskilyrði dómara við Félagsdóm en samkvæmt ákvæðinu eru gerðar minni kröfur til dómara við Félagsdóm en gerðar eru til dómara við almenna dómstóla. Í ákvæðinu kemur fram að dómarar við Félagsdóm skuli vera íslenskir ríkisborgarar, fjár síns ráðandi og megi ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing hafi verið fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun lauk að fullu. Þeir tveir sem skipaðir eru af Hæstarétti skulu jafnframt hafa lokið embættisprófi í lögfræði.
    Hér er lagt til að í 39. gr. laganna verði kveðið á um hæfisskilyrði dómara við Félagsdóm en gert er ráð fyrir að þeir dómarar sem skipaðir eru við Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skuli vera skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Þykir það mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að dómum Félagsdóms verður almennt ekki áfrýjað. Gert ráð fyrir að Hæstiréttur gæti þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast meðal tilnefndra dómara nema hlutlægar ástæður leiði til annars.
    Þá er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um að í Félagsdómi eigi sæti dómarar sem skipaðir eru til þriggja ára í senn, af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar, verði kveðið á um að tveir dómarar og jafnmargir til vara skuli tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar og skuli þeir skipaðir til þriggja ára í senn. Áfram er því gert ráð fyrir að framangreind hagsmunasamtök velji dómara til setu í Félagsdómi til þriggja ára en lagt er til að ráðherra fari með hina formlegu skipun. Gert er ráð fyrir að þeir dómarar uppfylli hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, þar sem kveðið er á um almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Er þannig gert ráð fyrir að þeir dómarar sem skipaðir eru við Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar skuli hafa náð 30 ára aldri, hafa íslenskan ríkisborgararétt, séu svo á sig komnir andlega og líkamlega að þeir geti gegnt embættinu, séu lögráða og hafi aldrei misst forræði á búi sínu, hafi hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að viðkomandi varð fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta og hafi lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum. Þessar breytingar eru meðal annars lagðar til í ljósi athugasemda GRECO.
    Í 2. og 3. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna er nú kveðið á um að sá dómari sem tilnefndur er af Samtökunum atvinnulífsins skuli víkja sæti ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í samtökunum. Í staðinn tilnefni atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það áður en hálfur stefnufrestur er liðinn, ella tilnefni forseti dómsins dómarann. Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara sem tilnefndur er af Alþýðusambandi Íslands.
    Hér er lagt til að efni framangreindra málsliða verði flutt í nýja 4. mgr. 39. gr. með tveimur breytingum. Lagt er til að í stað þess að kveðið sé á um að slíkir málsaðilar skuli hafa tilnefnt dómara áður en hálfur stefnufrestur er liðinn verði kveðið á um að þeir skuli hafa gert það í síðasta lagi við þingfestingu máls. Þá er lagt til að kveðið verði á um að tilnefndir dómarar skuli uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Stefnufrestir geta verið mjög stuttir í málum sem rekin eru fyrir Félagsdómi og þykir því ekki rétt að miðað sé við hálfan stefnufrest þegar tilnefna á dómara í máli. Þá er ljóst að dómarar gætu þurft að afla gagna sem staðfesti að þeir uppfylli þau hæfisskilyrði sem hér er lagt til að þeir þurfi að uppfylla áður en tilnefning getur farið fram og þykir því rétt að frestur málsaðila til að tilnefna dómara verði rýmkaður. Sú breyting sem hér er lögð til hvað varðar hæfisskilyrði tilnefndra dómara er í samræmi við aðrar breytingar frumvarpsins. Rétt þykir að tilnefndir dómarar samkvæmt ákvæðinu uppfylli sömu hæfisskilyrði og gerð eru til dómara sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar. Þá þykir breytingin nauðsynleg í ljósi athugasemda GRECO.
    Gert er ráð fyrir að efni gildandi 3. mgr. 39. gr. laganna verði í 5. mgr., en þó komi orðið stefndi í stað orðsins stefndur í til samræmis við almenna málvenju.
    Í 40. gr. laganna er nú kveðið á um að ráðherra tilkynni hvenær tilnefning dómara skuli fara fram. Ef aðili hefur ekki tilkynnt ráðherra tilnefningu innan tveggja vikna frá því að tilkynning um að tilnefning skuli fram fara var send honum tilnefnir ráðherra dómara af hálfu þess aðila. Hér er lagt til að við 39. gr. laganna bætist málsgrein, 6. mgr., þar sem kveðið verði á um efni framangreindrar 40. gr. laganna, þó með þeirri breytingu að ráðherra skuli óska eftir tilnefningum um dómara við Félagsdóm þegar það á við. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra skuli vekja athygli starfandi dómara við Landsrétt og héraðsdómstóla á fyrirhugaðri skipun dómara í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Er þetta lagt til svo að þeim dómurum sem áhuga kunna að hafa á því að verða skipaðir dómarar við Félagsdóm verði kleift að gefa kost á sér áður en Hæstiréttur tilnefnir dómara við Félagsdóm. Breyting þessi þykir til þess fallin að auka gagnsæi við tilnefningar Hæstaréttar á dómurum við Félagsdóm. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti vakið athygli á fyrirhugaðri skipun dómara í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar með þeim hætti sem best þykir hverju sinni, svo sem með því að óska eftir því við Dómarafélag Íslands að félagið upplýsi sína félagsmenn um fyrirhugaða skipun.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að í 40. gr. verði kveðið á um að ráðherra veiti þeim dómurum sem hann skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar lausn frá embætti eftir sömu reglum og almennt gilda um veitingu lausnar frá embætti dómara samkvæmt lögum um dómstóla. Er þetta lagt til í ljósi þess að með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að dómarar þeir sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar verði skipaðir ótímabundið í stað tímabundið líkt og kveðið er á um í lögunum. Enn fremur er gert ráð fyrir að ráðherra veiti dómurum við Félagsdóm lausn frá embætti sé þeim veitt lausn frá embætti dómara við Landsrétt eða héraðsdómstól, eftir því sem við á, án þess að þeir séu skipaðir dómarar að nýju við annan dómstól. Er þetta lagt til í ljósi þess að með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar séu skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm.

Um 4. gr.

    Lagt er til að í 42. gr. verði kveðið á um að dómarar við Félagsdóm séu sjálfstæðir í dómstörfum og að þeir leysi þau af hendi á eigin ábyrgð. Jafnframt er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að við úrlausn máls fari dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. Hliðstæða reglu er að finna í 1. mgr. 43. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, en regluna má jafnframt leiða af bæði stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem gerð er sú krafa að dómur skuli vera óháður og óvilhallur.
    Mikilvægt þykir fyrir ásýnd Félagsdóms, sem og í ljósi athugasemda GRECO, að skýrt sé kveðið á um sjálfstæði allra dómara við Félagsdóm í lögunum, hvort sem þeir eru tilnefndir af Hæstarétti eða af hagsmunaaðila. Almennt hefur verið litið svo á að reglur sem kveða á um að dómstólar séu óháðir og óhlutdrægir nái til allra dómenda, bæði í almennum dómstólum og í sérdómstólum. Er því ekki um efnisbreytingu að ræða. Þá er áfram gengið út frá því að Félagsdómur teljist ekki óvilhallur þrátt fyrir að í honum eigi sæti dómarar sem hafa verið tilnefndir í dóminn af aðila máls eins og lögin gera ráð fyrir.
    Áfram er jafnframt gengið út frá því að komi upp sú staða að sértæk tengsl milli dómara og einstaka máls séu fyrir hendi geti viðkomandi dómari sagt sig frá málinu.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. 44. gr. er nú kveðið á um verkefni Félagsdóms samkvæmt lögunum. Hér er lagt til að í stað orðsins vinnusamningur í tvígang í 2. tölul. 1. mgr. komi orðið kjarasamningur. Jafnframt er lagt til að orðinu aðilji verði hvarvetna í lögunum breytt í aðili í viðeigandi beygingarmynd og tölu. Ekki er um að ræða efnisbreytingu heldur orðalagsbreytingu til samræmis við almenna málvenju en ákvæðið hefur staðið óbreytt frá setningu laganna.
    Þá er jafnframt lagt til að tilvísun til eldri laga um iðju og iðnað verði breytt þannig að vísað verði til gildandi laga. Er því ekki um efnislega breytingu að ræða.

Um 6. gr.

    Í ákvæðum laganna er lúta að Félagsdómi er ýmist notað orðið formaður eða forseti þegar átt er við forseta dómsins. Hér er lagt til að orðnotkunin verði samræmd þannig að orðið forseti verði ávallt notað þegar átt er við forseta Félagsdóms.

Um 7. gr.

    Í 46. gr. er nú kveðið á um að málsaðilar geti gefið íslenskum ríkisborgurum umboð til að reka mál sín fyrir Félagsdómi. Samkvæmt ákvæðinu þurfa þeir sem reka mál fyrir dómnum að vera fjár síns ráðandi og mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var ákveðin fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið, nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.
    Hér er lögð til sú breyting á 46. gr. að gerðar verði auknar kröfur til þeirra aðila sem málsaðilar geta gefið umboð til að reka mál fyrir Félagsdómi. Lagt er til að málsaðilar geti gefið þeim sem uppfylla skilyrði 1.–4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, umboð til að reka mál sín fyrir dómnum. Er þannig gert ráð fyrir að aðeins þeim sé heimilt að reka mál fyrir Félagsdómi fyrir hönd málsaðila sem eru lögráða og svo á sig komnir andlega að þeir séu færir um að gegna störfum lögmanns, hafi aldrei orðið að sæta því að bú þeirra hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, hafi aldrei hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára og hafi lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla. Í framkvæmd hafa lögmenn almennt flutt mál fyrir Félagsdómi og er því ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif í framkvæmd þótt lögfestar verði lágmarkskröfur til málflytjenda fyrir Félagsdómi en slíkar lágmarkskröfur þykja mikilvægar fyrir ásýnd dómsins og traust almennings til hans.

Um 8. gr.

    Í 48. gr. er nú kveðið á um að þeir dómarar sem tilnefndir eru af Hæstarétti víki sæti eftir sömu reglum og gilda um hæstaréttardómara. Jafnframt er kveðið á um að dómurinn úrskurði hvort dómari skuli víkja sæti. Þá kemur fram að dómurinn sé ekki starfhæfur nema hann sé fullskipaður og að dómarar sem hafa byrjað meðferð mála skuli ljúka þeim þó að kjörtímabil þeirra sé á enda.
    Lagt er til að í 1. mgr. verði áfram kveðið á um að Félagsdómur sé ekki starfhæfur nema hann sé fullskipaður en þrátt fyrir það geti forseti dómsins ákveðið að einn dómari eða fleiri haldi dómþing til að þingfesta mál, taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm. Er gert ráð fyrir að þannig náist ákveðin hagræðing í tengslum við störf Félagsdóms en með þessari breytingu öðlast forseti Félagsdóms sambærilegar heimildir og forseti Hæstaréttar annars vegar og forseti Landsréttar hins vegar til að ákveða hverjir megi halda dómþing til að taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm, sbr. 1. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 24. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarps þess er varð að gildandi lögum um dómstóla kemur fram að lagt sé „til að forseti geti áfram ákveðið að einn dómari haldi þing til að taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm sem eftir atvikum fimm eða sjö dómarar stæðu að. Þessa heimild er að finna í gildandi lögum um dómstóla og hefur hún orðið til hagræðis í störfum réttarins“. Þykja framangreind rök einnig eiga við um rekstur mála fyrir Félagsdómi, ekki síst þar sem mál sem höfðuð eru fyrir dómnum geta oft og tíðum verið þess eðlis að brýn þörf er á skjótri úrlausn.
    Lagt er til að í 2. mgr. verði kveðið á um að dómarar við Félagsdóm sem hafa byrjað meðferð mála skuli ljúka þeim málum þrátt fyrir að skipunartími þeirra sé á enda. Ekki er um að ræða efnisbreytingu frá gildandi lögum, en ákvæðið mun aðeins eiga við um þá dómara sem tilnefndir eru tímabundið til setu í dómnum.
    Lagt er til að í 3. mgr. verði kveðið á um að dómarar við Félagsdóm sem tilnefndir eru af Hæstarétti víki sæti eftir sömu reglum og gilda þegar dómurum við Hæstarétt ber að víkja sæti. Jafnframt er gert ráð fyrir að Félagsdómur úrskurði hvort dómari skuli víkja sæti. Ekki er um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum.
    Lagt er til að í 4. mgr. verði kveðið á um að dómara við Félagsdóm verði heimilt að biðjast undan máli vegna tengsla við efni þess, aðila, fyrirsvarsmann eða lögmann þótt hann verði ekki talinn vanhæfur til að fara með það, enda sé beiðni hans studd haldbærum rökum. Gert er ráð fyrir að forseti Félagsdóms taki afstöðu til slíkrar beiðni. Sambærilega heimild hafa dómarar við héraðsdómstóla sem og við Landsrétt, sbr. 2. mgr. 24. gr. og 4. mgr. 33. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Gert er ráð fyrir að allir dómarar við Félagsdóm geti lagt slíka beiðni fyrir forseta dómsins.

Um 9. gr.

    Í 50. gr. er nú kveðið á um að formaður gefi út stefnur í nafni dómsins og að í stefnu skuli taka fram nöfn aðila og heimilisfang, ítarlega frásögn um málavexti og kröfur stefnanda. Enn fremur skal stefnandi, eftir því sem frekast verður unnt, gera grein fyrir með hvaða hætti hann hyggst sanna staðhæfingar sínar og kröfur og leggja fram fimm afrit af sönnunarskjölum sem fyrir hendi eru. Með stefnu skal fylgja afrit fyrir hvern dómara og sér formaður um að öll afrit verði send dómurum þegar í stað. Í 1. mgr. 51. gr. er nú kveðið á um að formaður ákveði stefnufrest með hliðsjón af því með hve stuttum fyrirvara stefndi getur mætt á dómþing. Í 2. mgr. 51. gr. er kveðið á um að stefnandi sjái um birtingu og skal stefna birt af stefnuvotti á venjulegan hátt.
    Hér er lagt til að efni 1. mgr. 51. gr. laganna verði í 2. mgr. 50. gr. þar sem 50. og 51. gr. þykja kveða á um efnislega skyld atriði. Er þó lögð til sú breyting að forseti Félagsdóms ákveði stefnufrest, m.a. með hliðsjón af því hvort flýta þurfi rekstri máls. Ákvæði 1. mgr. 51. gr. hefur staðið óbreytt frá setningu laganna en eðlilegra þykir að stefnufrestur sé ákveðinn með hliðsjón af því hvort flýta þurfi rekstri máls hverju sinni í stað þess að höfð sé hliðsjón af því með hve stuttum fyrirvara stefndi geti mætt til dómþings. Mál sem höfðuð eru fyrir Félagsdómi geta oft og tíðum verið þess eðlis að brýn þörf þykir á skjótri úrlausn þeirra, svo sem þegar verkfall eða verkbann er yfirvofandi, og þykir mikilvægt að í slíkum málum geti verið um knappan stefnufrest að ræða. Jafnframt er gert ráð fyrir að forseti Félagsdóms geti við ákvörðun stefnufrests litið til annarra þátta en þess hvort flýta þurfi rekstri máls eins og verið hefur.
    Þá er lagt til að 2. mgr. 51. gr. verði 3. mgr. 50. gr. þar sem um efnislega skyld atriði er að ræða.

Um 10. gr.

    Lagt er til að 51. gr. laganna falli brott í samræmi við þær breytingar á lögunum sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Í 52. gr. er nú kveðið á um að mál fyrir Félagsdómi skuli flytja munnlega. Þó skuli flytja mál skriflega ef stefndur hvorki mætir eða lætur mæta, eða ef málsaðiljar eða umboðsmenn þeirra óska og dómurinn álítur, að mál upplýsist betur með þeim hætti.
    Hér er lagt til að í stað orðsins stefndur í 1. tölul. komi orðið stefndi. Jafnframt er lagt til að í stað orðsins málsaðiljar í 2. tölul. komi málsaðilar. Ekki er um að ræða efnisbreytingu heldur orðalagsbreytingu til samræmis við almenna málvenju en ákvæðið hefur staðið óbreytt frá setningu laganna.

Um 12. gr.

    Í 54. gr. er nú kveðið á um að Félagsdómur geti frestað máli sé mál ekki nægilega upplýst, ef leiða þarf vitni, ef skoðunar- eða matsgerð þarf fram að fara, ef aðili þarf að gefa skýrslu eða ef stefndi, að áliti dómsins, þarf frest til andsvara. Jafnframt er kveðið á um að við ákvörðun frests skuli þess gætt að mál tefjist ekki að óþörfu. Í 56. gr. er nú kveðið á um að Félagsdómur sjái um að mál upplýsist sem best. Enn fremur er kveðið á um að dómurinn geti krafið aðila um skýrslu ef hann álítur það nauðsynlegt til að upplýsa málið.
    Hér er lagt til að 56. gr. verði 1. mgr. 54. gr. þar sem um efnislega skyld atriði er að ræða.

Um 13. gr.

    Í 55. gr. er nú kveðið á um að heimilt sé að stefna vitnum fyrir Félagsdóm og að dómurinn eiðfesti vitni samkvæmt gildandi lögum. Þá er kveðið á um í 57. gr. að dómurinn geti ákveðið að aðilaskýrslu skuli gefa eða vitnaskýrslu taka fyrir héraðsdómi á varnarþingi hlutaðeigandi vitnis eða aðila. Þá er jafnframt kveðið á um í 58. gr. að um vitnaskyldu, sönnunargildi vitnaskýrslu, vitnaleiðslur, svo og um hegningu fyrir rangan framburð gildi sömu reglur og í einkamálum í héraði.
    Hér er lagt til að áfram verði kveðið á um að heimilt sé að stefna vitnum fyrir Félagsdóm, en að gerð verði breyting á 2. málsl. 55. gr., sem hefur staðið óbreyttur frá setningu laganna, þannig að kveðið verði á um að eftir kröfu aðila skuli dómari láta vitni staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti að skýrslugjöf lokinni, eftir sömu reglum og gilda um meðferð einkamála í héraði. Er um að ræða orðalagsbreytingu til samræmis við þær reglur sem gilda um staðfestingu framburðar vitnis samkvæmt lögum um meðferð einkamála.
    Þá er lagt til að efni 57. gr. verði í 2. mgr. 55. gr. og 58. gr. verði 3. mgr. 55. gr. þar sem um efnislega skyld atriði er að ræða í báðum tilvikum.

Um 14. gr.

    Hér er lagt til að 56. gr. laganna falli brott í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 12. gr. frumvarpsins.
    Þá er lagt til að 57. og 58. gr. laganna falli brott í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 13. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Í 1. mgr. 59. gr. er nú kveðið á um að dómarar geti framkvæmt skoðunar- og matsgerðir, allir saman eða nokkrir þeirra eftir ákvörðun dómsins. Þá er í 2. mgr. 59. gr. kveðið á um að dómurinn geti enn fremur útnefnt skoðunar- og matsmenn til að framkvæma ákveðna skoðunargerð eða matsgerð og um það gildi almennar reglur um meðferð einkamála. Enn fremur er í 62. gr. kveðið á um að dómurinn geti hvenær sem er leitað álits sérfróðra manna um ákveðið atriði.
    Hér er lagt til að 62. gr. verði 3. mgr. 59. gr. þar sem um efnislega skyld atriði er að ræða.

Um 16. gr.

    Hér er lagt til að 62. gr. laganna falli brott í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 15. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Í 2. mgr. 64. gr. er nú kveðið á um að í munnlega fluttum málum skuli kveða upp dóm innan sólarhrings eftir dómtöku en í skriflega fluttum málum innan viku. Jafnframt er kveðið á um að sé ekki hægt að kveða upp dóm eða úrskurð svo fljótt skuli nákvæmlega greina orsakir þess. Ákvæðið hefur staðið óbreytt frá setningu laganna og þykir það ekki samrýmast lengur þeim viðmiðum sem nú á dögum þykir mikilvægt að lögð séu til grundvallar við mat á því hversu langur tími getur talist eðlilegur frá dómtöku máls til uppkvaðningar dóms í Félagsdómi.
    Hér er lagt til að í 2. mgr. 64. gr. verði kveðið á um að Félagsdómur skuli kveða upp dóm svo fljótt sem þörf krefur, að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem undir eru hverju sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að hafi mál verið höfðað til að fá skorið úr um lögmæti boðaðrar vinnustöðvunar skuli dómur kveðinn upp áður en fyrirhuguð vinnustöðvun hefst.
    Mál sem höfðuð eru fyrir Félagsdómi geta oft og tíðum verið þess eðlis að brýn þörf þyki á skjótri úrlausn. Þykir því mikilvægt að hin almenna regla verði sú að dóm skuli kveða upp svo fljótt sem þörf krefur. Enn fremur þykir mikilvægt að sérstaklega sé kveðið á um að þegar mál hefur verið höfðað til að fá skorið úr um lögmæti boðaðrar vinnustöðvunar skuli dómur kveðinn upp áður en fyrirhuguð vinnustöðvun hefst, en ljóst þykir að miklir hagsmunir kunna að vera í húfi í slíkum tilvikum og að tjón geti orðið ef niðurstaða næst ekki í deilum aðila fyrir Félagsdómi áður en vinnustöðvun hefst. Er þá gengið út frá því að aðilar máls höfði mál án ástæðulausrar tafar frá því að ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin og hún tilkynnt þeim sem hún beinist aðallega gegn, sbr. 16. gr. laganna. Er þannig gert ráð fyrir að Félagsdómur geti í slíkum málum hagað rekstri málsins þannig að hann geti haft í það minnsta sólarhring frá því að mál er dómtekið til þess að kveða upp dóm.
    Með vísan til 69. gr. laganna er áfram gert ráð fyrir að hafi dómur ekki verið kveðinn upp innan fjögurra vikna frá því að mál er dómtekið sé málið flutt á ný, nema dómari og aðilar máls telji það óþarft eins og lög um meðferð einkamála gera ráð fyrir.

Um 18. gr.

    Í 69. gr. er nú kveðið á um að um þau atriði viðvíkjandi meðferð mála, sem ekki sé kveðið á um í lögunum, skuli fara eftir hliðsjón af meðferð einkamála í héraði, svo sem við verði komið. Hér er lagt til að kveðið verði á um í 69. gr. að ef annað leiði ekki af lögunum um meðferð mála fyrir Félagsdómi gildi ákvæði laga um meðferð einkamála, eftir því sem við á. Ekki er um að ræða efnisbreytingu heldur orðalagsbreytingu til samræmis við almenna málvenju en ákvæðið hefur staðið óbreytt frá setningu laganna.

Um 19. gr.

    Hér er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að þrátt fyrir breytt fyrirkomulag hvað varðar skipun dómara í Félagsdóm, sem lagt er til með frumvarpi þessu, haldi þriggja ára skipun dómara við Félagsdóm frá 1. nóvember 2019 gildi sínu út skipunartímann. Er þannig gert ráð fyrir að þeir dómarar sem skipaðir voru í félagsdóm frá 1. nóvember 2019 sitji í dómnum út skipunartímabil sitt, en skipað verði samkvæmt nýju fyrirkomulagi að því loknu.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.