Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 202  —  201. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020 (framhald á lokunarstyrkjum).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstraraðili sem sækir um lokunarstyrk fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 skal hafa hafið þá starfsemi, sem sætir takmörkun á samkomum, minnst einum almanaksmánuði áður en lokunartímabil hefst.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný orðskýring, svohljóðandi: Lokunartímabil: Þeir dagar sem rekstraraðila var samfellt gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu vegna ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem birtar voru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama gildir jafnframt ef honum var gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu tímabundið vegna ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem birtar voru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, og tóku gildi 18. september 2020 eða síðar.
     b.      Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur rekstraraðila sem fellur undir 3. málsl. 1. tölul. skulu vera a.m.k. 75% lægri á lokunartímabili en á jafn löngu tímabili í næstu heilu almanaksmánuðum á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.
     c.      Við 3. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í tilviki rekstraraðila sem fellur undir 3. málsl. 1. tölul. er heimilt að miða við að tekjur séu a.m.k. 350 þús. kr. á mánuði miðað við næsta heila almanaksmánuð á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.

4. gr.

    Á eftir 3. mgr. 5. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjárhæð lokunarstyrks á grundvelli 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabili lokunar. Lokunarstyrkur á grundvelli 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. getur þó ekki orðið hærri en 600 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila á lokunartímabilinu fyrir hverja 30 daga lokun og hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil. Fjöldi launamanna miðast við fyrirliggjandi staðgreiðsluskilagreinar eins og þær lágu fyrir á lokunartímabilinu.
    Heildarfjárhæð lokunarstyrkja til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 120 millj. kr. Sé um að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð lokunarstyrkja þó að hámarki numið 30 millj. kr., nema ef um er að ræða lítil fyrirtæki enda hafi þau ekki hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn um lokunarstyrk á grundvelli 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. skal beint til Skattsins eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lokunartímabili lýkur.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattinum er heimilt að afgreiða umsóknir sem berast að liðnum umsóknarfresti og fram til 30. júní 2021, enda séu önnur skilyrði laganna uppfyllt.

6. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:
    Stuðningur til fyrirtækja skv. III. kafla skal samræmast reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn. Hið sama á við stuðning skv. II. kafla til fyrirtækja að því marki sem um er að ræða fyrirtæki sem töldust í erfiðleikum 31. desember 2019 önnur en lítil fyrirtæki.

7. gr.

    Við 26. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi: Réttur til lokunarstyrks skv. II. kafla getur í síðasta lagi stofnast 30. júní 2021.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði b-liðar 5. gr. kemur til framkvæmda frá og með gildistöku laga nr. 38/2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Ríkisstjórnin samþykkti 10. mars 2020 að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Meðal þeirra aðgerða sem gripið var til var að koma á svokölluðum lokunarstyrkjum til þeirra rekstraraðila sem gert var að loka eða stöðva starfsemi á tímabilinu 24. mars – 24. maí 2020.
    Með frumvarpinu er lagt til framhald á lokunarstyrkjum til þeirra rekstraraðila sem sæta þurfa lokunum eða því að láta af starfsemi eða þjónustu frá 18. september 2020. Lagt er til að úrræðið gildi fram á mitt ár 2021 og gert er ráð fyrir að taka þurfi það til endurskoðunar fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2021 með tilliti til aðstæðna og framgangs heimsfaraldursins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á grundvelli laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, hafa þeir rekstraraðilar, einstaklingar eða lögaðilar sem þurftu að loka eða láta af starfsemi vegna sóttvarnaráðstafana á tímabilinu 24. mars – 24. maí 2020 samkvæmt auglýsingum nr. 243/2020 og nr. 360/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, átt kost á að sækja um sérstakan lokunarstyrk að nánari skilyrðum uppfylltum. Markmið þeirra laga er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Skv. 5. gr. laganna á fjárhæð lokunarstyrks að jafnaði að vera jafnhá rekstrarkostnaði aðila á því tímabili sem skylt var að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu, þ.e. á tímabilinu 24. mars til og með 3. maí 2020, eða 41 dag. Styrkfjárhæð var þó miðuð við fjölda starfsmanna og hámarksstyrkur til hvers rekstraraðila var 2,4 millj. kr.
    Við setningu laganna hafði ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 360/2020, tekið gildi, þar sem tilteknum aðilum var gert að hafa lokað umfram gildistíma auglýsingar nr. 243/2020. Auglýsing nr. 360/2020 kom í stað auglýsingar nr. 243/2020. Hún tók gildi 4. maí 2020 og átti upphaflega að gilda til og með 1. júní 2020 en þess þó getið að stjórnvöld myndu endurmeta þörf á takmörkuninni sem leiddi af auglýsingunni eftir því sem efni stæðu til. Skv. 5. gr. auglýsingarinnar var skemmtistöðum, krám og spilasölum gert að hafa áfram lokað auk þess sem sundlaugum og húsnæði líkamsræktarstöðva var gert að hafa lokað. Sundlaugum var þó heimilt að hafa opið fyrir skólasund auk þess sem skipulagt íþróttastarf án áhorfenda var heimilt að virtum nálægðar- og fjöldatakmörkunum. Með auglýsingu nr. 445/2020, um aðra breytingu á auglýsingu nr. 360/2020, var sund- og baðstöðum heimilað að opna á ný frá og með 18. maí, að virtum tilteknum skilyrðum um fjölda gesta. Sund- og baðstöðum var því gert að hafa lokað samtals í 55 daga.
    Með auglýsingu nr. 470/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar var auglýsing nr. 360/2020 felld úr gildi frá og með 25. maí 2020. Með auglýsingunni var fyrirmælum um lokun skemmtistaða, kráa, spilasala og húsnæðis líkamsræktarstöðva aflétt frá og með gildistöku hennar. Var þeim stöðum því gert að hafa lokað samtals í 62 daga. Í ljósi þess að tilteknir rekstraraðilar urðu af rekstrartekjum vegna lengra tímabils en lokunarstyrkjum var upphaflega ætlað að bæta lagði efnahags- og viðskiptanefnd fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 38/2020 þar sem hámarksfjárhæð lokunarstyrks til tiltekinna aðila var endurskoðuð. Samkvæmt frumvarpinu sem varð að lögum nr. 55/2020 gátu þeir rekstraraðilar sem gert var að loka samkomustað á tímabilinu 4.–24. maí 2020 sótt um viðbótarlokunarstyrk. Hann gat þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020 og að hámarki 1,2 millj. kr. á hvern rekstraraðila.
    Fyrrgreindum fyrirmælum um lokun samkomustaða var aflétt frá og með 25. maí 2020 með auglýsingu nr. 470/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, og var ekki gripið til sambærilegra aðgerða til að sporna við útbreiðslu faraldursins fyrr en 17. september 2020 þegar ljóst var orðið að upp væri komin stór hópsýking sem að mati sóttvarnalæknis ætti uppruna sinn í heimsóknum á krár og skemmtistaði á höfuðborgarsvæðinu. Í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis setti heilbrigðisráðherra því reglugerð nr. 907/2020 til breytingar á reglugerð nr. 864/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þar sem skemmtistöðum og krám á stórhöfuðborgarsvæðinu var gert skylt að hafa lokað á tímabilinu frá og með 18. september til og með 21. september 2020. Sú ráðstöfun var svo framlengd einu sinni eða til 27. september með breytingarreglugerð nr. 910/2020. Þeir staðir sem gert var að loka gátu aftur hafið starfsemi 28. september 2020 að virtum nálægðar- og fjöldatakmörkunum.
    Hinn 3. október var ákveðið að herða þyrfti samfélagslegar aðgerðir á nýjan leik í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis þar sem útbreiðsla faraldursins var í línulegum vexti og fyrirsjáanlegt að álag á heilbrigðiskerfið gæti aukist verulega. Heilbrigðisráðherra setti því nýja reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 957/2020, sem tók gildi 5. október 2020. Samkvæmt henni er skemmtistöðum og krám á öllu landinu auk spilasala gert skylt að hafa lokað á gildistíma reglugerðarinnar auk þess sem óheimilt er að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum, svo sem tónleikum, dansleikjum, brennum eða öðrum viðburðum sem ætla má að dragi að sér hóp fólks eftir kl. 23.00. Jafnframt er rekstraraðilum líkamsræktarstöðva gert skylt að hafa húsnæði sitt lokað almenningi. Ráðstafanir samkvæmt reglugerðinni gilda til og með 19. október 2020.
    Samkomutakmarkanir voru hertar enn frekar í sveitarfélögunum Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ og Kópavogsbæ með reglugerð nr. 966/2020 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 957/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, og fleiri rekstraraðilum gert skylt að loka starfsemi sinni og tiltekin starfsemi og þjónusta óheimil á tímabilinu 7. október 2020 til og með 19. október 2020. Samkvæmt breytingunni er sund- og baðstöðum gert skylt að hafa lokað og líkamsrækt, íþróttastarf og sambærileg starfsemi, sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða starfsemin krefst mikillar nálægðar eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, óheimil innandyra. Þá er starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar óheimil og í dæmaskyni nefnd starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, húðflúrstofa, hundasnyrtistofa og önnur sambærileg starfsemi.
    Ljóst er að tilteknir rekstraraðilar hafa orðið af rekstrartekjum vegna umræddra ráðstafana og ekki loku fyrir það skotið að fleiri aðilum verði gert að loka starfsemi tímabundið á næstum mánuðum. Því er talið eðlilegt að komið sé til móts við þá aðila vegna þeirrar lokunar sem þeim er gert að sæta á sambærilegan hátt og verið hefur vegna fyrri ákvarðana stjórnvalda um rekstrarstöðvun.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Lagt er til að þeir rekstraraðilar sem gert er skylt að sæta lokunum á sinni starfsemi eða stöðva hana frá 18. september 2020 geti sótt um lokunarstyrk úr ríkissjóði. Lagt er til að þetta framhald á lokunarstyrkveitingum hafi gildistíma allt fram á mitt ár 2021 en ljóst þykir að taka þarf úrræðið til endurskoðunar á fyrsta ársfjórðungi 2021 með tilliti til aðstæðna og þróunar faraldursins.
    Samkvæmt reglugerð nr. 864/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, var skemmtistöðum og krám á stórhöfuðborgarsvæðinu skylt að hafa lokað á tímabilinu 18. september 2020 til og með 27. september 2020. Samkvæmt reglugerð nr. 957/2020, um sama efni, var skemmtistöðum, krám og spilasölum á öllu landinu gert skylt að hafa lokað á gildistíma reglugerðarinnar auk þess sem skylt er að hafa húsnæði líkamsræktarstöðva lokað almenningi á tímabilinu 5. október 2020 til 19. október 2020. Með breytingarreglugerð nr. 966/2020 var sund- og baðstöðum á stórhöfuðborgarsvæðinu einnig gert skylt að loka auk þess sem líkamsrækt innanhúss sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar og starfsemi eða þjónusta sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar er óheimil á stórhöfuðborgarsvæðinu á gildistíma reglugerðar nr. 957/2020. Í ljósi þess að mikil óvissa ríkir um þróun farsóttarinnar er lagt til að heimildin sem nú er lögð til verði ekki einskorðuð við þessa aðila þar sem ekki er útilokað að fleiri aðilum verði gert að loka starfsemi tímabundið á næstu mánuðum.
    Skilyrði styrkveitinga í frumvarpinu eru í öllum meginatriðum sambærileg og vegna fyrri lokunarstyrkja en taka minni háttar breytingum vegna þess að nú er lagt til að úrræðið gildi einnig fram í tímann.
    Óbreytt er að áfram er gengið út frá því að heimildin nái eingöngu til þeirra rekstraraðila sem gert er að loka eða stöðva ákveðna starfsemi. Heimildin nær þannig, eins og áður, ekki til þeirra sem gert verður að hafa opnunartíma skertan eða að hlíta nálægðar- og fjöldatakmörkunum í starfseminni.
    Gert er að skilyrði að starfsemi hafi hafist a.m.k. einum heilum almanaksmánuði áður en til lokunar kemur og að um a.m.k. 75% tekjufall sé að ræða á lokunartímabili samanborið við jafnlangt tímabil næsta heila almanaksmánuð á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.
    Stærsta breytingin með frumvarpinu varðar fjárhæðir lokunarstyrkjanna en lagt er til að þeir geti orðið mun hærri en áður ákveðnir lokunarstyrkir. Fjárhæð styrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabili lokunar. Hún getur þó ekki orðið hærri en 600 þús. kr. á hvern launamann hjá rekstraraðila fyrir hverja samtals 30 daga lokun og hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil (20 þús. kr. á dag).
    Lagt er til að umsóknum skuli skilað eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lokunartímabili lýkur en að Skattinum verði heimilt að afgreiða umsóknir sem berast að liðnum þeim fresti enda séu öll önnur skilyrði laganna uppfyllt.
    Í ljósi þess að mikil óvissa ríkir um þróun farsóttarinnar er ekki loku fyrir það skotið að gripið verði til frekari samkomutakmarkana á næstu mánuðum. Því er lagt til að heimildin taki þegar gildi og gildi fram á mitt ár 2021.
    Ólíkt því sem gildir um fyrri lokunarstyrki er ekki lagt til að ramminn um styrkveitingar frumvarpsins flokkist sem minniháttaraðstoð samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins heldur verði hann tilkynntur til Eftirlitsstofnunar EFTA sem ríkisaðstoð.
    Að öðru leyti en að framan greinir er lagt til að ákvæði laga nr. 38/2020 gildi um framkvæmd styrkveitinganna eftir því sem við á.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið er ekki talið gefa tilefni til að kanna samræmi við stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Sú aðstoð sem frumvarpið gerir ráð fyrir fellur undir tímabundnar heimildir til að veita fyrirtækjum sem lenda í ófyrirséðum lausafjárskorti sökum kórónuveirufaraldursins fjárstuðning. Heimildir sem settar eru fram í kafla 3.1 í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020, kveða á um að stuðningur geti talist samrýmanlegur EES-samningnum enda nemi hann að hámarki 800.000 evrum fyrir hvern rekstraraðila, sem er rúmlega 130 millj. kr. miðað við gengið eins og það var skráð í lok september 2020, og slík aðstoð sé ekki veitt fyrirtækjum sem voru í erfiðleikum (í skilningi EES-reglugerðar um almenna hópundanþágu) þann 31. desember 2019. Síðarnefnda skilyrðið á þó ekki við um lítil fyrirtæki. Þegar lagt er mat á heildarstuðning og hvort fyrirtæki telst lítið teljast tengdir aðilar til eins og sama rekstraraðilans.
    Byggt er á sömu heimildum í tengslum við ríkisaðstoð sem fólst í ferðagjöfinni, sbr. lög nr. 54/2020, og í rekstrarstuðningi við einkarekna fjölmiðla, sbr. bráðabirgðaákvæði VI í lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, og er ríkisaðstoðarkerfið háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Fjárhæð lokunarstyrkja hefur fram til þessa verið unnt að fella undir reglur EES-samningsins um minniháttaraðstoð en slík aðstoð felur ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi samningsins. Hið sama hefur gilt um stuðningslán. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki sem teljast í erfiðleikum í framangreindum skilningi geti áfram notið lokunarstyrkja samkvæmt reglum um minniháttaraðstoð. Þær reglur kveða á um að heildarfjárhæð minniháttaraðstoðar til hvers rekstraraðila megi ekki á hverju þriggja skattára tímabili fara fram úr fjárhæð að jafngildi 200.000 evrum í íslenskum krónum sem eru ríflega 32 millj. kr. miðað við gengið eins og það var skráð í lok september 2020. Tengdir aðilar eru með sameiginlegt hámark hvað þetta varðar. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að upphæð stuðningslána, sem einnig flokkast með minniháttaraðstoð, telst ekki styrkandlagið í þessu samhengi heldur miðast það við muninn á vaxtakjörum stuðningslánsins og markaðsvöxtum.
    Í frumvarpinu er nokkuð byggt á hugtökum sem eiga rætur að rekja til þess sem fram kemur í reglum EES-réttar um ríkisaðstoð. Þau helstu eru eftirfarandi:
     Fyrirtæki í erfiðleikum: Fyrirtæki sem á í erfiðleikum í skilningi 18. liðar 2. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014 um almenna hópundanþágu.
     Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og er með árlega veltu undir 10 millj. evra og/eða efnahagsreikning undir 10 millj. evra, sbr. 2. gr. í I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu.
     Tengd fyrirtæki: Fyrirtæki sem tengjast með þeim hætti sem lýst er í 3. mgr. 3. gr. í I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu.
     Björgunaraðstoð: Aðstoð sem veitt er til að gera veikburða fyrirtæki kleift að halda áfram rekstri, á grundvelli leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til björgunar og endurskipulagningar í illa stöddum fyrirtækjum öðrum en fjármálafyrirtækjum.
     Endurskipulagningaraðstoð: Aðstoð sem veitt er til endurskipulagningar fyrirtækis, á grundvelli leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til björgunar og endurskipulagningar í illa stöddum fyrirtækjum öðrum en fjármálafyrirtækjum.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og Skattinn.
    Frumvarpið er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Áform um lagasetningu og drög að frumvarpi voru ekki kynnt opinberlega í samráðsgátt stjórnvalda vegna þess hve mikilvægt þótti að hraða framlagningu málsins á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
Áhrif á rekstraraðila.
    Styrkjunum er ætlað að koma til móts við tekjutap sem rekstraraðilar verða fyrir vegna ákvarðana stjórnvalda um rekstrarstöðvun og þeim er ætlað að draga úr líkum á rekstrarerfiðleikum þeirra af þeim sökum. Styrkjunum er ekki ætlað að bæta allt tekjutap fyrirtækjanna vegna lokana. Styrkfjárhæð er bundin því hámarki að hún verður aldrei hærri en rekstrarkostnaður rekstraraðila fyrir viðkomandi lokunartímabil. Í lögum nr. 38/2020 er rekstrarkostnaður skilgreindur með vísan til 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þ.e. rekstrarkostnaður að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna. Þá er jafnframt sett það hámark að styrkfjárhæð taki mið af fjölda launamanna hjá rekstraraðila og að fyrir tímabil sem er samanlagt 30 daga lokun geti hann ekki orðið hærri en 600 þús. kr. fyrir hvern launamann. Styrkurinn mun teljast til skattskyldra tekna en ekki virðisaukaskattsskyldrar veltu.

Áhrif á stjórnsýslu.
    Gert er ráð fyrir að Skatturinn annist framkvæmd styrkveitinganna eins og verið hefur og jafnframt að ákvarðanir hans sæti kæru til yfirskattanefndar. Viðbótin mun fela í sér breytingar á því rafræna umsóknarkerfi sem til staðar er hjá Skattinum og það mun fela í sér einhver aukin umsvif og kostnað en vegna óvissunnar um framhald á lokunum er ekki hægt að leggja mat á þann kostnað að svo stöddu. Ekki gert ráð fyrir teljandi áhrifum á yfirskattanefnd þar sem kærur til hennar vegna lokunarstyrkja eru, enn sem komið er, einungis þrjár.

Áhrif á ríkissjóð.
    Þar sem ekki er vitað hvort beita þurfi lokunum á næstu mánuðum liggja ekki fyrir upplýsingar um heildaráhrif á ríkissjóð af því að framlengja aðgerðina. Það sem liggur fyrir eru þær lokanir sem gripið var til á krám og skemmtistöðum á höfuðborgarsvæðinu í september 2020 og það sem þegar hefur verið ákveðið um lokanir í október, þ.e. lokanir kráa, skemmtistaða og líkamsræktarstöðva, ásamt því sem ýmiss konar annarri þjónustu (þó ekki heilbrigðisþjónustu) var gert að loka. Ef horft er til fjölda þeirra sem sótt höfðu um lokunarstyrk og viðbótarlokunarstyrk hjá Skattinum vegna lokana vorið 2020 er áætlaður fjöldi umsókna frá krám og skemmtistöðum um 37 talsins, frá líkamsræktarstöðvum um 17 og frá öðrum þjónustufyrirtækjum um 407. Búast má við að umsóknir verði þó eitthvað færri þar sem nýlegar lokanir hafa sumar afmarkast við höfuðborgarsvæðið eða stórhöfuðborgarsvæðið.
    Ef tekið er mið af upplýsingum frá Skattinum um fjölda launamanna hjá þeim fyrirtækjum sem hafa þurft að sæta lokunum það sem af er ári þá má gera ráð fyrir að hámarksstyrkur til kráa og skemmtistaða vegna 25 lokunardaga geti orðið um 223 millj. kr. og styrkir til líkamsræktarstöðva vegna lokana í 15 daga verði ekki hærri en 42 millj. kr. Ef miðað er við að í öðrum þjónustufyrirtækjum sé mikið um einyrkja þá er hámarksúthlutun styrkja fyrir 13 daga lokun í október um 105 millj. kr. Þannig verða áhrif frumvarpsins á ríkissjóð vegna þeirra lokana sem nú þegar hefur verið gripið til allt að 370 millj. kr. ef gert er ráð fyrir að allir fyrri umsækjendur eigi rétt á hámarksfjárhæð styrksins.
    Lagt er til að gildistími á framlengingu úrræðisins verði fram á mitt ár 2021. Heildaráhrif á ríkissjóð af úrræðinu fram að þeim tíma ráðast af því hve mikið verður um lokanir og hve mikið fyrirtæki koma til með að nýta sér úrræðið sem er valfrjálst og sækja þarf um sérstaklega.
    Kostnaðarmat vegna frumvarps þess er varð að lögum nr. 38/2020 gerði ráð fyrir ákveðnu svigrúmi vegna óvissu um umfang styrkjanna. Í því frumvarpi var gert ráð fyrir að um 2000 rekstraraðilar gætu fengið styrk sem yrði allt að 2,5 milljarðar kr. Reyndin hefur orðið sú að mun færri fengu styrkinn og hinn 7. október 2020 höfðu 1056 rekstraraðilar fengið lokunarstyrk fyrir tímabilið 24. mars – 4. maí og heildarupphæð styrkjanna var rúmlega 1,05 milljarðar kr. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum 6. október 2020 sóttu 54 rekstraraðilar um viðbótarlokunarstyrk fyrir tímabilið 4. maí – 24. maí en umsóknarfrestur vegna þess tímabils rann út 1. október 2020.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lögð er til sú breyting á gildissviðsákvæði laganna að fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 verði ekki viðhaldið því skilyrði fyrir lokunarstyrkveitingum að rekstraraðili skuli hafa hafið starfsemi fyrir 1. febrúar 2020. Þess í stað verði starfsemi þeirra sem falla undir lögin eftir breytinguna að hafa hafist að lágmarki einum heilum almanaksmánuði áður en lokunartímabil hófst. Í dæmaskyni má nefna að þeir rekstraraðilar sem sækja um styrk fyrir lokunartímabilið 18.–27. september 2020 þurfa að hafa hafið starfsemi í síðasta lagi 1. ágúst 2020.

Um 2. gr.

    Lagt er til að skýringu á hugtakinu „lokunartímabil“ verði bætt við orðskýringar laganna. Lokunartímabil er sá fjöldi daga sem rekstraraðila er samfellt gert að sæta lokunum eða stöðvun á starfsemi eða atvinnurekstri. Lokunartímabil getur að lágmarki verið einn dagur en ekki er kveðið á um neitt hámark á lokunartímabili. Það getur því farið yfir mánaðamót og verið lengra en 30 dagar. Útreikningur fjárhæða lokunarstyrkja miðast þó alltaf við 30 daga tímabil sem ekki er endilega í sama almanaksmánuði.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að bætt verði málslið við 1. tölul. 4. gr. um að rekstraraðilar geti fengið lokunarstyrki hafi þeim verið gert skylt að loka samkomustað eða stöðva starfsemi eða þjónustu á grundvelli ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar frá 18. september 2020. Eins og áður nær heimildin ekki til þeirra rekstraraðila sem einungis er gert að sæta fjölda- og nálægðartakmörkunum eða takmörkun á opnunartíma. Þá nær heimildin ekki til þeirra aðila sem verða af tímabundnu leyfi fyrir skemmtunum skv. 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 957/2020 enda ekki um viðvarandi starfsemi að ræða og öðrum skilyrðum laganna því ekki fullnægt.
    Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í reglugerð nr. 864/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, var skemmtistöðum og krám á stórhöfuðborgarsvæðinu gert skylt að hafa lokað á tímabilinu frá 18. september 2020 til og með 27. september 2020. Samkvæmt reglugerð nr. 957/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, er skemmtistöðum, krám og spilasölum á öllu landinu gert skylt að hafa lokað á gildistíma reglugerðarinnar auk þess sem húsnæði líkamsræktarstöðva skal vera lokað almenningi á tímabilinu 5. október 2020 til og með 19. október 2020. Með breytingarreglugerð nr. 966/2020 var sund- og baðstöðum á stórhöfuðborgarsvæðinu einnig gert skylt að loka auk þess sem líkamsrækt innanhúss sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar og starfsemi eða þjónusta sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á stórhöfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 7. október 2020 til og með 19. október 2020.
    Skemmtistaðir og krár teljast til leyfisskyldra veitingastaða í skilningi 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sbr. 4. gr. sömu laga. Skv. 18. gr. reglugerðar 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, eru skemmtistaðir skilgreindir sem veitingastaðir með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Þar undir falla einnig staðir þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat. Í sama ákvæði er krá skilgreind sem veitingastaður með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma. Um er að ræða sömu staði og gert var að loka tímabundið á grundvelli auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar nr. 243/2020. Því er ljóst að í flestum tilvikum er um að ræða aðila sem hafa áður átt rétt á lokunarstyrk. Í ljósi þess að mikil óvissa ríkir um þróun farsóttarinnar er lagt til að heimildin verði ekki einskorðuð við þessa aðila þar sem ekki er loku fyrir það skotið að fleiri aðilum verði gert að loka starfsemi tímabundið á næstu mánuðum. Er því lagt til að heimildin verði ótímabundið í gildi vegna ákvarðana sem heilbrigðisráðherra kann að taka um takmörkun á samkomum vegna farsóttar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997. Undanþágur sem veittar eru frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra koma ekki í veg fyrir að skilyrði ákvæðisins sé uppfyllt.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar á orðalagi 2. tölul. 4. gr. þannig að miðað verði við að tekjur rekstraraðila á lokunartímabili verði a.m.k. 75% lægri en á samsvarandi tímabili í næsta heila almanaksmánuði, eða mánuðum, á undan. Óbreytt er því að gerð er krafa um 75% tekjufall en viðmiðunartíminn tekur mið af því að úrræðið verður ekki bundið við fyrirframákveðin tímabil heldur er ótímabundið og nær fram í tímann. Heimilt er að nota önnur tímabil á undan til viðmiðunar hafi sama starfsemi þurft að sæta lokunum næsta heila almanaksmánuð á undan lokunartímabili.
    Í c-lið er lagður til nýr málsliður sem felur í sér að áfram er gerð krafa um að tekjur á heilu rekstrarári samsvari að lágmarki 4,2 millj. kr. eða 350 þús. kr. á mánuði. Sem dæmi má nefna að rekstraraðili sem fellur undir 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. getur í síðasta lagi hafa hafið starfsemi 1. ágúst 2020, miðað við breytt gildistökuákvæði. Sá aðili þyrfti að lágmarki að hafa haft 350 þús. kr. í tekjur frá 1. ágúst 2020 til 1. september 2020.

Um 4. gr.

    Lagt er til að fjárhæð lokunarstyrkja á grundvelli nýs 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. verði ákvörðuð með hliðstæðum hætti og nú er gert í 1. mgr. 5. gr. laganna en þó þannig að styrkfjárhæðirnar geti orðið mun hærri en áður. Fjárhæðin verði þannig að meginreglu til jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á því tímabili sem skylt var að loka eða stöðva starfsemi á grundvelli reglugerðar eða annarrar ákvörðunar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Lokunarstyrkur á grundvelli nýs 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. kemur til viðbótar fjárhæð lokunarstyrks og viðbótarlokunarstyrks á grundvelli sömu laga og hefur ekki áhrif á fjárhæð þeirra. Í ákvæðinu eru sett fram hámörk sem gilda fyrir hverja 30 daga lokunar sem miðast við 600 þús. kr. á hvern launamann hjá rekstraraðila. Fjöldi launamanna tekur mið af fyrirliggjandi staðgreiðsluskilagreinum eins og þær lágu fyrir á lokunartímabilinu.
    Ekki er nauðsynlegt að um samfellt 30 daga lokunartímabil sé að ræða heldur gæti um samanlagða 30 daga lokun verið að ræða. Ekkert hámark er á því hve oft er hægt að ákvarða styrk en sömu hámörk gilda fyrir hverja 30 daga.
    Þá er lagt til að heildarfjárhæð lokunarstyrkja til tengdra rekstraraðila geti ekki numið hærri fjárhæð en 120 millj. kr. Þetta skilyrði er til samræmis við kafla 3.1 í tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, sem samrýmanleiki lokunarstyrkja byggir á. Samkvæmt kaflanum getur heildarfjárhæð aðstoðar til hvers fyrirtækis að hámarki numið 800 þús. evrum. Við skilgreiningu fyrirtækis í framangreindum skilningi er horft til eigna- og stjórnunartengsla og teljast tengdir aðilar því eitt fyrirtæki þegar kemur að hámarkinu. Með tengdum rekstraraðilum er vísað til tengsla sem skilgreind eru í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu þar sem einkum er horft til þess hvort:
          fyrirtæki ræður meirihluta atkvæða hluthafa eða félaga í öðru fyrirtæki,
          fyrirtæki hefur rétt til að skipa eða leysa frá störfum meirihluta manna í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn annars fyrirtækis,
          fyrirtæki hefur yfirráð yfir öðru fyrirtæki samkvæmt samningi sem gerður hefur verið við það fyrirtæki eða ákvæðum í stofnsamþykktum þess, eða
          fyrirtæki, sem er hluthafi eða félagi í öðru fyrirtæki, ræður eitt meirihluta atkvæða hluthafanna eða félaganna samkvæmt samningi við aðra hluthafa eða félaga fyrirtækisins.
    Sé um að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð lokunarstyrkja þó að hámarki numið 30 millj. kr., nema ef um er að ræða lítil fyrirtæki enda hafi þau ekki hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð. Heimildir kafla 3.1 í tímabundnum ramma um ríkisaðstoð, sem vísað er til að framan, ná ekki til ríkisaðstoðar til fyrirtækja sem töldust í erfiðleikum þann 31. desember 2019, í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu. Undanþága er gerð frá þessu skilyrði vegna lítilla fyrirtækja. Lítil fyrirtæki eru fyrirtæki sem hafa færri en 50 starfsmenn og ársvelta og/eða niðurstöðutala efnahagsreiknings fer ekki yfir 10 millj. evra, sbr. skilgreiningu í I. viðauka við almennu hópundanþágureglugerðina. Slík fyrirtæki mega þó ekki hafa sætt gjaldþrotameðferð, sbr. 5. gr. laganna, eða hlotið stuðning á grundvelli leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til björgunar og endurskipulagningar í illa stöddum fyrirtækjum öðrum en fjármálafyrirtækjum. Engin íslensk fyrirtæki hafa hlotið slíkan stuðning síðastliðinn áratug.
    Fyrirtæki sem ekki er unnt að veita ríkisaðstoð vegna framangreindra takmarkana tímabundna rammans geta notið minniháttaraðstoðar á grundvelli reglugerðar um minniháttaraðstoð, líkt og nánar greinir í skýringum við 6. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Samkvæmt gildandi 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru skal beina umsókn um lokunarstyrk til Skattsins eigi síðar en 1. september 2020 og 1. október 2020 í tilviki viðbótarlokunarstyrkja. Í frumvarpinu er lagt til að unnt verði að sækja um lokunarstyrki vegna 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. í þrjá mánuði eftir að lokunartímabili lýkur en þó er jafnframt lagt til að Skattinum verði heimilt að afgreiða umsóknir sem berast að liðnum þeim fresti enda séu öll önnur skilyrði laganna uppfyllt. Er það meðal annars gert með tilliti til aðstæðna í samfélaginu og þeirra tafa sem þær geta óhjákvæmilega valdið. Gert er ráð fyrir að réttur til lokunarstyrks geti ekki stofnast eftir mitt ár 2021, í samræmi við þær heimildir EES-samningsins um veitingu ríkisaðstoðar sem byggt er á vegna úrræðisins. Í því felst að umsókn verður að hafa borist í síðasta lagi 30. júní 2021. Lagt verður mat á það vorið 2021, með hliðsjón af þróun faraldursins og ráðstafana tengdum honum, hvort þörf sé á að framlengja tímafrestina.

Um 6. gr.

    Í greininni er byggt á því að sá stuðningur sem felst í styrkjum og ríkisábyrgð skv. II. og III. kafla laganna skuli samræmast annars vegar tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu sem tók gildi í mars 2020 og hins vegar svonefndri reglugerð um minniháttaraðstoð (e. de minimis aid) sem er hluti af XV. viðauka EES-samningsins. Stuðningur sem uppfyllir skilyrði tímabundna rammans getur numið allt að 800 þús. evrum fyrir hvern rekstraraðila. Í þeim stuðningi felst ríkisaðstoð sem tilkynningarskyld er til Eftirlitsstofnunar EFTA. Stuðningur sem ekki uppfyllir skilyrði rammans en uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar um minniháttaraðstoð getur numið allt að 200 þús. evrum fyrir hvern rekstraraðila og telst hann ekki til ríkisaðstoðar í skilningi 61. gr. EES-samningsins sökum þess hve um lágar fjárhæðir er að ræða.

Um 7. gr.

    Í greininni lagt til að réttur til lokunarstyrks geti ekki stofnast eftir mitt ár 2021, í samræmi við þær heimildir EES-samningsins um veitingu ríkisaðstoðar sem byggt er á vegna úrræðisins. Í því felst að umsókn verður að hafa borist í síðasta lagi 30. júní 2021. Lagt verður mat á það vorið 2021 hvort þörf sé á að framlengja úrræðið.

Um 8. gr.

    Lagt er til að öll ákvæði laganna öðlist þegar gildi en að heimild Skattsins til að afgreiða umsóknir sem berast að liðnum umsóknarfresti gildi afturvirkt frá og með gildistöku laga nr. 38/2020.