Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 254  —  181. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um lýtaaðgerðir á stúlkum og starfsemi lýtalækna.


     1.      Hversu margar lýtaaðgerðir hafa verið gerðar á skapabörmum stúlkna undir 18 ára aldri á síðustu 10 árum?
    Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, heldur landlæknir heilbrigðisskrár og safnar í þær gögnum um starfsemi heilbrigðisþjónustu. Ein þessara skráa er vistunarskrá heilbrigðisstofnana en í hana safnast gögn í rauntíma frá legudeildum og ferlideildum sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Engar aðgerðir á skapabörmum stúlkna voru skráðar á legudeildum á síðustu tíu árum. Gögn frá ferlideildum ná aftur til ársins 2011 og á tímabilinu 2011–2019 voru skráðar 11 slíkar aðgerðir þar hjá stúlkum undir 18 ára aldri.
    Önnur heilbrigðisskrá sem landlæknir heldur, í samræmi við áðurnefnd lög, er samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Gögn í þeirri skrá ná aftur til ársins 2012. Því miður hefur verið vandkvæðum bundið að fá gögn frá sjálfstætt starfandi lýtaskurðlæknum og gögn um efni spurningarinnar því ekki þekjandi. Í þeim gögnum sem lýtaskurðlæknar hafa skilað inn til embættis landlæknis á tímabilinu 2012–2017 eru engar lýtaaðgerðir á skapabörmum skráðar hjá stúlkum undir 18 ára aldri.

     2.      Hversu margar lýtaaðgerðir hafa verið gerðar á brjóstum stúlkna undir 18 ára aldri á síðustu 10 árum?
    Samkvæmt tölum úr vistunarskrá heilbrigðisstofnana voru eftirtaldar lýtaaðgerðir á brjóstum framkvæmdar hjá stúlkum undir 18 ára aldri á árunum 2010–2019, skipt eftir aldri:

Tegund aðgerðar

Aldur

Alls 2011–2019
9 16 17
Brjóstastækkun 2 3 5
Brjóstaminnkun 3 6 9
Önnur lýtaaðgerð á brjósti 1 1 3 5

    Í þeim gögnum sem lýtaskurðlæknar hafa skilað inn til embættis landlæknis á tímabilinu 2012–2017 eru engar lýtaaðgerðir á brjóstum skráðar hjá stúlkum undir 18 ára aldri.
    Sömu fyrirvarar og settir voru í svari við 1. tölul. gilda um tölur um lýtaaðgerðir á brjóstum.

     3.      Telur ráðherra að lög um landlækni og lýðheilsu séu nægilega skýr þegar kemur að upplýsingaskyldu lýtalækna gagnvart embætti landlæknis?
    Samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga byggist á skilgreindri lagaheimild 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, um skýrslugerð og heilbrigðisskrár. Það hefur verið mat embættis landlæknis að skráning þessi sé nauðsynleg vegna skipulagningar heilbrigðisþjónustu á landsvísu og eftirlits með gæðum hennar. Hún sé einnig nauðsynleg til þess að embættið geti rækt lögbundið hlutverk sitt enda sé gætt meðalhófs við skráningu upplýsinga. Samkvæmt embætti landlæknis hefur hluti sjálfstætt starfandi sérfræðilækna ekki skilað gögnum í samskiptaskrána. Embætti landlæknis hefur sent heilbrigðisráðuneytinu erindi vegna þessa sem nú er til skoðunar í ráðuneytinu.

     4.      Hvaða úrræði hefur landlæknir til að fylgjast með öryggi og gæðum þjónustu á vegum lýtalækna?
    Lýtaskurðlæknar eru heilbrigðisstarfsmenn og heyra því undir eftirlit embættis landlæknis samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Í 13. gr. laganna kemur fram að landlæknir hefur eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á.
    Í 7. gr. segir að landlæknir hafi eftirlit með að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Landlæknir hefur heimild til að krefja heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og aðra sem veita heilbrigðisþjónustu um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu og er þeim skylt að verða við slíkri kröfu. Landlæknir skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna til eftirlits samkvæmt lögunum.
    Enn fremur kemur fram í lögunum að telji landlæknir að heilbrigðisþjónusta uppfylli ekki faglegar kröfur skv. 6. gr. laganna eða önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf þá skuli hann beina tilmælum um úrbætur til rekstraraðila. Verði rekstraraðili ekki við slíkum tilmælum ber landlækni að skýra ráðherra frá málinu og gera tillögur um hvað gera skuli. Getur ráðherra þá tekið ákvörðun um að stöðva rekstur tímabundið, þar til bætt hefur verið úr annmörkum, eða stöðva rekstur að fullu.
    Landlæknir hefur því sömu úrræði til að fylgjast með öryggi og gæðum þjónustu á vegum lýtaskurðlækna og öryggi og gæðum þjónustu á vegum annarra heilbrigðisstarfsmanna.
    Mikilvægur þáttur í eftirliti landlæknis er einnig sjúklingurinn sjálfur. Sjúklingar geta leitað til landlæknis með erindi og þeir eiga rétt á að beina formlegri kvörtun til landlæknis, t.d. vegna meintrar vanrækslu eða mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu, sbr. nánar 12. gr. fyrrgreindra laga.

     5.      Hvert er hlutfall lýtalækna, árlega frá 2010–2019, sem staðið hafa skil á starfsemisupplýsingum til landlæknis um starfsemi í heilbrigðisþjónustu á þeirra vegum?
    Samkvæmt nýjustu tölum eru hér á landi starfandi 13 lýtaskurðlæknar. Á undanförnum árum hafa á bilinu þrír til fimm lýtaskurðlæknar skilað inn gögnum til embættis landlæknis. Síðast var kallað eftir gögnum frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum á árinu 2019, fyrir árin 2017 og 2018. Fimm lýtalæknar skiluðu inn gögnum fyrir árið 2017 og náðu þau til alls 6.922 samskipta við 3.407 einstaklinga. Í gögnunum sem hafa verið send inn undanfarin ár hafa þó aðeins verið upplýsingar um sjúkdómsgreiningar fyrir hluta samskiptanna en þær upplýsingar eru forsenda þess að gögnin nýtist sem skyldi. Í gögnunum fyrir árið 2017 voru til að mynda aðeins upplýsingar um sjúkdómsgreiningar fyrir 492, eða 7%, samskipta. Engin gögn hafa borist embætti landlæknis frá lýtaskurðlæknum fyrir árið 2018.