Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 332  —  224. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur og Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Katrínu Maríu Andrésdóttur frá Samtökum garðyrkjubænda og Gunnar Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands.
    Nefndinni bárust engar umsagnir vegna málsins né bárust umsagnir eða athugasemdir við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda í september.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á búvörulögum til samræmis við samkomulag sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sem gert var fyrir hönd íslenska ríkisins við Bændasamtök Íslands og Samtök garðyrkjubænda um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 19. febrúar 2016. Samkomulagið var undirritað þann 14. maí 2020, m.a. með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir nauðsynlegum lagabreytingum. Breytingarnar eru liður í að ná því markmiði að framleiðsla á íslensku grænmeti muni hafa aukist um 25% við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 og í því skyni er aukið um 200 millj. kr. á ári við samninginn sem nýta skal m.a. til beingreiðslna vegna flutnings á raforku. Því er lagt til að 2. mgr. 58. gr. búvörulaga verði breytt til einföldunar þannig að hún kveði á um beingreiðslur vegna dreifingar- og flutningskostnaðar vegna raforku í stað niðurgreiðslu á kostnaði líkt og nú er. Skilyrði verði útfærð í reglugerð, sbr. heimild í 3. mgr. 61. gr. laganna, til samræmis við fyrrgreint samkomulag. Einnig verði kveðið á um að hámarksgreiðslur til hvers framleiðanda af heildarframlagi vegna þeirra beingreiðslna hækki úr 15% í 17,5%.
    Fyrir nefndinni kom fram að mikilvægt sé að garðyrkjubændur hafi aukinn fyrirsjáanleika þegar kemur að niðurgreiðslu vegna raforku og að á svæðum sem hafa takmarkað aðgengi að raforku verði litið til mikilvægis þess við uppbyggingu. Ljóst sé að aðgengi að raforku er takmarkandi þáttur við uppbyggingu gróðurhúsa og hafi því bein áhrif á hvar á landinu starfseminni er valinn staður. Mikilvægt sé að það fjármagn sem veitt er til niðurgreiðslu raforku hjá garðyrkjubændum haldi í við 95% niðurgreiðslu á flutningskostnaði, sérstaklega með tilliti til fyrirsjáanleika við gerð rekstraráætlana hjá bændum og í ljósi þeirra markmiða í samningnum að auka framleiðslu í garðyrkju um 25% til ársins 2023. Með vísan til þess þurfi að vera skýrt hvernig fara skuli með beingreiðslur ef hlutfall flutningskostnaðar fer niður fyrir t.d. 80%, þegar heildarorkunotkun ársins liggur fyrir.
    Nefndin telur með hliðsjón af framangreindu mikilvægt að frekari fyrirsjáanleiki verði í niðurgreiðslum vegna raforkuflutnings til garðyrkjubænda. Það leiðir af sér betri rekstraráætlanir fyrir bændur hvað þennan þátt varðar.
    Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:
    Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða en sem nemur 10% af heildarframlögum til beingreiðslna, að undanskildum beingreiðslum vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku. Hámarkið er reiknað af hverjum beingreiðsluflokki fyrir sig. Hámarksstuðningur af beingreiðslum vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á hvern framleiðanda er 17,5% af heildarframlögum til þess beingreiðsluflokks.

Alþingi, 12. nóvember 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson, frsm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Haraldur Benediktsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.