Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 414  —  17. mál.
Meiri hluti. Framsögumaður.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010 (flokkun og eftirlit með mannvirkjum).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kristinsson frá BSI á Íslandi, Ágúst Jónsson frá Faggildingarráði, Jóhann Ólafsson og Herdísi Hallmarsdóttur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur og Eyrúnu Arnarsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Elmar Hallgrímsson og Finnbjörn A. Hermannsson frá Samiðn, Stefán Vilbergsson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Berg Þorra Benjamínsson frá Sjálfsbjörg, Tryggva Þórhallsson og Guðjón S. Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Jón Ben Einarsson, Hildi Bjarnadóttur, Svein Björnsson, Önnu Guðrúnu Gylfadóttur og Birgi Haraldsson frá Félagi byggingarfulltrúa.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá BSI á Íslandi, Faggildingarráði, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins, Samiðn, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, sem fela m.a. í sér að ráðherra skuli í reglugerð flokka mannvirki eftir stærð, vandastigi, fyrirhugaðri notkun og samfélagslegu mikilvægi með það að markmiði að hægt sé að aðlaga umsóknarferli og eftirlit að umfangi framkvæmda.
    Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði sem varða rafræn skil á hönnunargögnum, rafrænar undirskriftir og samþykki vegna umsóknarferlis og skil á gögnum vegna mannvirkjagerðar. Með frumvarpinu er lagt til að krafa um faggildingu fyrir byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skv. 19. gr. laganna verði felld brott.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Með frumvarpinu er lagt til að mannvirki verði flokkuð eftir áhættustigi og gert ráð fyrir að eftirlit með þeim verði til samræmis við þá flokkun. Þá er einnig fjallað um það á hvaða hátt beri að haga eftirliti með gæðastjórnunarkerfum þeirra sem að mannvirkjagerð koma, þ.e. löggiltra hönnuða, byggingarstjóra og löggildra iðnmeistara.
    Í umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er á það bent að orðalag frumvarpsins um að eftirlitið verði framkvæmt á grundvelli skráðra upplýsinga í byggingagátt gæti valdið þeim misskilningi að tilefni til eftirlits fari eftir því að athugasemdir um störf þessara aðila séu skráð í byggingagátt. Þá kunni orðið „úrtaksskoðun“ að valda misskilningi.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á ákvæði b-liðar 4. gr. frumvarpsins um tilefni eftirlits með gæðastjórnunarkerfum. Þessari breytingu er ætlað að tryggja að framkvæmd eftirlits sé ótvíræð og auðlesin jafnt fyrir þá sem framkvæma eftirlitið og þá sem sæta eftirliti.
Algild hönnun.
    Fyrir nefndinni og í umsögn Öryrkjabandalags Íslands komu fram athugasemdir og ábendingar um mikilvægi þess að reglum um fullt aðgengi fyrir alla verði fylgt í hvívetna og hvatt til þess að lögð verði aukin áhersla á framfylgni við gildandi hönnunarkröfur. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið og beinir því til leyfisveitenda að tryggja það að reglum um fullt aðgengi fyrir alla að mannvirkjum verði eftirleiðis framfylgt.

Rafræn byggingagátt.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum var lögð áhersla á að rafræn byggingagátt yrði tekin í notkun. Meiri hlutinn tekur undir þær ábendingar sem henni bárust hvað þetta varðar og beinir því til félagsmálaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að huga vel að gerð rafrænu byggingagáttarinnar. Telur meiri hlutinn mikilvægt að gáttin komist í almenna notkun við fyrsta tækifæri, en með henni er eftirlit með framkvæmd bygginga auðveldað til muna. Þá beinir meiri hlutinn því einnig til áðurnefndra aðila að huga sérstaklega að úttektum, mati og skráningu á rakaskemmdum í nýbyggingum og að efla eftirlit á því sviði.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Efnismálsgrein b-liðar 4. gr. orðist svo:
                  Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með störfum löggiltra hönnuða, löggiltra iðnmeistara og byggingarstjóra, m.a. með úttektum á gæðastjórnunarkerfum þeirra. Eftirlit með gæðastjórnunarkerfum löggiltra hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara skal fara fram á minnst fimm ára fresti, auk þess sem heimilt er að framkvæma aukið og/eða tíðara eftirlit ef ítrekað koma fram aðfinnslur við störf þeirra. Við framkvæmd eftirlits, sem og við umsókn um starfsleyfi eða endurnýjun þess, skulu eftirlitsskyldir aðilar afla og leggja fram úttektarskýrslu um gerð eða virkni gæðastjórnunarkerfis frá faggiltri skoðunarstofu eða vottunarstofu. Komi í ljós við eftirlit að gæðastjórnunarkerfi uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim skal gefa eftirlitsskyldum aðila kost á að bæta úr því nema um alvarlegt brot sé að ræða. Um alvarleg og ítrekuð brot fer samkvæmt ákvæðum 57. gr. Heimilt er að kveða nánar á um tilhögun eftirlits í reglugerð.
     2.      Í stað orðsins „Umframvinna“ í 3. efnismálsl. b-liðar 8. gr. komi: Gjald fyrir umframvinnu.
     3.      Í stað orðanna „Gjaldtakan skal aldrei vera hærri en“ í 2. efnismálsl. 9. gr. komi: Gjaldið skal aldrei vera hærra en.
     4.      Í stað orðanna „laga þessara“ í a-lið 11. gr. komi: laganna.
     5.      Í stað orðanna „Þá getur ráðherra einnig“ í 2. mgr. 13. gr. komi: Ráðherra getur.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.


Alþingi, 25. nóvember 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Vilhjálmur Árnason, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.