Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 506  —  300. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (tekjutengdar bætur).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tímabundnar breytingar sem ætlað er að bregðast við stöðu vinnumarkaðarins vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Er því ætlað að draga úr tjóni vegna heimsfaraldursins og tryggja að neikvæð áhrif hans á atvinnulíf og efnahag heimilanna verði sem minnst.
    Með frumvarpinu er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögum um atvinnuleysistryggingar verði miðað við að heimilt sé að greiða þeim sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins tekjutengdar atvinnuleysisbætur í allt að sex mánuði, að uppfylltum skilyrðum.
    Þá eru lagðar til breytingar á 9.–11. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á 1. mgr. ákvæðisins þess efnis að ákvæðið gildi til 31. desember 2020.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í ljósi framhalds af aðgerðum stjórnvalda til að skapa viðspyrnu við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar, Viðspyrna fyrir Ísland, sem kynnt var 20. nóvember sl., leggur meiri hlutinn, í samráði við félagsmálaráðuneytið, til að breyting verði gerð á frumvarpinu þannig að það nái ekki eingöngu til heimildar til að greiða þeim sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins tekjutengdar atvinnuleysisbætur í allt að sex mánuði.

6% af grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni.
    Í samræmi við aðgerðir stjórnvalda leggur meiri hlutinn til að í stað dagsetningarinnar 31. desember 2020 í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV í lögum um atvinnuleysistryggingar komi til og með 31. desember 2021. Með þessu er framlengdur réttur á 6% óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni.

Atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
    Í samræmi við aðgerðir stjórnvalda leggur meiri hlutinn til að í stað dagsetningarinnar 31. desember 2020 í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum um atvinnuleysistryggingar komi 31. maí 2021. Leggur meiri hlutinn jafnframt til breytingu varðandi atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli og breyttar dagsetningar í 9., 10. og 11. mgr. ákvæðisins til samræmis við framangreint eða til og með 31. maí 2021.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á dagsetningunni 1. janúar 2021 í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um Ábyrgðasjóð launa, og í stað hennar komi þar dagsetningin 1. júní 2021. Telur meiri hlutinn mikilvægt að ákvæði þetta hafi sama gildistíma og úrræðið um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, en ákvæðið fellur að óbreyttu úr gildi 1. janúar 2021.

Kostnaðarmat.
    Nefndinni barst minnisblað frá félagsmálaráðuneytinu um mat á kostnaði við frumvarpið eins og það breytist að tillögu meiri hlutans fyrir ríkissjóð. Samkvæmt áhrifamati ráðuneytisins má áætla að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna frumvarpsins verði að hámarki 6,7 milljarðar kr. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til minnisblaðs ráðuneytisins.

    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Í stað orðanna „til 31. desember 2020“ í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV í lögunum kemur: til og með 31. desember 2021.
     2.      1. gr. orðist svo:
              Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum:
              a.      Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2020“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 31. maí 2021.
              b.      Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2020“ í 2. málsl. 9. mgr. kemur: 31. maí 2021.
              c.      Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2020“ í 10. mgr. kemur: 31. maí 2021.
              d.      Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2020“ í 11. mgr. kemur: 31. maí 2021.
     3.      Við bætist ný grein, svohljóðandi:
                  Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum: Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2021“ í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum kemur: 1. júní 2021.

Alþingi, 4. desember 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara. Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara. Halla Signý Kristjánsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Vilhjálmur Árnason.