Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 519  —  19. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.).

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Frumvarpið var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Fjölmargar umsagnir bárust, auk þess sem nefndin fékk til sín gesti, sem nýttist við vinnu nefndarinnar.
    Margar athugasemdir og nokkuð hörð gagnrýni kom fram í fjölda umsagna og hjá gestum nefndarinnar sem lagði í kjölfarið til nokkrar breytingar. Þær hafa ratað inn í það frumvarp sem nú liggur fyrir á þessu þingi. Ástæða er til að fagna því þar sem þær voru til nokkurra bóta. Þær eru þríþættar og lúta í fyrsta lagi að því að áskilið er að sendiherrar sem skipaðir verði tímabundið, án auglýsingar, hafi háskólamenntun og reynslu í alþjóða- og utanríkismálum eða sértæka reynslu sem nýtist í embætti. Í öðru lagi veitir frumvarpið ráðherra heimild til að kalla sendiherra sem skipaðir eru tímabundið heim til annarra starfa innan skipunartímans. Í þriðja lagi er krafa um að skipuð verði hæfnisnefnd sem verði ráðherra til ráðgjafar um hæfni og almennt hæfi mögulegra sendiherraefna. Þrátt fyrir ýmsar jákvæðar breytingar frá fyrra frumvarpi og þó að 1. minni hluti sé um margt sammála meginmarkmiðum þess stendur enn of margt út af til þess að málið geti talist fullbúið.
    Við stöndum frammi fyrir risastórum alþjóðlegum áskorunum vegna fátæktar, styrjalda og hamfarahlýnunar. Nú síðast bættist við heimsfaraldur. Þar að auki erum við stödd í miðri stafrænni tæknibyltingu sem unir hvorki hreppamörkum né landamærum á sama hátt og áður. Við lifum í síkviku alþjóðaumhverfi og stöndum andspænis nýrri heimsmynd. Það er enginn vinnandi vegur að takast á við þetta nema með miklu fjölþjóðlegu samstarfi. Kröfur til góðrar og skilvirkrar utanríkisþjónustu fara því vaxandi. Hún þarf að vera í fyrirsvari í varnarmálum, loftslagsmálum, viðskiptasamningum, þróunarmálum, norðurslóðamálum, auðlindamálum – öllum okkar fjöldamörgu alþjóðlegu skuldbindingum.
    Starf og eðli utanríkisþjónustu hefur líka breyst mjög á síðustu áratugum – og getur tekið mjög miklum breytingum á skömmum tíma eins og nú í heimsfaraldrinum. Breyttur heimur felur í sér miklar áskoranir en líka tækifæri fyrir smáþjóð eins og Ísland. Þekking, hugvit og reynsla starfsfólks í utanríkisþjónustu Íslands skiptir því sköpum og mikilvægt er að vanda til verka þegar gerðar eru breytingar á lögum um hana. Það skiptir höfuðmáli að utanríkisþjónustan búi á hverjum tíma yfir úrvalsstarfsfólki en sé á sama tíma nógu sveigjanleg til að takast á við nýjar aðstæður.
    Það er því ánægjulegt að skipan embættismanna í utanríkisþjónustu sé til skoðunar hjá ráðherra og nauðsynlegt að tryggja jafnræði, gagnsæi og fagmennsku við ráðningar svo hægt sé að skapa farsæla umgjörð utan um mannauð utanríkisþjónustunnar og byggja upp trausta og góða liðsheild. Þá þarf að auka jafnrétti kynjanna og einnig að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk með nýja þekkingu og sýn á utanríkismál.
    Það er löngu tímabært að ráðast í heildarendurskoðun á lögum nr. 39/1971, um utanríkisþjónustuna. Þörf er á að leggjast í umfangsmikla skoðun á tilgangi utanríkisþjónustu Íslands og starfsháttum hennar í breyttum heimi. Þó vissulega séu boðuð framfaraskref í frumvarpinu er t.d. sérkennilegt að festa í lög tiltekinn fjölda sendiherra áður en sú heildarendurskoðun hefur verið gerð. Með frumvarpinu er lagt til að hámarksfjöldi skipaðra sendiherra án staðarákvörðunar verði aldrei fleiri en fjöldi sendiskrifstofa. 1. minni hluti tekur ekki afstöðu til æskilegs fjölda sendiherra hverju sinni en telur þó óheppilegt að þessar breytingar séu ekki rökstuddar með skýrum hætti. Fámennt starfslið utanríkisþjónustunnar sinnir verulega fjölbreyttum og krefjandi verkefnum í æ flóknari veruleika á alþjóðavettvangi. Því er erfitt að sjá hver ávinningurinn yrði af þeirri stefnu að fækka sendiherrum sérstaklega án þess að ráðist sé í heildarendurskoðun og úttekt á utanríkisþjónustu Íslands.
    Fyrsti minni hluti telur jákvætt að heimild ráðherra til að skipa einstakling tímabundið án auglýsingar séu settar málefnalegar skorður, þar sem engar voru áður. Þó vantar rökstuðning fyrir því að ráðherra geti áfram skipað um fimmtung sendiherra með þessum hætti tímabundið til fimm ára; hvorki eru færð málefnaleg rök fyrir þeim fjölda né þeim tíma sem ráðherra getur skipað sendiherra.
    Með því að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um utanríkisþjónustuna gæfist tækifæri til að rýna betur starfsemi hennar og markmið í víðara samhengi og með víðtækara samráði. Þar gætum við lært af því hvernig aðrar þjóðir, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, hafa brugðist við breyttu alþjóðaumhverfi og heimsmynd. Því vakna spurningar um hvort byrjað hafi verið á öfugum enda og hvort frumvarpið sé tímabært áður en ráðist hefur verið í slíka heildarendurskoðun.

Alþingi, 7. desember 2020.

Logi Einarsson,
frsm.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir.