Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 561  —  211. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 (lokauppgjör).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unu Björk Ómarsdóttur frá forsætisráðuneytinu, Guðmund Bjarna Ragnarsson frá dómsmálaráðuneytinu, Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur og Þór Garðar Þórarinsson frá félagsmálaráðuneytinu, Heiðu Björgu Pálmadóttur og Ingva Snæ Einarsson frá Barnaverndarstofu, Guðríði Bolladóttur frá umboðsmanni barna, Svavar Pálsson og Halldór Þormar Halldórsson frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur og Báru Brynjólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Barnaverndarstofu, umboðsmanni barna og Viðari Eggertssyni.
    Með frumvarpinu er lagt til að lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007, verði felld brott. Í því samhengi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, þannig að unnt verði að greiða sanngirnisbætur í nánar afmörkuðum tilvikum án þess að skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 eða önnur skýrsla liggi fyrir og einfalda þannig bótauppgjör.

Hlutverk tengiliðar.
    Með frumvarpinu er lagt til að tengiliður stofnana fyrir fötluð börn eigi að leiðbeina fyrrverandi vistmönnum um úrræði sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, sbr. b-lið 8. gr. frumvarpsins.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að fullt tilefni væri til að skoða hvort tengiliðnum verði falið víðtækara hlutverk þannig að þeir einstaklingar sem um ræðir fái ekki aðeins ráðgjöf um tiltæk stuðningsúrræði heldur jafnframt aðstoð við að nýta sér þau úrræði.
Nefndin bendir á að ekki liggur fyrir hver kostnaðaráhrif þess verði ef tengiliðnum verði falið annað og víðtækara hlutverk en frumvarpið mælir fyrir um. Hlutverk tengiliðar á grundvelli laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, nr. 47/2010, takmarkast við þau úrræði sem lögin mæla fyrir um, þ.e. greiðslu sanngirnisbóta, og verður ekki séð að víðtækara hlutverk tengiliðar fari með skýrum hætti saman við tilgang laganna. Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytisins, í samráði við félagsmálaráðuneytið, að skoða það með nánari hætti hvort tilefni er til að fela tengilið önnur verkefni en þau sem tengjast umsóknum um sanngirnisbætur og jafnframt hvort slík verkefni eigi betur heima á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins, og hvort farvegur sé jafnvel fyrir hendi nú þegar, sbr. lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.

Einkaheimili.
    Við meðferð málsins var vakin athygli á þeim hópi barna sem vistaður var af hálfu stjórnvalda, þ.e. barnaverndaryfirvalda, á einkaheimilum. Fyrir liggi að fjölda barna hafi verið ráðstafað af stjórnvöldum á einkaheimili, bæði vegna fötlunar og annarra ástæðna, og því mikilvægt að þeir einstaklingar fái jafnframt að gera upp vistun sína á slíkum heimilum með þeim hætti að hið opinbera búi til vettvang þar sem þau geti greint frá uppvexti sínum og aðstæðum á umræddum heimilum.
    Nefndin bendir á að framangreind tilvik falla utan efnis þessa frumvarps. Áður hefur verið gagnrýnt að ekki hafi verið ráðist í könnun á þessum einkaheimilum. Í skýrslu um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010 kemur fram að slík könnun yrði miklum annmörkum háð. Um sé að ræða atburði sem áttu sér stað fyrir mörgum áratugum og fáir séu til frásagnar, enda margir þeirra sem í hlut eiga látnir. Nefndin telur þó mikilvægt að frekari umræða eigi sér stað um vistun barna á einkaheimilum og hvort og þá hvernig væri hægt að afmarka þessi tilvik, þá sérstaklega þar sem skilin milli barna sem ráðstafað var inn á einkaheimili fyrir milligöngu barnaverndarnefnda og þeirra sem voru þar án þess að barnaverndaryfirvöld kæmu nærri voru ef til vill ekki alltaf skýr. Auk þess liggja upplýsingar ekki alltaf fyrir, m.a. þar sem einkaheimilum var ekki skylt að skrá upplýsingar eða vista skjöl og skila þeim til Þjóðskjalasafns Íslands.

Breytingartillögur og tillaga um afgreiðslu máls.
    Nefndin leggur til orðalagsbreytingar sem eru til skýringar og lagfæringar en er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „til fyrrgreindra þátta“ í a-lið 3. gr. komi: til þeirra þátta sem tilgreindir eru í 1. og 2. mgr.
     2.      Í stað orðanna „er málið varða“ í d-lið 4. gr. komi: sem varða málið.

Alþingi, 10. desember 2020.

Páll Magnússon,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Birgir Ármannsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.