Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 567  —  334. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur og Gunnlaug Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Orra Hugin Ágústsson og Friðrik Friðriksson frá Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Jóhann Þórarinsson, Birgi Örn Birgisson, Emil Helga Lárusson og Hrefnu Björk Sverrisdóttur frá Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði og Reyni Má Sigurvinsson, Laufeyju Guðmundsdóttur, Jónu Fanneyju Svavarsdóttur og Ólaf Pál Vignisson Skagfjörð frá Samtökum smærri fyrirtækja, einyrkja og rekstraraðila á eigin kennitölu í ferðaþjónustu. Nefndinni bárust 14 umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis.
    Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna efnahagslegra afleiðinga af heimsfaraldri kórónuveiru. Úrræðið sem hér er lagt til kemur í beinu framhaldi af frumvarpi til laga um tekjufallsstyrki, sbr. 212. mál á yfirstandandi þingi, sem samþykkt var á Alþingi 5. nóvember 2020.

Umfjöllun nefndarinnar.
Skilyrði um að rekstraraðili hafi ekki verið tekinn til slita.
    Í 4. tölul. 4. gr. frumvarpsins kemur fram það skilyrði fyrir því að hljóta viðspyrnustyrk að rekstraraðili hafi ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta. Í umsögn Deloitte um málið er bent á að skilyrðið um að rekstraraðili hafi ekki verið tekinn til slita kunni að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti „umbreytt rekstri sínum, t.d. með samruna eða skiptingu svo vel sé“. Mikilvægt sé að heimila að í tilviki félaga sem eru í samruna- eða skiptingarferli haldist réttindi sem áður tilheyrðu annarri kennitölu þannig að réttmætra hagsmuna sé gætt.
    Meiri hlutinn telur að í öllum meginþorra tilfella sé skilyrði 4. tölul. 4. gr. frumvarpsins eðlilegt. Þó sé ekki hægt að útiloka tilvik þar sem ströng túlkun skilyrðisins geti girt fyrir rétt til viðspyrnustyrks sem samkvæmt markmiðum frumvarpsins ætti að vera fyrir hendi. Hvetur meiri hlutinn til þess að við framkvæmd úrræðisins verði eins liðlegri nálgun beitt við túlkun þessa skilyrðis og kostur er þannig að slík tilvik falli innan ramma laganna. Verði í slíkum tilvikum horft til markmiðsákvæðis laganna við túlkun. Meiri hlutinn bendir á að í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu kemur fram að lögin skuli endurskoðuð eigi síðar en í mars 2021 og telur tilefni til að framangreint verði hluti þeirrar endurskoðunar.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Umreiknaðar árstekjur (2. tölul. 4. gr.).
    Í 2. tölul. 4. gr. frumvarpsins er skilyrði um lágmarkstekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. janúar 2020 til loka október sama árs. Í 2. málsl. ákvæðisins kemur fram að aðilar sem hófu starfsemi eftir 1. janúar 2020 skuli umreikna tekjur sínar frá upphafi starfsemi til loka október 2020 í árstekjur. Þar sem tekjutímabilið í 1. málsl. nær ekki yfir heilt ár heldur frá upphafi árs allt til loka október leggur meiri hlutinn til að skv. 2. málsl. verði umreiknaðar tekjur miðaðar við 305 daga en ekki ár.

Viðmið um stöðugildi (1.–2. mgr. 5. gr.).
    Um fjárhæð viðspyrnustyrks fer eftir 5. gr. frumvarpsins. Skv. 1. mgr. ákvæðisins getur fjárhæð styrks í hæsta lagi orðið 90% af rekstrarkostnaði rekstraraðila þann almanaksmánuð sem umsókn varðar og aldrei numið hærri fjárhæð en nemur raunverulegu tekjufalli rekstraraðila þann mánuð. Jafnframt getur krónutöluþak á fjárhæð styrks aldrei numið hærri fjárhæð en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi upp að fimm stöðugildum hjá rekstraraðila í mánuðinum sé tekjufall rekstraraðila á bilinu 60–80% og 500 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi upp að fimm sé tekjufall meira en 80%. Í 2. mgr. ákvæðisins er undanþága sem gerir rekstraraðila kleift að telja til rekstrarkostnaðar í þeim mánuði sem umsókn um styrk varðar fjárhæð sem hann gjaldfærði vegna reiknaðs endurgjalds í sama mánuði 2019 í stað reiknaðs endurgjalds fyrir almanaksmánuðinn sem umsókn varðar. Nýti rekstraraðili þá heimild megi við útreikning á styrkfjárhæð miða við fjölda stöðugilda í sama mánuði 2019.
    Fyrir nefndinni hafa ýmsir aðilar komið þeim sjónarmiðum á framfæri að til að úrræðið geti náð þeim markmiðum sem að er stefnt sé mikilvægt að heimild 3. málsl. 2. mgr. 5. gr. til að miða styrkfjárhæð við fjölda stöðugilda í sama mánuði 2019 verði almenn en einskorðist ekki við þá aðila sem nýta undanþáguheimild 1. málsl. þeirrar málsgreinar. Margir rekstraraðilar séu í þeirri stöðu að hafa þurft að fækka stöðugildum eins og kostur er en þurfi enn þá að standa undir öðrum rekstrarkostnaði. Reglan um að styrkfjárhæð miðist í hæsta lagi við ákveðna krónutölu fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í þeim mánuði sem sótt er um styrk fyrir geti valdið því að styrkur taki ekki mið af raunverulegu umfangi rekstrarins í hefðbundnu árferði. Fjárhæð styrks verði þannig síður til þess fallin að hjálpa viðkomandi rekstraraðila yfir erfiðasta hjallann, viðhalda lágmarksstarfsemi og viðskiptasamböndum og tryggja viðspyrnu þegar betur fer að ára líkt og markmiðsákvæði frumvarpsins kveður á um.
Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að öllum rekstraraðilum sem undir frumvarpið heyra verði heimilt, við útreikning styrkfjárhæðar, að miða annaðhvort við fjölda stöðugilda í þeim mánuði sem umsókn styrks snýr að eða í sama mánuði árið 2019. Við umsókn um viðspyrnustyrk fyrir nóvember og desember 2020 megi þannig miða við stöðugildi hjá rekstraraðila í nóvember og desember 2019 og við umsókn um styrk fyrir janúar 2021 megi miða við stöðugildin í janúar 2019. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf sama almanaksmánaðar árið 2019 verði heimilt að miða við meðalfjölda stöðugilda hjá rekstraraðila þá heilu almanaksmánuði 2019 sem hann starfaði. Í tilviki rekstraraðila sem hóf störf 15. mars 2019 og sækir um viðspyrnustyrk fyrir janúar 2021 verði þannig heimilt að miða fjölda stöðugilda við meðalfjölda mánaðarlegra stöðugilda hjá rekstraraðilanum mánuðina apríl til desember 2019.
    Eftir sem áður gildir sú regla að viðspyrnustyrkur geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur 90% af rekstrarkostnaði í þeim mánuði sem umsókn varðar. Með þessu móti telur meiri hlutinn ljóst að úrræðið rúmist enn innan þess kostnaðarmats sem framkvæmt var og gerð er grein fyrir í frumvarpinu, þar sem segir: „Loks ofmetur aðferðafræðin líklega fjölda stöðugilda vegna þess að gert er ráð fyrir að stöðugildi lögaðila séu a.m.k. 5 og fyrirtæki eigi þannig rétt á hámarki viðspyrnustyrks.“ Raunkostnaður ríkissjóðs við úrræðið verði þó nær ytri mörkum kostnaðarmatsins en ella hefði verið.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „árstekjur“ í 2. tölul. 4. gr. komi: 305 daga viðmiðunartekjur.
     2.      Við 5. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „mánuðinum“ í a- og b-lið 1. mgr. komi: eða í sama mánuði 2019.
                  b.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf sama mánaðar 2019 og umsókn um viðspyrnustyrk varðar er heimilt að miða fjölda stöðugilda við meðalfjölda mánaðarlegra stöðugilda hjá rekstraraðila þá heilu almanaksmánuði 2019 sem hann starfaði.
                  c.      3. málsl. 2. mgr. falli brott.

Alþingi, 10. desember 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Brynjar Níelsson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Willum Þór Þórsson.