Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 816  —  132. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (umsáturseinelti).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Dagmar Ösp Vésteinsdóttur frá Ákærendafélagi Íslands, Höllu Bergþóru Björnsdóttur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra, Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Úlfar Lúðvíksson frá lögreglunni á Suðurnesjum og Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ákærendafélagi Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Mannréttindaskrifstofu Íslands, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu er lagt til að nýju refsiákvæði verði bætt við almenn hegningarlög er verði 232. gr. a laganna. Með ákvæðinu verði gert refsivert að hóta, elta, fylgjast með, setja sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti sitja um annan mann ef háttsemin er endurtekin og til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða.
    Samhljómur var á meðal umsagnaraðila um að hið nýja refsiákvæði mundi bæta réttarvernd þolenda þeirrar háttsemi sem þar um ræðir. Að auki var bent á mikilvægi þess að um leið þyrfti að tryggja aðgang þolenda að ráðgjöf og stuðningi fagaðila sem og menntun þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins. Í því samhengi bendir nefndin á þingsályktun um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, nr. 35/149, en eitt af meginmarkmiðum áætlunarinnar er að bæta verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins og efla stuðning við þolendur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 28. janúar 2021.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Guðmundur Andri Thorsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.