Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 818  —  488. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þingmannanefnd um loftslagsmál.


Flm.: Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að skipa þingmannanefnd til að leggja fram tillögur um áherslur Íslands í loftslagsmálum fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Glasgow í nóvember 2021.
    Þingmannanefndin verði skipuð einum þingmanni úr hverjum þingflokki.
    Hlutverk nefndarinnar verði að fjalla um og koma fram með tillögur um áherslur Íslands í loftslagsmálum fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Við mótun tillagnanna skal nefndin taka mið af markmiðum Parísarsamkomulagsins. Nefndin skilgreini meginforsendur stefnunnar og setji fram tillögur um markmið Íslands næstu tíu árin og leiðir til að ná þeim.
    Þingmannanefndin komi saman eigi síðar en 1. maí 2021 og skili tillögum til forsætisnefndar svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 24. september 2021. Tillögurnar verði að því loknu lagðar fyrir Alþingi í formi þingsályktunar og forsætisráðherra falið að hafa þær til hliðsjónar við mótun áherslna Íslands á loftslagsráðstefnunni.

Greinargerð.

    Nauðsynlegt er að fram fari breitt pólitískt samráð um áherslur Íslands í loftslagsmálum á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow sem haldin verður í nóvember 2021. Fundinum er ætlað að marka stefnuna næstu tíu árin til að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði mætt. Nýkjörinn Bandaríkjaforseti hefur lagt áherslu á að Bandaríkin ætli að taka fullan þátt og axla ábyrgð. Evrópusambandið leggur metnað sinn í að ráðstefnan skili miklum árangri og breski forsætisráðherrann hefur gert ráðstefnuna að meginefni í sínu alþjóðastarfi. Aðrar nágrannaþjóðir Íslands hafa sett sér metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hafa til að mynda sænsk stjórnvöld sett stefnuna á 63% samdrátt árið 2030 miðað við árið 1990 og yfirlýst markmið danskra stjórnvalda er að draga úr gróðurhúsalofttegundum um 70% yfir sama tímabil.
    Það ríður á að Ísland mæti til fundarins með metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum og skýra, fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í málaflokknum. Ísland er í sérflokki þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegrar orku og hefur tækifæri til að stíga stór skref á næsta áratug. En þá þarf að byrja strax því nauðsynlegt er að taka sem fyrst markviss skref í átt að metnaðarfullri stefnu Íslands sem kynnt verði á fundinum í Glasgow.
    Það verður í höndum næstu ríkisstjórnar að taka þátt í fyrirhugaðri loftslagsráðstefnu í nóvember. Þess vegna er ekki nóg að núverandi ríkisstjórnarflokkar fjalli einir um stefnuna sem borin verður á borð á ráðstefnunni heldur þarf samráð að hefjast sem fyrst til þess að sem víðtækust sátt verði um afstöðu Íslands. Málaflokkurinn er það mikilvægur fyrir íslenskt samfélag í nútíð og framtíð að þingið og þingflokkarnir þurfa að hafa aðkomu að honum. Þess vegna er lagt til að forseti þings komi á fót nefnd þingmanna allra flokka á Alþingi sem fjalli um og eigi aðkomu að markmiðum og stefnu Íslands og málflutningi á vettvangi loftslagssamningsins. Með nefndinni verði tryggt að allir stjórnmálaflokkar hafi tök á að undirbúa sig fyrir aðkomu að ráðstefnunni og málflutningi Íslands og að sem breiðust sátt og sem fjölbreyttust sjónarmið verði hluti af stefnu Íslands.