Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 825  —  494. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2020.


1. Inngangur.
    Á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) bar á árinu 2020 hæst umræður um þær áskoranir sem heimsfaraldur kórónuveiru skapaði þjóðþingum og viðbrögð aðildarríkja við faraldrinum. Eftir að heimsfaraldurinn breiddist út í aðildarríkjum IPU í mars var tekin ákvörðun um að aflýsa vorþingi sambandsins sem átti að fara fram í Genf í apríl. Í framhaldinu var haustþingi IPU sem halda átti í október einnig aflýst og tekin ákvörðun um að halda sérstakan ráðsfund sambandsins sem fjarfund í nóvember. Gerðar voru breytingar á starfsreglum sambandsins svo að hægt væri að afgreiða brýn mál á ráðsfundinum, kjósa nýjan forseta IPU og koma í veg fyrir að faraldurinn takmarkaði enn frekar störf sambandsins.
    Fljótlega eftir að faraldurinn skall á í aðildarríkjunum brást skrifstofa IPU við með því að hefja samskipta- og upplýsingaherferð undir yfirskriftinni Þjóðþing á tímum heimsfaraldurs. Kallað var eftir samstarfi við þing aðildarríkjanna við að deila upplýsingum og bera saman viðbrögð við faraldrinum. Upplýsingarnar voru birtar á vefsvæði herferðarinnar, m.a. sem samanburður á aðgerðum þjóðþinga aðildarríkjanna varðandi heilsufarsaðgerðir, löggjöf, eftirlit stjórnvalda, tækni og nýsköpunarmál. Herferðin var gagnleg og hlaut mikla athygli í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
    Jafnframt hefur IPU í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir fjölmörgum fjarfundum um heimsfaraldurinn og áhrif hans á ýmsa málaflokka. Þar hafa þingmenn og sérfræðingar haft vettvang til skoðanaskipta um áhrif hans, aðgerðir og þróun. Öllum þingmönnum aðildarríkjanna bauðst að taka þátt í fjarfundunum. Þá hefur heimsfaraldurinn, með sínum ströngu ferðatakmörkunum, opnað á möguleika þingmanna til að nýta sér fjarfundi í auknum mæli til framtíðar. Enn fremur voru þingmenn aðildarríkjanna sammála um að baráttan við faraldurinn hefði varpað ljósi á mikilvægi enn frekari samstöðu og alþjóðlegs samstarfs.
    Að lokum ber að nefna mikilvægt starf sambandsins við að efla lýðræði en mörg aðildarþing þess eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf á árinu 2020 má nefna svæðisbundnar málstofur um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og þátttöku ungra kvenna í stjórnmálum. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að aðstoða þá við að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu voru m.a. gefnar út handbækur með leiðbeiningum fyrir þingmenn um það hvernig tryggja megi að afskipti stjórnvalda á tímum heimsfaraldursins taki mið af jafnréttissjónarmiðum og brjóti ekki gegn mannréttindum. Enn fremur gaf IPU út bók í tilefni 130 ára afmælis sambandsins, en í henni er fjallað um sögu, áherslur og markmið IPU auk framtíðarsýnar aðildarríkjanna.

2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að sambandinu eiga nú 179 þjóðþing en aukaaðild að því eiga 13 svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem eins af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvo þingfundi árlega, þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og þing að hausti sem haldið er í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.

    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.

    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef í sendinefndinni eru ekki fulltrúar beggja kynja oftar en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en það eru nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar sambandsins og vinnuhópur um samstarf kynjanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna gefur út skýrslu fyrir hvert þing sambandsins þar sem fjallað er um brot á mannréttindum þingmanna, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Nefndin hefur það að markmiði að styrkja þjóðþing við að tryggja öryggi og friðhelgi þingmanna svo að þeir geti sinnt starfi sínu á lýðræðislegan og öruggan hátt. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.

3. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar árið 2020 voru Sigríður Andersen, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, Helga Vala Helgadóttir, þingflokki Samfylkingar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt einn fund á árinu 2020 til að undirbúa þátttöku sína á ráðsfundi sambandsins.

4. Fundir Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Á venjubundnu ári kemur IPU saman til þings tvisvar á ári og jafnframt fundar ráð IPU í tengslum við þingin. Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru var báðum þingum aflýst. Ráðsfundur sambandsins sem haldinn er í tengslum við vorþing IPU var einnig felldur niður en sérstakur ráðsfundur var haldinn að hausti sem fjarfundur. Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlöndin skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Danmörk formennsku á árinu. Báðir norrænu fundirnir voru haldnir sem fjarfundir vegna heimsfaraldursins. Þá sækir fjöldi þingmanna sambandsins árlegan fund sem haldinn er í febrúar í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar.
    Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í sérstökum ráðsfundi sem haldinn var sem fjarfundur 1.–4. nóvember. Sigríður Andersen, formaður Íslandsdeildar, tók þátt í tveimur norrænum samráðsfundum sem haldnir voru 8. júní og 1. september, báðir sem fjarfundir. Þá tóku formaður og varaformaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, einnig þátt í þremur fjarfundum Tólfplús-hópsins sem fóru fram 6., 19. og 26. október. Að auki sótti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson árlegan fund IPU í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar í New York og norrænan fund í Washington 18.–21. febrúar. Jafnframt sóttu fulltrúar Íslandsdeildar ýmsar ráðstefnur og málstofur sem haldnar voru með rafrænum hætti á árinu um málefni IPU. Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Norrænn samráðsfundur 8. júní.
    Fyrri norræni samráðsfundurinn var haldinn sem fjarfundur 8. júní. Af hálfu Íslandsdeildar sótti fundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum. Søren Søndergaard, formaður dönsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum, en Danmörk fór með formennsku í norræna hópnum árið 2020.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ceciliu Widegren, formanns sænsku landsdeildarinnar og fulltrúa norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU. Hún greindi nefndarmönnum frá helstu áherslum og umræðum framkvæmdastjórnar og stýrihóps Tólfplús-hópsins auk þess sem hún kynnti dagskrá næsta fundar stjórnarinnar sem fyrirhugaður var 11. júní 2020 sem fjarfundur. Heimsfaraldur COVID-19 og viðbrögð þjóðþinga við honum voru í brennidepli. Þá var rætt um starfið fram undan en óljóst var hvort hægt yrði að halda haustþing með hefðbundnum hætti í ljósi ferðatakmarkana af völdum heimsfaraldurs. Farið var yfir valkosti í stöðunni og metið hvort haustþinginu yrði frestað, það fellt niður eða fært yfir á fjarfundarform.
    Þá kynnti Cecilia Widegren vinnu undirnefndar um fjármál IPU þar sem hún gegnir formennsku. Hún sagði að fjármál IPU hefðu verið eitt aðalumræðuefni stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins undanfarin ár með áherslu á niðurskurð sem hefði gengið eftir að mestu leyti. Sambandið hefur markvisst dregið úr kostnaði og lækkað árgjöld aðildarríkjanna jafnt og þétt undangengin ár í samræmi við kröfur aðildarríkjanna. Þá hefur aukin áhersla verið lögð á frjáls framlög til starfseminnar og hefur Svíþjóð verið þar í fararbroddi. Í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 og efnahagsþrenginga sem mörg aðildarríkin standa frammi fyrir yrði lögð áhersla á enn frekara aðhald í fjármálum IPU.
    Norrænu ríkin hafa átt fulltrúa í trúnaðarstörfum í flestum nefndum IPU auk framkvæmdastjórnar undanfarin ár og voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess. Sérstaklega var rætt um mikilvægi umræðuvettvangs þingkvenna og ungra þingmanna hjá IPU, en sá umræðuvettvangur er mjög virkur og hefur vaxið á undanförnum misserum.
    Þá fór fram umræða um sameiginlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna, sem fór fram í New York í febrúar, og um vinnuheimsókn norrænu landsdeildanna til Washington í kjölfarið. Vinnuheimsóknin var skipulögð af norrænu sendiráðunum í Washington í samstarfi við ritara norrænu landsdeildanna. Lýstu þingmenn yfir mikilli ánægju með skipulag og gagnsemi funda í heimsókninni. Fyrir hönd Alþingis sótti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fundina.
    Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til þess að undirbúa vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborg viðkomandi formennskuríkis eða nágrenni hennar. Þá hafi heimsfaraldur COVID-19, með ströngum ferðatakmörkunum milli ríkjanna, sýnt nefndarmönnum fram á gagnsemi og möguleika fjarfunda og að nýta megi þá í auknum mæli til framtíðar. Þá bauð formaður dönsku landsdeildarinnar norrænu formönnunum til næsta samráðsfundar sem fyrirhugaður væri 1. september 2020 í Danmörku, ef ferðatakmarkanir af völdum COVID-19 leyfðu. Að öðrum kosti yrði fundurinn haldinn sem fjarfundur.

Norrænn samráðsfundur 1. september.
    Seinni norræni samráðsfundurinn var haldinn sem fjarfundur 1. september. Af hálfu Íslandsdeildar sótti fundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru umræður um kosningu nýs formanns Tólfplús-hópsins, kynning frambjóðanda Tólfplús-hópsins til embættis forseta IPU og norrænt samstarf á tímum heimsfaraldurs. Søren Søndergaard, formaður dönsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ceciliu Widegren, formanns sænsku landsdeildarinnar, og fulltrúa norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU á helstu málum sem til umræðu eru í framkvæmdastjórn og stýrihóp Tólfplús-hópsins. Hún sagði að þar sem faraldurinn væri enn í vexti á heimsvísu og mikil óvissa um framhaldið hefði verið tekin ákvörðun um að aflýsa haustþingi IPU. Í staðinn yrði haldinn sérstakur ráðsfundur sambandsins með rafrænum hætti 1.–3. nóvember. Meiri hluti framkvæmdastjórnar lagðist gegn því að halda fundinn með blönduðum hætti þannig að þeir þingmenn sem hefðu tök á að mæta á fundarstað gætu gert það en hinir tækju þátt með rafrænum hætti. Taldi meiri hlutinn það form ósanngjarnt þar sem þeir þingmenn sem væru á fundarstað hefðu betri aðgang að fundinum og umræðum hans. Á ráðsfundinum yrði nýr forseti IPU kjörinn í leynilegri rafrænni kosningu. Mikil vinna hefði átt sér stað við undirbúning þessa af hálfu skrifstofu IPU og framkvæmdastjórnar.
    Sigríður Á. Andersen sagði frá ástandinu á Íslandi á tímum COVID-19 og frá helstu aðgerðum stjórnvalda. Hún greindi frá því að Alþingi hefði verið að störfum meðan faraldurinn geisaði en þó með fjarlægðartakmörkunum í þinghúsinu. Stjórnvöld hefðu kynnt til sögunnar fjölda efnahagsúrræða vegna heimsfaraldursins sem nýttust heimilum og fyrirtækjum með beinum hætti. Þá sagði hún gagnlegt að norrænu landsdeildirnar deildu upplýsingum um faraldurinn og viðbrögð stjórnvalda við honum. Nefndarmenn voru sammála Sigríði um að fjarfundir sem þessir væru góður vettvangur til skoðanaskipta um faraldurinn og yrði skoðað að fjölga þeim á meðan á honum stendur.
    Því næst var rætt um kjör nýs forseta IPU og frambjóðanda Tólfplús-hópsins til embættisins. Næsti fundur Tólfplús-hópsins væri fyrirhugaður sem fjarfundur 26. október 2020 og þar yrði kjörinn frambjóðandi hópsins til embættis forseta. Søren Søndergaard, formaður dönsku landsdeildarinnar, lagði til að formenn norrænu landsdeildanna sendu bréf til stjórnar Tólfplús-hópsins og óskuðu eftir því að haldinn yrði aukafundur hópsins eins fljótt og auðið væri þar sem frambjóðendur til embættis forseta kynntu sig og áherslur sínar. Þannig hefðu þingmenn tök á að meta hvaða frambjóðandi væri frambærilegastur áður en þeir tækju þátt í kosningu hans á fundinum 26. október. Samkvæmt hefð er komið að fulltrúa Tólfplús-hópsins að gegna embætti forseta IPU til næstu þriggja ára en hinir landfræðilegu hópar skiptast á að gegna embættinu. Norrænu formennirnir lýstu yfir stuðningi við tillögu Søndergaards um aukafund og þá hefð að hóparnir skiptist á að gegna embætti forseta og yrði hún áréttuð í bréfinu.
    Þá kynnti Duarte Pacheco, formaður Tólfplús-hópsins og portúgölsku landsdeildarinnar, framboð sitt til forseta IPU. Pacheco hefur verið þingmaður á þjóðþingi Portúgals síðan 1991, fulltrúi í landsdeild IPU síðan 2002 og formaður hennar síðan 2016. Hann fór yfir áherslur sínar og framtíðarsýn fyrir IPU og óskaði eftir stuðningi norrænu landsdeildanna. Hann sagði IPU vera upplagðan vettvang til að ná þeim markmiðum sem við hefðum sett okkur á heimsvísu. Fengi hann brautargengi sem forseti IPU myndi hann leggja áherslu á málaflokka jafnréttis, umhverfis, sameiningar og friðar.
    Einnig var rætt um árlegan sameiginlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í New York í febrúar og vinnuheimsókn norrænu landsdeildanna til Washington í tengslum við hann. Voru nefndarmenn sammála um að gagnlegt væri fyrir norrænu landsdeildirnar að skipuleggja sambærilega vinnuheimsókn á árinu 2021 og fór fram í febrúar 2020, ef heimsfaraldur leyfði og ferðatakmörkunum hefði verið aflétt. Finnar taka við formennsku í norræna samráðshópnum 2021 og var ákveðið að næsti fundur hópsins yrði haldinn sem fjarfundur í janúar til undirbúnings fyrir næsta framkvæmdastjórnarfund sem haldinn yrði í janúarlok 2021.

Aukafundir Tólfplús-hópsins 6., 19., og 26. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu aukafundina Sigríður Á. Andersen, formaður, og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá aukafundanna voru kynning á frambjóðendum Tólfplús-hópsins til forseta IPU, kynning á frambjóðendum til formanns Tólfplús-hópsins og rafræn kosning nýs formanns hópsins.
    Tólfplús-hópurinn er samstarfsvettvangur 47 vestrænna lýðræðisríkja og fundar venjulega flesta morgna meðan á vor- og haustþingum IPU stendur. Á þeim fundum er farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt er, auk þess sem valdir eru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Sænska þingkonan Cecilia Widegren var kosin ein af fjórum fulltrúum Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU árið 2019 og er fulltrúi Norðurlandanna í stjórninni. Af völdum heimsfaraldurs COVID-19 fóru aukafundir hópsins fram sem fjarfundir.
    Fyrsti aukafundur Tólfplús-hópsins 6. október var haldinn að beiðni formanna norrænu landsdeildanna en þeir óskaðu eftir því að haldinn yrði fundur þar sem frambjóðendur hópsins til forseta IPU kynntu áherslur sínar og framtíðarsýn fyrir sambandið. Á þann hátt fengju nefndarmenn tækifæri til að meta betur hvaða frambjóðandi væri hæfastur til embættisins. Jafnframt voru nefndarmenn sammála um að meiri líkur væru á því að vinna forsetakosningarnar ef Tólfplús-hópurinn hefði aðeins einn frambjóðanda sem hópurinn styddi.
    Því næst kynntu forsetaframbjóðendurnir tveir, þau Salma Ataullahjan frá Kanada og Duarte Pacheco frá Portúgal, framboð sín fyrir nefndarmönnum og svöruðu spurningum. Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að rafræn kosning færi fram á næsta aukafundi hópsins þar sem kosið væri á milli frambjóðendanna tveggja um hvor þeirra yrði fulltrúi Tólfplús-hópsins í forsetakosningum IPU á ráðsfundi 1. nóvember 2020.
    Á öðrum aukafundi Tólfplús-hópsins 19. október fór fram rafræn kosning um fulltrúa hópsins til forseta IPU. Formaður dönsku landsdeildarinnar, Søren Søndergaard, stýrði fundinum þar sem formaður hópsins, Duarte Pacheco, var annar frambjóðenda en hinn var kanadíska þingkonan Salma Ataullahjan. Niðurstöður kosninganna voru afgerandi og fékk Pacheco 60 atkvæði en Ataullahjan 10 atkvæði. Eftir að úrslit kosninganna voru ljós ávarpaði Ataullahjan fundinn og sagðist ekki ætla að draga framboð sitt til forseta IPU til baka þrátt fyrir að hún hefði tapað kosningunum. Hún sagði niðurstöður kosninganna eingöngu miðast við stuðning Tólfplús-hópins og þar sem starfsreglur IPU kvæðu ekki á um að eingöngu einn frambjóðandi byði sig fram frá hverjum landahópi mundi hún ekki draga framboð sitt til baka. Nefndarmenn lýstu yfir óánægju með ákvörðun hennar í ljósi afgerandi niðurstöðu kosninganna og lýstu því yfir að Pacheco yrði kynntur sem formlegur frambjóðandi Tólfplús-hópsins á ráðsfundi IPU 1. nóvember 2020.
    Á þriðja aukafundi Tólfplús-hópsins 26. október var nýr formaður Tólfplús-hópsins kosinn í rafrænni kosningu. Valið stóð á milli tveggja frambjóðenda og kynntu þeir áherslur sínar og framtíðarsýn fyrir nefndarmönnum. Gríska þingkonan Olga Kefalogianni fékk 29 atkvæði og hollenska þingkonan Arda Gerkens 44 atkvæði. Gerkens þakkaði stuðninginn og sagði skrifstofu hollenska þingsins tilbúna til að taka við rekstri skrifstofu Tólfplús-hópsins og styðja við starfið af metnaði. Hún tók við formennskunni í lok fundarins til næstu þriggja ára af portúgalska þingmanninum Duarte Pacheco.

261. ráðsfundur Alþjóðaþingmannasambandsins 1.–4. nóvember 2020.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fjarfundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru umræða og ákvarðanataka um starfsemi IPU á tímum heimsfaraldurs COVID-19, fjárhagsáætlun sambandsins og kosning forseta IPU. Um 670 þátttakendur sóttu fjarfundinn, þar af 458 þingmenn (183 þingkonur eða 40%) frá 145 ríkjum og 49 þingforsetar. Þá var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 121 eða 26,4%.
    Framkvæmdastjórn IPU hélt fund 26. júní til að ræða starfið fram undan í ljósi takmarkana vegna COVID-19. Á þeim fundi var tekin ákvörðun um að fella haustþingið niður en halda í staðinn sérstakan ráðsfund 1.–4. nóvember til að ræða og taka ákvarðanir varðandi mikilvæg mál er varða starfsemi IPU eins og fjárhagsáætlun og framkvæmd kjörs forseta IPU. Ákvörðun fundarins er í samræmi við grein 17.2 í starfsreglum IPU þar sem segir að forseti IPU geti boðað til sérstaks ráðsfundar ef hann, framkvæmdastjórn eða fjórðungur fulltrúa ráðs IPU telur það nauðsynlegt. Í framhaldinu skipaði framkvæmdastjórnin vinnuhóp, með fulltrúum allra landahópa og kvennahóps IPU, til að undirbúa fjarfund ráðsins með skrifstofu sambandsins. Vinnuhópurinn lagði fram drög að breytingu á starfsreglum varðandi fjarfund ráðsins og kjör forseta með rafrænum hætti og voru þær samþykktar af framkvæmdastjórn við upphaf ráðsfundar IPU.
    Þrír frambjóðendur buðu sig fram til embættis forseta IPU, þeir Duarte Pacheco (Portúgal), Akmal Saidov (Úsbekistan) og Muhammad Sadiq Sanjrani (Pakistan). Hinn 21. október fór fram fjarfundur á vegum IPU þar sem frambjóðendur kynntu sig og áherslur sínar og svöruðu spurningum þingmanna. Fyrirtækið Civica Election Services (CES) var valið af framkvæmdastjórn IPU til að sjá um framkvæmd kosninganna, þar sem fyllsta öryggis, leyndar og áreiðanleika er gætt. Þingmenn fengu sendan hlekk í tölvupósti og lykilorð í SMS-skilaboðum sem veitti þeim aðgang að kjörseðli. Kosningin hófst 1. nóvember og stóð yfir í 24 klukkustundir. Alls tóku 394 þingmenn frá 142 aðildarríkjum IPU þátt í kjörinu. Portúgalskur þingmaður og fyrrverandi formaður Tólfplús-hópsins, Duarte Pacheco, var kjörinn nýr forseti með yfirburðum til næstu þriggja ára. Þá var fráfarandi forseti IPU, mexíkóska þingkonan Gabriela Cuevas Barron, gerð að heiðursforseta sambandsins.
    Cuevas Barron óskaði nýjum forseta til hamingju með kjörið og kynnti fyrir fundargestum skýrslu með þeim áherslum sem hafa einkennt formennskutíð hennar. Hún sagði mikilvægt að IPU héldi áfram á þeirri vegferð að verða opnara og gagnsærra samband þar sem áhersla væri lögð á að virkja ungt fólk og konur til þátttöku. Þá væri samstarf IPU við Sameinuðu þjóðirnar gríðarlega mikilvægt ef varanlegur árangur á að nást í málefnum mannréttinda á heimsvísu. Formenn landahópa IPU og Martin Chungong, framkvæmdastjóri IPU, þökkuðu Barron vel unnin störf í þágu IPU og óskuðu henni velfarnaðar í framtíðinni.
    Næst á dagskrá var umræða og afgreiðsla fjárhagsskýrslu og endurskoðaðs ársreiknings fyrir árið 2019. Cecilia Widegren frá Svíþjóð, formaður undirnefndar um fjármál IPU, kynnti skýrsluna og sagði ytri endurskoðun hafa lýst yfir ánægju með mikil gæði fjárhagsskýrslu sambandsins og faglegt samstarf við fjármálaskrifstofu IPU. Í framhaldinu samþykkti fundurinn ársuppgjör IPU fyrir árið 2019.
    Framkvæmdastjóri IPU greindi frá því að rekstrarkostnaður sambandsins hefði verið minni en gert hefði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun á fyrri helmingi ársins 2020. Ástæða þessa hefði verið heimsfaraldurinn það að árlegum þingum IPU, fundum og ráðstefnum hefði verið aflýst vegna ferðatakmarkana. Þá hefðu fundir í auknum mæli færst yfir í rafrænt form, sem væri ódýrari kostur þótt fjárfesta hefði þurft í tæknibúnaði. Hann sagðist búast við að svipuð þróun yrði árið á enda og fram á næsta ár. Þá kynnti Cecilia Widegren drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 fyrir hönd framkvæmdastjórnar IPU. Hún sagði að í ljósi erfiðra aðstæðna margra aðildarríkja og mikillar óvissu í heiminum af völdum kórónuveirunnar yrði árgjald aðildarríkjanna fyrir árið 2021 ekki hækkað. Þá kaus ráðið tvo nýja fulltrúa í framkvæmdastjórn, þau Beatriz Argimón frá Úrúgvæ og Laurence Fehlmann Rielle frá Sviss.
    Næst kynnti framkvæmdastjóri skýrslu skrifstofu IPU um starfsemi sambandsins á tímum kórónuveirufaraldursins. Hann sagði skýrsluna sýna fram á að IPU hefði hæfni og getu til að takast á við nýjar áskoranir og aðlagast óvæntum aðstæðum. Aðeins nokkrum dögum eftir að faraldurinn hefði valdið takmörkunum í aðildarríkjum hefði IPU brugðist við með því að hefja upplýsingaherferð undir yfirskriftinni Þjóðþing á tímum heimsfaraldurs. Í herferðinni hefði verið kallað eftir aðgerðum frá þjóðþingum aðildarríkjanna til að deila upplýsingum um faraldurinn og viðbrögðum við honum, og voru gögnin birt á vefsvæði herferðarinnar. Afrakstur herferðarinnar var m.a. samanburður á aðgerðum þjóðþinga aðildarríkjanna hvað varðar heilsufarsaðgerðir, löggjöf, eftirlit stjórnvalda, tækni og nýsköpunarmál. Þá voru gefnar út leiðbeiningar um það hvernig þjóðþing gætu tryggt að afskipti stjórnvalda á tímum COVID-19-heimsfaraldursins tækju mið af kynjasjónarmiðum annars vegar og brytu ekki gegn mannréttindum hins vegar. Einnig voru útbúin tveggja mínútna myndbönd þar sem kynnt var hvernig þjóðþing og þingmenn hefðu brugðist við faraldrinum á heimsvísu. Herferðin hlaut mikla athygli í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum í aðildarríkjunum og fjölgaði heimsóknum á vefsvæði IPU mjög. Jafnframt hefur IPU í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir fjölmörgum fjarfundum þar sem þingmenn og sérfræðingar hafa haft vettvang til skoðanaskipta um heimsfaraldurinn.
    Að lokum ávarpaði forseti IPU fundinn og þakkaði fyrir undangengna þrjá fundardaga og minnti þátttakendur á hversu sögulegur fundurinn væri í ljósi nýrra aðstæðna þar sem hann hefði allur farið fram á netinu. Mögulegt hefði verið að kjósa forseta og taka mikilvægar ákvarðanir varðandi starfsemi IPU á nýjum vettvangi. Þá sagði hann nauðsynlegt að þingmenn hvettu stjórnvöld til að sameina krafta sína í baráttunni gegn faraldrinum á vísindalegan hátt og styrkja enn frekar samstöðu og samstarf á heimsvísu.
    Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur hún út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU árlega fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin hélt fjóra fjarfundi í október 2020 og tók fyrir og afgreiddi fjölda mála. Nefndin fjallaði um mál 297 þingmanna frá 19 löndum en af þessum málum eru 12 ný og varða 70 þingmenn. Skýrsla nefndarinnar var kynnt á ráðsfundi IPU og samþykkt.
    Fastanefndir IPU funduðu ekki í tengslum við ráðsfundinn og ekki fór fram almenn umræða þar sem fjallað er um fyrir fram ákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Þá var árlegum kvennafundi IPU aflýst. Fyrirhugað er að halda næsta vorþing IPU í Genf í maí 2021 ef COVID-19 leyfir en að öðrum kosti verður þingið haldið sem fjarfundur.

5. Ályktanir og yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2020.
    Ályktanir sambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Þar sem báðum þingum IPU var aflýst á árinu voru engar ályktanir samþykktar á vettvangi þess árið 2020.

    Yfirlýsingar forseta Alþjóðaþingmannasambandsins:
     *      Um alvarlegt ástand og brot gegn þingmönnum í Venesúela.
     *      Um heimsfaraldur COVID-19.
     *      Um ástandið í Malí.
     *      Um sprenginguna í Beirút.
     *      Um útrýmingu kjarnorkuvopna.
     *      Um áhyggjur af ofbeldi í nýafstöðnum kosningum í Mjanmar.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Sigríður Á. Andersen,
form.
Ágúst Ólafur Ágústsson,
varaform.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.