Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 863  —  267. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (kynferðisleg friðhelgi).

(Eftir 2. umræðu, 4. febrúar.)


1. gr.

    Á eftir 199. gr. laganna kemur ný grein, 199. gr. a, svohljóðandi:
    Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þ.m.t. falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.
    Sömu refsingu skal sá sæta sem hótar því sem greinir í 1. mgr., enda sé hótunin til þess fallin að vekja hræðslu eða kvíða hjá þeim sem hún beinist að.
    Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 228. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Hver sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda sé háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði 1.–3. mgr. eiga ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.

3. gr.

    229. gr. laganna orðast svo:
    Hver sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna.

4. gr.

    Á eftir orðinu „ákvæðum“ í 1. tölul. 242. gr. laganna kemur: 228. gr., 229. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

6. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008: Á eftir tilvísuninni „175. gr. a“ í 2. málsl. 2. mgr. 83. gr. laganna kemur: 199. gr. a.