Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1042  —  608. mál.




Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um áhrif efnahagshrunsins 2008 og aðgerða stjórnvalda á hag heimilanna.

Frá Ólafi Ísleifssyni, Karli Gauta Hjaltasyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni, Birgi Þórarinssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Sigurði Páli Jónssyni og Þorsteini Sæmundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um áhrif efnahagshrunsins 2008 og aðgerða stjórnvalda á hag heimilanna. Skýrslan taki til tímabilanna 2008–13 og 2013–18 og fjalli m.a. um fjölda fjölskyldna sem misstu húsnæði sitt, aðgerðir stjórnvalda og áhrif þeirra aðgerða.
    Óskað er eftir ítarlegri greiningu á afleiðingum efnahagshrunsins fyrir fjölskyldur og heimilin. Meðal efnisatriða yrðu eftirfarandi þættir þótt hér sé ekki um tæmandi talningu að ræða:
     a.      Fjöldi fjölskyldna sem missti húsnæði sitt vegna nauðungaruppboðs, nauðasamninga eða annars konar skuldauppgjörs.
     b.      Stofnun embættis umboðsmanns skuldara, mat á úrræðum og árangri af störfum embættisins.
     c.      Árangur af tímabundnum frestunum fullnustugerða og öðrum sambærilegum aðgerðum stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna.
     d.      110%-leiðin, mat á árangri og hliðstæðum við önnur lönd.
     e.      Skuldaleiðréttingin, úttekt á henni og mat á áhrifum hennar.
     f.      Brottflutningur fólks af landinu í kjölfar hrunsins.

Greinargerð.

    Markmiðið með skýrslubeiðni þessari er að draga fram áhrif hrunsins og eftirleiks þess á fjölskyldur og heimili landsmanna. Margir misstu hús sín og íbúðir og sparnað sem safnað hafði verið yfir langan tíma. Eignatjón er af óþekktum stærðum á heimsmælikvarða og sögulegan kvarða eins og rakið hefur verið í viðurkenndum hagfræðiritum. 1
    Miðað við upplýsingar opinberra aðila sem m.a. koma fram í svörum ráðherra við fyrirspurnum á Alþingi misstu ekki færri en 10 þúsund fjölskyldur húsnæði sitt, með öllu því raski og angist sem slíku fylgir. Fjölmargir fluttust af landi brott. Með þessum hætti snerti eftirleikurinn tugi þúsunda Íslendinga. Vart er unnt að finna dæmi um eins víðtækt rask á högum einstaklinga og fjölskyldna í nokkru öðru landi nema eftir stórfelldar náttúruhamfarir eða styrjaldarátök. Brýnt er að gerð verði úttekt á þessum atburðum, húsnæðismissi fjölmargra Íslendinga ásamt mati á aðgerðum sem stjórnvöld gripu til.
    Í kjölfar efnahagshrunsins hafa málefni er varða aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna verið á borði forsætisráðherra og hlutaðeigandi fagráðuneyta. Í því ljósi, sem og að efnisatriði sem óskað er eftir greiningu á falla undir málaflokka í fleiri en einu ráðuneyti, telja skýrslubeiðendur rétt að forsætisráðherra leiði vinnuna.
    Nauðsynlegt er að þekkja afleiðingar hrunsins og áhrif af aðgerðum stjórnvalda til að renna stoðum undir aðgerðir til að auka neytendavernd á fjármálamarkaði og verja þannig heimili landsmanna.

1    Sjá t.d. Carmen M. Reinhart og Kenneth S. Rogoff. 2009. This time is different. Princeton University Press.