Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1243  —  505. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989 (endurvinnsla og skilagjald).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Fjólu Sigurðardóttur og Guðmund Bjarka Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Karl Alvarsson og Þorgerði Þráinsdóttur frá Isavia, Helga Lárusson frá Endurvinnslunni, Sigurð Örn Bernhöft frá Distu ehf., Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Árna Davíðsson frá Landssamtökum hjólreiðamanna og Bryndísi Gunnlaugsdóttur og Eygerði Margrétardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Distu ehf., Endurvinnslunni, Isavia, Landssamtökum hjólreiðamanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 52/1989 sem fela m.a. í sér nýtt markmiðsákvæði í samræmi við hringrásarhagkerfið, breytingar á gjöldum og þóknunum, afnám ákvæðis um heimild ráðherra til hækkunar á gjöldum í samræmi við vísitölu neysluverðs, álagningu skila- og umsýslugjalds á söluaðila tollfrjálsra verslana við brottför úr landi og samræmingu við lög um meðhöndlun úrgangs.

Umfjöllun nefndarinnar.
Árangur endurvinnslu.
    Nefndin fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi í skilum á einnota drykkjarvöruumbúðum. Nefndin ítrekar ábyrgð drykkjarvöruframleiðanda að vera leiðandi þegar kemur að því að nota umbúðir sem eru umhverfisvænar og endurnýtanlegar. Umbúðum úr pappa, plasti og áli hefur í miklum mæli verið skilað til endurvinnslu hér á landi. Sá árangur er eftirtektarverður og í anda hringrásarhagkerfisins.

Samsettar umbúðir utan skilakerfis.
    Fram kom í umsögnum um frumvarpið að fyrir hendi kunni að vera hvati til að nota óumhverfisvænni drykkjarvöruumbúðir þar sem kostnaður fellur á umbúðir sem unnt er að skila í endurvinnslu. Þessi kostnaður er hins vegar ekki lagður á drykkjarvöruumbúðir utan skilakerfisins og má í þessu sambandi benda á samsettar umbúðir úr plasti og áli eða pappír og plasti.
    Nefndin telur brýnt að hugað verði að framleiðslu, innflutningi og notkun umbúða úr blönduðum efnum sem falla illa að hringrásarhagkerfinu vegna þess að endurnýting þeirra er flókin eða ómöguleg. Nefndin tekur einnig undir ábendingar um að finna þurfi lausnir til að koma í veg fyrir áðurnefndan hvata til að nota óumhverfisvænar drykkjarvöruumbúðir. Í þessu sambandi vill nefndin benda á nýframlagt frumvarp um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi) (708. mál). Þar er lagt til að úrvinnslugjald verði lagt á umbúðir úr pappa/pappír, plasti, gleri og málmi sem og fjallað um framleiðendaábyrgð. Úrvinnslugjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við söfnun og meðhöndlun umbúðanna eftir notkun. Lagt er til að slíkt gjald verði þrepaskipt á komandi árum og hækki eftir því sem erfiðara er að endurvinna umbúðirnar. Þannig ætti ekki að myndast óæskilegur hvati fyrir framleiðendur til að skipta yfir í óumhverfisvænni umbúðir. Nefndin fagnar þessu og hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til áframhaldandi verka, svo sem varðandi endurvinnslu á drykkjarvöruumbúðum úr blönduðum efnum, og að kanna hvort staðgöngulausnir henti og hvort, og þá að hve miklu leyti, margnota umbúðir geti komið til greina.

Endurvinnsla á öllum glerúrgangi.
    Í e-lið 1. gr. frumvarpsins er lögð til hækkun á umsýsluþóknun. Sú hækkun kemur til sökum þess að ráðgert er að vinna við endurvinnslu á gleri hefjist árið 2021. Mun það vera dýrari leið en að mylja gler í landfyllingu eða malbik en þær aðferðir hafa verið notaðar á liðnum árum. Í umsögn um frumvarpið kom fram að með þessu væri eingöngu verið að tryggja endurvinnslu á glerumbúðum drykkjarvara í skilakerfi. Aftur á móti ætti enn eftir að fjármagna og hefja endurvinnslu á öðru umbúðargleri, en það væri á ábyrgð sveitarfélaga. Með þessu væru ekki settar sömu kröfur á endurvinnslu glerumbúða. Nefndin fagnar því að hafin skuli endurvinnsla á glerumbúðum drykkjarvara en áréttar jafnframt að ástæða er til að kanna hvernig bæta megi sem fyrst úr þessu svo unnt verði að endurvinna allan glerúrgang.

Arðgreiðslur til hluthafa Endurvinnslunnar.
    Í c-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skila megi hluthöfum hóflegum arði af því hlutafé sem þeir hafi lagt í félagið. Í umsögn kom fram athugasemd við arðgreiðslur til eigenda Endurvinnslunnar. Þar sagði m.a. að ekki væri að finna sérstaka heimild fyrir arðgreiðslum í lögunum sem og að orðalag í þeim benti ekki til þess að félagið ætti að vera hagnaðardrifið. Einnig var því hreyft hvaða merking fælist í hóflegri arðgreiðslu, og þá jafnframt með tilliti til hækkandi eigin fjár á komandi árum.
    Nefndin bendir á að skv. 1. mgr. 4. gr. gildandi laga skal við ákvörðun umsýsluþóknunar við það miðað að félagið geti staðið undir kostnaði við starfsemina og skilað hluthöfum hóflegum arði af hlutafé. Með þessari tillögu um breytingu á lögunum færist ákvæðið um hóflega arðgreiðslu úr 1. mgr. 4. gr. í 1. mgr. 2. gr. Endurvinnslan er einkahlutafélag með rúmlega þriðjungsþátttöku frá ríkinu. Þýðingarmikið er að starfsemin skili einhverjum hagnaði til að eiga fyrir fjárfestingum og til að eiga sjóð ef tap verður á rekstrinum. Jafnframt er eðlilegt að hluta hagnaðar sé ráðstafað til hluthafa svo þeir fái einhvern arð af fjárfestingu sinni.

Viðtaka á endurvinnanlegum drykkjarvöruumbúðum á sölustað.
    Við meðferð málsins barst nefndinni tillaga um að söluaðilum verði gert að taka við drykkjarvöruumbúðum sem beri skilagjald og endurgreiða það til neytenda. Það komi í veg fyrir að neytendur þurfi að fara langar leiðir til að skila umbúðum og geti þess í stað gert það gangandi eða hjólandi. Nefndin getur að svo komnu máli ekki fallist á þessa tillögu án undangenginnar vandaðrar úttektar. Benda má á ýmis vandkvæði við að miklum fjölda söluaðila verði gert að skila einnota drykkjarvöruumbúðum til Endurvinnslunnar með tilheyrandi kostnaði og umfangi. Jafnframt væri vélbúnaður sem les strikamerki og þjappar umbúðum saman forsenda þess að söluaðilar gætu veitt umbúðum viðtöku og greitt út skilagjaldið. Gera þyrfti úttekt á kostnaði við kaup eða leigu á slíkum búnaði og við rekstur hans.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Létt og sterkt vín undanskilið gjöldum.
    Í f-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þeir aðilar sem selji farþegum og áhöfnum millilandafara vörur úr tollfrjálsri verslun við brottför frá landinu skuli leggja á og greiða gjöld skv. 1. mgr. eins og um væri að ræða sölu innan lands. Ábendingar komu fram í umsögn að í fríhafnarverslun væru drykkjarvörur í einnota umbúðum alla jafna seldar í magnpakkningum, ekki geymdar í kæli nema að mjög litlu leyti og ekki væri boðið upp á að veigunum væri hellt í glös. Því heyrði það til undantekninga að slíkar umbúðir kæmu til Endurvinnslunnar en færu ekki úr landi. Af þeim sökum væri óeðlilegt að gjald vegna endurvinnslu væri lagt á umbúðir sem færu með neytendum úr landi og að gjaldið ætti að einskorðast við sölu á veitingastöðum þar sem til boða stendur að neyta drykkja á staðnum.
    Nefndin fellst á þessa athugasemd og telur að finna þurfi ákveðinn milliveg svo unnt verði annars vegar að draga úr magni þeirra drykkjarvöruumbúða sem fara til Endurvinnslunnar úr brottfararsal án þess að greitt hafi verið skilagjald og hins vegar eftir því sem unnt er koma í veg fyrir að gjaldið leggist á drykkjarvöruumbúðir sem reikna má með að fari úr landi. Því leggur nefndin til að drykkjarvöruumbúðir fyrir létt og sterkt vín sem selt er á brottfararsvæði flugvallarins verði undanskilið gjaldinu.

Brottfall gjaldskyldu á sendiráð og alþjóðastofnanir.
    Í f-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að gjaldskylda nái einnig til sendiráða og alþjóðastofnana sem flytja inn vörur í gjaldskyldum umbúðum. Að fenginni ábendingu við meðferð málsins telur nefndin rétt að fella þennan lið úr frumvarpinu. Rökin að baki því eru að þetta er talið fara í bága við 23. gr. laga um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, nr. 16/1971, svonefndum Vínarsamningi. Þar segir m.a. að sendiríkið og forstöðumaður sendiráðsins skuli undanþegin öllum sköttum og gjöldum til ríkis, sveitarfélaga og annarra umdæma að því er tekur til sendiráðssvæðisins. Jafnframt komu fram upplýsingar um ómöguleika fyrir tollyfirvöld við að framfylgja slíku ákvæði þar sem friðhelgi gildir um umræddar sendingar.

    Auk áðurnefndra breytingartillagna leggur nefndin til tæknilegar lagfæringar sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Á eftir e-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 2. mgr.
                  b.      Í stað orðsins „vörur“ í 1. efnismgr. f-liðar komi: óáfengar drykkjarvörur og bjór.
                  c.      Í stað tilvísunarinnar „skv. 1. mgr.“ í 1. efnismgr. f-liðar komi: skv. 2. mgr.
                  d.      2. efnismgr. f-liðar falli brott.
     2.      Í stað tilvísunarinnar „3. og 4. mgr.“ í b-lið 5. gr. komi: 4. og 5. mgr.


    Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason skrifa undir álitið með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 15. apríl 2021.

Bergþór Ólason,
form., með fyrirvara.
Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Guðjón S. Brjánsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson. Karl Gauti Hjaltason,
með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.