Ferill 706. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1296  —  706. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006 (niðurfelling ákvæða).

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gísla Rúnar Gíslason frá utanríkisráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 176/2006 sem fela einkum í sér að felld verði brott lagaákvæði sem hafa ekki lengur neitt hlutverk þar sem ráðstöfunum samkvæmt þeim er lokið. Lögð er til sú breyting að felld verði úr gildi 4. gr. laganna sem fjallar um hlutverk Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) samkvæmt lögum. Hlutverki Þróunarfélagsins við að koma fasteignum á varnarliðssvæðinu í borgaraleg not lauk með sölu á síðustu eignum sem voru í umsýslu félagsins. Vinna hefur staðið yfir á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við að útfæra nýtt hlutverk Þróunarfélagsins og mun það einkum lúta að því að móta og samhæfa skipulag á svæðinu við og í kringum flugvöllinn í Keflavík í samstarfi við Isavia og sveitarfélögin þar.
    Nefndin leggur til breytingu sem er tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. málsl. 2. efnismgr. 1. gr. orðist svo: Ráðherra sem fer með málefni öryggissvæða skal með auglýsingu birta uppdrátt um ytri mörk og innri skiptingu svæðisins í flugvallarsvæði (svæði A) og öryggissvæði (svæði B).
     2.      4. gr. orðist svo:
                 Í stað orðanna „á svæðum sem tilgreind eru í 2. gr. og 1. mgr. 4. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: á svæði skv. 2. gr.
     3.      Orðin „er fylgiskjal með auglýsingu sem“ í 2. tölul. 8. gr. falli brott.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. apríl 2021.

Sigríður Á. Andersen,
form., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir.