Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1396  —  345. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Víði Smára Petersen.

Skipan matsnefndar (1. mgr. 3. gr.).
    Nefndin ræddi skipan matsnefndar en í a-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að 1. mgr. 44. gr. laga um lax- og silungsveiði verði breytt og fallið frá skilyrði um að tveir nefndarmenn skuli hæfir til að gegna embætti héraðsdómara og að Hæstiréttur tilnefni annan þeirra í matsnefnd. Lagt er til að Hafrannsóknastofnun, í stað Hæstaréttar, tilnefni nefndarmann, en áfram er gert ráð fyrir að ráðherra skipi hinn án tilnefningar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að nefndarmenn hafi þekkingu sem nýtist í störfum hennar. Með því að Hafrannsóknastofnun fái rétt til tilnefningar sé tryggt að innan nefndarinnar verði til staðar fiskifræðileg þekking, sérþekking á lífríki vatna og straumvatna sem geti reynt á m.a. í tengslum við álitaefni í arðskrám. Þá bendir meiri hlutinn á að þrátt fyrir að fallið sé frá skilyrði um að nefndarmaður hafi hæfi héraðsdómara geti ráðherra við skipun í nefndina litið til þess að nefndarmaður uppfylli slík skilyrði, eða hafi þekkingu á þeim lögum sem nefndin vinnur eftir.

Bótaákvæði (5. gr.).
    Nefndin ræddi 5. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að koma á sérstakri bótaábyrgð þeirra sem greiða atkvæði um ráðstöfun veiði samkvæmt nýrri 3. mgr. 40. gr., sbr. a-lið 2. gr. frumvarpsins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Hin almenna bótaregla í 49. gr. laganna gerir ekki ráð fyrir bótaskyldu komi ákvörðun, sem ekki byggist á málefnalegum forsendum, í veg fyrir að veiðiréttarhafar njóti eðlilegs arðs af hlunnindum sínum. Ákvæðinu er ætlað að vera ákveðinn varnagli til viðbótar hinni almennu bótareglu í 49. gr. laganna.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 7. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson.