Ferill 769. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1398  —  769. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um viðspyrnustyrki og lögum um tekjuskatt (framhald úrræða og viðbætur).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur frá Skattinum, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til að mæta fjárhagstjóni einstaklinga og lögaðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í frumvarpinu er kveðið á um framlengingu gildistíma lokunarstyrkja og viðspyrnustyrkja. Lagt er til að hámark heildarfjárhæðar lokunarstyrkja verði hækkað í 260 millj. kr. og að rekstraraðilar sem hafi orðið fyrir 40% tekjufalli geti sótt um viðspyrnustyrk, að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Að auki er lagt til að við álagningu 2021 verði greiddur sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni í þeim tilvikum þegar ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur til framfærenda.

Umfjöllun nefndarinnar.
Viðmiðunartímabil viðspyrnustyrkja.
    Samkvæmt 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga um viðspyrnustyrki er heimilt að nota annað tímabil en getið er í 1. og 2. málsl. ákvæðisins til viðmiðunar því hvort rekstraraðili uppfylli skilyrði um lágmarkstekjufall, enda sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1. og 2. málsl. Að jafnaði skal þá miðað við tekjur í sama almanaksmánuði 2018. Í greinargerð frumvarps til laga um viðspyrnustyrki segir að sú heimild geti t.d. átt við hafi reksturinn legið niðri stóran hluta almenna viðmiðunartímabilsins vegna veikinda eða fæðingarorlofs rekstraraðila.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er bent á að ýmsar ástæður geti verið fyrir því að annað viðmiðunartímabil en skv. 1. og 2. málsl. 1. tölul. 4. gr. laganna gefi betri mynd af tekjufalli rekstraraðila, aðrar en þær sem tilgreindar eru í greinargerð frumvarps til laga um viðspyrnustyrki. Á þetta t.d. við um ung fyrirtæki með stutta rekstrarsögu sem sannanlega hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Í 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. laganna felst undanþága frá meginreglunni um viðmiðunartímabil viðspyrnustyrkja sem kemur fram í 1.–2. málsl. ákvæðisins. Við mat á því hvort sérstakar aðstæður séu fyrir hendi í skilningi undanþágunnar, sem réttlæti beitingu hennar, ber þannig að öðru jöfnu að beita þröngri túlkun. Þrátt fyrir þetta telur nefndin að hafa verði markmið laganna til hliðsjónar við slíkt mat auk þess sem gæta verði jafnræðis milli aðila sem álíka er statt um. Telur nefndin ljóst að þau tilvik sem nefnd eru í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um viðspyrnustyrki, um veikindi og fæðingarorlof, séu tilgreind í dæmaskyni og að þeim sé ekki ætlað að vera tæmandi upptalning. Séu aðstæður rekstraraðila t.d. þannig að stóran hluta viðmiðunartímabils skv. 1.–2. málsl. hafi hann verið frá vinnu telur nefndin þannig að sérstakar aðstæður kunni að vera fyrir hendi í skilningi 3. málsl., enda þótt ástæður fjarverunnar séu aðrar en veikindi eða fæðingarorlof.

Mat á árangri aðgerða.
    Frá því að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru tók að gæta hér á landi hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að mæta fjárhagstjóni einstaklinga og rekstraraðila. Stuðningur við rekstraraðila hefur m.a. fólgist í frestunum gjalddaga opinberra gjalda, hagstæðum stuðningslánum með ríkisábyrgð og beinum styrkjum úr ríkissjóði, svo sem lokunar-, tekjufalls- og viðspyrnustyrkjum, auk stuðnings vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Mörg þessara úrræða hefur þurft að framlengja umfram upphaflegan gildistíma og mikil reynsla er komin á beitingu þeirra.
    Vonir standa til að á næstu mánuðum skapist svigrúm til að létta á sóttvarnaráðstöfunum og þar með dragi smám saman úr þörf fyrir stuðningsaðgerðir á borð við þær sem hafa verið nefndar. Nefndin telur ástæðu til að metinn verði sá árangur og ávinningur sem úrræðin hafa skilað samfélaginu. Nefndin er einhuga um nauðsyn þess að slík úttekt verði gerð.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Þinglýsing viðauka við verðbréf vegna greiðslufrestunar.
    Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í þinglýsingalögum, nr. 39/1978, er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði laganna öðlist viðauki við verðbréf, þar sem kröfuhafi er opinber stofnun eða fjármálafyrirtæki eða lífeyrissjóður með fullt starfsleyfi, sem kveður eingöngu á um frestun greiðslna á skuldum einstaklinga eða fyrirtækja, þ.m.t. vöxtum og/eða afborgunum, í allt að 18 mánuði, frá og með 16. mars 2020 til og með 1. maí 2021, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, sömu réttaráhrif og ef honum væri þinglýst og hann samþykktur af síðari veðhöfum. Skv. 2. mgr. skal þinglýsa slíkum viðauka fyrir 16. maí 2021.
    Nefndinni barst ábending um að hluti kröfuhafa, sem tóku þátt í samstilltum aðgerðum um að fresta greiðslum og skuldum einstaklinga og fyrirtækja á grundvelli ákvæðisins, muni ekki ná að þinglýsa viðaukum þar um með rafrænni færslu fyrir 16. maí. Í samráði við dómsmálaráðuneytið leggur nefndin til að frestur til að þinglýsa viðaukum samkvæmt ákvæðinu verði framlengdur til 31. desember 2021.
    Því til viðbótar leggur nefndin til breytingu sem er tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Á eftir a-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað hlutfallstölunnar „60%“ í 1. málsl. 1. tölul. kemur: 40%.
                  b.      Inngangsmálsliður b-liðar orðist svo: Á eftir orðunum „í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar“ í lokamálslið 1. tölul. kemur.
     2.      Við bætist nýr kafli, IV. kafli, Breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með einni nýrri grein, 9. gr., svohljóðandi:
                  Í stað „16. maí“ í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum kemur: 31. desember.
     3.      Í stað orðanna „gildir b-liður“ í 3. mgr. 9. gr. komi: gilda b- og c-liður.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (framlenging úrræða, viðbætur).

    Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Hjálmar Bogi Hafliðason. Ólafur Þór Gunnarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, með fyrirvara. Smári McCarthy, með fyrirvara.