Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1439  —  549. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar (einföldun regluverks).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Elísabetu Önnu Jónsdóttur og Ástu Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bjarna Jónasson frá Umhverfisstofnun, Ernu Karen Óskarsdóttur og Viktor S. Pálsson frá Matvælastofnun, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Báru Eyfjörð frá Dýralæknasambandi Íslands og Pál Rafnar Þorsteinsson frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Samtökum iðnaðarins, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Umhverfisstofnun.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum í því skyni að einfalda regluverk á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar. Lagt er til að starfsumhverfi í fiskeldi verði einfaldað, sérstaklega fyrir minni framleiðendur, auk þess sem lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að auka skilvirkni stjórnsýslu og skýra regluverk til hagsbóta fyrir atvinnulíf og samfélag. Frumvarpið er liður í þriðja og síðasta áfanga aðgerðaáætlunar um einföldun regluverks á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og er samið í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Umfjöllun nefndar.
Einföldun stjórnsýslu fyrir smærri aðila í fiskeldi.
    Lagðar eru til breytingar á lögum um fiskeldi sem eiga að koma til móts við minnstu aðilana í fiskeldi, þ.e. landeldi með allt að 20 tonna hámarkslífmassa, þar sem starfsemin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í stað skilyrðis um rekstrarleyfi verði hluti slíkrar starfsemi skráningarskyldur og þannig dregið úr kostnaði við leyfisveitingar til smærri aðila. Í reglugerð verði nánar kveðið á um skilyrði og forsendur slíkrar skráningar. Meiri hlutinn telur jákvætt að lagðar séu til breytingar til einföldunar stjórnsýslu fyrir smærri aðila í fiskeldi og undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að gerður sé greinarmunur á fiskeldisframleiðendum með fiskeldisstöðvar og þeim smærri í landeldi.

Innflutningur lifandi framandi lífvera (18. gr.).

    Í 18. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 63. gr. laga um náttúruvernd sem tekur til innflutnings lifandi framandi lífvera. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að skýra þurfi hvort með breytingunni sé lagt til að fella niður 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins eða hvort hann verði að 3. málsl. Að mati stofnunarinnar skyldi ekki fella brott 2. málsl. sem fæli í sér heimild til að banna með reglugerð innflutning tiltekinna framandi lífvera. Þá þurfi að leiðrétta tilvísanir til málsgreina í frumvarpsgreininni.
    Meiri hlutinn bendir á að með a-lið 18. gr. frumvarpsins er lagt til að orðalag 2. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga um náttúruvernd breytist og verði eins og þar segir. Verði frumvarpið að lögum fellur 2. málsl. gildandi ákvæðis þar með brott en verður ekki að 3. málsl. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að skv. b-lið 18. gr. frumvarpsins kemur ný málsgrein á eftir 1. mgr. lagaákvæðisins sem kemur í stað gildandi 2. málsl. 1. mgr.
    Enn fremur bendir meiri hlutinn á að heimild ráðherra til að banna með reglugerð innflutning tiltekinna framandi lífvera grundvallast á reglugerðarheimild í 5. mgr. ákvæðisins, sbr. 2. málsl. þeirrar málsgreinar. Ekki eru lagðar til breytingar á þessum lið í frumvarpinu en 5. mgr. verður 6. mgr. verði það að lögum. Heimild ráðherra til að setja reglugerð og banna innflutning og dreifingu tiltekinna framandi tegunda helst því óbreytt. Loks bendir meiri hlutinn á að í c-lið 18. gr. frumvarpsins er kveðið á um breytingar á 2. mgr. gildandi lagaákvæðis og því rétt að tilgreina 2. mgr. en ekki 3. mgr. Tilvísanir til málsgreina í 18. gr. frumvarpsins eru því réttar.

Breyting á skipan fagráðs um velferð dýra (26. gr.).
    Með 26. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 5. gr. laga um velferð dýra. Ráðherra skipi fagráð um velferð dýra í stað þess fyrirkomulags sem nú er. Samkvæmt gildandi ákvæði staðfestir ráðherra skipan ráðsins en aðrir fulltrúar en formaður eru skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndunarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að slík breyting væri skref aftur á bak í málefnum dýravelferðar þar sem hætta væri á að fagleg sjónarmið vikju fyrir skilvirkri stjórnsýslu. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir að ráðherra skipi í fagráðið með hliðsjón af faglegum þáttum og að almennt verði leitað til þeirra aðila sem nefndir eru í gildandi lagaákvæði. Meiri hlutinn telur mikilvægt að dýraverndarsjónarmið séu í forgrunni við skipan í fagráð um velferð dýra og áréttar að fram kemur í greinargerð að ráðherra leiti áfram til þeirra aðila sem tilgreindir eru í gildandi lagaákvæði auk þess sem einnig verði unnt að leita til annarra aðila með fagþekkingu á málefnasviðinu.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Breyting á lögum um fiskeldi (1. gr.).
    Með 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um fiskeldi þannig að heimilt verði að gera hluta starfsemi fiskeldisstöðva skráningarskylda. Ákvarðanir um skráningarskyldu teljast til stjórnvaldsákvarðana en ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir kæruleið rísi ágreiningur um slíkar ákvarðanir. Meiri hlutinn leggur því til að höfðu samráði við ráðuneytið að bætt verði við lögin ákvæði er veiti aðilum heimild til að kæra ákvarðanir um skráningarskyldu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, líkt og ákvarðanir sem lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun rekstrarleyfa fiskeldis.

Fjallskilasamþykktir (31. gr.).
    Með 31. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Þar er m.a. lagt til að lögfest verði skylda til formlegrar umsagnar Bændasamtaka Íslands um drög að fjallskilasamþykktum. Einnig er lagt til að fjallskilasamþykktir öðlist gildi við birtingu og að stjórnir fjallskilaumdæma annist birtingu í stað ráðuneytis eins og nú er, og að ekki verði lengur krafist staðfestingar ráðuneytis. Í umsögn sinni til nefndarinnar benda samtökin á að eðlilegra sé að ráðuneytið yfirfari slík drög efnislega. Meiri hlutinn fellst á sjónarmið um að fallið sé frá því að lögfesta skyldu Bændasamtakanna til yfirferða samþykkta og leggur til breytingu þess efnis. Þá benda samtökin á að gæta þurfi samræmis um gildistökuákvæði samþykktanna og lögð til sú breyting að ráðuneytið staðfesti samþykktir en að þær öðlist gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Meiri hlutinn bendir á að stjórn fjallskilaumdæmis ber ábyrgð á að slík samþykkt sé í samræmi við lög og reglur og því megi telja eðlilegt að stjórnir gefi hana út. Meiri hlutinn fellst á sjónarmið um að gerð sé breyting er varðar birtingu og falli þá brott ákvæði um að sérstök gildistökuákvæði skuli vera í slíkum samþykktum.

Breyting á lögum um matvæli.
    Þá leggur meiri hlutinn til, að beiðni ráðuneytisins, breytingu á 13. gr. f laga um matvæli. Tillagan er sett fram til samræmis við áherslur um að ýta undir möguleika bænda til að framleiða og selja afurðir beint frá býli til að styrkja verðmætasköpun og afkomu þeirra.
    Samkvæmt gildandi ákvæði skulu kjötmatsmenn meta allar sláturafurðir sem dreift er á markað. Slátrun fari fram í hefðbundnu sláturhúsi og sérstakt kjötmat fari fram af hálfu kjötmatsmanna sem starfa hjá sláturhúsunum undir eftirliti Matvælastofnunar. Kjötmat þjónar þeim tilgangi að fylgjast með þróun ræktunar í sauðfjárrækt og er nýtt við verðlagningu hefðbundinna sláturhúsa til bænda. Kjötafurðir eru jafnframt vigtaðar þar sem framleiðendur geta fengið sérstakar álagsgreiðslur samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar eftir fjölda innlagðra kílóa kjöts, ef þeir uppfylla skilyrði gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Kjötmat tengist jafnframt söfnun upplýsinga um framleiðslu og sölu á innlendum afurðum.
    Meiri hlutinn leggur því til að við 13. gr. f laga um matvæli verði bætt nýrri málsgrein er veiti ráðherra heimild til að víkja frá þeim ákvæðum greinarinnar er varða mat sláturafurða sem framleiddar eru í litlum sláturhúsum. Stefnt er að því að sett verði reglugerð sem geri sauðfjárbændum kleift að slátra sauðfé heima í litlum sauðfjársláturhúsum og selja afurðir á markaði. Gert er ráð fyrir að framleiðslan verði bundin þeim skilyrðum að uppfyllt séu skilyrði regluverks um matvælaöryggi, dýravelferð og dýraheilbrigði. Þá verði hámarksstærð slíkra sláturhúsa afmörkuð í reglugerð. Í ljósi slíkra breytinga er talið rétt að ráðherra sé veitt heimild til að setja sérreglur um mat sláturafurða sem framleiddar eru í litlum sláturhúsum. Líkt og að framan greinir er kjötmat fyrst og fremst verkfæri fyrir bændur til að fylgjast með ræktunarþróun fremur en markaðstæki. Tilgangur breytinganna er að horfa til þess að veita bændum sem það kjósa aukið svigrúm til að annast framleiðslu og sölu afurða sinna sjálfir. Eftir sem áður verða þeir að uppfylla margþætt skilyrði sem þó þarf að aðlaga því að framleiðslan verður í smáum stíl. Hvað varðar opinberar stuðningsgreiðslur er gert ráð fyrir að dýralæknar sem sinna opinberu eftirliti afli upplýsinga eða staðfesti upplýsingar um framleiðslumagn. Á grundvelli þeirra gagna verður jafnframt unnt að safna upplýsingum um framleiðslu og sölu á innlendum afurðum.

Brottfall laga um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, nr. 43/1998.
    Meiri hlutinn leggur til, að beiðni ráðuneytisins, að lög um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins falli brott. Um er að ræða tvo sjóði, skv. 8. og 9. gr. laganna.
    Sjóðurinn skv. 8. gr. var stofnaður vegna síldarrannsókna og er í vörslu Hafrannsóknastofnunar sem stundar slíkar rannsóknir. Stofnfé sjóðsins var 110 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar og er eign sjóðsins í dag um 270 millj. kr.
    Sjóðurinn skv. 9. gr. var stofnaður sem vöruþróunar- og markaðssjóður síldarútvegsins til að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir, jafnframt því að efla nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi (sbr. breytingalög nr. 54/2005). Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og ekki í eigu ríkisins. Sjóðurinn er í vörslu síldarútvegsins og tilnefna félög síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi í stjórn sjóðsins. Sjóðurinn var byggður upp fyrir fjármagn sem síldarútvegur greiddi til síldarútvegsnefndar af verðmæti útfluttra síldarafurða á sínum tíma. Samkvæmt skipulagsskrá nr. 487 frá 9. maí 2008 fyrir Rannsóknarsjóð síldarútvegsins (áður skipulagsskrá vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóðs frá 18. ágúst 1998) tekur ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála við eignum sjóðsins til ráðstöfunar og varðveislu ef hann skyldi vera lagður niður, og eignum ráðstafað í samræmi við markmið sjóðsins. Einnig þarf samþykki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að breyta skipulagsskránni. Markmið sjóðsins eru því varin. Stofnfé sjóðsins var 80 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar.
    Meiri hlutinn leggur til að lögin verði felld brott í heild sinni enda hafi þau ekki lengur þann tilgang sem lagt var upp með þegar þau voru sett árið 1998. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verður eignum sjóðs skv. 8. gr. laganna þá ráðstafað til ríkissjóðs. Í lögunum var gert ráð fyrir að hægt væri að ráðstafa árlega úr sjóðnum til síldarrannsókna og bendir meiri hlutinn á að tryggja þarf hækkun á ramma Hafrannsóknastofnunar um 10–12 millj. kr. árlega sem nýttar væru til rannsókna á uppsjávarstofnum. Sjóður skv. 9. gr. starfar áfram samkvæmt skipulagsskrá.

    Breytingartillögur meiri hlutans eru að öðru leyti tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við I. kafla bætist ný grein sem verði 1. gr., svohljóðandi:
                  1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Ákvarðanir Matvælastofnunar er lúta að skráningarskyldu eða veitingu, endurskoðun og afturköllun rekstrarleyfis til fiskeldis samkvæmt þessum kafla og III. og V. kafla sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
     2.      A-liður 3. gr. orðist svo: Í stað orðanna „Rekstrarleyfishafa eða starfsmönnum hans“ í 1. málsl. kemur: Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila skv. 5. gr. eða starfsmönnum þeirra.
     3.      Í stað orðsins „hennar“ í 2. málsl. c-liðar 18. gr. komi: dreifingarinnar.
     4.      Við 31. gr.
                  a.      A-liður falli brott.
                  b.      Orðin „nema hún hafi að geyma sérstök ákvæði um gildistöku“ í b-lið falli brott.
     5.      Við bætist tveir nýir kaflar, XIII. kafli, Breyting á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með einni nýrri grein, 39. gr., og XIV. kafli, Brottfall laga um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, nr. 43/1998, með einni nýrri grein, 40. gr., svohljóðandi:
                  a.      (39. gr.)
                     Við 13. gr. f laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ráðherra er heimilt með setningu reglugerðar að víkja frá ákvæðum 1.–6. mgr. varðandi mat sláturafurða sem framleiddar eru í litlum sláturhúsum.
                  b.      (40. gr.)
                     Lög um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, nr. 43/1998, falla úr gildi.


Alþingi, 7. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson.
Sigurður Páll Jónsson.