Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1440  —  776. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020 (endurnýjun).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Heimi Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu, Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Vilhjálm Bjarnason, formann safnaráðs.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Ferðamálastofu, Markaðsstofum landshlutanna, Persónuvernd, Samtökum ferðaþjónustunnar og Vilhjálmi Bjarnasyni, formanni safnaráðs.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020. Lögð er til endurnýjun ferðagjafar þar sem gildistími nýrrar ferðagjafar, að fjárhæð 5.000 kr., verði frá og með 1. júní 2021 til með 31. ágúst 2021. Lög um ferðagjöf tóku gildi 23. júní 2020 en á grundvelli þeirra fengu einstaklingar sem falla undir skilyrði 1. mgr. 1. gr. laganna stafræna 5.000 kr. inneign sem nýta má til að greiða fyrir þjónustu frá útgáfudegi til og með 31. desember 2020 hjá þeim fyrirtækjum sem eru skilgreind í 2. mgr. 1. gr. laganna. Gildistími þessarar ferðagjafar var framlengdur til og maí 2021, sbr. breytingalög þess efnis sem tóku gildi 31. desember 2020. Áfram er gert ráð fyrir að hafi fyrri útgáfa ferðagjafar ekki verið nýtt fyrir 1. júní 2021 falli hún niður. Nefndin telur í ljósi framangreinds mikilvægt að skýrar sé kveðið á um annars vegar gildistíma nýrrar ferðagjafar og hins vegar hvenær sú eldri fellur niður og leggur til breytingar þess efnis.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að lengja mætti gildistíma eldri ferðagjafar og þeirrar nýju. Ferðagjöfin hafi haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og með framlengingu væri þeim sem starfa innan ferðaþjónustu á hánnatíma veitt svigrúm til að nýta nýju ferðagjöfina. Nefndin tekur undir sjónarmið um mikilvægi ferðagjafar fyrir ferðaþjónustuna nú rúmlega ári eftir að glíman við kórónuveiruna hófst. Endurnýjun ferðagjafar yfir sumartímann er liður í að auka innlenda eftirspurn og því mikilvægur þáttur í viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Nefndin tekur einnig fram, líkt og segir í greinargerð með frumvarpinu, að framlenging gildistíma er tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA og háð samþykki hennar. Nefndin leggur til að gildistími nýrrar ferðagjafar verði framlengdur út septembermánuð 2021.
    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                  Við 5. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gildistími ferðagjafar 2021 er frá og með 1. júní til og með 30. september.
     2.      Á eftir orðinu „endurskipulagningaraðstoð“ í 2. efnismgr. 2. gr. komi: eða verið tekið til slita eða bú þess til gjaldþrotaskipta.
     3.      Efnismálsgrein 3. gr. orðist svo:
                  Hafi ferðagjöf með gildistíma til og með 31. maí 2021 skv. 1. málsl. 5. mgr. 1. gr. ekki verið nýtt fyrir 1. júní 2021 fellur hún niður.

    Helgi Hrafn Gunnarsson og Ólafur Ísleifsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 14. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Haraldur Benediktsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Ólafur Ísleifsson, með fyrirvara. Sigurður Páll Jónsson, með fyrirvara.