Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1482  —  776. mál.
Framsögumaður.

3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020 (endurnýjun).

Frá atvinnuveganefnd.


    Frumvarpinu var vísað til nefndar eftir 2. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, Þórarin Örn Þrándarson og Guðrúnu Gísladóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Nefndinni barst umsögn um málið frá Skattinum.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin ræddi sérstaklega hvort mögulegt væri að framlengja gildistíma á ferðagjöf 1 sem rennur út 31. maí þannig að hún gilti jafnlengi og ferðagjöf 2. Verði frumvarpið samþykkt tekur ferðagjöf 2 gildi frá og með 1. júní. Meiri hluti nefndarinnar lagði til fyrir 2. umræðu að gildistími þeirrar ferðagjafar yrði út septembermánuð 2021 í stað þess að hún rynni út 31. ágúst og var sú breytingartillaga samþykkt.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að væri slík breyting gerð, þ.e. að ónýttar gjafir úr ferðagjöf 1 væru framlengdar með gildistíma til jafns við ferðagjöf 2, kallaði sú aðgerð á aukna fjárheimild. Heimild er fyrir viðbótarfjármagni upp á 650 millj. kr., en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að sú fjárhæð sem ekki nýtist til ferðagjafar 1 renni til ferðagjafar 2. Ferðagjöfin felur í sér ríkisaðstoð skv. 61. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, og því háð samþykki ESA. Það samþykki liggur þegar fyrir eins og frumvarpið er nú. Það á einnig við ef eina breytingin á frumvarpinu verður sú að framlengja gildistíma ferðagjafar 2 út septembermánuð. Aðrar breytingar sem snúa að frekari lengingu gildistíma, hvort sem er fyrri eða síðari ferðagjafar, mundu kalla á nýja tilkynningu til stofnunarinnar. Með vísan til þess að slíkt ferli gæti tafið afgreiðslu málsins telur nefndin ekki rétt að leggja til frekari breytingar að því leyti, en gert er ráð fyrir að ný ferðagjöf taki gildi 1. júní.
    Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um hvort koma ætti á sérstakri „safnagjöf“ til að örva safnastarfsemi og hvetja til heimsókna á söfn. Nefndin hefur skilning á því sjónarmiði en telur rétt að vekja athygli á því að ferðagjöfina má nýta sem greiðslu hjá t.d. söfnum eða fyrirtækjum sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru skv. 5. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í áliti meiri hluta nefndarinnar um frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2020 er bent á að við mat á því hvort starfsemi falli undir ákvæðið sé m.a. vísað til ákvæða safnalaga auk þess sem litið sé til skilgreininga í öðrum lögum og reglum. Í ljósi aðstæðna sé einnig vilji til að ákvæðið verði túlkað rúmt frekar en að þrengja það um of svo að það nýtist ekki eins og lagt var upp með.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. gr. laganna sem kveður á um þá fjárhæð sem fyrirtæki geta tekið við að hámarki í formi ferðagjafa. Heildarfjárhæð til stuðnings tengdra rekstraraðila geti að hámarki numið 260 millj. kr. samtals. Í umsögn Skattsins er bent á að skv. 4. gr. laga um ferðagjöf hefur Ferðamálastofa eftirlit með framkvæmd laganna og að ekki liggur fyrir á hvern hátt því eftirliti yrði best hagað með tilliti til þeirra skilyrða sem sett yrðu samkvæmt tilvitnaðri 2. gr. frumvarpsins. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu getur Ferðamálastofa nálgast upplýsingar um nýtingu ferðagjafar í gegnum island.is hjá þeim fyrirtækjum sem skráð eru til þátttöku, þ.e. fjárhæðir sem fyrirtæki hafa tekið við í formi ferðagjafa. Sá listi birtist opinberlega á mæliborði ferðaþjónustunnar. Í gegnum island.is er hins vegar ekki hægt að nálgast upplýsingar um tengda aðila. Sem fyrr segir er vísað til tengdra aðila í ákvæðinu og að þeim sé ekki heimilt að taka við meira en 260 millj. kr. samanlagt í styrki, þ.e. vegna ferðagjafar sem og samkvæmt þeim lögum sem hafa verið sett vegna COVID-úrræða, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Hæsta fjárhæð sem fyrirtæki hefur tekið við í formi ferðagjafa samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar nemur 46 millj. kr. Það fyrirtæki sem er í 10. sæti hefur tekið við 16 millj. kr. Neðar á listanum eru smærri aðilar sem taka við upphæðum sem taldar eru í hundruðum þúsunda samanlagt. Þá bendir ráðuneytið á að þau fyrirtæki sem geta tekið við ferðagjöf virðast ekki teljast til þeirra sem hafa átt rétt á lokunarstyrkjum, sem eru þeir styrkir sem gætu hugsanlega fært fyrirtæki nær 260 millj. kr. hámarkinu samhliða ferðagjöf. Með vísan til þessa, og þess að gildistími endurnýjaðrar ferðagjafar er einungis fjórir mánuðir, má að mati ráðuneytisins telja hverfandi líkur á að aðilar sem taka við ferðagjöf fari yfir þessi fjárhæðarmörk. Þá er bent á að Ferðamálastofa sendir erindi til allra fyrirtækja sem eru skráð til þátttöku og minnir á þá skyldu sem á þeim hvílir að fylgjast með umræddu hámarki og veita upplýsingar um tengda aðila ef þær upplýsingar eru ekki í samræmi við þær sem Ferðamálastofa hefur. Með vísan til framangreinds leggur nefndin ekki til frekari breytingar á frumvarpinu.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 19. maí 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Haraldur Benediktsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
María Hjálmarsdóttir. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.