Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1628  —  791. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016 (hámark greiðslubyrðar, undanþágur o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur og Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Kristjönu Jónsdóttur, Einar Jón Erlingsson og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands, Herdísi Hallmarsdóttur og Rún Knútsdóttur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Katrínu Júlíusdóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að þau mörk sem gilda um hámark lána og greiðslubyrði þeirra sem hlutfall af tekjum verði skilgreind nánar auk þess sem lagt er til að bætt verði við ákvæði um heimild Seðlabankans til að skilgreina undanþágur frá hámörkunum vegna ákveðins hundraðshluta af heildarfjárhæð veittra lána á tilteknu tímabili. Með samþykkt frumvarpsins verður betur tryggt að Seðlabanki Íslands hafi tiltæk nauðsynleg tæki til að styðja fjármálastöðugleika og draga úr alvarlegum röskunum í fjármálakerfinu.
    Meiri hlutinn tekur undir með Samtökum fjármálafyrirtækja um að mikilvægt sé þegar breytingar eru gerðar á skilyrðum við lánveitingar að þær séu kynntar vel fyrir neytendum áður en þær ganga í gildi. Gæta þarf þess, verði þessum stjórntækjum beitt, að lánveitendur fái svigrúm til að breyta kerfum sínum og að þeir fasteignakaupendur sem þegar hafa hafið kaupferli og fengið greiðslumat verði ekki fyrir íþyngjandi áhrifum vegna hertra skilyrða.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. júní 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.