Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1635  —  339. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til kosningalaga.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur og Þórhall Vilhjálmsson frá skrifstofu Alþingis, Magnús Karel Hannesson, Þóri Haraldsson, Þorvald Heiðar Þorsteinsson og Indriða B. Ármannsson frá starfshópi um endurskoðun kosningalaga, Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Þroskahjálp, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Anton Örn Karlsson og Hrafnhildi Arnkelsdóttur frá Hagstofu Íslands, Lárus Bjarnason frá Sýslumannafélagi Íslands, Magneu Gná Jóhannsdóttur og Gunnar Ásgrímsson frá Sambandi ungra framsóknarmanna, Þorkel Helgason, Stefán Pálsson, Ágúst Sigurð Óskarsson, Jón Jónsson frá kjörstjórn Múlaþings, Guðna Rúnar Gíslason, Harald Kristinsson, Helgu Bogadóttur og Indriða Björn Ármannsson frá Þjóðskrá Íslands, Helgu Björk Laxdal, Hildi Lilliendahl Viggósdóttur, Bjarna Þóroddsson og Pál Hilmarsson frá Reykjavíkurborg, Helgu Eymundsdóttur og Jón Stefán Hjaltalín frá kjörstjórn Akureyrarbæjar, Gísla M. Auðbergsson, Agnar Bóasson og Kristjönu Mekkín Guðnadóttur frá yfirkjörstjórn Fjarðabyggðar, Ólaf Þ. Harðarson, Björn Inga Óskarsson og Stefaníu Traustadóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Guðjón Bragason og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Evu Bryndísi Helgadóttur, Ara Karlsson og Tómas Hrafn Sveinsson frá yfirkjörstjórn Reykjavíkur, Erlu S. Árnadóttur frá yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður, Ingvar P. Guðbjörnsson frá Sjálfstæðisflokknum, Eyjólf Kolbeinsson og Helgu Kristjánsdóttur frá kjörstjórn Hveragerðis, Bjarna Höskuldsson frá kjörstjórn Þingeyjarsveitar, Snorra Tómasson, Pétur Stein Guðmundsson og Ingibjörgu Ingvadóttur frá kjörstjórn Kópavogsbæjar og Kristínu Edwald, Önnu Tryggvadóttur, Björn Þór Jóhannesson og Ólafíu Ingólfsdóttur frá landskjörstjórn.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Kvenréttindafélagi Íslands, Stjórnarskrárfélaginu, Stefáni Pálssyni, Þorkeli Helgasyni, Þroskahjálp, Hagstofu Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, Sambandi ungra framsóknarmanna, Ágústi Sigurði Óskarssyni, kjörstjórn Múlaþings, Þjóðskrá Íslands, Persónuvernd, kjörstjórn Dalabyggðar, kjörstjórn Hveragerðis, kjörstjórn Þingeyjarsveitar, Reykjavíkurborg, yfirkjörstjórn Vestmannaeyja, kjörstjórn Akureyrar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, yfirkjörstjórn Fjarðabyggðar, Ólafi Þ. Harðarsyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður, yfirkjörstjórn Reykjavíkur, kjörstjórn Kópavogsbæjar, Sjálfstæðisflokknum, yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis, Hákoni Jóhannessyni, Afstöðu, félagi fanga á Íslandi, og Kristínu Gunnsteinsdóttur. Þá barst nefndinni minnisblað frá Hagstofu Íslands og athugasemd frá Tómasi Gunnarssyni.
    Frumvarpið er afrakstur vinnu starfshóps sem skipaður var af forseta Alþingis árið 2018. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um kosningar sem gildi um framboð og kjör forseta Íslands, kosningar til sveitarstjórna, kosningar til Alþingis og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Frumvarpið felur í sér margvísleg nýmæli auk þess sem lagðar eru til umtalsverðar breytingar á stjórnsýslu kosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna með einföldun regluverks og skilvirkni að leiðarljósi.

Umfjöllun nefndarinnar.
Kosningarréttur þeirra sem búsettir eru erlendis.
    Samkvæmt gildandi lögum um kosningar til Alþingis á íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, kosningarrétt í átta ár frá því að hann flutti lögheimili af landinu. Eftir átta ár getur hann sótt um að viðhalda kosningarrétti sínum með umsókn til Þjóðskrár Íslands og sé umsókn hans tekin til greina heldur hann kosningarrétti í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram. Með frumvarpinu er lagt til að eftir 16 ára samfellda búsetu erlendis missi íslenskir ríkisborgarar kosningarrétt hér á landi. Þar með falli brott ákvæði um umsóknarferli þeirra sem búsettir eru erlendis til að komast á kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands.
    Meiri hlutinn telur ekki rétt að Íslendingar missi kosningarréttinn eftir 16 ára samfellda búsetu erlendis og leggur því til að eftir 16 ára samfellda búsetu erlendis verði hægt að sækja um hjá Þjóðskrá að komast aftur á kjörskrá og gildir sú ákvörðun í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram.

Yfirkjörstjórnir kjördæma.
    Eitt af markmiðum frumvarpsins er að einfalda og samræma stjórnsýslu kosningamála. Liður í því er að lagt er til að yfirkjörstjórnir kjördæma verði lagðar niður. Yfirkjörstjórnir kjördæma hafa m.a. það hlutverk að taka við framboðum og úrskurða um þau eftir atvikum, auk þess að taka við kjörgögnum og koma þeim til yfirkjörstjórna sveitarfélaga, annast talningu atkvæða í kjördæmum og birta úrslit talningar.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum voru reifuð sjónarmið gegn því að leggja niður yfirkjörstjórnir kjördæma. Bent var á að niðurlagning þeirra gæti aukið ósamræmi í framkvæmd kosninga hér á landi, sérstaklega þegar kemur að því að gæta samræmis við mat á gildi atkvæða. Í stað sex yfirkjörstjórna mundi yfirkjörstjórnum í öllum sveitarfélögum vera falin ábyrgð á framkvæmdinni. Rök mæli því frekar með því að byggt verði á þeim stöðugleika sem felst í þeirri þekkingu og reynslu á framkvæmd kosninga sem yfirkjörstjórnir kjördæma búa yfir og mikilvægt er að tryggja.
    Meiri hlutinn er sammála framangreindum sjónarmiðum og leggur því til að yfirkjörstjórnir kjördæma verði áfram starfandi og þær hafi að meginstefnu áfram það hlutverk sem finna má í gildandi lögum um kosningar til Alþingis. Þó er gert ráð fyrir að landskjörstjórn taki á móti framboðum til Alþingis, sbr. 36. gr. frumvarpsins.

Framkvæmd atkvæðagreiðslna utan kjörfundar.
    Nefndin ræddi um atkvæðagreiðslur utan kjörfundar. Lög mæla fyrir um að atkvæðagreiðslur utan kjörfundar fari fram hjá sýslumönnum, hreppstjórum eða skipstjórum. Með frumvarpinu er lagt til að sýslumenn sjái alfarið um utankjörfundaratkvæðagreiðslur en geti ákveðið hverjir starfsmenn og aðrir trúnaðarmenn gegni störfum kjörstjóra í umboði þeirra. Í framkvæmd hafa sýslumenn hætt að skipa hreppstjóra samkvæmt lögum um hreppstjóra, nr. 32/1965. Er nú svo komið að aðeins einn hreppstjóri er starfandi í landinu en voru fleiri en 200 mestalla síðustu öld. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að sveitarstjórn geti farið fram á að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram í húsnæði á vegum sveitarfélags en þá skal sýslumaður skipa kjörstjóra, sem getur verið starfsmaður sveitarfélags, til þess að annast atkvæðagreiðsluna. Í greinargerð með frumvarpinu segir að með þessu sé stefnt að því að bæta aðgengi að atkvæðagreiðslum utan kjörfundar.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum birtust skiptar skoðanir um hvort sveitarfélög ættu að taka að sér utankjörfundaratkvæðagreiðslur. Rætt var um að hagkvæmni- og skilvirknisjónarmið mæltu með því þar sem sums staðar væri langt í afgreiðslu sýslumanns. Á móti voru reifuð sjónarmið um að það kynni að flækja málin um of ef fleiri aðilar kæmu að framkvæmdinni. Mikilvægt væri að þeir sem sæju um framkvæmdina hefðu þekkingu og reynslu af henni.
    Fram kom að aðgengi kjósenda að utankjörfundaratkvæðagreiðslum hefði orðið lakara undanfarin ár vegna fækkunar hreppstjóra og eftir að lögreglan hætti að sinna utankjörfundaratkvæðagreiðslum eins og víða var gert um tíma. Þá hefði sameining sýslumannsembætta í einhverjum tilfellum haft bein áhrif á aðgengi. Áður hefði aðgengi verið mun betra en framkvæmdin hefði þá m.a. verið í höndum hreppstjóra sem voru í hverju byggðarlagi og hverjum sveitahrepp vítt og breitt um landið og opnunartími sveigjanlegur.
    Meiri hlutinn álítur brýnt að kjósendur búsettir á Íslandi sem ekki geta kosið á kjördag eigi almennt kost á að nýta sér réttinn til að greiða atkvæði utan kjörfundar án þess að þurfa að taka sérstakt leyfi frá störfum eða ferðast lengri vegalengdir. Nefndin ræddi hvernig bæta mætti aðgengi kjósenda að atkvæðagreiðslu utan kjörfundar en eftirspurn eftir því að greiða atkvæði utan kjörfundar hefur vaxið enda hreyfanleiki fólks aukist mjög á síðustu árum. Eftir þá umfjöllun telur meiri hlutinn ljóst að fyrirkomulag utankjörfundaratkvæðagreiðslna hafi verið og sé í breytingaferli sem þarfnast rýni og frekari skoðunar.
    Meiri hlutinn telur rétt að skipaður verði starfshópur sem falið verði sérstaklega að taka til skoðunar og móta frekar fyrirkomulag atkvæðagreiðslna utan kjörfundar og leggur til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða þess efnis. Meiri hlutinn leggur áherslu á að starfshópurinn taki til skoðunar framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslna hjá embættum sýslumanna og reynsluna af framkvæmd þar sem sveitarfélög hafa tekið að sér umsjón með utankjörfundaratkvæðagreiðslu, mat á aðgengi og þörf fyrir þjónustuna eftir byggðarlögum í ljósi opnunartíma, vegalengda og fjölda kjósenda, mat á því hver væri best til þess fallinn að bera ábyrgð á utankjörfundaratkvæðagreiðslu og veita þjónustuna, þau áhrif sem rafrænar kjörskrár kunna að hafa á utankjörfundaratkvæðagreiðslur og mat á kostnaði við ásættanlega þjónustu við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og skiptingu kostnaðar milli sýslumanna og sveitarfélaga, auk annarra þátta sem kunna að koma fram í vinnunni. Þá leggi starfshópurinn fram tillögur til úrbóta fyrir 1. september 2022 sem eftir atvikum gætu verið í formi lagafrumvarps eða viðmiða ráðherra eða landskjörstjórnar um lágmarksþjónustu við kjósendur sem ekki geta kosið á kjördag. Með því að veita starfshópnum rúman tíma til verkefnisins gefst kostur á að fylgjast með framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við alþingiskosningar 2021 og sveitarstjórnarkosningar 2022, þ.m.t. tilraunaverkefni um rafræna kjörskrá.
    Þá áréttar meiri hlutinn að samkvæmt gildandi lögum og frumvarpinu bera sýslumannsembættin ábyrgð á framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skipulagningu hennar. Frumvarpið opnar heimild til samstarfs sýslumanna og sveitarfélaga um framkvæmd, en leggur engar skyldur á sveitarfélög í því sambandi og því ber sýslumanni eftir sem áður að aðhafast til að tryggja lágmarksþjónustu við íbúa sem vilja greiða atkvæði utan kjörfundar. Taki sveitarfélag að sér utankjörfundaratkvæðagreiðslu þarf sýslumaður að tryggja að til staðar sé næg þekking og aðstaða til að atkvæðagreiðslan geti farið fram með fullnægjandi hætti. Þá verður sýslumaður að hafa samráð við kjörstjórnir um hvar sé best að hafa utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að fellt verði brott það skilyrði frumvarpsins að forstöðumenn á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum þurfi að óska eftir því sérstaklega að fram fari atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á þeim stofnunum.

Skipan landskjörstjórnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á stofn landskjörstjórn sem verði sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hafi á hendi yfirumsjón með framkvæmd kosninga og annist framkvæmd laganna. Fimm menn munu skipa landskjörstjórn og jafnmargir til vara. Í 2. mgr. 12. gr. segir að þrír stjórnarmenn skuli kosnir af Alþingi, þar á meðal formaður, einn skuli tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af samstarfsnefnd háskólastigsins. Varamenn skuli valdir með sama hætti.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í ljósi verkefna landskjörstjórnar við framþróun kosningaframkvæmdar og rannsókna á þessu sviði sé lagt til að samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefni einn stjórnarmann. Að mati meiri hlutans er ekki þörf fyrir að fulltrúi samstarfsnefndar háskólastigsins eigi sæti í stjórn landskjörstjórnar svo að tryggja megi framþróun kosningaframkvæmdar og rannsókna. Rétt sé að landskjörstjórn sæki frekar hlutlausa ráðgjöf til háskólasamfélagsins og komi á samstarfi og samvinnu með fræðasamfélaginu. Leggur meiri hlutinn því til að samstarfsnefnd háskólastigsins eigi ekki fulltrúa í stjórn landskjörstjórnar en þess í stað fái Samband íslenskra sveitarfélaga tvo fulltrúa.

Slit kjörfundar.
    Í 92. gr. frumvarpsins er fjallað um slit kjörfundar. Ákvæðið er sambærilegt 89. gr. laga um kosningar til Alþingis og 66. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Með frumvarpinu er þó lögð til sú breyting að í stað þess að kjörfundur standi til kl. 22 eins og nú er skuli kjörfundi slitið eigi síðar en kl. 21 á kjördag.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum nokkurra aðila eru gerðar athugasemdir við að kjörfundur sé styttur um eina klukkustund. Í greinargerð með frumvarpinu megi ekki sjá neinar sérstakar ástæður fyrir því að stytta fundinn með þessum hætti. Með því að stytta kjörfund um eina klukkustund sé aðgengi borgaranna að lýðræðislegri þátttöku og svigrúm kjörstjórna til að afmarka kjörfundartíma takmarkað. Reynsla sumra umsagnaraðila sé sú að kjörsókn dragist lítillega saman um kvöldmatarleytið en milli kl. 21 og 22 sé hún ekki merkjanlega minni en á öðrum tímum. Þá sé algengt að kjósendur sem ekki finnast á kjörskrá en ættu að vera þar lögum samkvæmt þurfi að nýta tímann allt fram á síðustu stundu til að ná fram leiðréttingu og mega þar með greiða atkvæði.
    Á móti framangreindum sjónarmiðum lýstu sumir umsagnaraðilar yfir ánægju sinni með tillögu frumvarpsins. Á sumum kjörfundum sé rólegt undir lok kjördags og því sé jákvætt að geta byrjað talningu fyrr og þar með stytt vinnudag kjörstjórna um klukkustund. Þá kunni að vera erfitt að fá samþykki allra umboðsmanna í fámennum og afskekktum kjördeildum.
    Að mati meiri hlutans hafa ekki verið færð fram fullnægjandi rök fyrir styttingu kjörfundar. Þó að tillaga frumvarpsins kunni að henta betur fyrir einstaka kjörstaði telur meiri hlutinn það vega þyngra að veita kjósendum rýmri aðgang að kjörfundum. Leggur meiri hlutinn því til að kjörfundir muni áfram standa til kl. 22.

Aðstoð við atkvæðagreiðslu.
    Eitt af nýmælum frumvarpsins er sú tillaga að öllum sem þess þurfa verði heimilað að fá aðstoð við kosningu hvort sem er vegna fötlunar, veikinda, elli eða af öðrum ástæðum. Um er að ræða breytingu frá gildandi framkvæmd en nú er aðstoð eingöngu í boði fyrir þann sem ekki getur greitt atkvæði sökum „sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf“. Þessi takmörk gildandi laga hafa verið gagnrýnd á þeim grundvelli að þurfi einstaklingur aðstoð við að greiða atkvæði vegna annars konar fötlunar en sjónleysis eða að honum sé hönd ónothæf, t.d. vegna þroskahömlunar, eigi hann ekki rétt á aðstoð. Það feli í sér mismunun á grundvelli fötlunar sem stangist á við stjórnarskrá og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá þykir gildandi framkvæmd fela í sér töluvert umstang sem fatlað fólk hefur lýst sem niðurlægjandi reynslu.
    Fyrir nefndinni voru reifuð sjónarmið um að tillaga frumvarpsins um aðstoð við atkvæðagreiðslu væri of víðtæk. Engar kröfur væru gerðar um að kjósandi væri haldinn líkamlegri eða andlegri fötlun. Allir kjósendur eiga því rétt til þess að njóta aðstoðar aðstoðarmanns að eigin vali án tillits til þess hvort þeir eru í stakk búnir til að greiða atkvæði á eigin spýtur.
    Það er ljóst að aðstoð við atkvæðagreiðslu felur í sér frávik frá þeirri meginreglu að kosningar skuli vera leynilegar. Bent hefur verið á að hætta sé á að aðstoðarmaður kjósanda geti haft óviðeigandi afskipti af því eða áhrif á það hvernig kjósandi greiðir atkvæði. Tillaga frumvarpsins felur í sér að rétturinn til að greiða atkvæði vegi þyngra en hugsanleg áhrif aðstoðarmanns á það hvernig kjósandi, t.d. með þroskahömlun, ver atkvæði sínu. Ákveðin skilyrði eru þó sett í ákvæðinu.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að hinn lýðræðislegi réttur til að greiða atkvæði eigi að vega þyngra en hugsanleg áhrif aðstoðarmanns á það hvernig kjósandi ver atkvæði sínu. Að mati meiri hlutans skal ekki binda rétt til aðstoðar við tiltekna fötlun eða fela kjörstjórnum að meta þörf fyrir aðstoð hverju sinni. Slíkt fæli í sér ónauðsynlega og íþyngjandi stjórnsýslu sem gæti tafið fyrir skilvirkri kosningaframkvæmd. Meiri hlutinn telur þó rétt að kjörstjórnir bóki um veitta aðstoð í gerðabók, eins og gert er ráð fyrir í 5. mgr. 90. gr. frumvarpsins. Yfirlit yfir slíkar bókanir skulu koma fram í skýrslu landskjörstjórnar til ráðherra. Með því megi tryggja yfirsýn yfir framkvæmd ákvæðisins og hvort þörf verði fyrir að taka ákvæðið til endurskoðunar í ljósi fenginnar reynslu.

Reglugerðarheimildir frumvarpsins.
    Fyrir nefndinni voru reifuð sjónarmið um að frumvarpið fæli í sér mikið valdframsal til framkvæmdarvaldsins. Gert er ráð fyrir að mörg atriði skuli útfærð í reglugerðum. Í ljósi þessara sjónarmiða skoðaði nefndin sérstaklega þau ákvæði sem mæla fyrir um setningu reglugerða. Af þeirri yfirferð er ljóst að þau fela að meginstefnu í sér að lagatæknilegum atriðum, svo sem lýsingum á framkvæmd kosninga og ítarlegum lýsingum á gerð kjörgagna, verður skipað í reglugerð. Þá hefur frumvarpið einnig að geyma ýmis nýmæli, svo sem póstkosningar og rafræna kjörskrá, sem rétt er að verði útfærð nánar í reglugerð. Hafa verður í huga að eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að einfalda regluverk þar sem lagatæknilegum atriðum verður skipað í reglugerðum en ákvæði er lúta að réttindum borgara verða í löggjöfinni. Þá hefur einnig komið fram fyrir nefndinni að margt í gildandi framkvæmd kosninga byggist á hefðum og venjum. Að mati meiri hlutans er mikilvægt í þágu réttaröryggis að slíkum málum skuli skipað í reglugerðum frekar en að um þau fari eftir mannvali kjörstjórna. Þá er mikilvægur varnagli sleginn við framsali valds til ráðherra en í öllum ákvæðunum segir að þegar ráðherra setur reglugerð skuli það gert að fengnum tillögum landskjörstjórnar.

Rafræn kjörskrá.
    Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp rafræn kjörskrá sem verði meginregla við kosningar. Þó verði sveitarstjórn heimilt að óska eftir því við landskjörstjórn að notast við prentaða kjörskrá, t.d. ef ekki er unnt að tryggja rafræna tengingu við hinn miðlæga gagnagrunn á kjörstað. Fyrir nefndinni var lýst almennri ánægju með það að kjörskrá yrði gerð rafræn en það þykir einfalda framkvæmd kosninga til muna. Með því munu kjósendur geta kosið hvar sem er innan kjördæmis í alþingiskosningum, við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur og í hvaða kjördeild sem er innan sveitarfélags við sveitarstjórnarkosningar. Ýmis atriði bíða þó útfærslu í reglugerðum.
    Fyrir nefndinni kom fram ábending um að óljóst væri hver bæri kostnað af uppfærslu og viðhaldi rafrænnar kjörskrár. Í 2. mgr. 139. gr. frumvarpsins segir að annar kostnaður við framkvæmd laganna greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn kostnaður vegna þeirra verkefna sem Þjóðskrá Íslands fer með við kosningar. Í athugasemdum við ákvæðið kemur skýrlega fram að með því sé m.a. átt við kostnað Þjóðskrár Íslands, svo sem stofnkostnað og rekstur rafrænnar kjörskrár. Að mati meiri hlutans fellur uppfærsla og viðhald rafrænnar kjörskrár, t.d. vegna uppfærslu kerfisins í þágu öryggis, undir rekstur kerfisins.
    Í 31. gr. frumvarpsins er fjallað um aðgang stjórnmálasamtaka að kjörskrá. Þar kemur fram að stjórnmálasamtökum sem bjóða fram lista við kosningar, og frambjóðendum í forsetakjöri, sé heimilt að óska eftir rafrænum aðgangi að kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands. Fram komu sjónarmið um að skýra þyrfti nánar hvað átt væri við með rafrænum aðgangi, t.d. hvaða kröfur skuli gera til viðmóts kjörskrár og hvort leiðréttingar á kjörskrá skuli koma fram í þeim aðgangi. Að mati meiri hlutans er hér um útfærsluatriði að ræða sem munu taka mið af þróun tölvukerfisins en meiri hlutinn telur þó rétt að taka fram að stjórnmálasamtök fái uppfærslur á kjörskrá sendar til sín þegar þær eru gerðar. Meiri hlutinn undirstrikar að kveðið verði skýrlega á um þessi atriði í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum landskjörstjórnar og Þjóðskrár Íslands.
    Í umsögnum Þjóðskrár Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga kom fram það sjónarmið að æskilegt væri að rafræn kjörskrá yrði fyrst notuð í fáeinum sveitarfélögum í samráði við landskjörstjórn og Samband íslenskra sveitarfélaga. Með því fengist betri yfirsýn yfir virkni kerfisins, nauðsynlega þjónustu við það á kjördag og til að byggja upp þekkingu og reynslu áður en kerfið fer í fulla notkun á landinu öllu. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til ákvæði til bráðabirgða V þess efnis og er vísað til skýringa við það síðar í nefndaráliti þessu.

Heimild til að greiða atkvæði að nýju.
    Með 2. mgr. 67. gr. frumvarpsins er lagt til að kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, geti ekki greitt atkvæði á kjörfundi. Þá er einnig lagt til að kjósandi geti aðeins greitt atkvæði utan kjörfundar einu sinni. Þessi tillaga er nýmæli en samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna getur kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, greitt atkvæði á kjörfundi og kemur utankjörfundarseðill hans þá ekki til greina. Í athugasemdum við ákvæðið segir um þessa tillögu að hún sé tilkomin í ljósi þess að utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefjist eftir að ljóst verður hvaða listar verði í framboði. Er því ekki talin þörf á því að bjóða kjósanda upp á að greiða atkvæði utan kjörfundar oftar en einu sinni og að kjósandi sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar eigi þess einnig kost að greiða atkvæði á kjörfundi. Þessi tillaga þykir einfalda framkvæmd kosninga og að fremur sjaldgæft sé að kjósendur nýti sér þennan rétt.
    Í máli umsagnaraðila voru þau sjónarmið reifuð að með þessari tillögu væri komið í veg fyrir að kjósandi gæti látið í ljós skoðun sína fram að kjördegi. Gildandi regla væri kjósanda í hag enda sá möguleiki ætíð fyrir hendi að kjósanda snúist hugur eftir að hann hefur greitt atkvæði. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til þá breytingu á frumvarpinu að kjósandi sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar geti aftur greitt atkvæði utan kjörfundar eða á kjörfundi og kemur utankjörfundarseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.

Póstkosningar.
    Með frumvarpinu er lagt til, að norrænni fyrirmynd, að tekin verði upp póstkosning til að auðvelda aðgengi að atkvæðagreiðslu utan kjörfundar fyrir Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Í tillögunni felst að þeir sem staddir eru erlendis og hvorki hafa tök á að greiða atkvæði utan kjörfundar né á kjördag geti nýtt sér póstkosningu.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um hvort þörf væri á því að heimila þeim sem erlendis eru að greiða atkvæði með pósti. Ferðalög séu jafnan mun auðveldari en áður var og minni áhersla lögð á póstsamgöngur, að minnsta kosti hér á landi. Að mati meiri hlutans verður að hafa í huga að þó að auðveldara sé að ferðast en áður er íslensk utanríkisþjónusta fámenn. Kjósendur erlendis kunna að vera víðs fjarri kjörstjórum og ekki sjálfgefið að þeir geti lagt á sig langt ferðalag til þess að greiða atkvæði utan kjörfundar. Þá hefur heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir sýnt fram á að ferðafrelsi fólks getur verið takmarkað og því mikilvægt að til sé möguleiki fyrir kjósendur að greiða atkvæði í kosningum.
    Fyrir nefndinni voru jafnframt gerðar athugasemdir við að heimild til póstkosningar væri einskorðuð við þá sem búa erlendis og þann rúma frest sem lagt er til að gildi um póstkosningu. Meiri hlutinn tekur fram að ástæðan fyrir því að heimildin er einskorðuð við þá kjósendur sem eru erlendis er sú að póstkosning felur í sér nýmæli hér á landi. Rétt er að stigin séu varfærin skref í upphafi þannig að öðlast megi reynslu af framkvæmd hennar og sú reynsla metin í kjölfarið og þá kannað hvort til greina komi að rýmka heimildina. Þá tekur meiri hlutinn undir sjónarmið sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu um að sá rúmi frestur sem lagður er til að gildi um póstkosningu stafi af því að gera þurfi ráð fyrir rúmum tíma fyrir kjósanda að skila atkvæði af sér þar sem póstsamgöngur geta verið stopular.
    Nefndin ræddi um öryggi póstkosninga og hvernig mætti tryggja á sem bestan hátt að úrræðið yrði ekki misnotað. Helst var til umfjöllunar sá möguleiki að kjósandi gæti verið beittur þvingun til að greiða atkvæði með tilteknum hætti. Að mati meiri hlutans verður aldrei hægt að koma fyllilega í veg fyrir slíkar aðstæður. Með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til á 2. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 94. gr. mun kjósandi þó geta greitt atkvæði að nýju og berist fleiri en eitt póstatkvæði frá sama kjósanda skal aðeins það póstatkvæði sem síðast berst koma til greina.

Stimplun kjörseðils.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á kosningarathöfninni að atkvæði verði aðeins metið gilt hafi kjörstjórn stimplað bakhlið kjörseðils. Áður en kjósandi leggur kjörseðilinn í atkvæðakassa mun hann þurfa að afhenda kjörstjórn eða fulltrúa hennar seðilinn til stimplunar. Þegar kjörstjórn eða fulltrúi hennar hefur stimplað seðilinn fær kjósandi hann aftur í hendurnar og leggur hann síðan í atkvæðakassa. Í greinargerð með frumvarpinu segir að með þessu nýja fyrirkomulagi verði kosningarathöfnin einfaldari og öruggari. Sú tækni sem almenningi standi nú til boða geti auðveldlega haft áhrif á framkvæmd kosninga eða spillt þeim.
    Við umfjöllun málsins hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við þessa tillögu frumvarpsins. Það sé umdeilt hvort framkvæmdin verði öruggari auk þess sem kosningarathöfnin verður flóknari og tímafrekari. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir en að mati hennar hafa ekki verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því hvernig stimplun kjörseðla sé öruggari kostur umfram afstemmingu kjörseðla sem nú er viðhöfð. Þá telur meiri hlutinn að stimplun kjörseðla geti aukið tortryggni kjósenda gagnvart kosningaframkvæmd þar sem aðrir handleika kjörseðilinn eftir að hann hefur verið merktur af kjósanda. Meiri hlutinn leggur því til að fallið verði frá tillögu frumvarpsins um stimplun kjörseðla og þess í stað verði áfram haldið utan um prentun og fjölda kjörseðla í dreifingu og uppgjör þeirra við lok atkvæðagreiðslu.

Kjörgengi og óflekkað mannorð.
    Við umfjöllun málsins voru gerðar athugasemdir við 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um skilyrði fyrir kjörgengi. Þar segir að skilyrði fyrir kjörgengi sé að viðkomandi hafi óflekkað mannorð. Enginn teljist hafa óflekkað mannorð sem hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi, frá þeim degi þegar dómur er upp kveðinn og þar til afplánun er að fullu lokið.
    Í greinargerð með frumvarpinu segir að afplánun teljist að fullu lokið í skilningi ákvæðisins þegar einstaklingur hefur lokið reynslulausn, sbr. VIII. kafla laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Hér gætir ákveðinnar ónákvæmni í greinargerðinni en eins og kom fram í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru (þskj. 726, 222. mál á 149. löggjafarþingi) þá lýkur afplánun ekki alltaf með veitingu reynslulausnar, enda séu ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla svo að unnt sé að veita reynslulausn. Til að mynda er í ákveðnum tilvikum svo að afplána þurfi refsinguna í heild, óheimilt sé að veita reynslulausn eða refsing sé afplánuð með samfélagsþjónustu og komi þá ekki til veitingar reynslulausnar. Meiri hlutinn ítrekar þá afstöðu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að mismunandi getur verið hvenær afplánun telst að fullu lokið samkvæmt lögum um fullnustu refsinga. Meiri hlutinn áréttar því að 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins er ekki ætlað að ná aðeins til þeirra sem hafa lokið afplánun með reynslulausn heldur til allra þeirra sem hafa lokið afplánun með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum um fullnustu refsinga og teljast þannig hafa óflekkað mannorð í skilningi 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þá telur meiri hlutinn æskilegt að hægt verði að sýna fram á hvort afplánun sé að fullu lokið, annaðhvort með sakavottorði eða með vottorði frá Fangelsismálastofnun ríkisins.

Kassar til kjörstjórna með utankjörfundaratkvæðum.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að það kynni að vera varhugavert að kjörstjóri komi til kjörstjórna kössum með utankjörfundaratkvæðum fyrir lok kjörfundar í stað þess að miða við upphaf kjörfundar. Fyrir því voru færð þau rök að mikilvægt væri fyrir kjörstjórnir að fá utankjörfundaratkvæði til sín sem allra fyrst. Utankjörfundaratkvæði væru sífellt stærra hlutfall greiddra atkvæða og alltaf tæki talsverðan tíma að ganga frá þeim. Frágangur væri vandasamur með talsverðu álagi á kjörstjórnum.
    Meiri hlutinn tekur fram að ástæðan fyrir þessari breytingu er að lagt er til að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti staðið til kl. 17 á kjördag. Meiri hlutinn bendir á að í breytingartillögum hennar er lagt til að yfirkjörstjórn verði heimilað að hefja flokkun utankjörfundaratkvæða tímanlega fyrir kjördag. Er hér gengið lengra en í gildandi lögum þar sem miðað er við að hefja megi flokkunina daginn fyrir kjördag. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að atkvæðakassar berist kjörstjórnum fyrir kjördag, svo sem venja mun vera í Reykjavík til að mynda, svo að kjörstjórnir eigi þess kost að vinna með kjörgögnin fyrr.

Hagskýrslugerð um kosningar.
    Fyrir nefndinni vakti Hagstofa Íslands athygli á vandkvæðum sem urðu við skýrslugerð um sveitarstjórnarkosningar árið 2018. Einungis 39 sveitarfélög skiluðu umbeðnum upplýsingum um kjörsókn eftir aldri en þessi dræma þátttaka skýrðist af efasemdum sveitarfélaga um lögmæti gagnasöfnunarinnar út frá lögum um kosningar til sveitarstjórna og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd hafði þó ekki gert athugasemd við verklag Hagstofunnar. Hagstofan hefur kallað eftir því að lagalegur grundvöllur fyrir skýrslugerð stofnunarinnar um almennar kosningar verði gerður öruggari. Brugðist hefur verið við ákalli Hagstofunnar með tillögu í 126. gr. frumvarpsins. Hagstofan telur þó að ákvæðið sé of þröngt og taki hvorki til núverandi hagskýrslugerðar né til þeirra möguleika sem við blasa, sé t.d. horft til hagskýrslugerðar um kosningar annars staðar á Norðurlöndum.
    Að mati meiri hlutans er rétt að komið verði til móts við athugasemdir Hagstofu Íslands enda fela skýrslur stofnunarinnar í sér mikilvægar upplýsingar um framkvæmd kosninga. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis að heimilt verði að vinna upplýsingar um kosningar, aðstoð á kjörstað og kjörsókn eftir kyni, aldri, ríkisfangi, búsetu og öðrum þeim breytum sem varpað geta ljósi á kjörsókn og framkvæmd kosninga. Við túlkun á þessu ákvæði verði höfð hliðsjón af lögum um Hagstofu Íslands, þar sem m.a. er vísað til þess að gagnasöfnun Hagstofunnar sé hófleg. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að við vinnslu slíkra upplýsinga sé gætt að ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og að við útfærslu á öðrum breytum sem varpað geta ljósi á kjörsókn og framkvæmd kosninga verði haft samráð við Persónuvernd.

Flokkun atkvæða fyrir luktum dyrum.
    Í 2. mgr. 99. gr. frumvarpsins er lagt til að yfirkjörstjórn geti ákveðið að flokkun atkvæða eftir framboðum og talning atkvæða hefjist áður en kjörfundi lýkur. Flokkun og talning skal fara fram fyrir luktum dyrum þar sem talið er. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við þessa tillögu. Hingað til hafi sú heimild aðeins náð til flokkunar atkvæða. Talning fyrir opnum dyrum sé mikilvægt eftirlitstæki fyrir almenning sem miði að því að efla traust á framkvæmd kosninga. Að mati meiri hlutans er ekki rétt að heimilt sé að hefja talningu fyrir luktum dyrum en fellst á að sett verði skýr lagaheimild fyrir þeirri framkvæmd að flokka atkvæði. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að þau atkvæði sem hafa verið flokkuð verði hvert og eitt talin, rétt eins og önnur atkvæði að loknum kjörfundi.

Aðrar ábendingar.
    Við umfjöllun málsins bárust ýmsar ábendingar og tillögur til breytinga. Má þar nefna sjónarmið um jafnt vægi atkvæða milli kjördæma og stjórnmálasamtaka, hvernig megi jafna hlutfall kynja á framboðslistum, kosningaaldur og kjördæmaskipan. Þá var einnig fjallað um heimildir sveitarfélaga, sem framkvæmdaraðila kosninga, til að koma upplýsingum á framfæri við kjósendur. Vinna nefndarinnar miðaði að því að sameinast um heildarendurskoðunina sem allir umsagnaraðilar voru sammála um að væri mikilvægt að klára. Meiri hlutinn bendir á að skilyrði ættu að skapast til að taka ýmis álitaefni um kosningar til nánari skoðunar með stofnun landskjörstjórnar.

Um gildistöku, lagaskil og ákvæði til bráðabirgða.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum voru gerðar athugasemdir við gildistökuákvæði frumvarpsins. Í ljósi þess hve mikið verk fælist í að innleiða lögin væri tíminn of naumur til þess að þau gætu komið til framkvæmda fyrir alþingiskosningar haustið 2021. Með frumvarpinu væri komið á nýju fyrirkomulagi stjórnsýslu kosningamála hér á landi, útfæra þyrfti mörg atriði í reglugerðum og leiðbeiningum, hanna þyrfti og innleiða rafræna kjörskrá auk þess sem kjörstjórnir um land allt þyrftu tíma til að undirbúa breytta framkvæmd.
    Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þess efnis að lögin öðlist gildi 1. janúar 2022 að undanskildum ákvæðum til bráðabirgða III–VI, sem öðlast gildi þegar í stað eins og þar er sérstaklega kveðið á um. Lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, gildi því um alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru 25. september 2021. Gildistaka frumvarpsins tekur mið af því skilyrði 22. gr. stjórnarskrárinnar að Alþingi skuli koma saman eigi síðar en 10 vikum eftir almennar alþingiskosningar og að landskjörstjórn sem kosin var á grundvelli gildandi laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, hefur þá lokið aðkomu sinni að framkvæmd alþingiskosninganna. Hinn 1. janúar 2022 er þannig gert ráð fyrir brottfalli laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, og laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Enn fremur fellur niður frá sama tíma umboð núverandi landskjörstjórnar. Er því gert ráð fyrir að hin nýju kosningalög verði fyrst notuð við kosningar til sveitarstjórna í maí 2022. Jafnframt þykir rétt að taka fram að um alþingiskosningar sem fram fara við lok yfirstandandi kjörtímabils, svo og um frestun og uppkosningar vegna þeirra, kosningakærur og úrskurð Alþingis fari samkvæmt lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis.
    Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist fjögur ný ákvæði til bráðabirgða. Í bráðabirgðaákvæðum III–VI er kveðið á um að tilgreind ákvæði laganna öðlist þegar gildi eða við birtingu þeirra. Í fyrsta lagi eru það fyrirmæli um kosningu fulltrúa Alþingis í nýja landskjörstjórn og skipun hennar í fyrsta sinn. Í öðru lagi er mælt fyrir um ráðstafanir til undirbúnings stofnunar landskjörstjórnar. Í þriðja lagi eru ákvæði um að Þjóðskrá Íslands hefji nauðsynlegan undirbúning við gerð og rekstur rafrænnar kjörskrár. Loks skal ráðherra skipa starfshóp sem falið verði að taka til skoðunar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eins og nánar er lýst í ákvæði til bráðabirgða VI.
    Meiri hlutinn leggur til að í 4. mgr. gildistökuákvæðis sé tekið fram að reglugerðir, reglur og önnur fyrirmæli sem sett hafa verið samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis skuli halda gildi sínu. Með öðrum fyrirmælum er til að mynda átt við auglýsingu frá landskjörstjórn um fjölda kjördæmissæta í Norðvesturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi, nr. 944/2017, og leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl., nr. 820/2017.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða II, sem er sólarlagsákvæði fyrir Íslendinga sem búa erlendis, falli brott enda er ekki þörf á því í ljósi breytinga sem meiri hlutinn telur rétt að gera á 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Einnig er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III, um fyrstu skipun í nýja landskjörstjórn, falli brott þar sem efni þess á betur heima í nýju ákvæði til bráðabirgða III.
    Samkvæmt 1. mgr. nýs ákvæðis til bráðabirgða III skal samhliða samþykkt laganna á Alþingi kjósa þrjá fulltrúa í landskjörstjórn. Byggt er á því að þó að lögin hafi ekki verið undirrituð af forseta, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar, og birt í Stjórnartíðindum séu þau bindandi gagnvart Alþingi við samþykkt þeirra. Gert er ráð fyrir að við birtingu laganna í Stjórnartíðindum leiti ráðherra eftir tilnefningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og skipi nýja landskjörstjórn skv. 12. gr. Verkefni hennar fram að gildistöku laganna er að sinna tilgreindum verkefnum til undirbúnings framkvæmd laganna, sem nánar eru talin í ákvæði til bráðabirgða III. Ekki er því um að ræða skörun við störf þeirrar landskjörstjórnar sem kemur að undirbúningi og framkvæmd alþingiskosninganna sem fyrirhugaðar eru 25. september 2021. Til skoðunar var hvort fela ætti þeirri landskjörstjórn eða sérstakri undirbúningsnefnd nauðsynlegar ráðstafanir til að undirbúa framkvæmd laganna. Í ljósi þeirra umfangsmiklu verkefna sem landskjörstjórn eru falin í frumvarpinu og nauðsynjar þess að tryggja sem best samfellu í störfum hennar er lagt til að hægt verði að ganga frá skipun landskjörstjórnar eins fljótt og hægt er eftir samþykkt laganna. Þar sem verkefni hinnar nýju landskjörstjórnar eru skýrt afmörkuð við undirbúningsráðstafanir, sem einkum miða að því að unnt verði að beita ákvæðum laganna við kosningar til sveitarstjórna í maí 2022, er ekki talin hætta á ruglingi við landskjörstjórn sem sinnir eingöngu verkefnum í tengslum við framkvæmd alþingiskosninga í september 2021.
    Í 2. mgr. eru nánari fyrirmæli um það hvernig staðið skuli að skipun í landskjörstjórn í fyrsta sinn. Er þá gætt að því að skipunartími einstakra stjórnarmanna renni út á mismunandi tímum.
    Í 3. mgr. er tekið fram að við gildistöku laganna, 1. janúar 2022, falli niður umboð þeirrar landskjörstjórnar sem kosin var á Alþingi samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis. Eins og rakið er hér að framan verður að gera ráð fyrir að aðkomu kjörinnar landskjörstjórnar að alþingiskosningunum 25. september 2021 sé þá lokið. Af þessu leiðir jafnframt að ákvæði 111. gr. frumvarpsins gildir frá 1. janúar 2022 um röð varamanna sem taka sæti á Alþingi hverju sinni og ekki verður um að ræða útgáfu kjörbréfa til varamanna sem ekki hafa fengið slíkt útgefið og taka sæti á Alþingi eftir gildistöku frumvarpsins. Við innköllun varamanna verður því að leggja til grundvallar úrslit kosninganna eins og landskjörstjórn hefur tilkynnt þau. Það verður síðan endanlega Alþingi sem sker úr um hvort þingmenn séu löglega kjörnir og hvort þeir hafi misst kjörgengi sitt, sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í nýju ákvæði til bráðabirgða IV er kveðið á um að landskjörstjórn sem ráðherra skipar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III annist nauðsynlegan undirbúning að störfum hennar og gildistöku frumvarpsins. Er henni það heimilt þrátt fyrir að ákvæði laganna taki gildi 1. janúar 2022. Er hinni nýju landskjörstjórn þá heimilt að skipa framkvæmdastjóra og finna starfseminni aðsetur, eins og nánar er rakið í ákvæðinu. Helstu verkefnin á undirbúningstímabilinu eru talin upp í a–d-lið en jafnframt tekið fram í e-lið að hin nýja landskjörstjórn annist framkvæmd annarra ráðstafana til að undirbúa gildistöku laganna 1. janúar 2022 eins og tilefni er til.
    Í nýju ákvæði til bráðabirgða V er fjallað um rafræna kjörskrá. Skv. 1. mgr. skal Þjóðskrá Íslands, þrátt fyrir gildistöku laganna, hefja við samþykkt þeirra nauðsynlegan undirbúning við gerð og rekstur rafrænnar kjörskrár og undirbúa útgáfu reglna og leiðbeininga sem henni er falið að setja samkvæmt lögunum. Mikilvægt er að Þjóðskrá Íslands geti strax við birtingu laganna hafist handa við nauðsynlegan undirbúning við rafræna kjörskrá og undirbúið önnur mál sem varða aðkomu stofnunarinnar að framkvæmd laganna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við sveitarstjórnarkosningar 2022 verði notast við rafræna kjörskrá í fyrsta sinn en það verði þó ekki skylda. Fyrirhugað er að landskjörstjórn óski eftir því við einstakar sveitarstjórnir að notuð verði rafræn kjörskrá við sveitarstjórnarkosningar 2022 sem tilraunaverkefni. Landskjörstjórn skal við undirbúning verkefnisins hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrá Íslands og hlutaðeigandi sveitarfélög. Þau sveitarfélög sem ekki koma að undirbúningi rafrænnar kjörskrár muni þá notast við prentaða kjörskrá í sveitarstjórnarkosningum 2022.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að landskjörstjórn skuli að afloknum sveitarstjórnarkosningum 2022 taka saman skýrslu þar sem farið verði yfir reynsluna af notkun rafrænnar kjörskrár og lagt mat á hvernig til hafi tekist. Er kveðið á um að landskjörstjórn leiti umsagna þeirra yfirkjörstjórna sveitarfélaga sem tóku þátt í verkefninu auk Þjóðskrár Íslands. Með því að taka fram að landskjörstjórn skuli senda skýrslu sína til ráðherra sem skuli gera Alþingi grein fyrir henni er greitt fyrir því að hún verði sett á dagskrá þingsins og komist þar til umfjöllunar. Um skýringar við nýtt ákvæði til bráðabirgða VI er vísað til umfjöllunar um framkvæmd atkvæðagreiðslna utan kjörfundar.

Aðrar breytingar meiri hlutans.
    Þá leggur meiri hlutinn til aðrar breytingar sem rekja má til frumvarps dómsmálaráðherra til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (þskj. 1114, 647. mál á yfirstandandi löggjafarþingi) og frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006 (þskj. 1137, 668. mál á yfirstandandi löggjafarþingi). Einnig leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar til skýringa og aðrar sem eru tæknilegs eðlis.

    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið raktar og lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

    Andrés Ingi Jónsson skrifar undir álitið með svohljóðandi fyrirvara: Vandséð er hverju rafræn kjörskrá bætir við framkvæmd kosninga í ljósi þess hversu flókna og viðkvæma tæknilausn um er að ræða. Því er mikilvægt að vandað verði til greiningar í kjölfarið á tilraunaverkefni, sbr. þá tillögu sem verður ákvæði til bráðabirgða V, og ráðherra og þing taki þær niðurstöður til vandlegrar skoðunar. Talsverður kostnaður fylgir því að koma vélbúnaði fyrir í kjördeildum, erfiðara er að tryggja persónuvernd kjósenda og miðað við vandræði sem oft verða við innskráningarkerfi á álagstímum verður talsverð áskorun að tryggja rekstraröryggi kerfisins þannig að það standi framar núverandi framkvæmd hvað varðar öryggi og traust. Markmiðum rafrænnar kjörskrár sem tengjast því að auðvelda söfnun og vinnslu tölfræðiupplýsinga, svo sem varðandi aldursdreifingu kjósenda, má ná með sama hætti og gert hefur verið hingað til, vissulega á lengri tíma en með talsvert minni tilkostnaði.

Alþingi, 4. júní 2021.

Jón Þór Ólafsson,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Guðmundur Andri Thorsson.
Andrés Ingi Jónsson,
með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Óli Björn Kárason.
Þórarinn Ingi Pétursson.