Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1636  —  339. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til kosningalaga.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (JÞÓ, LínS, GuðmT, AIJ, KÓP, ÓBK, ÞórP).


     1.      Í stað orðanna „því að viðhalda trausti á“ í 1. gr. komi: öruggri.
     2.      Við 2. mgr. 3. gr. bætist sex nýir málsliðir, svohljóðandi: Eftir þann tíma skal hann sækja um til Þjóðskrár Íslands að vera tekinn á kjörskrá. Í umsókn skal koma fram nafn umsækjanda, kennitala, hvenær hann flutti af landi brott, síðasta lögheimili á Íslandi, heimilisfang erlendis og yfirlýsing umsækjanda um að hann sé enn íslenskur ríkisborgari. Þjóðskrá Íslands gefur út leiðbeiningar um móttöku og meðferð umsókna. Í þeim er heimilt að mæla fyrir um rafrænt umsóknarferli. Ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram. Heimilt er að skjóta synjun Þjóðskrár Íslands til úrskurðarnefndar kosningamála.
     3.      Við 6. gr.
                  a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: og hefur óflekkað mannorð.
                  b.      Við 2. mgr. bætist: og hefur óflekkað mannorð.
                  c.      1. málsl. 3. mgr. falli brott.
                  d.      Í stað orðsins „stjórnarskrá“ í 4. mgr. komi: 4. gr. stjórnarskrárinnar.
     4.      Á eftir orðinu „alþingiskosningum“ í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. komi: forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum.
     5.      Við 2. mgr. 8. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Auglýsing landskjörstjórnar gildir jafnframt við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar eru fram að næstu almennu alþingiskosningum.
     6.      Orðin „við alþingiskosningar“ í 1. mgr. 11. gr. falli brott.
     7.      2. málsl. 2. mgr. 12. gr. orðist svo: Þrír stjórnarmenn skulu kosnir af Alþingi, þar á meðal formaður landskjörstjórnar, og tveir skulu tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
     8.      Við 14. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ 2. mgr. komi: sveitarfélags.
                  b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Auk landskjörstjórnar sinnir yfirkjörstjórn sveitarfélags einnig verkefnum skv. c-lið við sveitarstjórnarkosningar.
                  c.      4. mgr. orðist svo:
                      Landskjörstjórn skal gefa út ársskýrslu um starfsemi sína. Landskjörstjórn skal skila ráðherra skýrslu eftir hverjar kosningar um undirbúning og framkvæmd þeirra og skal ráðherra leggja skýrsluna fyrir Alþingi.
     9.      Við 15. gr.
                  a.      Í stað orðsins „sveitarfélagi“ í 1. mgr. komi: kjördæmum og sveitarfélögum.
                  b.      A-liður 2. mgr. orðist svo: Yfirkjörstjórnir kjördæma.
                  c.      Á eftir a-lið 2. mgr. komi tveir nýir liðir, svohljóðandi:
                      b.      Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga.
                      c.      Umdæmiskjörstjórnir.
                  d.      Við bætist þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Þar sem í lögum þessum er vísað til yfirkjörstjórna eingöngu er átt við yfirkjörstjórn sveitarfélags í tilfelli sveitarstjórnarkosninga og yfirkjörstjórna kjördæma í tilfelli kosninga til Alþingis, forsetakjörs og þjóðaratkvæðagreiðslu.
                      Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn.
                      Ráðherra ákveður þóknun fyrir störf og setu í landskjörstjórn, yfirkjörstjórn kjördæmis og umdæmiskjörstjórn en sveitarstjórn ákveður þóknun fyrir störf og setu í yfirkjörstjórn sveitarfélags, undirkjörstjórn og hverfiskjörstjórn.
     10.      16. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Yfirkjörstjórnir kjördæma og umdæmiskjörstjórnir.

                      Í hverju kjördæmi við alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur er yfirkjörstjórn sem hefur umsjón með kosningum í kjördæminu samkvæmt fyrirmælum laga þessara. Skal hún skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara og eru þeir kosnir af Alþingi. Kýs hún sér sjálf oddvita. Nú fær framboð sem á fulltrúa á Alþingi ekki kjörinn fulltrúa í yfirkjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni og annan til vara. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.
                      Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram, og skal aðsetur hennar liggja eins vel við samgöngum og kostur er.
                      Yfirkjörstjórn getur ákveðið að í kjördæmi sé umdæmiskjörstjórn og ákveður umdæmi hennar. Skal hún kosin af yfirkjörstjórn og skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Umdæmiskjörstjórn kýs sér sjálf oddvita. Við sérstakar aðstæður getur landskjörstjórn heimilað tvær umdæmiskjörstjórnir í hverju kjördæmi sem kosnar skulu á sama hátt.
                      Yfirkjörstjórn kjördæmis ræður starfsfólk sér til aðstoðar við kosningar. Ekki er skylt að auglýsa slík störf. Yfirkjörstjórn kjördæmis getur falið starfsfólki sveitarfélaga störf í tengslum við framkvæmd kosninga.
                      Þjóðskrá Íslands ber að veita yfirkjörstjórnum kjördæma aðgang að upplýsingum úr skrám og kerfum stofnunarinnar án endurgjalds svo að þær geti sinnt hlutverki sínu.
     11.      Á eftir 16. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga, hverfiskjörstjórnir og undirkjörstjórnir.

                      Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal kosin af sveitarstjórn eins fljótt og unnt er eftir sveitarstjórnarkosningar. Kjörtímabil yfirkjörstjórnar skal vera hið sama og sveitarstjórnar. Yfirkjörstjórnir hafa umsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga hver í sínu sveitarfélagi. Yfirkjörstjórnir skulu jafnan vera reiðubúnar að mæta fyrirvaralaust á fundi á kjördegi til ákvarðana og að úrskurða í sambandi við kosninguna ef með þarf.
                      Í sveitarfélagi sem skipt er í kjördeildir skal sveitarstjórn kjósa jafnmargar undirkjörstjórnir og fjöldi kjördeilda er. Þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað getur sveitarstjórn jafnframt kosið hverfiskjörstjórn til að hafa umsjón með kosningastarfi á kjörstaðnum í umboði yfirkjörstjórnar sveitarfélags. Í sveitarfélagi sem er ekki skipt í kjördeildir gegnir kjörstjórn störfum yfir- og undirkjörstjórna.
                      Hver yfirkjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Hver undirkjörstjórn og hverfiskjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og nægilegum fjölda varamanna. Kjörstjórnarmenn skulu eiga kosningarrétt í sveitarfélaginu. Kjörstjórnir kjósa sér oddvita og skipta að öðru leyti með sér verkum.
                      Nú fær framboð sem fulltrúa á í sveitarstjórn ekki kjörinn fulltrúa í yfirkjörstjórn sveitarfélaga og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í kjörstjórninni og annan til vara. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.
                      Kjörstjórnir eru í störfum sínum óháðar ákvörðunarvaldi sveitarstjórnar.
                      Sveitarstjórn ræður starfsfólk sér til aðstoðar við kosningar. Ekki er skylt að auglýsa slík störf. Yfirkjörstjórn sveitarfélags getur falið starfsfólki sveitarfélaga störf í tengslum við framkvæmd kosninga.
                      Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram.
                      Þjóðskrá Íslands ber að veita yfirkjörstjórnum sveitarfélaga aðgang að upplýsingum úr skrám og kerfum stofnunarinnar án endurgjalds svo að þær geti sinnt hlutverki sínu.
     12.      Í stað orðanna „Kjörstjórnarmaður, sbr. 15. og 16. gr.“ í 17. gr., er verði 18. gr., komi: Kjörstjórnarmaður, sbr. 15. gr., og fulltrúi í landskjörstjórn.
     13.      19. gr. falli brott.
     14.      3. málsl. 2. mgr. 28. gr. falli brott.
     15.      Orðin „og oddvita yfirkjörstjórnar“ í 2. málsl. 3. mgr. 32. gr. falli brott.
     16.      Við 34. gr.
                  a.      Orðin „í kerfinu“ í 4. mgr. falli brott.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Í reglugerð, sem ráðherra setur að fenginni tillögu landskjörstjórnar, má mæla fyrir um, eftir rökstuddri beiðni sveitarstjórnar, að kjósendur tiltekins sveitarfélags skuli greiða atkvæði í þeirri kjördeild sem þeim hefur verið skipað samkvæmt kjörskrá.
     17.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 35. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir kjósendur geta ekki greitt atkvæði í kjördeild þar sem rafræn kjörskrá er notuð.
     18.      Við 36. gr.
                  a.      Orðið „skriflega“ í 1. mgr. falli brott.
                  b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilkynningin getur verið undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift.
                  c.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. komi: sveitarfélags.
     19.      Við 39. gr.
                  a.      Orðið „skrifleg“ í 1. mgr. falli brott.
                  b.      Við b-lið 1. mgr. bætist: undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift.
                  c.      6. mgr. orðist svo:
                      Þjóðskrá Íslands er heimilt, að beiðni landskjörstjórnar eða yfirkjörstjórnar sveitarfélags, að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalistum við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og kanna hvort viðkomandi sé kosningarbær. Jafnframt skal Þjóðskrá Íslands veita landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum sveitarfélaga rafrænan aðgang að listunum.
     20.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. 40. gr. komi: sveitarfélags.
     21.      Við 42. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 1. mgr. komi: sveitarfélags.
                  b.      Orðin „skriflegs“ og „skriflega“ í 2. tölul. 2. mgr. falli brott.
     22.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 43. gr. komi: sveitarfélags.
     23.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 1. og 2. mgr. 44. gr. komi: sveitarfélags.
     24.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 37. gr.“ í e-lið 1. mgr. 45. gr. komi: 2. og 3. mgr. 37. gr.
     25.      Við 46. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. og c-lið 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. komi: sveitarfélags.
                  b.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í d-lið 1. mgr. komi: 2. og 3. mgr.
                  c.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórna“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: sveitarfélaga.
     26.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. 47. gr. komi: sveitarfélags.
     27.      Við 49. gr.
                  a.      2. málsl. 4. mgr. falli brott.
                  b.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 5. mgr. komi: sveitarfélags.
     28.      Við 53. gr.
                  a.      Orðin „skrifleg“ og „skriflegu“ í 1. mgr. falli brott.
                  b.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnar“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: sveitarfélags.
                  c.      Í stað orðanna „Yfirkjörstjórn sveitarfélags útbýr“ í 1. málsl. 3. mgr. komi: Yfirkjörstjórn kjördæmis og yfirkjörstjórn sveitarfélags útbúa.
                  d.      Á eftir orðinu „kjörstjórn“ í 1. málsl. 4. mgr. komi: yfirkjörstjórn kjördæmis.
                  e.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. 4. mgr. komi: sveitarfélags.
                  f.      Á eftir orðinu „berast“ í 2. málsl. 5. mgr. komi: yfirkjörstjórn kjördæmis eða.
     29.      Í stað tilvísunarinnar „4. mgr. 77. gr.“ í 55. gr. komi: 5. mgr. 77. gr.
     30.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. 58. gr. komi: kjördæmis eða yfirkjörstjórn sveitarfélags.
     31.      Orðið „stimpla“ í 65. gr. falli brott.
     32.      Á eftir orðinu „setur“ í 5. mgr. 66. gr. komi: að fenginni tillögu landskjörstjórnar.
     33.      2. mgr. 67. gr. orðist svo:
                      Kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, getur greitt atkvæði á kjörfundi og kemur utankjörfundarseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.
     34.      Við 69. gr.
                  a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sýslumenn eru kjörstjórar, hver í sínu umdæmi. Sýslumenn ákveða hverjir skulu vera kjörstjórar og ráða aðra trúnaðarmenn til starfa í umboði þeirra.
                  b.      Við 3. málsl. 1. tölul. 2. mgr. og 2. málsl. 2. tölul. 2. mgr. bætist: enda sé jafnræðis gætt við veitingu þeirrar þjónustu.
                  c.      Orðin „komi fram ósk forstöðumanns um það“ í 3. tölul. 2. mgr. falli brott.
                  d.      Í stað orðanna „16 fjórum“ í 4. tölul. 2. mgr. komi: 10 tveimur.
     35.      Á eftir orðunum „upplýsingum til“ í 1. málsl. 7. mgr. 71. gr. komi: yfirkjörstjórna kjördæma og.
     36.      Í stað tilvísunarinnar „83. gr.“ í 2. málsl. 2. mgr. 73. gr. komi: 85. gr.
     37.      Við 77. gr.
                  a.      Á eftir 2. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Kjósandi getur jafnan krafist þess af hverjum þeim er varðveitir bréf með atkvæði hans, sé það ekki varðveitt í innsigluðum atkvæðakassa, að hann afhendi sér það, allt þar til kjörstjórn hefur tekið það til meðferðar, sbr. 1. mgr. 93. gr.
                  b.      Í stað orðanna „áður en kjörfundur er settur, sbr. 93. gr.“ í 3. mgr. komi: eigi síðar en kjörfundi er slitið.
     38.      Í stað orðsins „kjörstjórn“ í 1. málsl. 1. mgr. 80. gr. komi: yfirkjörstjórn.
     39.      Á eftir orðinu „kjörklefa“ í 3. mgr. 81. gr. komi: verklag kjörstjórna við afstemmingu atkvæða.
     40.      Við 1. mgr. 82. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó getur kjörstjórn veitt kjósanda með ósjálfbjarga barn undanþágu frá þessu skilyrði enda liggur fyrir að annars gæti kjósandi ekki greitt atkvæði.
     41.      Við 1. mgr. 84. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer kjósandi með hann inn í kjörklefann, þar sem hann ritar atkvæði sitt á kjörseðilinn.
     42.      88. gr. falli brott ásamt fyrirsögn.
     43.      Við 89. gr., er verði 88. gr.
                  a.      3. málsl. 1. mgr. falli brott.
                  b.      4. málsl. 1. mgr. orðist svo: Kjósandi setur svo kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið.
     44.      Í stað orðanna „kl. 21“ í 1. málsl. 2. mgr. 92. gr., er verði 91. gr., komi: kl. 22.
     45.      93. gr., er verði 92. gr., orðist svo ásamt fyrirsögn:

Móttaka og bráðabirgðarannsókn utankjörfundaratkvæða.

                      Berist kjörstjórn atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar, sbr. 77. gr., skal athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Kjörstjórnarmaður opnar atkvæðakassann í viðurvist umboðsmanna lista. Nú eru umboðsmenn ekki viðstaddir og skal yfirkjörstjórn þá boða fólk úr sama framboði, ef unnt er, til að gæta réttar fyrir hönd framboðsins. Telja skal bréfin og bera þau saman við skráningu kjörstjóra um atkvæðagreiðsluna, sbr. 1. og 2. mgr. 77. gr. Kjörstjórnin opnar síðan atkvæðisbréfin og kannar hvort taka skuli atkvæðið til greina, sbr. 94. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka atkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.
                      Atkvæðisbréfa, sem kjörstjórn kunna að hafa borist eða berast meðan á atkvæðagreiðslu stendur, þ.m.t. póstatkvæði, skal getið í gerðabók. Skal fara með þau atkvæði svo sem segir í 1. mgr.
                      Ef kjósandi er ekki á kjörskrá í kjördeildinni (sveitarfélaginu) skal kjörstjórnin kanna hvar kjósandi er á kjörskrá og ef unnt er koma atkvæðisbréfinu í rétta kjördeild en ella skal bréfið varðveitt þar til atkvæðagreiðslu lýkur.
                      Yfirkjörstjórn er heimilt að hefja flokkun atkvæðisbréfa skv. 1. mgr. tímanlega fyrir kjördag þannig að þau verði afhent í rétta kjördeild á kjördag.
     46.      Á eftir 93. gr., er verði 92. gr., komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Rannsókn utankjörfundaratkvæða að kjörfundi loknum.

                      Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórnin á ný, í viðurvist umboðsmanna lista, þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt, sbr. 77. gr.
                      Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni og setja kjörseðilsumslagið óopnað í atkvæðakassann.
                      Ef atkvæðisbréf verður ekki tekið til greina, sbr. 94. gr., skal það áritað eins og segir í 1. mgr. 92. gr. Kjörstjórn skal skrá fjölda utankjörfundaratkvæða sem ekki verða tekin til greina.
                      Ef kjósandi, sem sent hefur frá sér utankjörfundaratkvæði, er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin geta þess sérstaklega í gerðabókinni og senda slík atkvæðisbréf aðskilin til yfirkjörstjórnar.
     47.      Við 94. gr.
                  a.      Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í i-lið 1. mgr. komi: 7. mgr.
                  b.      2. mgr. 94. gr. orðist svo:
                      Nú berast fleiri en eitt atkvæði greidd utan kjörfundar, þ.m.t. póstatkvæði, frá sama kjósanda sem geta komið til greina og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði koma til greina.
     48.      Við 98. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Talning atkvæða í alþingiskosningum, forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslu fer fram á ábyrgð yfirkjörstjórnar kjördæmis. Yfirkjörstjórn kjördæmis getur ákveðið að auk talningar hjá henni geti talning farið fram hjá umdæmiskjörstjórn, á öðrum stað í kjördæminu. Talning atkvæða í sveitarstjórnarkosningum er á ábyrgð yfirkjörstjórnar sveitarfélags.
                  b.      Í stað orðanna „Yfirkjörstjórn auglýsir“ í 2. mgr. komi: Yfirkjörstjórnir skv. 1. mgr. auglýsa.
                  c.      3. mgr. falli brott.
                  d.      Í stað orðanna „kl. 21.“ í 4. mgr. komi: kl. 22.
                  e.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Talning í kjördæmum og sveitarfélögum.
     49.      2. mgr. 99. gr. orðist svo:
                      Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra áður en kjörfundi lýkur. Flokkun atkvæða og undirbúningur talningar þeirra skal fara fram fyrir luktum dyrum þar sem talið er. Skal rýmið lokað og vaktað af hálfu yfirkjörstjórnar þar til kjörfundi er lokið.
     50.      Í stað orðanna „kjósendum“ og „viðstaddir“ í 1. mgr. 100. gr. komi: almenningi; og: viðstaddur.
     51.      Við 102. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í e-lið komi: sveitarfélags.
                  b.      F-liður falli brott.
     52.      Við 104. gr.
                  a.      Í stað orðanna „hvorum svarkostinum“ í b-lið 1. mgr. komi: hvaða svarkosti.
                  b.      E-liður 1. mgr. falli brott.
                  c.      Orðin „og svarkostir“ í 2. mgr. falli brott og í stað orðsins „orðaðir“ í sömu málsgrein komi: orðaðar.
     53.      Í stað orðanna „sendir yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. 106. gr. komi: senda yfirkjörstjórnir kjördæma.
     54.      107. gr. orðist svo:
                      Við lok talningar skal yfirkjörstjórn sveitarfélags við sveitarstjórnarkosningar, yfirkjörstjórn kjördæmis við alþingiskosningar en landskjörstjórn við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur tilkynna niðurstöðu talningar. Þess skal getið sérstaklega hve margir atkvæðaseðlar eru auðir og hve margir ógildir af öðrum ástæðum.
     55.      Við 2. mgr. 111. gr. bætist: í þeirri röð sem þeir eru á listanum.
     56.      Á eftir orðinu „Yfirkjörstjórn“ í 1. málsl. 119. gr. komi: sveitarfélags.
     57.      Í stað orðanna „sendir yfirkjörstjórn“ í 1. mgr. 120. gr. komi: senda yfirkjörstjórnir kjördæma.
     58.      Við 1. mgr. 123. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi svarkostir á kjörseðli verið fleiri en einn skulu atkvæðahlutföll reiknuð út frá samtölu þeirra kjósenda sem taka afstöðu til hverrar spurningar fyrir sig.
     59.      3. mgr. 124. gr. falli brott.
     60.      Við 126. gr.
                  a.      2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Heimilt er að vinna upplýsingar um kosningar, aðstoð á kjörstað og kjörsókn eftir kyni, aldri, ríkisfangi, búsetu og öðrum þeim breytum sem varpað geta ljósi á kjörsókn og framkvæmd kosninga.
                  b.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórn“ í 2. mgr. komi: sveitarfélags.
     61.      Við 140. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórnir“ í 1. mgr. komi: kjördæma, yfirkjörstjórnir sveitarfélaga.
                  b.      Á eftir orðinu „yfirkjörstjórna“ í 2. mgr. komi: kjördæma, yfirkjörstjórna sveitarfélaga.
     62.      Í stað orðsins „utankjörfundarstjóri“ í 2. mgr. 141. gr. komi: kjörstjóri.
     63.      143. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Gildistaka o.fl.

                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.
                      Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
                      Um alþingiskosningar sem fram fara við lok yfirstandandi kjörtímabils, svo og um frestun og uppkosningar vegna þeirra, kosningakærur og úrskurð Alþingis um gildi kosninga, fer samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
                      Reglugerðir, reglur og önnur fyrirmæli sem sett eru samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við lög þessi.
     64.      Ákvæði til bráðabirgða II og III falli brott.
     65.      Á eftir ákvæði til bráðabirgða IV, sem verði ákvæði til bráðabirgða II, koma fjögur ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (III.)
                      Þrátt fyrir ákvæði 143. gr. skal Alþingi samhliða samþykkt laga þessara kjósa þrjá fulltrúa í landskjörstjórn skv. 12. gr. Að því búnu skal ráðherra skipa landskjörstjórn að fengnum tilnefningum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sbr. 12. gr.
                      Þegar skipað er í fyrsta skipti í landskjörstjórn skv. 12. gr. skal formaður stjórnar skipaður aðalmaður til fimm ára og varamaður hans til jafnlangs tíma. Aðrir stjórnarmenn sem kosnir eru af Alþingi skulu skipaðir til eins árs og þriggja ára og varamenn þeirra til jafnlangs tíma. Hlutkesti skal ráða stjórnartíma hvors fulltrúa. Annar fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga skal skipaður til tveggja ára og hinn til fjögurra ára og varamenn þeirra til jafnlangs tíma. Hlutkesti skal ráða stjórnartíma hvors fulltrúa Sambandsins.
                      Við gildistöku laga þessara, 1. janúar 2022, fellur niður umboð þeirrar landskjörstjórnar sem kosin var samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
                  b.      (IV.)
                      Þrátt fyrir ákvæði 143. gr. er landskjörstjórn, sem skipuð er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III, heimilt að:
                      a.      skipa framkvæmdastjóra skv. 1. mgr. 13. gr.,
                      b.      ákveða aðsetur skrifstofu landskjörstjórnar skv. 3. mgr. 13. gr.,
                      c.      standa að gerð þjónustusamnings við Þjóðskrá Íslands skv. 2. mgr. 21. gr.,
                      d.      undirbúa reglur og tillögur til ráðherra að reglugerðum samkvæmt nánari fyrirmælum laganna,
                      e.      undirbúa aðrar ráðstafanir samkvæmt lögum þessum, eftir því sem tilefni er til.
                  c.      (V.)
                      Þrátt fyrir ákvæði 143. gr. skal Þjóðskrá Íslands við samþykkt laganna hefja nauðsynlegan undirbúning við gerð og rekstur rafrænnar kjörskrár, sbr. 1. mgr. 21. gr. Enn fremur skal hún undirbúa útgáfu reglna og leiðbeininga sem henni er falið að setja samkvæmt lögum þessum.
                      Við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga 2022 er sveitarstjórnum ekki skylt að notast við rafræna kjörskrá, sbr. 34. gr. Landskjörstjórn er heimilt, í þeim tilgangi að hefja innleiðingu á rafrænni kjörskrá, að óska eftir því við einstakar sveitarstjórnir að notuð verði rafræn kjörskrá við kosningarnar. Við þann undirbúning skal landskjörstjórn samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III hafa samráð við Þjóðskrá Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og hlutaðeigandi sveitarstjórn. Önnur sveitarfélög, sem ekki koma að undirbúningi rafrænnar kjörskrár, skulu nota prentaða kjörskrá.
                      Að loknum kosningum til sveitarstjórna 2022 skal landskjörstjórn skila ráðherra skýrslu þar sem farið er yfir reynsluna af notkun rafrænnar kjörskrár og gerðar tillögur um úrbætur eftir því sem þörf er talin á. Við undirbúning skýrslunnar skal landskjörstjórn leita umsagnar þeirra yfirkjörstjórna sveitarfélaga sem við á, auk Þjóðskrár Íslands. Ráðherra skal gera Alþingi og hlutaðeigandi þingnefnd grein fyrir skýrslu landskjörstjórnar.
                  d.      (VI.)
                      Þrátt fyrir ákvæði 143. gr. skal ráðherra við samþykkt laganna skipa starfshóp sem falið verði að taka til skoðunar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Starfshópurinn skal taka til skoðunar framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hjá embættum sýslumanna og reynsluna af henni, einnig þar sem sveitarfélög hafa tekið að sér umsjón með atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á landsbyggðinni. Starfshópurinn skal leggja mat á aðgengi og þörf fyrir þessa þjónustu eftir byggðarlögum í ljósi opnunartíma, vegalengda og fjölda kjósenda, meta hver væri best til þess fallinn að bera ábyrgð á utankjörfundaratkvæðagreiðslum og að veita þjónustuna. Einnig skal starfshópurinn kanna áhrif rafrænnar kjörskrár á framkvæmd atkvæðagreiðslna utan kjörfundar. Loks skal starfshópurinn skoða skiptingu kostnaðar við verkefnið milli sýslumanna og sveitarfélaga. Starfshópurinn skal skila ráðherra niðurstöðum sínum ásamt tillögum til úrbóta fyrir 1. september 2022.