Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1684  —  731. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (barnaverndarþjónusta, samþætting o.fl.).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur og Önnu Tryggvadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu, Ólöfu Ástu Farestveit frá Barnahúsi, Helgu Sigríði Þórhallsdóttur og Steinunni Birnu Magnúsdóttur frá Persónuvernd og Katrínu Helgu Hallgrímsdóttur frá Barnavernd Reykjavíkur.
    Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Barnavernd Reykjavíkur, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Persónuvernd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Þá barst nefndinni minnisblað frá félagsmálaráðuneytinu.

Almennt.
    Með frumvarpinu eru lagðar til umfangsmiklar breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Barnaverndarnefndir verða lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Jafnframt eru lagðar til ýmsar breytingar á ákvæðum barnaverndarlaga.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem fjalla um samþættingu barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna. Tengist frumvarpið að þessu leyti frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Þá er í frumvarpinu tekið tillit til breytinga á barnaverndarlögum sem eru lagðar fram í frumvarpi til laga um Barna- og fjölskyldustofu og frumvarpi til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Umfjöllun nefndarinnar.
Heildarendurskoðun barnaverndarlaga.
    Frumvarpið felur í sér fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga. Í umsögnum til nefndarinnar komu fram ítrekaðar ábendingar um að ljúka yrði endurskoðun sem fyrst. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að síðari hluti heildarendurskoðunar barnaverndarlaga verði að veruleika án tafar. Meiri hlutinn beinir því til félags- og barnamálaráðherra að vinnu við hana verði haldið áfram svo unnt verði að ljúka heildarendurskoðun á næsta löggjafarþingi.

Stærð barnaverndarumdæma.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til sú almenna regla að lágmarksíbúafjöldi að baki hverri barnaverndarþjónustu verði 6.000 íbúar. Um er að ræða breytingu frá núgildandi barnaverndarlögum þar sem miðað er við 1.500 íbúa. Í umsögn Barnaverndarstofu kemur fram að ganga hefði mátt lengra og miða við enn stærri umdæmi. Þannig væri m.a. hægt að koma í veg fyrir mikinn stærðarmun á milli umdæma. Meiri hlutinn bendir á að viðmiðið um 6.000 íbúa er þróað í samráði við sveitarfélög og að um sé að ræða verulega stækkun frá gildandi lögum. Telur meiri hlutinn því ekki ástæðu til að ganga lengra í stækkun barnaverndarumdæma að sinni.

Lágmarksfagþekking.
    Í umsögn Barnaverndarstofu er jafnframt gerð athugasemd við að ekki sé kveðið á um lágmarksfagþekkingu sem allar barnaverndarþjónustur þurfa að uppfylla. Ekki sé nóg að í 3. mgr. b-liðar 6. gr. frumvarpsins sé undanþága frá skilyrði um 6.000 íbúa lágmarksfjölda miðað við lágmarksfagþekkingu heldur eigi krafan að vera almenn. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að vinnsla barnaverndarmála sé vönduð og fagleg. Í 3. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins kemur fram að barnaverndarþjónustu skuli hafa yfir að ráða nægri fagþekkingu til að hún geti sinnt verkefnum sínum samkvæmt barnaverndarlögum. Þá kemur fram í 4. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins að ráðherra geti sett reglugerð um næga fagþekkingu. Meiri hlutinn telur þessa reglugerðarheimild ráðherra koma til móts við sjónarmið um samræmda lágmarksfagþekkingu.

Miðlun upplýsinga um upphaf barnaverndarmáls til tengiliða og málstjóra.
    Fyrir nefndinni var m.a. fjallað um miðlun upplýsinga um málsmeðferð barnaverndarþjónustu til annarra sem koma að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barnsins. Í umsögn Persónuverndar kemur meðal annars fram tillaga um að gera breytingar á 10. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um skyldu barnaverndarþjónustu til að miðla upplýsingum til tengiliðar eða málstjóra um hvort ákveðið hafi verið að hefja könnun máls eða ekki í kjölfar tilkynningar. Þar er lagt til að ekki verði um að ræða skyldu til miðlunar þessara upplýsinga heldur ætti að fara fram mat á nauðsyn miðlunar hjá barnaverndarþjónustu.
    Þegar ákveðið er að hefja könnun liggja eingöngu fyrir takmarkaðar upplýsingar um barnið hjá barnaverndarþjónustu. Ef starfsfólki barnaverndarþjónustu yrði falið að meta nauðsyn miðlunar upplýsinganna út frá hagsmunum barnsins þyrfti frekari vinnsla persónuupplýsinga að fara fram. Meiri hlutinn er því ekki sannfærður um að mat á nauðsyn við þessar aðstæður feli í reynd í sér vægara úrræði þegar kemur að friðhelgi einkalífs barna. Meiri hlutinn telur að sá varnagli, að vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli ákvæðisins sé háð beiðni um samþættingu þjónustu, tryggi meðalhóf við vinnslu og telur ekki tilefni til frekari viðbragða við þessari athugasemd.

Barnahús.
    Fyrir nefndinni var rætt um stöðu Barnahúss og lýstu umsagnaraðilar yfir ánægju sinni með að Barnahúsi væri loks gefin lagastoð og rekstur þess tryggður til langframa. Með frumvarpinu er mælt fyrir um aðkomu Barnahúss að könnun mála þar sem grunur leikur á um alvarlegt líkamlegt eða andlegt ofbeldi. Umsagnaraðilar lýstu yfir áhyggjum af að Barnahúsi yrði ekki veitt nægt fjármagn til að sinna auknum verkefnum og vinna á fyrirliggjandi biðlistum eftir þjónustu Barnahúss. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og leggur áherslu á að unnið verði að því að stytta biðlista og að nægt fjármagn verði veitt til reksturs Barnahúss.

Barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar.
    Með frumvarpinu er lagt til að barnaverndarnefndir verði lagðar niður og barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar taki til starfa. Meiri hlutinn tekur undir það sem kemur m.a. fram í umsögn Barnaverndar Reykjavíkur um að aðskilnaður milli barnaverndarþjónustu og umdæmisráðs sé til bóta þar sem hann tryggi betur rétt og hagsmuni aðila að barnaverndarmálum.
    Fyrir nefndinni var fjallað um skipan umdæmisráða sem felur í sér veigamikið nýmæli enda hefur löggjöf um sveitarstjórnarstigið fram til þessa ekki gert ráð fyrir skipun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda. Meiri hlutinn tekur undir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga að erfitt sé að sjá áhrif þessara breytinga fyrir með fullri vissu. Af hálfu meiri hlutans er þó lögð áhersla á að engar veigamiklar efnislegar athugasemdir hafi verið settar fram um skipan umdæmisráða. Telur meiri hlutinn ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við þessari athugasemd.

Réttindi barna.
    Í a-lið 2. gr. og b-lið 15. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á barnaverndarlögum með það að markmiði að stuðla að auknum réttindum barna. Í umsögn Barnaheilla er lögð áhersla á að þátttökuréttindi barna séu lítils virði ef þau eru aðeins virt að forminu til. Þá kemur fram í umsögn Barnaverndar Reykjavíkur að þessi réttindi verði ekki að veruleika nema tíma starfsmanna barnaverndarþjónustu og talsmanna barnanna sé varið til verkefnisins. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að þeim réttindum barna sem kveðið er á um í frumvarpinu verði fylgt eftir af stjórnvöldum.

Skylda til að samþætta þjónustu þegar barnaverndarþjónusta hefur tekið yfir umsjá eða forsjá barns.
    Í 22. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að þegar barnaverndarþjónusta hefur tekið yfir umsjá eða forsjá barns skuli samþætta þjónustu í þágu farsældar barnsins óháð afstöðu foreldra. Í umsögn Persónuverndar er gerð athugasemd við að þjónusta sé ávallt samþætt í þessum aðstæðum. Þar er lagt til að í stað skyldu til samþættingar verð veitt heimild til samþættingar.
    Staða þeirra barna sem barnaverndarþjónusta hefur tekið yfir umsjá eða forsjá er ávallt með þeim hætti að hagsmunir barnsins kalla á samþættingu þjónustu. Meiri hlutinn telur því ekki ástæðu til að bregðast við þessari athugasemd Persónuverndar.

Innleiðing.
    Í umsögnum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga er lýst áhyggjum af því að tilkoma barnaverndarþjónustu og umdæmisráða barnaverndar hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélög. Samkvæmt gildandi barnaverndarlögum eru fimm til sjö einstaklingar í barnaverndarnefnd en samkvæmt tillögum frumvarpsins er gert ráð fyrir þremur einstaklingum í umdæmisráðum barnaverndar. Jafnframt eru auknar kvaðir lagðar á sveitarfélög til samvinnu um umdæmisráð og má ætla að hægt verði að ná fram hagræði af aukinni samvinnu. Meiri hlutinn tekur undir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga að mikilvægt sé að vakta þau áhrif sem nýtt fyrirkomulag barnaverndar hefur á fjárhag og stjórnsýslu sveitarfélaga.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Skipt búseta barna.
    Með lögum nr. 28/2021, sem tóku gildi 23. apríl sl., voru gerðar breytingar á ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þar á meðal voru gerðar breytingar á 15. gr. barnaverndarlaga til að leysa úr því hvaða barnaverndarnefnd eigi úrlausn um málefni barnsins þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu barnsins.
    Í f-lið 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til gagngerar breytingar á 15. gr. barnaverndarlaga. Í ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir skiptri búsetu barna, en frumvarpið var lagt fram á Alþingi áður en lög nr. 28/2021 voru samþykkt. Til að tryggja að ekki skapist réttaróvissa um hvaða barnaverndarþjónusta eigi úrlausn um málefni barns þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu barnsins leggur meiri hlutinn til að frumvarpinu verði breytt til samræmis við ákvæði laga nr. 28/2021.

Vinnsla upplýsinga í miðlægum gagnagrunni og stafrænum lausnum.
    Í 28. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að ákveða í reglugerð að leggja skyldu á barnaverndarþjónustu að vinna og varðveita gögn barnaverndarmála í gagnagrunni og stafrænum lausnum sem eru starfrækt af Barna- og fjölskyldustofu. Í umsögn Persónuverndar kemur fram það mat stofnunarinnar að ekki sé fullnægjandi að kveðið sé á um skyldu til vinnslu gagna í barnaverndarmálum í miðlægum gagnagrunni og stafrænum lausnum í reglugerð en ekki í lagaákvæðinu sjálfu. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu er ljóst að stafrænar lausnir og gagnagrunnur verða ekki tilbúin þegar lögin taka gildi. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á 28. gr. frumvarpsins þannig að lögð sé skylda á barnaverndarþjónustur og umdæmisráð barnaverndar að varðveita gögn barnaverndarmála í miðlægum gagnagrunni og stafrænum lausnum ásamt ákvæði til bráðabirgða sem heimilar undantekningu frá þessari reglu þar til tæknilausnir verða fullbúnar. Meiri hlutinn leggur áfram til að ráðherra fái heimild til að kveða á um skyldu til vinnslu upplýsinga í gagnagrunni og stafrænum lausnum. Ekki er hægt að binda alla vinnslu gagna í barnaverndarmálum við tæknilausnir enda myndi það leiða til þess að ekki væri hægt að vinna barnaverndarmál ef tæknilausnin lægi af einhverjum ástæðum niðri eða væri ekki aðgengileg viðkomandi barnaverndarstarfsmanni. Er því rétt að ráðherra hafi heimild til að kveða á um inntak slíkar skyldu, þ.m.t. hvenær hún á ekki við.
    Þá tekur meiri hlutinn undir athugasemd Persónuverndar um mikilvægi aðgangsstýringar í sameiginlegum gagnagrunni í barnavernd. Í því sambandi telur meiri hlutinn sérstaklega mikilvægt að skýr aðgreining sé á milli samþættingar þjónustu á grundvelli barnaverndarlaga og annarrar samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna.

Önnur atriði.
    Í frumvarpinu eru flóknar og margþættar breytingar sem tengjast útskiptingu orðanna „barnaverndarnefnd“ og „nefnd“. Félagsmálaráðuneytið benti meiri hlutanum á að á nokkrum stöðum hefði láðst að taka tillit til þessa og leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis.
    Í frumvarpinu er einnig orðunum „þungaðar konur“ breytt í „barnshafandi einstakling“ en í 1. mgr. 17. gr. hefur sú breyting yfirsést og leiðréttir meiri hlutinn það með breytingartillögu.
    Að lokum telur meiri hlutinn þörf á að leiðrétta á nokkrum stöðum tilvísanir og orðalag sem lúta ekki að efnislegum þáttum frumvarpsins og þarfnast þar af leiðandi ekki frekari útskýringa.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðsins „barnaverndarþjónustu“ í a-lið komi: barnaverndarþjónustum.
                  b.      Á eftir orðunum „annars staðar í lögunum“ í b-lið komi: í öllum beygingarmyndum.
                  c.      Á eftir tilvísuninni „4. mgr. 20. gr.“ í b-lið komi: 2. mgr. 22. gr.
                  d.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr., 2. málsl. 3. mgr. 51. gr.“ í b-lið komi: 2. málsl. 3. mgr. og 3. málsl. 4. mgr. 51. gr.
     2.      Við 6. gr.
                  a.      Í stað orðanna „með henni“ í 2. málsl. 2. mgr. c-liðar komi: hennar.
                  b.      Í stað orðsins „það“ í 2. málsl. 5. mgr. e-liðar komi: hann.
                  c.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. f-liðar komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ef foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns samkvæmt ákvæðum barnalaga á barnaverndarþjónusta í umdæmi þar sem barnið á lögheimili úrlausn um málefni þess, sbr. þó 3. og 4. mgr.
                  d.      Í stað orðsins „málið“ í 4. mgr. f-liðar komi: mál þess.
     3.      Á eftir 7. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Í stað orðanna „þungaðra kvenna“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: barnshafandi einstaklinga.
     4.      Orðin „1. málsl. 37. gr.“ í 8. gr. falli brott.
     5.      Í stað orðanna „því að barnaverndarmál hefst“ í 1. efnismgr. 12. gr. komi: upphafi barnaverndarmáls.
     6.      28. gr. orðist svo:
                      39. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skráning mála, varðveisla upplýsinga og stafræn vinnsla barnaverndarmála.

                      Barnaverndarþjónusta heldur skrá yfir öll barnaverndarmál. Öll gögn er barnaverndarmál varða, þ.m.t. gögn sem verða til hjá umdæmisráði barnaverndar, skulu varðveitt hjá barnaverndarþjónustu í gagnagrunni og stafrænum lausnum sem eru starfrækt af Barna- og fjölskyldustofu. Umdæmisráð barnaverndar hefur aðgang að gögnum mála hjá viðkomandi barnaverndarþjónustu.
                      Barnaverndarþjónustur og umdæmisráð barnaverndar skulu vinna gögn barnaverndarmála í gagnagrunni og stafrænum lausnum sem eru starfrækt af Barna- og fjölskyldustofu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
                      Barna- og fjölskyldustofa útbýr leiðbeiningar um varðveislu og vinnslu gagna skv. 1. mgr.
     7.      Á eftir orðunum „og í 7. mgr.“ í a-lið 37. gr. komi: í öllum beygingarmyndum.
     8.      Við 38. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „þrívegis í 6. mgr.“ í a-lið komi: 7. mgr.
                  b.      Á eftir orðunum „og í 8. mgr.“ komi: í öllum beygingarmyndum.
     9.      Við 39. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðsins „nefndin“ kemur: hún.
     10.      Á eftir 39. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Fyrirsögn XVI. kafla laganna verður: Vistun barna á vegum annarra en barnaverndarþjónustu.
     11.      Á eftir orðunum „annars staðar í lögunum“ í 2., 16. og 17. tölul. 41. gr. komi: í öllum beygingarmyndum.
     12.      Á eftir 39. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 39. gr. er barnaverndarþjónustu og umdæmisráði barnaverndar heimilt að varðveita gögn er barnaverndarmál varða í eigin skjalasöfnum þar til gagnagrunnur og stafrænar lausnir verða fullbúin.

    Helga Vala Helgadóttir og Vilhjálmur Árnason skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 2. júní 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason,
með fyrirvara.