Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1717  —  624. mál.
Framsögumaður.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Aðalstein Eymundsson, Ingu Dröfn Benediktsdóttur, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur, Gunnar Þór Ásgeirsson, Hjálmar Brynjólfsson og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands og Margréti Arnheiði Jónsdóttur, Jón Þór Grímsson og Hildigunni Jónasdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Kauphöll Íslands hf., Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um markaði fyrir fjármálagerninga öðlist gildi. Með lögunum verði ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB (MiFID2) og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (MiFIR) innleidd í íslenskan rétt.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 26. maí 2021, eru lagðar til breytingar á frumvarpinu sem meiri hlutinn hefur yfirfarið og gerir að sínum. Helstu breytingar leiðir af ábendingum í umsögnum sem bárust um málið, aðrar eru til leiðréttingar og til samræmingar við önnur frumvörp á sviði fjármálamarkaðar sem nefndin hefur haft til umfjöllunar samhliða.

MiFID2 Quick Fix.
    Meðal breytinga sem eru lagðar til í minnisblaði ráðuneytisins eru ákvæði sem leiðir af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2021/338/ESB um breytingar á MiFID2 hvað varðar upplýsingagjöf, vöruþróun og hámörk á stöðum (MiFID2 Quick FIX) sem skipta mestu máli fyrir íslenskan markað og hægt er að innleiða að svo stöddu. Um efni þeirra breytinga vísast til minnisblaðs ráðuneytisins um málið.

Lögbært yfirvald (32. tölul. 1. mgr. 4. gr.).
    Með lögbæru yfirvaldi er skv. 32. tölul. 1. mgr. 4. gr. átt við yfirvald í aðildarríki sem sinnir eftirliti með MiFID2 og MiFIR. Í ákvæðinu er tilgreint að Fjármálaeftirlitið sé lögbært yfirvald hér á landi. Í umsögn Seðlabanka Íslands er lögð til breyting þess efnis að Seðlabanki Íslands verði, í stað Fjármálaeftirlitsins, skilgreint sem lögbært yfirvald. Í samræmi við breytingartillögu meiri hlutans við frumvarp til laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, sbr. 641. mál á yfirstandandi löggjafarþingi, leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að Seðlabankinn verði lögbært yfirvald. Meiri hlutinn vísar til umfjöllunar um 3. gr. þess frumvarps í nefndaráliti sínu um það mál, sbr. einnig umfjöllun í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarp til laga um aðgerðir gegn markaðssvikum, sbr. 584. mál á yfirstandandi löggjafarþingi.

Viðurkenndur gagnaðili (69. tölul. 1. mgr. 4. gr.).
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er lagt til að hugtakið viðurkenndur gagnaðili í 69. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins verði skilgreint á víðtækari hátt en er gert í frumvarpinu og til samræmis við 10. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Í minnisblaði ráðuneytisins er bent á að í þeirri breytingu felist að verið sé að nýta áfram það svigrúm sem nýtt var við setningu þeirra laga, og við upptöku MiFID1 í íslenskan rétt. Kemur einnig fram að ekki verði annað séð en að sömu sjónarmið sem voru uppi um nýtingu þess svigrúms eigi enn þá við. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þannig að viðurkenndir gagnaðilar teljist aðilar skv. a–c-lið 12. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins.

Verklag vegna um starfsleyfi (7. gr.).
    Í 4. mgr. 7. gr. segir að Seðlabanki Íslands setji reglur um efni og form umsóknar. Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram að ekki verði talið nauðsynlegt að hafa regluheimild í ákvæðinu, heldur sé nægilegt að birta lista á vef Seðlabankans yfir upplýsingar sem greina þarf í umsókn. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu til samræmis við framangreint.

Afturköllun starfsleyfis (8. gr.).
    Seðlabanki Íslands bendir í umsögn sinni á að heimild til tímabundinnar niðurfellingar starfsleyfis vanti í 8. gr. frumvarpsins, í samræmi við c-lið 6. mgr. 70. gr. MiFID2. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til að heimild til tímabundinnar niðurfellingar starfsleyfis þegar um er að ræða brot gegn 5. eða 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. bætist við frumvarpið.

Stjórnvaldssektir (124. gr.).
    Seðlabanki Íslands leggur til að bætt verði við heimild í 124. gr. frumvarpsins til að sekta verði ekki farið að úrbótakröfum. Sambærilega heimild megi finna í lögum um fjárhagslegar viðmiðanir, nr. 7/2021, og lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum. Í samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.

Gildistaka (146. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til að gildistaka frumvarpsins miðist við 1. september 2021 til samræmis við gildistöku laga um aðgerðir gegn markaðssvikum.

Aðrar breytingartillögur.
    Aðrar breytingar sem leiðir af minnisblaði ráðuneytisins eru tæknilegar og vísast til minnisblaðsins um efni þeirra. Breytingarnar eru til að tryggja betra samræmi við MiFID2, önnur lög á sviði fjármálamarkaðar og til leiðréttingar á orðalagi og millivísunum.
    Að auki leggur meiri hlutinn til nokkuð umfangsmiklar tæknilegar breytingar sem eru til leiðréttingar og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 7. júní 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy. Þórarinn Ingi Pétursson.