Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1785  —  712. mál.
3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin fjallaði um málið að nýju og tók til skoðunar vísanir til verndarsvæða í einstökum töluliðum í 1. viðauka. Nefndin áréttar að skv. 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins, sbr. einnig aðfaraorð 1. viðauka, eru framkvæmdir í flokki B sem eru undir viðmiðunarmörkum í 1. viðauka tilkynningarskyldar ef þær eru staðsettar á verndarsvæði, þ.e. óháð stærðarmörkum. Því er almennt ekki þörf á að tilgreina sérstaklega við hvern tölulið í flokki B að framkvæmd sé tilkynningarskyld óháð umfangi ef hún er staðsett á verndarsvæði. Þrátt fyrir það er í nokkrum slíkum tilvikum í 1. viðauka frumvarpsins vísað til verndarsvæða. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var það gert til að tryggja skýrleika. Þannig eigi reglan um að framkvæmdir í flokki B séu tilkynningarskyldar óháð umfangi á verndarsvæðum við nema þar sem sérstaklega eru tilgreind sérstök skilyrði í viðkomandi tölulið. Það eigi til dæmis við í tölulið 10.16 þar sem tilgreint er að jarðstrengir séu tilkynningarskyldir óháð lengd ef þeir eru staðsettir á verndarsvæðum utan þéttbýlis. Jarðstrengir á verndarsvæðum í þéttbýli eru þannig ekki tilkynningarskyldir. Að beiðni nefndarinnar hefur ráðuneytið yfirfarið að nýju ákvæði 1. viðauka í þessu skyni. Niðurstaða þeirrar skoðunar er að einungis er talin vera þörf á að vísa sérstaklega til verndarsvæðis, þ.e. þrátt fyrir ákvæði 19. gr. og aðfaraorða 1. viðauka, í 2. málsl. töluliðar 10.16, 1. málsl. töluliðar 10.18, 2. málsl. töluliðar 11.05 og í töluliðum 12.03 og 12.05. Nefndin leggur til að vísun til verndarsvæða falli brott í öðrum tilvikum en þessum. Breytingin er tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. viðauka.
     a.      Orðin „einnig óháð spennu ef staðsett á verndarsvæði“ í tölulið 10.16 falli brott.
     b.      Orðin „og óháð stærð á verndarsvæðum“ í tölulið 10.18 falli brott.
     c.      Orðin „verndarsvæði eða“ í tölulið 12.01 falli brott.

    Guðjón S. Brjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 12. júní 2021.

Bergþór Ólason,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Karl Gauti Hjaltason. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Vilhjálmur Árnason.