Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 196  —  188. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Barna- og fjölskyldustofu og lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (flutningur starfsmanna).

Frá félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Starfsmenn Barnaverndarstofu sem eru í starfi við gildistöku laga þessara verða starfsmenn hjá Barna- og fjölskyldustofu með sömu ráðningarkjörum. Um rétt starfsmanna til starfa hjá Barna- og fjölskyldustofu fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Starfsmenn ráðuneytisstofnunarinnar Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, aðrir en þeir sem fara með verkefni samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, sem eru í starfi við gildistöku laga þessara verða starfsmenn hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála með sömu ráðningarkjörum. Um rétt starfsmanna til starfa hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.

3. gr.
Gildistaka

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í félagsmálaráðuneytinu og tengist nýjum stofnunum, Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, sem taka til starfa 1. janúar 2022.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvörp til laga um Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, urðu að lögum nr. 87/2021 og 88/2021 þann 11. júní 2021. Lögin taka gildi 1. janúar 2022 og verða þá til tvær nýjar stofnanir undir yfirstjórn félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og mennta- og barnamálaráðherra.
    Samkvæmt lögunum mun Barna- og fjölskyldustofa taka við stærstum hluta þeirra verkefna sem nú er sinnt af Barnaverndarstofu, auk nýrra verkefna sem tengjast samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sbr. lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Önnur verkefni Barnaverndarstofu, einkum eftirlitsverkefni, flytjast til nýrrar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Þangað fara jafnframt eftirlitsverkefni sem nú er sinnt af Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, sem er ráðuneytisstofnun félagsmálaráðuneytisins, sbr. 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, ásamt fleiri verkefnum. Við gildistöku laganna verða Barnaverndarstofa og ráðuneytisstofnunin því lagðar niður.
    Frá samþykkt frumvarpanna hefur verið unnið að undirbúningi þess að stofnanirnar taki til starfa. Áhersla hefur verið lögð á að styðja við breytingaferlið hjá Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar.
    Meðal þess sem undirbúningurinn hefur lotið að er fyrirkomulag flutnings starfsmanna til hinna nýju stofnana. Ljóst er að mikil sérþekking er til staðar innan Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar sem er mikilvæg fyrir hinar nýju stofnanir. Gert er ráð fyrir því að þrjú stöðugildi sem nú eru hjá Barnaverndarstofu flytjist til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og að önnur stöðugildi flytjist frá Barnaverndarstofu til Barna- og fjölskyldustofu. Jafnframt er gert ráð fyrir 15–20 viðbótarstöðugildum vegna nýrra verkefna Barna- og fjölskyldustofu. Þá er gert ráð fyrir að öll stöðugildi í kjarnastarfsemi Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar flytjist til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og að við starfsemina verði bætt fjórum nýjum stöðugildum.
    Eftir að lögin voru samþykkt bárust félagsmálaráðuneytinu athugasemdir frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins þess efnis að réttarstaða starfsmanna við flutning til hinna nýju stofnana væri ekki nægjanlega skýr. Til að tryggja að enginn vafi leiki á um réttarstöðu starfsmanna Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar við niðurlagningu stofnananna er í frumvarpi þessu lagt til að ákvæðum til bráðabirgða verði bætt við lög um Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála þar sem skýrt er kveðið á um flutning starfsmanna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lög um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, og lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, verði bætt ákvæðum til bráðabirgða þar sem kveðið er á um réttarstöðu starfsmanna þegar Barnaverndarstofa og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verða lagðar niður.
    Ákvæðin fela í sér að störf hjá Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verða flutt til hinna nýju stofnana með því að þær yfirtaki gildandi ráðningarsamninga við þá starfsmenn sem eru í starfi við gildistöku laga nr. 87/2021 og laga nr. 88/2021 hinn 1. janúar 2022.
    Rétt er að fram komi að engin skipun er í gildi fyrir embætti forstjóra Barnaverndarstofu og framkvæmdastjóra Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar. Tímabundnar setningar í þessi embætti renna út þann 31. desember 2021.

4. Samráð.
    Frumvarpið hefur áhrif á þá starfsmenn Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar sem verða í starfi um næstu áramót. Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við stofnanirnar. Frumvarpið var undirbúið á skömmum tíma og gafst því ekki tækifæri til að fram færi hefðbundið opið samráð um frumvarpið.

5. Mat á áhrifum.
    Eins og fyrr greinir hefur frumvarpið fyrst og fremst áhrif á þá starfsmenn Barnaverndarstofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar sem verða í starfi um næstu áramót.
    Frumvarp þetta hefur ekki í för með sér frekari fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð en þegar hefur verið gerð grein fyrir í greinargerð frumvarpa þeirra er urðu að lögum um Barna- og fjölskyldustofu, nr. 87/2021, og lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021. Eins og þar kemur fram verður meginhluti fjárheimilda Barnaverndarstofu fluttur til nýrrar stofnunar, Barna- og fjölskyldustofu. Jafnframt er gert ráð fyrir 15–20 viðbótarstöðugildum vegna nýrra verkefna. Áætlaður kostnaður vegna viðbótarstöðugilda hjá Barna- og fjölskyldustofu er varanlegur 250 millj. kr. á ári. Til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála flytjast fjárheimildir sem samsvara þremur stöðugildum frá Barnaverndarstofu ásamt fjárheimildum frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar. Fjögur stöðugildi bætast við starfsemina vegna nýrra verkefna. Varanlegur kostnaðarauki ríkissjóðs vegna hinna nýju stöðugilda hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er áætlaður um 48 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir kostnaðarauka ríkisins í fjármálaáætlun 2022–2026 og frumvarpi til fjárlaga 2022.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í ákvæðinu felst að þeir starfsmenn Barnaverndarstofu sem eru í starfi við gildistöku laganna verða starfsmenn hjá Barna- og fjölskyldustofu með sömu ráðningarkjörum. Leitast verður við að bjóða starfsmönnum að sinna svipuðum verkefnum og þeir hafa áður sinnt en jafnframt verður þó að hafa hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem fylgja breyttum verkefnum stofnunarinnar. Um rétt starfsmanna til starfa hjá Barna- og fjölskyldustofu fer eftir ákvæðum laga nr. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 70/1996. Þá er áréttað að unnt er að ráðstafa störfum hjá Barna- og fjölskyldustofu til starfsmanna Barnaverndarstofu án þess að störfin séu auglýst laus til umsókna.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu felst að starfsmenn ráðuneytisstofnunarinnar Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, aðrir en þeir sem fara með verkefni samkvæmt lögum nr. um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, 88/2011, sem eru í starfi við gildistöku laganna verða starfsmenn hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála með sömu ráðningarkjörum. Leitast verður við að bjóða starfsmönnum að sinna svipuðum verkefnum og þeir hafa áður sinnt en jafnframt verður þó að hafa hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem fylgja breyttum verkefnum stofnunarinnar. Um rétt starfsmanna til starfa hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þá er áréttað að unnt er að ráðstafa störfum hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála til starfsmanna Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar án þess að störfin séu auglýst laus til umsókna.
    Ákvæðið tekur samkvæmt orðanna hljóðan ekki til starfsmanna sem fara með verkefni samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Ástæða þess að þetta er sérstaklega áréttað er sú að innan Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, sem er eins og að framan greinir ráðuneytisstofnun félagsmálaráðuneytisins, sbr. 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, starfa bæði réttindagæslumenn fatlaðs fólks og starfsmenn sérfræðiteymis til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk ræður ráðherra svæðisbundna réttindagæslumenn og skipar í sérfræðiteymið samkvæmt 14. gr. sömu laga. Störf réttindagæslumanna fatlaðs fólks og sérfræðiteymisins verða því áfram innan félagsmálaráðuneytisins og verða flutt til í skipuriti ráðuneytisins áður en ráðuneytisstofnunin verður lögð niður.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.